Mynd: Bára Huld Beck Kristján Þór Júlíusson á blaðamannafundi vegna veiðigjalda
Mynd: Bára Huld Beck

Enn beðið eftir tillögum um breytingar á kvótaþaki

Skilgreining á tengdum aðilum í sjávarútvegi eru í engu samræmi við slíkar skilgreiningar í fjármálageiranum, sem skerpt var verulega á í kjölfar bankahrunsins. Þær tillögur sem kynntar voru fyrir helgi, um breytta skilgreiningu á tengdum aðilum í sjávarútvegi, eru ekki þær tillögur sem búist var að yrði flýtt vinnu við í kjölfar Samherjamálsins.

Verk­efna­stjórn um bætt eft­ir­lit með fisk­veiði­auð­lind­inni tók það sér­stak­lega fram í bréfi sem hún sendi Krist­jáni Þór Júl­í­us­syni, sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra, þann 30. des­em­ber síð­ast­lið­inn að hún sé enn ekki búin að taka afstöðu til mögu­lega breyt­inga á kvóta­þaki né kröfu um að hlut­fall eignar í sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækjum til að þau telj­ist tengd verði lækk­að. „Verk­efna­stjórnin áformar að taka þessi atriði til skoð­unar og fjalla um í loka­skýrslu sinn­i.“ Kjarn­inn fékk bréfið afhent hjá sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráðu­neyt­inu.

Loka­skýrslan á að liggja fyrir í mars. Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans eru deilur innan verk­efna­stjórn­ar­innar um hvort lækka eigi kvóta­þakið úr tólf pró­sentum í lægri pró­sentu og lítið hefur verið rætt á vett­vangi hans um hvert hlut­fall meiri­hluta­eignar í tengdum aðil­um, sem í dag er 50 pró­sent, ætti að ver­a. 

Til­lög­urnar sem kynntar voru í lok síð­ustu viku eru því ekki þær til­lögur sem margir innan sjáv­a­út­vegs­ins og stjórn­mál­anna töldu að rík­is­stjórnin hefði boðað í kjöl­far Sam­herj­a­máls­ins. 

Boð­uðu til­lögur um breytt kvóta­þak og tengda aðila

Þann 19. nóv­­em­ber 2019 fund­aði rík­­is­­stjórn Íslands um „að­­gerðir sínar til að auka traust á íslensku atvinn­u­líf­i“. Það var gert til að bregð­ast við sívax­andi gagn­rýni vegna við­bragðs­leysis við opin­berum Kveiks, Stund­ar­inn­ar, Wiki­leaks og Al Jazeera um mál­efni Sam­herja, sem sýndu að fyr­ir­tækið liggi undur rök­studdum grun um að hafa greitt mútur til að fá aðgang að kvóta í Namib­íu. Í opin­ber­un­inni voru líka settar fram grun­semdir um stór­fellt pen­inga­þvætti og skatta­snið­göngu í starf­semi þessa stærsta sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækis lands­ins.

Þorri þeirra aðgerða sem rík­is­stjórnin boð­aði hafði áður komið fram og voru því ekki nýjar af nál­inn­i. 

Dag­inn eft­ir, 20. nóv­­em­ber, skrif­aði Krist­ján Þór Júl­í­us­­son, sjá­v­­­ar­út­­­vegs- og land­­bún­­að­­ar­ráð­herra, grein í Morg­un­­blað­ið. Þar sagði að í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­un­ar, sem birt var í jan­úar 2019, hafi komið fram að Fiski­stofa kanni ekki með nægj­an­lega tryggum hætti hvort yfir­ráð tengdra aðila í sjáv­ar­út­vegi yfir afla­hlut­deildum sé í sam­ræmi við það hámark sem er skil­greint í lögum um stjórn fisk­veiða. Því þyrfti að end­ur­skoða 13. og 14. greinar lag­anna svo reglur um hámarks­afla­hlut­deild verði skýr­ari. Í þeirri fyrr­nefndu er kveðið á um að tengdir aðilar megi ekki halda á meira en 12 pró­sent af úthlut­uðum fisk­veiði­kvóta og farið yfir það hvaða aðilar telj­ist tengd­ir. Krist­ján Þór sagði að hann myndi fela verk­efn­is­stjórn, sem hann hafði skipað í mars 2019 og átti að koma með til­lögur um bætt eft­ir­lit með fisk­veiði­auð­lind­inni, að hún myndi skila til­lögum „þar að lút­andi fyrir 1. jan­úar nk. Þá er að vænta til­lagna frá nefnd­inni á næstu vikum um bætt eft­ir­lit með fisk­veiðum og með vigtun sjáv­ar­afla.“

Eng­inn vafi var, að mati við­mæl­enda Kjarn­ans úr sjáv­ar­út­vegi og stjórn­mál­um, að verið væri að boða til­lögur um breyt­ingar á kvóta­þaki, á skil­grein­ingu á því hvaða aðilar telj­ist tengdir og hvernig eft­ir­liti með þessum þátt­um, sem hafði verið ekk­ert, yrði háttað í fram­tíð­inni. Ráðu­neytið hafnar því hins vegar og segir að til­lög­urnar séu nákvæm­lega þær sem boð­aðar hafi ver­ið. 

End­ur­skoðun ákvæðis um hámarks­afla­hlut­deild

Kjarn­inn spurð­ist fyrir um málið þegar tíma­frest­ur­inn sem Krist­ján Þór og rík­is­stjórnin hafði sett sér var lið­in. Í svörum sem bár­ust í síð­ustu viku sagði: „Starfs­hóp­ur­inn hefur skilað til­lögum um end­ur­skoðun ákvæða laga um stjórn fisk­veiða um hámarks­afla­hlut­deild ­sem kynnt verður á næstu dög­um. Hóp­ur­inn hefur ekki skilað heild­ar­end­ur­skoð­un­inni, þar sem óskað var eftir því að hámarks­afla­hlut­deildin og tengda aðila yrði sett í for­gang.“

Dag­inn eftir að þessi svör bár­ust var send út frétta­til­kynn­ing frá sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráðu­neyt­inu um til­lög­urn­ar. Í henni var greint frá fimm til­lögum um breytta skil­grein­ingu á tengdum aðil­um. Í þeim var hvorki fjallað um breyt­ingar á kvóta­þaki né breyt­ingar á því hvað aðilar þyrftu að eiga í hvorum öðrum til að telj­ast tengd­ir, en sam­kvæmt gild­andi lögum eru þau mörk 50 pró­sent. 

Því voru til­lög­urnar hvorki í sam­ræmi við það sem Krist­ján Þór boð­aði í grein sinni í Morg­un­blað­inu 20. nóv­em­ber né það sem ráðu­neyti hans hafði sagt að til­lög­urnar snér­ust um í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans, sem barst 9. jan­ú­ar. 

Krist­ján Þór sagði í stöðu­upp­færslu á Face­book í kjöl­far þess að til­lög­urnar voru birtar að rekja mætti til­raun­ir ­starfs­manna Fiski­stofu aftur um rúman ára­tug til að skil­greina hug­tökin „tengdir aðil­ar“ og „raun­veru­leg yfir­ráð“ í lögum um stjórn fisk­veiða. „Það sjá allir að slík staða er óvið­un­andi. Þær til­lögur sem nú liggja fyrir eru til þess fallnar að skýra það hvað felst í þessum hug­tökum en jafn­framt stuðla að skil­virkara eft­ir­liti með reglum um hámarks­afla­hlut­deild. Það er um leið mik­ill styrkur í því að starfs­hóp­ur­inn sem ég skip­aði í mars sl. nái sam­stöðu um þetta flókna mál og gefur vonir um að þessar til­lögur geti orðið grunnur að því að færa það til betri veg­ar.“

Í verk­efna­stjórn­inni sitja Sig­­urður Þórð­­ar­­son, sem er for­­mað­­ur, Bryn­hildur Bene­dikts­dótt­ir, sér­­fræð­ingur á skrif­­stofu sjá­v­­­ar­út­­­vegs- og fisk­eldis í atvinn­u­­vega- og nýsköp­un­­ar­ráðu­­neyt­inu, Elliði Vign­is­­son, sveit­­ar­­stjóri Í Ölf­usi og fyrr­ver­andi bæj­ar­stjóri Sjálf­stæð­is­flokks­ins í Vest­manna­eyj­um, Hulda Árna­dótt­ir, lög­­­maður og Oddný G. Harð­­ar­dótt­ir, alþing­is­­mað­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Á meðal þeirra sem sitja í verkefnastjórninni er Elliði Vignisson, sveitarstjóri í Ölfusi.
mynd: Skjáskot

Til­lögur verk­efna­stjórn­ar­innar eru dag­settar 30. des­em­ber 2019 og því átti það að liggja alveg kýr­skýrt fyrir hvað í þeim fól­st, og hvað ekki. Í bréfi sem for­maður henn­ar, Sig­urður Þórð­ar­son, sendi Krist­jáni Þór vegna til­lögu­skil­anna segir enda: „Verk­efna­stjórnin vill taka fram, að í til­lögum sem hér fylgja með er hvorki tekin afstaða til reglna um hámarks­afla­hlut­deild né kröfu um hlut­fall meiri­hluta­eignar í tengdum aðil­um. Verk­efna­stjórnin áformar að taka þessi atriði til skoð­unar og fjalla um í loka­skýrslu sinn­i.“

Deilur innan hóps­ins um kvóta­þak

Það er þó ekki þannig að full sam­staða sé innan verk­efna­stjórn­ar­innar um öll þau atriði sem henni hefur verið falið að fara yfir. Heim­ildir Kjarn­ans herma að lítið sem ekk­ert hafi verið form­lega rætt um hvert hlut­fall meiri­hluta­eignar í tengdum aðilum eigi að vera vett­vangi verk­efna­stjórn­ar­innar til þessa, en hún hefur starfað frá því í mars 2019. Þó er til­tekið í til­lögu­skjal­inu að 50 pró­sent markið sé „mjög hátt“ og bent á að á fjár­mála­mark­aði sé það til að mynda 25 pró­sent og hafi verið að lækk­a. 

Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans eru deilur á milli þeirra sem sitja í stjórn­inni um hvort lækka eigi kvóta­þakið og nær öruggt að ekki muni nást full sam­staða á meðal þeirra sem í henni sitja um nið­ur­stöðu í þeim mál­um. Stefnt er að því að þær til­lög­ur, þ.e. til­lög­urnar sem Krist­ján Þór boð­aði að yrðu settar í flýti­með­ferð, muni liggja fyrir í mars næst­kom­and­i. 

Þess í stað snér­ust til­lög­urnar sem skilað var inn um skil­grein­ingar á tengdum aðil­um. Á meðal þess sem skerpt verður á, verði til­lög­urnar inn­leidd­ar, er að hjón, sam­búð­ar­fólk og börn þeirra verði skil­greind sem tengdir aðil­ar. Þannig hefur það ekki verið hingað til. Athygli vakti að sú til­laga náði ekki yfir systk­in, en dæmi eru um mikil kross­eign­ar­tengsl milli slíkra í stórum íslenskum sjáv­ar­ú­vegs­fyr­ir­tækj­um, t.d. hjá Brim og tengdum félög­um. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans var ákveðið að styðj­ast við for­dæmi úr lögum um fjár­mála­fyr­ir­tæki, en þeim lögum var breytt til að skerpa veru­lega á skil­grein­ingu um hvað teld­ust tengdir aðilar sum­arið 2010, fyrir rúmum ára­tug síð­an. Á þeim tíma þótti ekki nauð­syn­legt að ráð­ast í sam­bæri­legar breyt­ingar á lögum um stjórn fisk­veiða. 

Skerpt á stjórn­un­ar­legum tengslum

Önnur breyt­ing sem verður nú í fyrsta sinn inn­leidd í lagaum­hverfi sjáv­ar­út­vegs er að ákveðin „stjórn­un­ar­leg tengsl milli fyr­ir­tækja leiði til þess að fyr­ir­tækin eru talin tengd nema sýnt sé fram á hið gagn­stæða“. Í skýr­ingum verk­efna­stjórn­ar­innar vegna þessa segir að þarna sé átt við tengsl milli lyk­il­starfs­manna, stjórn­ar­manna og fram­kvæmda­stjóra sem talin eru gefa vís­bend­ingu um tengsl milli aðila. „Hér er þó farin sú leið að slá því ekki föstu að slík tengsl leiði til þess að félög telj­ist tengdir aðilar í skiln­ingi lag­anna, heldur lagt til grund­vallar að slík tengsl geri það að verkum að lík­legra sé en ella að tengsl séu á milli félag­anna nema sýnt sé fram á hið gagn­stæða.“ 

Þarna er verið að bregð­ast við raun­veru­legum aðstæð­um. Þekktasta og umdeildasta dæmið teng­ist Sam­herja og Síld­ar­vinnsl­unni. Eig­endur þess fyrr­nefnda eiga, beint og óbeint, 49,9 pró­sent í Síld­ar­vinnsl­unni og eru þar með eins lítið undir meiri­hluta­hlut­fall­inu og hægt er að vera. Þor­steinn Már Bald­vins­son var auk þess for­stjóri Sam­herja og stjórn­ar­for­maður Síld­ar­vinnsl­unnar árum sam­an, þangað til að hann sagði af sér báðum störf­um, að minnsta kosti tíma­bund­ið, eftir að Sam­herj­a­málið kom upp í fyrra­haust. For­svars­menn Sam­herja og Síld­ar­vinnsl­unnar hafa hins vegar ætið svarið af sér að um tengda aðila væri að ræða. 

Fiski­stofa fram­kvæmdi meira að segja frum­kvæð­is­rann­sókn á Sam­herja, Síld­ar­vinnsl­unni og Gjög­ur, sem er næst stærsti eig­andi Síld­ar­vinnsl­unnar með 34,2 pró­sent eign­ar­hlut, á árunum 2009 og 2010. Gjög­ur, sem er meðal ann­ars í eigu Björg­ólfs Jóhanns­son­ar, sitj­andi for­stjóra Sam­herja, og systk­ina hans, heldur einnig á 1,05 pró­sent alls kvóta um þessar mund­ir. Björgólfur er auk þess í stjórn Gjög­ur­s. 

Sú rann­sókn skil­aði þeirri nið­ur­stöðu að engin rök væru fyrir því að Sam­herji og Gjögur færu með raun­veru­leg yfir­ráð yfir Síld­ar­vinnsl­unn­i. 

Í frétt sem birt­ist á vef Síld­ar­vinnsl­unnar árið 2013, vegna sam­bæri­legrar umræðu, sagði að um vill­andi full­yrð­ingar um tengsl Síld­ar­vinnsl­unnar og Sam­herja væri að ræða „þar sem við­kom­andi aðilar hafa vís­vit­andi reynt að gera eign­ar­hald á Síld­ar­vinnsl­unni hf. tor­tryggi­leg­t.“

Kjarn­inn greindi frá því í frétta­skýr­ingu 20. nóv­em­ber síð­ast­lið­inn að þegar Sam­herji kynnti sam­stæðu sína erlendis þá var Síld­ar­vinnslan kynnt sem upp­sjáv­ar­hluti hennar og myndir birtar af starf­semi fyr­ir­tæk­is­ins. Þetta sýndu glæru­kynn­ingar sem voru hluti af þeim gögnum sem Wiki­leaks birti vegna Sam­herj­a­máls­ins. 

Á Íslandi sögðu stjórn­endur fyr­ir­tækj­anna því að þau væru ótengd. Erlendis voru þau kynnt sem hluti af sömu sam­stæð­unn­i. 

Eru saman langt yfir kvóta­þaki

Ástæðan er sú að ef Sam­herji og Síld­ar­vinnslan væru flokk­aðir sem tengdir aðilar væru þeir komnir langt yfir það 12 pró­sent kvóta­há­mark sem eitt íslenskt sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki, eða sam­stæða, má halda á. 

Í sept­em­ber 2019 var Sam­herji með 7,1 pró­­sent kvót­ans. Útgerð­ar­fé­lag Akur­eyr­ar, sem er í 100 pró­sent eigu Sam­herja, heldur svo á 1,3 pró­sent kvót­ans og Sæból fjár­fest­inga­fé­lag heldur á 0,64 pró­sent hans. Síld­­ar­vinnslan heldur á 5,3 pró­­sent allra afla­heim­ilda og sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tækið Berg­­ur-Hug­inn er síðan með 2,3 pró­­sent kvót­ans en það er að öllu leyti í eigu Síld­­ar­vinnsl­unn­­ar. 

Sam­an­lagt er afla­hlut­­deild þess­­ara aðila er því rúm­lega 16,6 pró­­sent, eða langt yfir lög­bundnu hámarki. Sama gæti gilt um aðra hópa sem eru ráð­andi í íslenskum sjáv­ar­út­vegi. Ef skil­grein­ingum á tengdum aðil­um, lækkun á kröfu um meiri­hluta­eign til að telj­ast tengdir aðilar og breyttar reglur um hámarks­kvóta sem hver tengdur hópar má halda á þá gæti það meðal ann­ars haft áhrif á Guð­mund Krist­jáns­son, stærsta eig­anda Brim, og aðila tengda hon­um, Kaup­fé­lag Skag­firð­inga og Vísi/Þor­björn í Grinda­vík. Það ræðst hins vegar á því hversu miklar breyt­ing­arnar yrð­u. 

Krist­ján Þór Júl­í­us­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra, er fyrr­ver­andi stjórn­ar­for­maður Sam­herja og náin vinur Þor­steins Más. Hann hefur sagt sig frá ákveðnum ákvörð­unum sem snúa að Sam­herja vegna mögu­legs van­hæfis en ekk­ert bendir til þess, enn sem komið er, að hann ætli að eft­ir­láta öðrum að taka ákvarð­anir um mögu­lega breyt­ingu á kvóta­þaki eða skil­grein­ingu á tengdum aðil­um. Þvert á móti kynnti hann skil­grein­ing­ar­til­lög­urnar fimm, sem verk­efna­stjórn­in skil­aði inn fyrir ára­mót, fyrir rík­is­stjórn­ar­fund á föstu­dag. Í til­kynn­ingu var haft eftir honum að hann von­að­ist til þess að til­lög­urnar myndu „stuðla að skil­­virkara eft­ir­liti með reglum um hámarks­­afla­hlut­­deild.“

Í til­lög­unum sem kynntar voru á föstu­dag var einnig lagt til að skil­­greint verði hvað felst í raun­veru­­legum yfir­­ráðum og að aðilar sem ráða meira en sex pró­­sent af afla­hlut­­deild eða 2,5 pró­­sent af krókafla­hlut­­deild skulu til­­kynna til Fiski­­stofu áætl­­aðan sam­runa, eða kaup í félagi sem ræður yfir hlut­­deild eða kaup á hlut­­deild og koma kaupin ekki til fram­­kvæmda nema sam­­þykki Fiski­­stofu liggi fyr­ir. Auk þess mun Fiski­stofa fá auknar heim­ildir til að afla gagna ef til­lög­urnar verða að lög­um.

*Frétta­skýr­ing­unni var breytt lít­il­lega klukkan 13:30 eftir athuga­semd frá sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráðu­neyt­inu við þá fram­setn­ingu að aðrar til­lögur en boð­aðar hefðu verið hefðu verið lagðar fram. Tekið var til­lit til afstöðu ráðu­neyt­is­ins og skerpt á orða­lagi, þótt að við­mæl­endur Kjarn­ans hafi allir haft aðrar vænt­ingar til inni­halds til­lagn­anna.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.
Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar