Allir formenn stjórnarflokkanna tilbúnir að hefja sölu Íslandsbanka
Leiðtogar allra þeirra flokka sem standa að sitjandi ríkisstjórn hafa lýst yfir áhuga á að hefja söluferli á öðrum ríkisbankanum í nánustu framtíð. Ferlið gæti orðið flókið þar sem æskilegir kaupendur eru ekki sýnilegir og almenningur virðist ekki bera traust til þess að færa eignarhaldið úr opinberum höndum. Á meðal þess sem hann óttast er græðgi og spilling.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, opnaði á að í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku að það ætti að fara að hefja söluferli á fjórðungshlut í Íslandsbanka. Hann bætti um betur í aukablaði Sjálfstæðisflokksins, sem ber nafnið „Á réttri leið“ og var dreift í aldreifingu með Morgunblaðinu á fimmtudag, Þar sagði Bjarni að sala á 25 til 50 prósent hlut í Íslandsbanka á næstu árum myndi opna á stór tækifæri til fjárfestinga. „Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um gjaldtöku til að fjármagna samgöngubætur og það er skiljanlegt, vegna þess að við þurfum að hraða framkvæmdum, en nærtækari leið er að losa um þessa verðmætu eign og afmarka gjaldtöku í framtíðinni við stærri framkvæmdir á borð við Sundabraut, Hvalfjarðargöng og aðra gangagerð. Núna er góður tími til að huga að átaki í þessum efnum, efnahagslífið er tilbúið fyrir opinberar framkvæmdir.“
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, sagði í samtali við Kjarnann á fimmtudag að það væri skynsamlegt að ráðast í sölu á hlut í Íslandsbanka ef það er tengt við það að nota ávinninginn í innviðafjárfestingar. Þannig væri hægt að losa um eignir ríkisins og nýta það í þörf verkefni.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var svo síðastur á vagninn af formönnum ríkisstjórnarflokkanna þegar hann sagðist í samtali við helgarblað Fréttablaðsins að hann teldi skynsamlegt að setja Íslandsbanka í söluferli. Hann setti söluna í sama samhengi og hinir formennirnir, að það væri hægt að nota fjármunina sem bundnir væru í eigninni í innviðauppbyggingu.
Reynt að selja til norsks banka en ekki tekist
Söluferlið er búið að vera lengi í undirbúningi, og í raun hefur Íslandsbanki verið lengi til sölu ef einhver hefur áhuga á að kaupa hann, t.d. alþjóðlegur banki. Slíkur áhugi hefur ekki látið á sér kræla jafnvel þótt að leitað hafi verið beinlínis til erlendra banka, til dæmis norska bankans DNB, sem er í 34 prósent eigu norska ríkisins.
Hann hefur þótt vera besti kaupandinn að Íslandsbanka, meðal annars vegna þess að hann hefur þegar sótt nokkuð inn á íslenskan markað fyrir fyrirtækjalán. Þ.e. DNB hefur tekið til sín í viðskipti stór íslensk fyrirtæki, með alþjóðlega starfsemi, án þess að reka eiginlega starfsemi hérlendis. Viðmælendur Kjarnans innan fjármálakerfisins hafa kallað DNB „fjórða bankann á Nordica“, með vísun í að fundirnir sem haldnir séu með væntanlegum viðskiptavinum séu oftar en ekki á Nordica-hótelinu við Suðurlandsbraut. Á meðal fyrirtækja sem hafa fært fjármögnun sína að einhverju leyti til DNB er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, Samherji. Ástæðurnar eru fyrst og síðast tvær: norski bankinn býður betri vexti og sveigjanlegri fjármögnun.
Íslandsbanki og DNB gerðu auk þess með sér samning um eignastýringu 1. desember 2010 og því hefur verið nokkur tengsl milli bankanna um nokkurra ára skeið. Sérstaklega voru þessar viðræður í hávegum í byrjun ársins 2012 en slitastjórn Glitnis hafði þá fengið UBS bankann svissneska til að kanna möguleika á sölu á eignarhluta sínum í Íslandsbanka, sem þá var 95 prósent hlutur.
Í nokkur skipti eftir hrun fjármálakerfisins, og endurreisn þess í kjölfarið, hafa átt sér stað samtöl við fulltrúa bankans, bæði innan slitastjórnar Glitnis og íslenska stjórnkerfisins, þar sem rætt hefur verið um þennan möguleika.
Það liggur hins vegar fyrir nú að ekki er áhugi í Noregi á að kaupa íslenskan banka. Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, sagði það í minnisblaðið sem hú skilaði til starfshópsins sem vann hvítbók um framtíðarsýn fyrir íslenska fjármálakerfið, að sala til erlends viðskiptabanka væri ólíkleg og að sú skoðun hafi verið staðfest að mestu leyti í reglulegum samskiptum við alþjóðlega fjárfestingarbanka.
Fá ekki fullt verð fyrir
Því er leiðin sem stefnt er að við sölu á Íslandsbanka sú að skrá bankann á markað og selja þannig, í fyrsta kasti, um fjórðungshlut í honum. Eigið fé Íslandsbanka var 178 milljarðar króna í lok september síðastliðins. Ljóst er að ekki mun fást króna fyrir krónu af eigin fé ef bankinn verður seldur nú.
Ef miðað er við stuðst er við það gengi sem var í skráningu Arion banka í sumarið 2018 (0,67 krónur á hverja krónu af eigin fé) þá ætti virði fjórðungshlutar í Íslandsbanka að vera um 30 milljarðar króna. Ef hluturinn sem yrði seldur á kjörtímabilinu yrði 50 prósent myndi slíkur kosta um 60 milljarða króna.
Það þarf því að finna einhverja til að kaupa þennan hlut í banka sem er að uppistöðu notast við íslenska krónu í starfsemi sinni og er með íslenska viðskiptavini.
Umsvifamestu þátttakendurnir á íslenskum hlutabréfamarkaði hafa verið íslenskir lífeyrissjóðir, sem halda beint og óbeint á um helming allra hlutabréfa í skráðum félögum í Kauphöll Íslands. Þeir geta það sannarlega, og hafa þegar fjárfest í viðskiptabönkum. Þannig eiga þeir sex lífeyrissjóðir sem eru á meðal 20 stærstu hluthafa Arion banka, samanlagt um 22 prósent í þeim banka. Markaðsvirði þess hluta er um 33 milljarðar króna.
Sló Bjarna illa að lífeyrissjóðir keyptu banka
Viðmælendur Kjarnans innan lífeyrissjóðskerfisins segja það verði að teljast mjög ólíklegt að stærstu sjóðirnir fari að gerast stórir eigendur í fleiri viðskiptabönkum. Fókus þeirra er meira á fjárfestingar utan landsteinana þessi misserin og á því að dreifa áhættu í eignasafninu, ekki þjappa henni saman.
Á umræðufundi um eignarhald á atvinnufyrirtækjum, hlutverki lífeyrissjóða og áhrif á samkeppni, sem haldinn var í maí 2016, var einn þeirra sem tjáði sig um kaup lífeyrissjóða á bönkum Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Lífeyrissjóðirnir væru með nálægt helming af skráðum hlutabréfum og ættu svo að „kaupa fjármálafyrirtæki sem eru að þjónusta fyrirtækin sem þeir eru aðaleigendur að[...]Þetta slær mig mjög illa og auðvitað er ástæða til að staldra við.“
Hinn stóri leikandinn á íslenskum hlutabréfamarkaði á undanförnum árum hafa verið erlendir skammtímasjóðir sem margir voru á meðal kröfuhafa föllnu bankanna. Þeir hafa hins vegar verið að losa um hlutabréfaeign sína og leysa út ágóðann af því að fjárfesta í Íslandi eftirhrunsáranna.
Fáir íslenskir einkafjárfestar, utan við eigendur stærstu útgerða landsins, búa yfir nægilega mikilli fjárhagslegri getu til að kaupa stóran hluta þess sem íslenska ríkið áformar að selja í Íslandsbanka og almenningur hefur ekki sýnt neina tilburði til að ætla að treysta skráðum markaði fyrir sparnaði sínum aftur, eftir að bankahrunið kostaði hluthafa í skráðum félögum um eitt þúsund milljarða króna tap. Þar af töpuðu um 47 þúsund einstaklingar um 130 milljörðum króna á einni viku þegar hlutabréf þeirra í bönkunum urðu verðlaus.
Því liggur ekki fyrir áætlun um hverjum eigi að selja Íslandsbanka. Forsætisráðherra sagði við Kjarnann á fimmtudag að hún legði áherslu á að söluferlið verði að vera opið og gagnsætt. Það sé ekki ríkisins að ákveða hverjir kaupi ef til dæmis 25 prósent hlutur í Íslandsbanka verður seldur í gegnum skráningu á hlutabréfamarkað. „Það skiptir máli að það sé jafnræði á milli þeirra sem hafa áhuga.“
Í samræmi við sáttmála
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjallað um eignarhald ríkisins á bönkum. Þar segir að fjármálakerfið eigi að vera traust og þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt. „Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því.“
Þá er heimild til staðar í fjárlögum, og hefur verið í nokkur ár, til að ráðast í sölu á öllum hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þar er einnig heimild til að selja hluta af eign ríkisins í Landsbankanum.
Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhlutann, hefur unnið að undirbúningi að sölunni. Henni er stýrt af forstjóranum Jóni Gunnari Jónssyni og stjórnarformaður hennar er Lárus Blöndal lögmaður, sem skipaður var í þá stöðu af Bjarna Benediktssyni.
Það verður síðan hlutverk sérstakrar ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins að móta pólitíska stefnu um hvernig haldið verður á sölu á hlut í Íslandsbanka. Henni er ætlað að vera vettvangur samráðs og samræmingar við endurskoðun fjármálakerfisins í samræmi við þá áherslu í sáttmála ríkisstjórnar að breið sátt náist um endurskipulagningu fjármálakerfisins á Íslandi.
Í þeirri nefnd sitja þrír ráðherrar. Bjarni og Katrín, formenn tveggja stjórnarflokkanna, eiga þar sæti, en það á Sigurður Ingi ekki. Þess í stað situr Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, í nefndinni. Hún er með mikla reynslu af því að starfa við efnahagsmál, enda var hún í háttsettum stöðum í Seðlabanka Íslands meira og minna á árunum 2001 til 2016 auk þess sem hún var ráðgjafi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington 2010 til 2013.
Hún hefur sagt opinberlega, síðast í september 2019, að það þurfi að ríkja pólitísk sátt um að fara af stað með bankasölu og að forsenda hennar sé að eigendastefna ríkisins sé uppfærð þannig að tryggt verði að hinn ríkisbankinn, Landsbankinn, verði áfram í opinberri eigu.
Muna síðustu einkavæðingu
Það gæti orðið erfitt að mynda þverpólitíska sátt um að selja Íslandsbanka með því að skrá hann á markað og ólíklegt að áformin muni hljóta mikinn stuðning innan stjórnarandstöðunnar, jafnvel hjá flokkum eins og Viðreisn sem þó eru fylgjandi því að losað verði um opinbert eignarhald á fjármálakerfinu.
Þar skiptir máli að fyrir 17 árum síðan var ráðist í að einkavæða eignarhlut ríkisins í tveimur bönkum, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Sú vegferð endaði ekki vel þar sem báðir bankarnir, og sá þriðji sem hafði áður líka verið í opinberri eigu, Íslandsbanki, féllu á nokkrum dögum í október 2008 eftir að hafa vaxið í að vera um tólf sinnum stærri en íslensk þjóðarframleiðsla á örfáum árum. Það fall hafði gríðarlega samfélagslegar afleiðingar fyrir Ísland. Ekki bætti úr skák þegar upplýst var um það að stórtækum blekkingum var beitt við kaup á Búnaðarbankanum og að kaupendahóparnir sem keyptu bankanna tvo fengu lán hjá hinum bankanum til að borga hluta kaupverðsins sem greitt var fyrir.
Lítill almennur asi
Landsmenn virðast enn vera mjög varkárir í skoðunum sínum þegar kemur að eignarhaldi á bankakerfinu. í könnum sem gerð var fyrir Hvítbókarhópinn, sem skilaði skýrslu í desember 2018, kom fram að 61,2 prósent landsmanna væru jákvæðir gagnvart því að íslenska ríkið sé eigandi viðskiptabanka. Fjórðungur þjóðarinnar, 25,2 prósent, hafði á þeim tíma enga fastmótaða skoðun á slíku eignarhaldi og einungis 13,5 prósent Íslendinga voru. neikvæðir gagnvart slíku eignarhaldi.
Þegar þeir sem eru jákvæðir gagnvart því að ríkið sé eigandi viðskiptabanka voru spurðir af hverju sögðu 24,4 prósent þeirra, eða tæplega fjórðungur, að ríkið væri betri eigandi en einkaaðili. Fimmtungur sagði að helsta ástæðan væri öryggi og/eða traust og 18,3 prósent vegna þess að arðurinn færi þá til almennings. Þá sögðu 15,7 prósent að helsta ástæða þess að þeir væru jákvæðir gagnvart því að ríkið sé eigandi viðskiptabanka vera þá að það þýddi að minni líkur væru á því að hlutirnir myndu enda illa og að spilling og græðgi yrði minni.
Traust almennings til Alþingis, þeirrar stofnunar sem veitir heimild til að selja ríkisbankana, með samþykkt fjárlaga, er heldur ekki mikið. Síðast þegar það var mælt var það 18 prósent, eða aðeins minna en til bankakerfisins, sem mældist með 20 prósent traust.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði