Stóru orð leiðtoganna
Þrír stjórnmálamenn stíga á svið í dimmum sal þar sem gleðin er vön að vera við völd. En þeir eru alvarlegir og brúnaþungir. Tala um stríð, aðgerðir sem ekki hafa áður sést á friðartímum og að veiran, sem öllu þessu veldur, eigi eftir að „breyta mörgu í samskiptum í heiminum og hvernig menn munu hugsa“.
Norðurljósasalur Hörpu iðar alla jafna af lífi. Listamenn stíga á stokk, leika á hljóðfæri, syngja eða dansa, fyrir fullum sal af fólki sem bregst við með hrifningarhrópum, hlátrasköllum og lófaklappi. Það sama má segja um tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu í heild, þangað fer fólk til að skemmta sér, nú eða fræðast.
Í dag er yfirbragðið í húsinu allt annað. Einkennilegheitin byrja strax í bílakjallaranum þar sem greiðsluvélin og röðin við hana er allt í einu orðin gróðrarstía fyrir ósýnilegu veiruna sem umlykur allan okkar veruleika. Engir prúðbúnir tónleikagestir eru sjáanlegir. Og enginn er baksviðs að hita upp fyrir tónleika kvöldsins.
Norðurljósasalurinn á annarri hæðinni er í fyrstu þrunginn þögn. Óvenjulegur blaðamannafundur er í uppsiglingu. Um gólfið er búið að raða stólum á víð og dreif, allt eftir kúnstarinnar reglum sóttvarnalæknis.
Á sviðið stíga svo dökkklæddir og ábúðarfullir leiðtogar ríkisstjórnar Íslands. Þeir koma sér fyrir með góðu millibili við púlt sem á standa ekki aðeins vatnsglös til að væta kverkarnar heldur stórir sprittbrúsar. Brúsar sem eru að verða staðalbúnaður á hverju heimili landsins.
Salurinn er dimmur en lýsingin þó mjúk. Bláleitir tónar flæða um rýmið og minna einna helst á útfjólublá ljós sólbaðsstofa eða „blacklight“-ljós dansstaða níunda áratugarins. En hér er engin diskókúla að snúast og það ríkir bókstaflega grafarþögn. Viðstaddir, nokkrir blaðamenn og ljósmyndarar, spjalla smávegis sín á milli hálfum hljóðum.
Alvarleikinn er áþreifanlegur.
„Komið þið sæl og verið velkomin til þessa blaðamannafundar sem tekur mið af þeim fordæmalausu tímum sem við lifum á,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún byrjar að tala með krosslagðar hendur en hættir því fljótt. „Þetta er dálítið eins og vísindaskáldsaga að vera staddur hér inni þar sem gert er ráð fyrir tveimur metrum á milli allra þeirra sem hingað eru mættir en það er í anda þeirra aðstæðna sem við stöndum frammi fyrir. Og það eru aðstæður sem við höfum takmarkaða þekkingu á – eins og raunar öll önnur ríki sem núna glíma við baráttuna gegn þessum vágesti sem kórónuveiran er.“
Hún stendur fyrir miðju, með Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra sér á vinstri hönd og Sigurð Inga Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á þá hægri.
Að baki þeim á stóru tjaldi stendur skrifað: Viðspyrna fyrir Ísland – efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Á tjaldinu blasir skjaldarmerki Íslands einnig við. Og svo má sjá mynd af fuglum, líklega álftum, í oddaflugi.
Líffræðingar hafa lengi leitað skýringa á oddaflugi fugla en nýlegar rannsóknir sýna fram á að hjartsláttartíðni þeirra í oddaflugi er lægri en þegar fuglarnir fljúga einir. Oddaflug dregur líka umtalsvert úr loftmótsstöðu og þar af leiðandi eyða fuglarnir minni orku og komast þess vegna lengra án þess að þreytast.
Að fljúga saman er betra.
Að standa saman í þrengingum er betra en að fljúga einn.
Það rímar ágætlega við það sem leiðtogarnir þrír eru að fara að segja.
„Það er svo að óvissan er mjög mikil,“ segir Katrín. Hún talar rólega, allt að því varlega, er hún hefur mál sitt. „Sögulegt minni okkar sem hér stöndum nær ekki aftur til svipaðra tíma. [...] Við öll sem hér búum finnum þetta í okkar nánasta umhverfi, það er tómlegt á götunum hérna fyrir utan. Fólk heldur tveggja metra fjarlægð á milli sín í matvörubúðum og það er langt síðan að maður hefur séð fólk faðmast og kyssast á götum úti. Þessi sameiginlegi óvinur okkar allra er ekki aðeins að hafa mikil áhrif á efnahagslífið heldur líka tilveruna og samfélagið.“
Katrín segir svo ákveðið að aðgerðirnar sem kynntar verði á fundinum séu til næstu vikna og mánaða en „við erum mjög einbeitt í því að það verður gert það sem þarf að gera svo að íslenskt samfélag komist óskaddað frá þessum hremmingum.“
Þrengingarnar séu þó tímabundnar og það sé mikilvægt „að íslenskt samfélag fari þannig í gegnum þær að við getum náð viðspyrnu hratt þegar að því kemur að það fari að rofa til“.
Það má ráða það af orðum hennar að pólitískt dægurþras hefur nú verið lagt til hliðar. Hún segir samstöðuna á Alþingi við afgreiðslu frumvarpa í síðustu viku hafa glatt sig. „Og kannski var andinn á Alþingi lýsandi fyrir samfélagið allt því við höfum fundið það líka, fyrir undirbúning þessara aðgerða sem kynntar eru í dag [...], að það er ríkur vilji til að standa saman, að við getum leyst úr þessum málum sameiginlega og látið hversdagslegri þrætuefni liggja á milli hluta á meðan við stöndum í þessu stríði.“
Kjarni aðgerðanna er að sögn Katrínar sá að verja störf og efnahagslíf og að tryggja afkomu fólks. Hún kynnir meðal annars til sögunnar sérstakan barnabótaauka, því „við vitum það að hjá fólki sem á börn er mikið álag um þessar mundir þar sem allt venjulegt skólastarf er úr lagi gengið“.
Katrín er ekki að teygja lopann. Eftir að fara yfir helstu efnahagsaðgerðirnar sem nú á að grípa til lýkur hún máli sínu á þessum orðum: „Heildarumsvif þessara aðgerða eru um 230 milljarðar króna en það jafngildir um átta prósentum af landsframleiðslu. Þannig að þetta eru alveg gríðarlega mikil umsvif en við teljum að aðstæður séu með slíkum hætti í efnahagslífinu að þær kalli á að við bregðumst við með sterkum hætti og sýnum það í verki að við séum reiðubúin...,“ Katrín hikar eitt andartak og dregur djúpt að sér andann, „...til að standa með fólkinu í landinu. Því þess vegna erum við hér á vettvangi stjórnmálanna það er af því að við viljum sýna, ekki síst þegar vá steðjar að, að við stöndum öll saman í þessu.“
Bjarni, óvenju brúnaþungur, beitir röddinni ákveðið frá fyrsta orði. „Þessar aðgerðir sem við kynnum hér í dag eru án hliðstæðu. Við sem stöndum hér ætlum að gera okkar til að létta undir með fólki og fyrirtækjum. En við erum ekki ein. Það ríkir samstaða. Hvar sem við komum eru allir tilbúnir og boðnir og búnir; heilbrigðisstarfsfólk, allir í skólunum, fyrirtækin, stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, Alþingi, Seðlabankinn. Allir Íslendingar.“
Hann heldur áfram, rjóður í kinnum, og ákveðnin eykst í röddinni frekar en hitt: „Þetta er tvíþætt áskorun; heilbrigðisvá og efnahagsvandi. Og til að takast á við þessa áskorun þarf að vinna saman.“
Algjör þögn er í salnum. Áhorfendur heima í stofu velta fyrir sér: Er enginn þarna? Eru þau ein í salnum, þremenningarnir sem leiða flokka svo ólíka að upplagi að margir efuðust um að samsett ríkisstjórn þeirra gæti nokkru sinni orðið að veruleika?
Bjarni gerir örstutta hvíld á máli sínu og heldur áfram með upphafsorðum sem hann er gjarn á að grípa til opinberlega: „Ég hef oft sagt...,“ byrjar hann, „að við þessar aðstæður væri betra að gera meira og taka af því kostnaðinn en gera of lítið. Vegna þess að af því gæti hlotist mun meira tjón en af því að hafa gert rúmlega það sem til þurfti.“
Fjármálaráðherrann verður svo persónulegur. Hann leggur fingurgóma beggja handa annað slagið saman, fingur sem hann sýndi landsmönnum í undankeppni Söngvakeppni sjónvarpsins á dögunum að geta dansað fimlega um píanónótur.
„Við viljum létta áhyggjum af fólki,“ segir hann og dregur svo djúpt að sér andann. „Við viljum að allir geti hugað að heilsu sinni og við viljum veita öryggi vegna framfærslu fjölskyldunnar.“
Hann lítur svo á punktana fyrir framan sig og segir: „Það er þess vegna sem við erum hér í dag til að kynna stærstu einstöku efnahagsaðgerðir sögunnar á Íslandi. Þetta eru afgerandi viðbrögð við óvissu og ógn.“
Bjarni talar skýrt og með miklum þunga. Hann tekur hlé á máli sínu, lítur aftur niður á borðið þar sem stóri sprittbrúsinn stendur, lítur svo upp og segir: „Við munum tryggja laun þeirra sem þurfa að fara í sóttkví. Við viljum með þessu hvetja til réttrar breytni. Það er ekki sjálfgefið án sérstakrar tryggingar fyrir því að halda launum sínum að allir hefðu verið í stöðu til þess að taka þátt. En með þessu viljum við hjálpa fólki að taka rétta ákvörðun fyrir samfélagið allt – og fyrir sig.“
Hann hækkar svo örlítið röddina er hann segir með áherslu: „Við erum að hvetja fyrirtæki til að segja ekki upp fólki. Við erum að segja við fyrirtækin í landinu að við ætlum að standa með ykkur í gegnum þennan tíma. Haldiði fólkinu hjá ykkur eins langt og þið getið gengið í þeim efnum og þá mun ríkissjóður koma til aðstoðar.“
Með fyrirgreiðslu sé líka ætlunin að koma í veg fyrir að fyrirtæki gefist upp. „Með því erum við líka að tryggja að fyrirtækin verði tilbúin þegar tækifærin gefist á ný. Þetta er það sem ég á við þegar ég segi: Gerum frekar meira núna en að taka skaðann af því að gera of lítið.“
Hann lýkur svo máli sínu á þessum orðum: „Þetta eru skýr skilaboð um að við ætlum öll að standa saman á erfiðum tímum. Við ætlum að standa með fólki og komast í gegnum þetta saman.“
Sigurður Ingi grípur orð Bjarna á lofti og endurtekur inntak þeirra: „Gegnum þessa tíma komumst við ekki nema að standa öll saman.“
Hann er nokkuð bjartsýnn til að byrja með, formaður Framsóknarflokksins, og segir margt benda til að Íslendingar muni komast hraðar og vonandi auðveldar í gegnum faraldurinn heldur en margar aðrar þjóðir. „Við skulum engu að síður átta okkur á því að við erum ekki komin mjög ofarlega í brekkuna, við eigum eftir tvær, þrjár, fjórar erfiðar vikur í þeim slag og við þurfum að halda áfram í þessari samstöðu um að ná árangri.“
Það séu ekki síst aðgerðir annarra landa sem eru að hafa hér stórkostleg áhrif og af annarri stærðargráðu en sést hafi á friðartímum. „En við vonum engu að síður að allir komist í gegnum þetta og heimurinn komist á eitthvert ról, en hann mun hins vegar aldrei verða á sama rólinu aftur. Við verðum að átta okkur á því að við munum ekki leita inn í nákvæmlega eins hagkerfi. [...] Þetta mun breyta mörgu í samskiptum í heiminum og hvernig menn munu hugsa.“
Sigurður minnir svo á að við erum að „kljást við eitthvað sem er lifandi og við vitum ekki nákvæmlega hvernig það heldur áfram að þróast, við vonum auðvitað það besta, það styttist í vor eftir mjög langan og erfiðan vetur sem hefur teygt á sálarlífi mjög margra Íslendinga.“
Já, vissulega er hún lifandi, nýja kórónuveiran sem jafnvel undir smásjá lítur sakleysislega út. En er nú búin að heimta um 12.000 mannslíf um allan heim og greinast í 473 manns hér á landi.
Síðustu orð Sigurðar Inga á fundinum eru þau að ef faraldurinn og áhrif hans dragist á langinn „þá erum við til í að standa hér aftur með meiri ákvarðanir um fleiri hluti – og ganga lengra“.
Hagfræðingnum Birni Brynjúlfi Björnssyni er svo gefið orðið. Hann fer vel yfir aðgerðir stjórnvalda, lið fyrir lið. Leiðtogarnir draga sig í hlé.
Við höfum mörg hver skemmt okkur yfir því síðustu vikur, nú eða ranghvolft augunum, hversu oft ráðamenn og aðrir nota orðið „fordæmalausir tímar“ í tengslum við „það ástand sem nú ríkir“.
Í dag notaði Katrín f-orðið einu sinni.
Og Bjarni einu sinni.
Það þýðir ekki að þau hafi verið að spara stóru orðin. Af þeim var nóg í máli þeirra á fundinum. Á fundi þar sem stigin voru skref sem miða að því að „verja lífskjör og leggja grunn að skjótum efnahagsbata,“ eins og Björn Brynjúlfur hagfræðingur segir í lok kynningar sinnar.
Er hann kveður og stígur af sviðinu má enn sjá fuglana fljúga í oddaflugi á skjánum.
Lesa meira
-
6. janúar 2023Mögulega mest smitandi afbrigðið hingað til
-
3. janúar 2023Segja skimun kínverskra ferðamanna ekki byggða „á neinum vísindalegum rökum“
-
15. desember 2022Segir aðstoðarmann Ásmundar Einars hafa „staðfest“ að ÍBV ætti að fá 100 milljóna styrk
-
5. nóvember 2022Bóluefnakapphlaupið kostaði 1,3 milljónir manna lífið
-
19. júlí 2022Takmarkanir myndu þjóna takmörkuðum tilgangi
-
12. júlí 2022Skjátími barna rauk upp í faraldrinum
-
2. júlí 2022Alls fóru 0,0002% af fjármagni í COVID-viðbragðsáætlunum í að uppræta kynbundið ofbeldi
-
29. júní 2022Staðfest: Köttur smitaði manneskju af COVID-19
-
3. júní 2022Ferðaskrifstofur fá áratug til þess að greiða lánin frá Ferðaábyrgðarsjóði til baka
-
12. maí 2022„Þarf að huga betur að mér sjálfum og minni fjölskyldu“