Konan sem kom, sá og sigraði – Fyrirmynd um heim allan
Hildur Guðnadóttir vann Óskarsverðlaunin í nótt en um sögulegt augnablik er að ræða þar sem hún er fyrsti Íslendingurinn til að ná þessum árangri. Hún hvatti ungar konur sem aldnar að hefja upp raust sína og láta í sér heyra.
Hildur Guðnadóttir tónskáld hefur skráð nafn sitt á spjöld sögunnar en hún hlaut, eins og alþjóð veit, Óskarsverðlaunin í nótt fyrir kvikmyndatónlist í Joker. Þessi mikilsvirtu verðlaun eru þó einungis toppurinn á ísjakanum þar sem hún hafði áður hlotið Emmy verðlaun, Grammy verðlaun, Golden Globe og BAFTA verðlaunin fyrir tónlistina í Joker og tónlistina í Chernobyl þáttunum, sem hún samdi einnig.
Orð Hildar sem hún flutti í þakkarræðu sinni hljóma nú um allan heim: „Til stúlknanna, kvennanna, mæðranna og dætranna sem heyra tónana krauma innra með sér – hækkið róminn! Við þurfum að heyra raddir ykkar.“
Hildur er þriðja konan til að vinna þessi verðlaun og sú fyrsta síðan árið 1997. Því eiga þessi orð hennar vel við núna.
Í þakkarræðu sinni sagðist hún jafnframt elska fjölskyldu sína og þakkaði af auðmýkt fyrir stuðninginn. Hún þakkaði eiginmanni sínum, syni og mömmu. Þá þakkaði hún einnig keppinautum sem tilnefndir voru, og aðstandendum The Joker.
Hildur er fædd 4. september 1982 og alin upp í Hafnarfirði. Hún hefur frá unglingsárum verið áberandi í íslenskri tónlist, og var meðal annars í hljómsveitunum Woofer, Rúnk, Múm og Stórsveit Nix Noltes. Hún hefur gefið út fjórar sólóplötur, en hefur einbeitt sér að tónsmíðum fyrir kvikmyndir og þætti undanfarin misseri.
„Ímyndaði mér hvernig það væri að vera hann“
Í fyrsta viðtalinu eftir að hún hlaut verðlaunin var hún spurð út í það hver hennar helsti innblástur hefði verið þegar hún samdi tónlistina við Jókerinn og hvaða leyndarmál lægi að baki. Hildur sagðist telja að nauðsynlegt væri að líta bakvið söguna, að hella sér út í hana og finna út hvað héldi henni uppi. „Og reyna að sjá hvernig sagan sjálf vill að hún heyrist. Í þessu tilfelli þá var sagan um þennan eina mann sem gekk í gegnum óbærilegt ferðalag. Ég reyndi eins og ég gat að ímynda mér hvernig það væri að vera hann og hvernig það myndi hljóma. Það var minn helsti innblástur,“ sagði hún.
Hún var einnig spurð hvort hún hefði tekið eftir því þegar hinir ýmsu aðilar – mikilvægir aðilar í bransanum – stóðu upp fyrir henni þegar hún hlaut verðlaunin. „Já, ég sá það. Veistu, þetta er tryllt augnablik. Ég heyri nafnið mitt og bregður smá. Ég geng upp að sviðinu og hugsa með mér að ég geti gert þetta. „Ég get þetta. Ég get þetta.“ Og þegar ég var komin á sviðið sá ég að margir höfðu staðið upp og það kom mér svakalega á óvart.“
Phoenix varð fyrir miklum áhrifum frá tónlistinni
Þá var Hildur spurð út í frægan dans leikarans Joaquin Phoenix í kvikmyndinni Joker en hann hefur greint frá því í viðtölum að hann hafi orðið fyrir miklum áhrifum frá tónlistinni hennar Hildar og að persónan hafi orðið til eftir að hann heyrði tónlistina. Hildur sagði að dansinn hefði verið töfrandi. „Ég samdi mikið af tónlistinni áður en tökur hófust og þau notuðu tónlistina á tökustað. Tónlistin var innblástur fyrir leik Joaquin,“ sagði hún og bætti því við að hún hefði ekki gert sér grein fyrir því að verklagið ætti að vera þannig.
Hildur ræddi einnig hvernig það væri að ganga í gegnum þetta ferðalag – og þá sérstaklega sem kona. „Þetta hefur verið áhugaverð reynsla fyrir mig, á meðan ég hef verið að ganga í gegnum þetta ferðalag en ég gef verið fyrsta konan til að vinna sum af þessum verðlaunum. Þetta hefur vakið marga til meðvitundar að ekki sé jafnvægi í hlutunum.“ Þá á hún við hversu karllægur þessi geiri hefur verið í gegnum öll þessi ár. Hún segir að það hafi verið henni mikill heiður að taka þátt í þessu samtali sem nú á sér stað í kjölfar þessara verðlauna sem hún hefur hlotið á síðustu misserum.
Að lokum var hún spurð hvort hún hygðist flytja til Los Angeles en hún býr nú í Berlín í Þýskalandi. Hildur hló og sagði að það væri heldur sólríkt fyrir hana þar svo flutningar eru greinilega ekki á teikniborðinu hjá þessum mikla listamanni.
„Þvílík ræða og hvatning til stúlkna, kvenna, mæðra og dætra“
Samfélagsmiðlar hafa logað síðan fréttirnar bárust og hafa landsmenn óskað henni til hamingju með þennan merka áfanga. Jafnframt hafa æðstu stjórnmálamenn tjáð sig um málið.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra óskaði Hildi til hamingju með þennan ótrúlega árangur og hvatningu til kvenna um allan heim.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sendi Hildi kveðju á Facebook. „Hún sigraði og fyrstu íslensku Óskarsverðlaunin! Þvílík ræða og hvatning til stúlkna, kvenna, mæðra, dætra! Í nótt skrifaði kona, mikilvægan hluta af íslenskri menningarsögu. Þetta er fyrst og fremst persónulegt afrek! Ingveldur Guðrún Ólafsdóttir, móðir Hildar, lýsir dóttur sinni á eftirfarandi hátt: „Hún hefur alltaf verið gríðarlega markviss, stefnuföst, sjálfstæð og gríðarlega vinnusöm þannig að þessi mikla velgengni kemur mér því ekki á óvart.“
Maður uppsker eins og maður sáir. Nú fylgjumst við öll með og samgleðjumst af öllu hjarta. Eitt það skemmtilegasta sem ráðherra fær að gera er að óska afreksfólki til hamingju með góðan árangur. Það er óhætt að segja að Hildur Guðnadóttir hafi haldið mér upptekinni undanfarnar vikur! Hildur er frábær fyrirmynd fyrir alla ungu Íslendingana sem dreymir um að ná langt á sínu sviði. Til hamingju enn og aftur kæra Hildur og takk fyrir tónlistina!“ skrifaði Lilja.
Amma fyrsti kvenprófessorinn
Hildur er ekki fyrsta konan í fjölskyldu sinni til að þess að rita nafn sitt í íslenskar sögubækur en þess má geta að Hildur er barnabarn Dr. Margrétar Guðnadóttur. Hún varð fyrsta konan til að hljóta prófessorsembætti við Háskóla Íslands, þá 39 ára að aldri.
Hún tók við embættinu þann 1. júlí árið 1969 og í samtali við Vísi fyrr um sumarið sagðist hún varla vera búin að átta sig á ráðningunni. Hún lauk prófi í læknisfræði frá HÍ árið 1956 og stundaði síðan framhaldsnám í verufræði í Bandaríkjunum. Hún var sérfræðingur í meinafræði við Tilraunastöðina að Keldum og kenndi við læknadeild HÍ.
Lesa meira
-
2. janúar 2023Höfundur Matador þáttanna látin – „Maður er ekkert merkilegur af því maður er gamall“
-
2. janúar 2023„Stjórna erlendar streymisveitur bráðum innlendri kvikmyndaframleiðslu?“
-
24. desember 2022Ólöf Arnalds safnar fyrir útgáfu fimmtu breiðskífu sinnar
-
20. desember 2022Hundrað ára afmæli Cafe Fodkold
-
18. október 2022Þekkt en þó óþekkt
-
9. október 2022Segja niðurskurð á framlögum færa fagsjóði listgreina á sama stað og þeir voru 2014
-
30. september 2022Staða menningarmála: Fornleifar
-
23. ágúst 2022Endurkoma smurbrauðsins
-
17. ágúst 2022Stefnt að því að sameina þrjá tónlistarsjóði í einn og skilgreina Sinfó sem þjóðareign
-
16. ágúst 2022Ævintýrið um Carmen rúllurnar