Mynd: Birgir Þór Harðarson

Allir formenn stjórnarflokkanna tilbúnir að hefja sölu Íslandsbanka

Leiðtogar allra þeirra flokka sem standa að sitjandi ríkisstjórn hafa lýst yfir áhuga á að hefja söluferli á öðrum ríkisbankanum í nánustu framtíð. Ferlið gæti orðið flókið þar sem æskilegir kaupendur eru ekki sýnilegir og almenningur virðist ekki bera traust til þess að færa eignarhaldið úr opinberum höndum. Á meðal þess sem hann óttast er græðgi og spilling.

Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins og fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, opn­aði á að í við­tali við Morg­un­blaðið í síð­ustu viku að það ætti að fara að hefja sölu­ferli á fjórð­ungs­hlut í Íslands­banka. Hann bætti um betur í auka­­blaði Sjálf­­stæð­is­­flokks­ins, sem ber nafnið „Á réttri leið“ og var dreift í aldreif­ingu með Morg­un­­blað­inu á fimmtu­dag, Þar sagði Bjarni að sala á 25 til 50 pró­­sent hlut í Íslands­­­banka á næstu árum myndi opna á stór tæki­­færi til fjár­­­fest­inga. „Á und­an­­förnum árum hefur mikið verið rætt um gjald­­töku til að fjár­­­magna sam­­göng­u­bætur og það er skilj­an­­legt, vegna þess að við þurfum að hraða fram­­kvæmd­um, en nær­tæk­­ari leið er að losa um þessa verð­­mætu eign og afmarka gjald­­töku í fram­­tíð­inni við stærri fram­­kvæmdir á borð við Sunda­braut, Hval­fjarð­­ar­­göng og aðra ganga­­gerð. Núna er góður tími til að huga að átaki í þessum efn­um, efna­hags­lífið er til­­­búið fyrir opin­berar fram­­kvæmd­­ir.“

Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­sæt­is­ráð­herra og for­maður Vinstri grænna, sagði í sam­tali við Kjarn­ann á fimmtu­dag að það væri skyn­­sam­­legt að ráð­­ast í sölu á hlut í Íslands­­­banka ef það er tengt við það að nota ávinn­ing­inn í inn­­viða­fjár­­­fest­ing­­ar. Þannig væri hægt að losa um eignir rík­­is­ins og nýta það í þörf verk­efn­i. 

Sig­urður Ingi Jóhanns­son, for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra, var svo síð­astur á vagn­inn af for­mönnum rík­is­stjórn­ar­flokk­anna þegar hann sagð­ist í sam­tali við helg­ar­blað Frétta­blaðs­ins að hann teldi skyn­sam­legt að setja Íslands­banka í sölu­ferli. Hann setti söl­una í sama sam­hengi og hinir for­menn­irn­ir, að það væri hægt að nota fjár­mun­ina sem bundnir væru í eign­inni í inn­viða­upp­bygg­ing­u. 

Reynt að selja til norsks banka en ekki tek­ist

Sölu­ferlið er búið að vera lengi í und­ir­bún­ingi, og í raun hefur Íslands­banki verið lengi til sölu ef ein­hver hefur áhuga á að kaupa hann, t.d. alþjóð­legur banki. Slíkur áhugi hefur ekki látið á sér kræla jafn­vel þótt að leitað hafi verið bein­línis til erlendra banka, til dæmis norska bank­ans DNB, sem er í 34 pró­sent eigu norska rík­is­ins.

Hann hefur þótt vera besti kaup­and­inn að Íslands­banka, meðal ann­ars vegna þess að hann hefur þegar sótt nokkuð inn á íslenskan markað fyrir fyr­ir­tækja­lán. Þ.e. DNB hefur tekið til sín í við­skipti stór íslensk fyr­ir­tæki, með alþjóð­lega starf­semi, án þess að reka eig­in­lega starf­semi hér­lend­is. Við­mæl­endur Kjarn­ans innan fjár­mála­kerf­is­ins hafa kallað DNB „fjórða bank­ann á Nor­dica“, með vísun í að fund­irnir sem haldnir séu með vænt­an­legum við­skipta­vinum séu oftar en ekki á Nor­dica-hót­el­inu við Suð­ur­lands­braut. Á meðal fyr­ir­tækja sem hafa fært fjár­mögnun sína að ein­hverju leyti til DNB er stærsta sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki lands­ins, Sam­herji. Ástæð­urnar eru fyrst og síð­ast tvær: norski bank­inn býður betri vexti og sveigj­an­legri fjár­mögn­un.

Íslands­­­banki og DNB gerðu auk þess með sér samn­ing um eigna­­stýr­ingu 1. des­em­ber 2010 og því hefur verið nokkur tengsl milli bank­anna um nokk­­urra ára skeið. Sér­­stak­­lega voru þessar við­ræður í hávegum í byrjun árs­ins 2012 en slita­stjórn Glitnis hafði þá fengið UBS bank­ann svis­s­­neska til að kanna mög­u­­leika á sölu á eign­­ar­hluta sínum í Íslands­­­banka, sem þá var 95 pró­­sent hlut­­ur.

Stærsti eigandi DNB bankans er norska ríkið.
Mynd: Úr safni

Í nokkur skipti eftir hrun fjár­­­mála­­kerf­is­ins, og end­­ur­reisn þess í kjöl­far­ið, hafa átt sér stað sam­­töl við full­­trúa bank­ans, bæði inn­an­ slita­stjórn­ar Glitnis og íslenska stjórn­­­kerf­is­ins, þar sem rætt hefur verið um þennan mög­u­­leika. 

Það liggur hins vegar fyrir nú að ekki er áhugi í Nor­egi á að kaupa íslenskan banka. Banka­sýsla rík­is­ins, sem fer með eign­ar­hlut rík­is­ins í Íslands­banka, sagði það í minn­is­blaðið sem hú skil­aði til starfs­hóps­ins sem vann hvít­bók um fram­tíð­ar­sýn fyrir íslenska fjár­mála­kerf­ið, að sala til erlends við­skipta­banka væri ólík­leg og að sú skoðun hafi verið stað­fest að mestu leyti í reglu­legum sam­skiptum við alþjóð­lega fjár­fest­ing­ar­banka.

Fá ekki fullt verð fyrir

Því er leiðin sem stefnt er að við sölu á Íslands­banka sú að skrá bank­ann á markað og selja þannig, í fyrsta kasti, um fjórð­ungs­hlut í hon­um. Eigið fé Íslands­banka var 178 millj­arðar króna í lok sept­em­ber síð­ast­lið­ins. Ljóst er að ekki mun fást króna fyrir krónu af eigin fé ef bank­inn verður seldur nú. 

Ef miðað er við ­stuðst er við það gengi sem var í skrán­ing­u ­Arion ­banka í sum­arið 2018 (0,67 krónur á hverja krónu af eigin fé) þá ætti virði fjórð­ungs­hlutar í Íslands­banka að vera um 30 millj­arðar króna. Ef hlut­ur­inn sem yrði seldur á kjör­tíma­bil­inu yrði 50 pró­sent myndi slíkur kosta um 60 millj­arða króna.

Það þarf því að finna ein­hverja til að kaupa þennan hlut í banka sem er að uppi­stöðu not­ast við íslenska krónu í starf­semi sinni og er með íslenska við­skipta­vini.

Umsvifa­mestu þátt­tak­end­urnir á íslenskum hluta­bréfa­mark­aði hafa verið íslenskir líf­eyr­is­sjóð­ir, sem halda beint og óbeint á um helm­ing allra hluta­bréfa í skráðum félögum í Kaup­höll Íslands. Þeir geta það sann­ar­lega, og hafa þegar fjár­fest í við­skipta­bönk­um. Þannig eiga þeir sex líf­eyr­is­sjóðir sem eru á meðal 20 stærstu hlut­hafa Arion banka, sam­an­lagt um 22 pró­sent í þeim banka. Mark­aðsvirði þess hluta er um 33 millj­arðar króna. 

Sló Bjarna illa að líf­eyr­is­sjóðir keyptu banka

Við­mæl­endur Kjarn­ans innan líf­eyr­is­sjóðs­kerf­is­ins segja það verði að telj­ast mjög ólík­legt að stærstu sjóð­irnir fari að ger­ast stórir eig­endur í fleiri við­skipta­bönk­um. Fókus þeirra er meira á fjár­fest­ingar utan land­stein­ana þessi miss­erin og á því að dreifa áhættu í eigna­safn­inu, ekki þjappa henni sam­an. 

Á umræðu­fundi um eign­ar­hald á atvinnu­fyr­ir­tækjum, hlut­verki líf­eyr­is­sjóða og áhrif á sam­keppni, sem hald­inn var í maí 2016, var einn þeirra sem tjáði sig um kaup líf­eyr­is­sjóða á bönkum Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra. Líf­eyr­is­sjóð­irnir væru með nálægt helm­ing af skráðum hluta­bréfum og ættu svo að „kaupa fjár­­­mála­­fyr­ir­tæki sem eru að þjón­usta fyr­ir­tækin sem þeir eru aðal­­eig­endur að[...]Þetta slær mig mjög illa og auð­vitað er ástæða til að staldra við.“

Hinn stóri leik­and­inn á íslenskum hluta­bréfa­mark­aði á und­an­förnum árum hafa verið erlendir skamm­tíma­sjóðir sem margir voru á meðal kröfu­hafa föllnu bank­anna. Þeir hafa hins vegar verið að losa um hluta­bréfa­eign sína og leysa út ágóð­ann af því að fjár­festa í Íslandi eft­ir­hrunsár­anna. 

Fáir íslenskir einka­fjár­fest­ar, utan við eig­endur stærstu útgerða lands­ins,  búa yfir nægi­lega mik­illi fjár­hags­legri getu til að kaupa stóran hluta þess sem íslenska ríkið áformar að selja í Íslands­banka og almenn­ingur hefur ekki sýnt neina til­burði til að ætla að treysta skráðum mark­aði fyrir sparn­aði sínum aft­ur, eftir að banka­hrunið kost­aði hlut­hafa í skráðum félögum um eitt þús­und millj­arða króna tap. Þar af töp­uðu um 47 þús­und ein­stak­lingar um 130 millj­örðum króna á einni viku þegar hluta­bréf þeirra í bönk­unum urðu verð­laus. 

Því liggur ekki fyrir áætlun um hverjum eigi að selja Íslands­banka. For­sæt­is­ráð­herra sagði við Kjarn­ann á fimmtu­dag að hún legði áherslu á að sölu­­ferlið verði að vera opið og gagn­­sætt. Það sé ekki rík­­is­ins að ákveða hverjir kaupi ef til dæmis 25 pró­­sent hlutur í  Íslands­bank­a verður seldur í gegnum skrán­ingu á hluta­bréfa­­mark­að. „Það skiptir máli að það sé jafn­­ræði á milli þeirra sem hafa áhuga.“

Í sam­ræmi við sátt­mála

Í stjórn­­­ar­sátt­­mála rík­­is­­stjórn­­­ar­innar er fjallað um eign­­ar­hald rík­­is­ins á bönk­­­um. Þar segir að  fjár­­­­­mála­­­kerfið eigi að vera traust og þjóna sam­­­fé­lag­inu á hag­­­kvæman og sann­­­gjarnan hátt. „Eign­­­ar­hald rík­­­is­ins á fjár­­­­­mála­­­fyr­ir­tækjum er það umfangs­­­mesta í Evr­­­ópu og vill rík­­­is­­­stjórnin leita leiða til að draga úr því.“ 

Þá er heim­ild til staðar í fjár­lög­um, og hefur verið í nokkur ár, til að ráð­ast í sölu á öllum hlut rík­is­ins í Íslands­banka. Þar er einnig heim­ild til að selja hluta af eign rík­is­ins í Lands­bank­an­um.

Arion banki var skráður á markað sumarið 2018. Síðan þá hefur það verið yfirlýst markmið eigenda hans að greiða sem mest af eigin fé hans út til hluthafa. Og minnka umsvif bankans samhliða.
Mynd: Nasdaq Iceland

Banka­sýsla rík­is­ins, sem fer með eign­ar­hlut­ann, hefur unnið að und­ir­bún­ingi að söl­unni. Henni er stýrt af for­stjór­anum Jóni Gunn­ari Jóns­syni og stjórn­ar­for­maður hennar er Lárus Blön­dal lög­mað­ur, sem skip­aður var í þá stöðu af Bjarna Bene­dikts­syn­i. 

Það verður síðan hlut­verk sér­stakrar ráð­herra­nefndar um efna­hags­mál og end­ur­skipu­lagn­ingu fjár­mála­kerf­is­ins að móta póli­tíska stefnu um hvernig haldið verður á sölu á hlut í Íslands­banka. Henni er ætlað að vera vett­vangur sam­ráðs og sam­ræm­ingar við end­ur­skoðun fjár­mála­kerf­is­ins í sam­ræmi við þá áherslu í sátt­mála rík­is­stjórnar að breið sátt náist um end­ur­skipu­lagn­ingu fjár­mála­kerf­is­ins á Íslandi.

Í þeirri nefnd sitja þrír ráð­herr­ar. Bjarni og Katrín, for­menn tveggja stjórn­ar­flokk­anna, eiga þar sæti, en það á Sig­urður Ingi ekki. Þess í stað situr Lilja D. Alfreðs­dótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra og vara­for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins, í nefnd­inni. Hún er með mikla reynslu af því að starfa við efna­hags­mál, enda var hún í hátt­settum stöðum í Seðla­banka Íslands meira og minna á árunum 2001 til 2016 auk þess sem hún var ráð­gjafi hjá Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóðnum í Was­hington 2010 til 2013. 

Lilja D. Alfreðsdóttir situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins.
Mynd: Birgir Þór Harðason

Hún hefur sagt opin­ber­lega, síð­ast í sept­em­ber 2019, að það þurfi að ríkja póli­tísk sátt um að fara af stað með banka­sölu og að for­senda hennar sé að eig­enda­stefna rík­is­ins sé upp­færð þannig að tryggt verði að hinn rík­is­bank­inn, Lands­bank­inn, verði áfram í opin­berri eig­u. 

Muna síð­ustu einka­væð­ingu

Það gæti orðið erfitt að mynda þverpóli­tíska sátt um að selja Íslands­banka með því að skrá hann á markað og ólík­legt að áformin muni hljóta mik­inn stuðn­ing innan stjórn­ar­and­stöð­unn­ar, jafn­vel hjá flokkum eins og Við­reisn sem þó eru fylgj­andi því að losað verði um opin­bert eign­ar­hald á fjár­mála­kerf­in­u. 

Þar skiptir máli að fyrir 17 árum síðan var ráð­ist í að einka­væða eign­ar­hlut rík­is­ins í tveimur bönk­um, Lands­banka Íslands og Bún­að­ar­banka Íslands. Sú veg­ferð end­aði ekki vel þar sem báðir bank­arn­ir, og sá þriðji sem hafði áður líka verið í opin­berri eigu, Íslands­banki, féllu á nokkrum dögum í októ­ber 2008 eftir að hafa vaxið í að vera um tólf sinnum stærri en íslensk þjóð­ar­fram­leiðsla á örfáum árum. Það fall hafði gríð­ar­lega sam­fé­lags­legar afleið­ingar fyrir Ísland. Ekki bætti úr skák þegar upp­lýst var um það að stór­tækum blekk­ingum var beitt við kaup á Bún­að­ar­bank­anum og að kaup­enda­hóp­arnir sem keyptu bank­anna tvo fengu lán hjá hinum bank­anum til að borga hluta kaup­verðs­ins sem greitt var fyr­ir.

Lít­ill almennur asi

Lands­menn virð­ast enn vera mjög var­kárir í skoð­unum sínum þegar kemur að eign­ar­haldi á banka­kerf­inu. í könnum sem gerð var fyrir Hvít­bók­ar­hóp­inn, sem skil­aði skýrslu í des­em­ber 2018, kom fram að 61,2 pró­­­sent lands­­­manna væru jákvæðir gagn­vart því að íslenska ríkið sé eig­andi við­­­skipta­­­banka. Fjórð­ungur þjóð­­­ar­inn­­­ar, 25,2 pró­­­sent, hafði á þeim tíma enga fast­­­mót­aða skoðun á slíku eign­­­ar­haldi og ein­ungis 13,5 pró­­­sent Íslend­inga voru. nei­­­kvæðir gagn­vart slíku eign­­­ar­haldi.

Frétt Morgunblaðsins dag­inn eftir að S-hóp­ur­inn gekk frá kaup­unum á Bún­að­ar­bank­an­um árið 2003. Þar sjást Ólafur Ólafsson og Finnur Ingólfsson, sem skrifuðu undir kaupin fyrir hönd S-hópsins, keyra á brott.
Mynd: Skjáskot

Þegar þeir sem eru jákvæðir gagn­vart því að ríkið sé eig­andi við­­­skipta­­­banka voru spurðir af hverju sögðu 24,4 pró­­­sent þeirra, eða tæp­­­lega fjórð­ung­­­ur, að ríkið væri betri eig­andi en einka­að­ili. Fimmt­ungur sagði að helsta ástæðan væri öryggi og/eða traust og 18,3 pró­­­sent vegna þess að arð­­­ur­inn færi þá til almenn­ings. Þá sögðu 15,7 pró­­­sent að helsta ástæða þess að þeir væru jákvæðir gagn­vart því að ríkið sé eig­andi við­­­skipta­­­banka vera þá að það þýddi að minni líkur væru á því að hlut­irnir myndu enda illa og að spill­ing og græðgi yrði minni.

Traust almenn­ings til Alþing­is, þeirrar stofn­unar sem veitir heim­ild til að selja rík­is­bankana, með sam­þykkt fjár­laga, er heldur ekki mik­ið. Síð­ast þegar það var mælt var það 18 pró­sent, eða aðeins minna en til banka­kerf­is­ins, sem mæld­ist með 20 pró­sent traust.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar