Kórónuveiran sýkir Kauphöllina
Gengi nær allra félaga sem skráð eru á íslenskan hlutabréfamarkað hefur lækkað mikið það sem af er ári, og sérstaklega síðastliðinn mánuð. Um er að ræða mesta samdrátt frá því í hruninu. Tvö félög hafa tapað meira en þriðjungi af markaðsvirði sínu og eitt hefur rúmlega helmingast í virði. Kórónuveiran veldur vandræðum víða.
Einungis tvö félög sem skráð eru í Kauphöll Íslands hafa hækkað í verði það sem af er ári.
Hin átján félögin sem skráð eru á aðallista Kauphallarinnar hafa lækkað í virði. Og tíu þeirra hafa lækkað um tæpan fimmtung eða meira í virði á árinu 2020.
Tvö hafa misst rúmlega þriðjung af markaðsvirði sínu og eitt hefur rúmlega helmingast í virði.
Úrvalsvísitala íslensku Kauphallarinnar, sem er saman sett úr gengi þeirra tíu félaga á markaði sem hafa mestan seljanleika, hefur alls lækkað um 18,5 prósent á árinu 2020.
Það hafa því hundruð milljarða króna af virði skráðra félaga í Kauphöll horfið á síðustu mánuðum og um er að ræða mesta samdrátt í markaðsvirði félaganna á aðallistanum frá því í eftirköstum bankahrunsins.
Þau sem hafa hækkað
Tvö félög hafa hækkað virði í ár. Annað þeirra, Heimavellir, er í yfirtökuferli og útskýrir það alls 29,2 prósent hækkun á bréfum þess. Markaðsvirði Heimavalla er 16,4 milljarðar króna miðað við gengi bréfa í félaginu við lok viðskipta í gær. Það hefur aukist um 3,7 milljarða króna frá áramótum.
Sá aðili sem gerði yfirtökutilboðið er norska félagið Fredensborg AS. Verðið er 1,5 krónur á hlut og því hljóðar yfirtökutilboðið í heild sinni upp á 17 milljarða króna. Það er því hærra en núverandi markaðsvirði Heimavalla.
Hitt félagið sem hefur hækkað í verði eru Hagar, stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi, en yfirstandandi efnahagsástand vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum hefur almennt haft jákvæð áhrif á veltu matvöruverslana. Hagar eiga og reka 46 verslanir innan fimm smásölufyrirtækja og fjögur vöruhús. Þar á meðal eru tvær af stærstu verslunarkeðjum landsins, Bónus og Hagkaup. Þá rekur félagið 28 Olísstöðvar um land allt auk 41 ÓB-stöðva.
Þau sem hafa unnið varnarsigra
Minnst hefur lækkunin verið hjá Símanum, sem er nú 1,06 prósent minna virði en félagið var um áramót, þrátt fyrir að helsta sjónvarpsvara félagsins, enski boltinn sé kominn á ís. Það hefur möguleg áhrif á auglýsingasölu Símans auk þess sem hann ákvað að fella niður áskriftargjöld hjá þeim sem eru áskrifendur að enska boltanum. Engin breyting verður hins vegar á áskriftarverði á svokölluðum Heimilispakka, en það var hækkað úr fimm þúsund krónum á mánuði í sex þúsund í fyrra þegar enska boltanum var bætt við pakkann. Langflestir áskrifendur að sjónvarpsþjónustu Símans eru með Heimilispakkann en þeir skipta tugum þúsunda.
Sjávarútvegsfyrirtækið Brim, sem tilkynnti í vikunni að það ætli að halda arðgreiðsluáformum upp á 1,9 milljarða króna til streitu þrátt fyrir yfirstandandi ástand, hefur líka haldið virði sínu nokkuð stöðugu. Það hefur lækkað um 3,71 prósent. Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur Brim ekki sótt um að nýta sér neitt þeirra úrræða sem stjórnvöld hafa boðið upp á vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirunnar.
Eldsneytissalarnir Skeljungur og Festi, sem er líka á meðal stærstu smásölufyrirtæki á landinu, hafa lækkað um annars vegar 6,09 prósent og hins vegar um 8,11 prósent í verði.
Marel, langverðmætasta félagið í Kauphöllinni, hefur misst 9,25 prósent af verðmæti sínu. Það er þó engin smá tala í ljósi þess hversu stórt félag Marel er. Markaðsvirðið fór yfir 500 milljarða króna í stutta stund í janúar en er nú 422,5 milljarðar króna. Það hefur því dregist saman um rúmlega eina Leiðréttingu á örfáum vikum.
Origo hefur svo tapað 12,95 prósent af verðgildi sínu.
Tryggingafélögin og fasteignarfélögin
Tryggingafélögin þrjú sem skráð eru á markað hafa öll fallið verulega í verði, og má það rekja til, að minnsta kosti að hluta, að stór hluti af starfsemi þeirra allra er fjárfestingarstarfsemi, en markaðir út um allan heim eiga verulega undir högg að sækja um þessar mundir.
Sjóva hefur unnið mestan varnarsigur, en bréf í því félagið hafa fallið um 10,16 prósent. VÍS er ekki langt undan en markaðsvirði þess hefur dregist saman um 13,75 prósent.
Mesta höggið hefur TM tekið. Markaðsvirði þess hefur fallið um 21,92 prósent eða um rúman fimmtung.
Fasteignarfélögin sem skráð eru á markað hafa líka fallið hratt í því ástandi sem nú er uppi, enda rekstur þeirra nátengdur ferðaþjónustu og því að atvinnulífið sé í nokkuð góðu standi. Reginn hefur lækkað um 20,15 prósent, Eik um 24,67 prósent og Reitir um heil 25,9 prósent.
Hin sem hafa farið illa út úr ástandinu
Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn hefur tapað 19,14 prósent af virði sínu það sem af er ári. Það bætist ofan á 16,3 prósent samdrátt í markaðsvirði félagsins á árinu 2019. Markaðsvirðið er nú einungis um 8,4 milljarðar króna sem gerir Sýn að ódýrasta félaginu í Kauphöll og því eina sem er undir tveggja stafa tölu af milljörðum króna í virði.
Sjávarútvegsfyrirtækið Iceland Seafood, sem sérhæfir sig í sölu á sjávarafurðum, hefur hríðfallið í virði á árinu 2020, eða um 23,97 prósent.
Það bafa náðir bankarnir sem skráðir eru á markað, Kvika banki (22,31 prósent) og Arion banki (36,04 prósent) einnig gert. Í tilfelli Arion banka hefur samdrátturinn í markaðsvirði raunar einungis verið hlutfallslega meiri í einu félagi sem skráð er á markað, Icelandair.
Og þau sem hafa lækkað mest
Hið gríðarlega fall í virði Arion banka má tengja við það að hann er mun umsvifameiri í útlánum en t.d. Kvika banki og fyrirliggjandi að viðskiptavinir hans í ferðaþjónustu, og ýmsum öðrum geirum sem verða fyrir áhrifum vegna ástandsins, muni lenda í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sínar. Þá hafa stjórnvöld beint þeim skilaboðum til stóru viðskiptabankanna þriggja; Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka, að það sé ætlast til að þeir borgi hvorki út arð né ráðist í endurkaup á eigin bréfum í ljósi þess að verulega hefur verið losað um hömlur á eigin fé þeirra til að mæta stöðunni í atvinnulífinu. Arion banki, sá eini af kerfislega mikilvægu bönkunum, hefur þó hingað til einungis ákveðið að fresta tíu milljarða króna arðgreiðslu vegna síðasta árs í tvo mánuði og stjórn hans endurnýjaði heimild til endurkaupa á aðalfundi bankans þann 17. mars. Markaðsvirði Arion banka er nú um 100 milljarðar króna en til samanburðar nam bókfært eigið fé bankans 189 milljörðum króna um síðustu áramót.
Eimskip hafa líka farið ansi illa út úr síðustu þremur mánuðum. Raunar hefur rekstur félagsins verið þungur undanfarin þrjú ár og hagnaður þess dregist saman ár frá ári. Þann 10. mars síðastliðinn virkjaði sjávarútvegsrisinn Samherji, sem var fyrir stærsti eigandi Eimskips, yfirtökuskyldu í félaginu með því að fara yfir 30 prósent eignarhlut. Tíu dögum síðar höfðu rekstraraðstæður Eimskips versnað til muna með lokun flestra lykilmarkaða Íslands í heiminum vegna baráttunnar við kórónuveirunar, og Samherji biðlaði til Fjármálaeftirlits Seðlabankans um að hleypa sér undan yfirtökuskyldunni. Eftirlitið varð við þeirri beiðni á þriðjudag.
Virði bréfa í Eimskip hafa fallið um 34,3 prósent það sem af er ári. Það þýðir að rúmur þriðjungur af markaðsvirði félagsins er horfinn.
Það félag sem fallið hefur mest í virði er eðlilega Icelandair Group. Alls hafa hlutabréf í félaginu fallið um 50,99 prósent á þremur mánuðum og virði þeirra nú er 3,7 krónur á hlut. Það þýðir að markaðsvirði Icelandair er nú einungis 20,1 milljarðar króna. Það var um 42 milljarðar króna í lok síðasta árs. Hæst reis það í apríl 2016 og fór þá í 191,5 milljarð króna.
Starfsemi Icelandair er nú í lamasessi og flota félagsins hefur verið lagt tímabundið að mestu. Fyrirtækið sagði upp 240 manns í síðustu viku og 92 prósent eftirstandandi starfsmanna þess voru fluttir í hlutabótaúrræði stjórnvalda, þar sem allt að 75 prósent af greiddum launum koma úr ríkissjóði.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi