Almenningur verður að fá meira að segja um gang mála
Alvarlegt ástand er nú komið upp í íslensku efnahagslífi. Mörg hundruð milljarða króna tap í ríkisrekstri er fyrirséð, tugir þúsunda verða án atvinnu að öllu leyti eða að hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn talaði við fulltrúa í stjórnarandstöðunni til þess að kanna hvernig þeir sæju framtíðina fyrir sér – og hvaða leiðir væru bestar út úr þessu ástandi. Að endingu er rætt við formann Miðflokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson.
Það sem ég myndi auðvitað vilja sjá er að meiri skynsemi verði ríkjandi hér á Íslandi – en þar er lykilatriðið að meira lýðræði verði ríkjandi. Það sem ég á við með því er að ég hef lengi haft áhyggjur af því og oft talað um að það sem ég kalla kerfisræði sé alltaf að aukast.“
Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, um hvernig hann sér fyrir sér Ísland framtíðarinnar. Hann segir að ákveðin tækifæri liggi í stórum krísum á borð við þá sem heimurinn gengur nú í gegnum og að hann hefði viljað að Íslendingar myndu endurmeta hlutina – og vonandi nýta þessi stóru tækifæri til þess að gera ákveðnar breytingar.
„En í ljósi reynslunnar þá held ég að hlutirnir breytist ekki eins mikið og eins hratt og við myndum vilja. Því að mannfólk er vanafast í eðli sínu og á það til að fara tiltölulega fljótt aftur í sama farið,“ segir hann.
Hann bendir á að margir séu nú til að mynda farnir að heilsast og eiga í sömu samskiptum á mannamótum. Það sama megi segja um hvernig landinu sé stjórnað og hvernig það sé rekið.
Í sambandi við lýðræðispælingar Sigmundar Davíðs segir hann að stjórnmálamenn séu sífellt að gefa frá sér vald til ókjörinna fulltrúa sem eigi það ekki til að byrja með.
„Stjórnmálamenn fá að fara með valdið fyrir almenning og kjósendur og hafa til þess fjögur ár áður en þeir eru dæmdir aftur af kjósendum. Þannig að þegar stjórnmálamenn færa ákvörðunarvaldið hvernig samfélagið er rekið eitthvert annað, hvort sem það sé til embættismanna, sérfræðinga, nefnda eða stofnana – eða hvaða nöfnum sem það nefndist – þá eru þeir að mínu mati að veikja lýðræðið.“
Stjórnmálamennirnir þurfa að taka aftur til sín valdið
Sigmundur Davíð segir að það sé sama hvað fólk kýs – alltaf komi út sama niðurstaðan. Alltaf skipti minna og minna máli hver þessi niðurstaða verði því að kerfið stjórni áfram og stjórnmálamennirnir séu á meðan uppteknir við persónulegar leiðir til þess að vinna að sínum málum.
„Ég er samt í smá bjartsýniskasti í öllum þessum hremmingum núna og er að vonast til að þetta gæti orðið punktur til þess að breyta þessu og við færum aftur að trúa á lýðræðið að því marki að almenningur fengi meira að segja um gang mála.“
Það þurfi að gerast með ýmsum hætti. „Það þarf að gerast með því að stjórnmálamennirnir taki sér aftur vald – og auðvitað hljómar þetta illa – en það þarf að gera þetta að pólitísku valdi. Pólitískt vald hljómar illa en faglegar ákvarðanir hljóma vel. En pólitískar ákvarðanir eru engu að síður lýðræðislegar ákvarðanir, þannig að ég hefði viljað sjá stjórnmálamennina vera frakkari í því að taka ákvarðanir og bera ábyrgð á þeim.
Svo þurfum við líka að sjá beinni aðkomu fólks að gangi máli en það er eitt af því sem hefur verið rætt í sambandi við stjórnarskrárvinnuna.“
Hann segir að stjórnmálaafskipti hans hafi byrjað í baráttu fyrir því að reyna að láta almenning og þjóðina hafa meiri áhrif í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann segist vilja sjá meiri aðkomu almennings að því að setja mál á dagskrá. „Mér hefur fundist galli á þeirri vinnu sem menn hafa verið að vinna í sambandi við stjórnarskrárbreytingar þar sem mikið er einblínt á möguleika fólks til að grípa inn í það sem stjórnmálin eru að gera. Jú, það þarf að vera til staðar eins og við höfum séð dæmi um á undanförnum árum. En við megum ekki gleyma þeim möguleika fólks á milli kosninga að koma málum í umræðu og jafnvel meðferðar hér á þinginu,“ segir hann en telur þó ekki að Íslendingar ættu að ganga alveg jafn langt og Svisslendingar en þar í landi er kosið reglulega í þjóðaratkvæðagreiðslu um hin ýmsu mál.
Hann segist vilja með þessu auka áhuga fólks á stjórnmálum og samfélagsmálum og trú þess á að það geti haft áhrif. Þá þurfi fólkið betur að geta komið að því að setja mál á dagskrá hér á landi.
Vildu ekki að fólk upplifði mismunum
Sigmundur Davíð segir að þegar faraldurinn kom fyrst upp hafi blasað við að Ísland yrði fyrir mjög stóru áfalli og að höggið væri mikið fyrir samfélagið í heild sinni. Í framhaldinu hafi Miðflokkurinn ákveðið að birta sínar eigin tillögur að viðbrögðum. Sigmundur Davíð segir að þær tillögur hafi vakið takmarkaða athygli – eins og kannski eðlilegt væri við aðstæður sem þessar.
„Ríkisstjórnin var ekki mikið að pæla í því hvað stjórnarandstaðan hafði að segja en ég hef ákveðinn skilning á því. Þannig að við birtum auglýsingar í blöðunum með þessum tillögum og meginhugsunin með þeim var að þær væru tiltölulega einfaldar og hægt væri að hrinda þeim í framkvæmd fljótt og almennar. Þannig að menn sætu ekki uppi með einhver álitamál til margra ára eins og gerðist að einhverju leyti eftir bankahrunið.
Það yrði að lágmarka það að menn hefðu ástæðu til að ætla að þeim hefði verið mismunað. Það var meginhugmyndin með aðgerðum okkar,“ segir hann.
Ákveðin PR-kynning – með litlu innihaldi
Ríkisstjórnin kynnti sínar fyrstu tillögur – eða fyrsta aðgerðapakkann svokallaða – á blaðamannafundi í Hörpu þann 21. mars síðastliðinn og voru þau í stjórnarandstöðunni kölluð á fund í aðdraganda kynningarinnar. „Ég hef skilning á því að það eru takmörk fyrir því hversu mikið hægt er að blanda stjórnarandstöðunni í undirbúning á aðgerðum við þessar aðstæður – en samt var þetta sérstakt að því leyti að það sem var kynnt fyrir okkur var einungis hluti af því sem fram kom í Hörpu þar sem allt snerist um að setja einhverja upphæð á aðgerðirnar: 230 milljarðar sem umfang aðgerðanna sem hafði ekkert verið nefnt með stjórnarandstöðunni.“
Sigmundur Davíð segir að honum hafi fundist þetta markast mjög af því að þetta væri PR-kynning en hafi minna snúist um innihald. „Þegar ég fór að skoða hvað væri að baki þessum 230 milljörðum þá var megnið af þessu hugsanleg lán úr bönkunum, brúarlánin, og hugsanleg frestun á sköttum – engin raunveruleg innspýting.
En hvað um það, við tókum bara vel í þetta og ég sagði þá strax – og hef haldið mig meira og minna við þá stefnu alveg fram á það síðasta – að við myndum styðja allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem miða að því að bregðast við þessu ástandi og ýta undir að þær færu sem hraðast í gegnum þingið,“ segir hann.
Tók of langan tíma að komast í framkvæmd
Sigmundur Davíð rifjar upp aðgerðapakka tvö frá ríkisstjórninni sem hún kynnti mánuði eftir þann fyrsta. Hann segir að sá aðgerðapakki hafi ekki vakið jafn mikla lukku. „Svo var allt í einu hent í þriðja pakkann og boðað til þriðja blaðamannafundarins. En hvað sem því líður þá hefur þetta tekið allt saman svolítið langan tíma að komast í framkvæmd.“
Sigmundur nefnir sem dæmi lokunarstyrkina til litlu fyrirtækjanna „sem koma eftir að fyrirtækin eru búin að vera lokuð vikum saman. Fólkið hefur væntanlega ekki getað greitt sér nein laun og menn búnir að bíða launalausir eftir að hafa verið sagt af ríkinu að þeir þyrftu að loka – og þá kemur þetta núna svolítið seint. En allt í lagi með það, það er betra en ekkert,“ segir hann.
Hann segist hafa viljað gera hlutina öðruvísi en hann taldi mikilvægt við þessar aðstæður að ríkisstjórnin þyrfti ekki að sitja uppi með tafir eða óhóflega gagnrýni frá stjórnarandstöðunni því aðalatriðið væri að koma þessum málum í framkvæmd sem hraðast.
Má ekki gleyma að gagnrýna
„Eins og ég sagði áðan þá finnst mér það ekki hafa gengið nægilega hratt að framkvæma og auðvitað hafa ákveðnar aðgerðir reynst að sumu leyti gallaðar – að sumu leyti er það fyrirsjáanlegt og að öðru leyti getur maður aldrei séð fyrir ákveðna hluti í svona aðstæðum.“
Sigmundur Davíð tekur sem dæmi hlutabótaleiðina en hann segir að honum hefði fundist sérkennilegt þegar búið var að samþykkja þá leið að ráðherrann sem fór með málið og ríkisstjórnin öll hefði fagnað því hversu mikið leiðin væri notuð – hversu mörg fyrirtæki tækju þátt í henni. „Því maður hefði haldið að þetta væru slæmar fréttir að margir vildu setja starfsmenn sína á hlutabætur. En þannig var þessu samt stillt upp, nánast eins og sem flestir ættu að nýta þetta úrræði. Svo átta menn sig á því að fyrirtæki sem höfðu ekkert með það að gera væru að nota úrræðið en það mátti vera fyrirséð.“
Hann segir jafnframt að stjórnarandstaðan hefði jafnvel getað verið gagnrýnni á þessum tíma en enn fremur að það geti reynst erfitt að feta milliveg í þeim málum. „Þegar maður vill flýta fyrir að eitthvað ákveðið sé gert, þá verður maður samt að passa að gleyma ekki gagnrýninni því að hún skiptir alltaf máli í stjórnmálunum.“
Íslenskt samfélag hefur mikla aðlögunarhæfni
Leiðir út úr ástandinu eru ýmiss konar og margar, að mati Sigmundar Davíðs. Hann telur að Ísland eigi eftir að koma vel út úr þessum kafla, jafnvel betur en margar aðrar þjóðir.
„Auðvitað skiptir miklu máli að heilbrigðismálið hafi verið tekin mjög föstum tökum hér því allt er þetta afleiðing af því en auk þess vorum við efnahagslega betur í stakk búin frekar en flestir aðrir til að takast á við svona áfall. Ég held að, verandi þetta lítið samfélag en þó þróað, þá höfum við mikla aðlögunarhæfni þannig að ég er orðinn alveg töluvert bjartsýnn á að við eigum að geta farið nokkuð vel út úr þessu.
Það sem ég hef mestar áhyggjur af, og hefur enn ekki verið til lykta lagt, eru ákveðnir veikleikar sem voru undirliggjandi að mínu mati í alþjóðlega hagkerfinu fyrir þetta. Því þá hafði síðan í fjármálakrísunni fyrir rúmum áratug verið meira og minna stöðugur uppgangur,“ segir hann og bætir því við að hann hafi verið farinn að óttast að ný bóla væri farin að myndast – sem undir einhverjum aðstæðum fyrr eða síðar myndi springa.
„Svo kemur þessi risaskellur og þá óttast maður að það verði það sem sprengi bóluna, til dæmis varðandi ríkisskuldir sem eru algjörlega ósjálfbærar í mörgum löndum og stöðu fjármálakerfisins – og þá sérstaklega í Evrópu sem hefur aldrei náð sér eftir fjármálakrísuna á sínum tíma.“
Þannig hafi hann óttast að jafnvel þó Íslendingar kæmust í gegnum heilbrigðisvandann þá yrði þetta til að sprengja þessa bólu sem hafi byggst upp.
„Það hefur tekist að fresta því en hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum og Evrópu eru aftur á uppleið. Ég hef samt sem áður ennþá áhyggjur af því að það sem gæti reynst okkur erfiðast í þessu séu veikleikar í hagkerfum landanna sem við treystum á viðskipti við,“ segir hann.
Baráttan við báknið
Varðandi það hvernig íslenskt samfélag muni komast út úr þeim efnahagserfiðleikum sem skapast hafa meðal annars vegna COVID-19 faraldursins þá segir Sigmundur Davíð að hann hafi verið mjög svartsýnn á efnahagsástandið þrátt fyrir að hafa verið meðvitaður um að Ísland væri í betri stöðu en mörg önnur lönd. „En núna sýnist mér að ef þetta fer ekki mjög illa og ef ekki verður önnur fjármálakreppa í Evrópu þá geti Ísland komist mjög fljótt upp úr þessu.
En það er háð því að við nýtum tækifærin til þess að vera fljót af stað þegar færi gefst. Og þá komum við að því sem mér finnst mjög mikilvægt en það er baráttan við báknið; að það verði auðveldara fyrir fólk að bjarga sér, að stofna fyrirtæki, að byggja þau upp og ráða fólk í vinnu, finna upp nýja hluti og búa til verðmæti úr þeim.“
Hann telur að hér á landi, sem og annars staðar, hafi hlutirnir færst allt of mikið í þá átt að ríkið setji hindranir í veg fólks í stað þess að vera í þjónustuhlutverki og reyna að aðstoða þá sem geri það sem gagnist samfélaginu.
Ekki séríslenskt vandamál
Þá þurfi í fyrsta lagi að einfalda kerfið, annars vegar til þess að áherslan verði meira á þjónustu við almenning og hins vegar þurfi að lækka kostnaðinn – ekki einungis fyrir þá sem þurfi að fást við kerfið og útgjöldin sem þeir standi frammi fyrir heldur einnig fyrir skattgreiðendur. Það sem fari í báknið nýtist ekki í grunnþjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu og menntakerfið.
„Þetta er auðvitað ekki eitthvað séríslenskt vandamál. Víða á Vesturlöndum er það eðli báknsins að stækka og stækka og verða dýrara og dýrara – og á sama tíma eru velferðarkerfi þessara landa í mikilli vörn og þurfa meira og meira fjármagn. Ég held að það þurfi að taka mjög róttækar ákvarðanir til að taka á þessu.“
Allt veltur á því að ákvarðanatakan verði í lagi
Sigmundur Davíð segist vera mjög bjartsýnn á framtíð íslensks samfélags og miklu bjartsýnni en hann var fyrir ekki svo löngu. „Ég hafði verulegar áhyggjur af því hvert stefndi fyrir nokkrum vikum síðan. Nú er ég miklu bjartsýnni en allt veltur á því að ákvarðanatakan verði í lagi því að ég hef tekið eftir því, þrátt fyrir allt þetta í sambandi við kerfið og að aðrir stjórni en stjórnmálamenn, að þegar stjórnmálamenn koma með stefnu og fylgja henni eftir þá er hægt að gera mjög stórar breytingar sem skipta máli. Þess vegna er niðurstaðan hjá mér í bili að ef við fylgjum skynsamlegri stefnu hér sé framtíðin mjög björt á Íslandi,“ segir hann.
Auðvitað verði alltaf gerð einhver mistök en ef menn gera of mörg mistök við stjórn landsins eða eftirláta einhverjum öðrum en almenningi að stjórna þá geti hlutirnir farið mjög illa og góð staða hratt breyst til hins verra.
Þannig séu Íslendingar á mjög krítískum tíma. „Ákvarðanir skipta alltaf máli en þær skipta óvenjulega miklu máli núna.“
Sigmundur Davíð segir að lokum að hann sé mikill lýðræðissinni. „Ef maður trúir því raunverulega að almenningur sé best til þess fallinn að taka ákvarðanir um eigin framtíð og hvernig landinu sé stjórnað þá þarf að vera beint samband þarna á milli. Þú þarft, í kosningum, að finna að það skipti einhverju máli hvernig atkvæði þínu er varið og þú þarft að hafa val um ólíka stefnu en ekki einhverja ólíka karaktera sem komast í gegnum kjörtímabilið án þess að verða of umdeildir,“ segir hann.
„Þá lendir þú í því að við þarna hinum megin,“ segir hann og bendir á Alþingishúsið, „séum stöðugt með skítkast út í hvort annað í staðinn fyrir að deila um grundvallaratriði og kjósendur geti síðan valið á milli.“
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði