Bára Huld Beck

Almenningur verður að fá meira að segja um gang mála

Alvarlegt ástand er nú komið upp í íslensku efnahagslífi. Mörg hundruð milljarða króna tap í ríkisrekstri er fyrirséð, tugir þúsunda verða án atvinnu að öllu leyti eða að hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn talaði við fulltrúa í stjórnarandstöðunni til þess að kanna hvernig þeir sæju framtíðina fyrir sér – og hvaða leiðir væru bestar út úr þessu ástandi. Að endingu er rætt við formann Miðflokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Það sem ég myndi auð­vitað vilja sjá er að meiri skyn­semi verði ríkj­andi hér á Íslandi – en þar er lyk­il­at­riðið að meira lýð­ræði verði ríkj­andi. Það sem ég á við með því er að ég hef lengi haft áhyggjur af því og oft talað um að það sem ég kalla kerf­is­ræði sé alltaf að aukast.“

Þetta segir Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokks­ins, um hvernig hann sér fyrir sér Ísland fram­tíð­ar­inn­ar. Hann segir að ákveðin tæki­færi liggi í stórum krísum á borð við þá sem heim­ur­inn gengur nú í gegnum og að hann hefði viljað að Íslend­ingar myndu end­ur­meta hlut­ina – og von­andi nýta þessi stóru tæki­færi til þess að gera ákveðnar breyt­ing­ar. 

„En í ljósi reynsl­unnar þá held ég að hlut­irnir breyt­ist ekki eins mikið og eins hratt og við myndum vilja. Því að mann­fólk er vanaf­ast í eðli sínu og á það til að fara til­tölu­lega fljótt aftur í sama far­ið,“ segir hann. 

Hann bendir á að margir séu nú til að mynda farnir að heils­ast og eiga í sömu sam­skiptum á manna­mót­um. Það sama megi segja um hvernig land­inu sé stjórnað og hvernig það sé rek­ið. 

Auglýsing

Í sam­bandi við lýð­ræðispæl­ingar Sig­mundar Dav­íðs segir hann að stjórn­mála­menn séu sífellt að gefa frá sér vald til ókjör­inna full­trúa sem eigi það ekki til að byrja með.

„Stjórn­mála­menn fá að fara með valdið fyrir almenn­ing og kjós­endur og hafa til þess fjögur ár áður en þeir eru dæmdir aftur af kjós­end­um. Þannig að þegar stjórn­mála­menn færa ákvörð­un­ar­valdið hvernig sam­fé­lagið er rekið eitt­hvert ann­að, hvort sem það sé til emb­ætt­is­manna, sér­fræð­inga, nefnda eða stofn­ana – eða hvaða nöfnum sem það nefnd­ist – þá eru þeir að mínu mati að veikja lýð­ræð­ið.“

Stjórn­mála­menn­irnir þurfa að taka aftur til sín valdið

Sig­mundur Davíð segir að það sé sama hvað fólk kýs – alltaf komi út sama nið­ur­stað­an. Alltaf skipti minna og minna máli hver þessi nið­ur­staða verði því að kerfið stjórni áfram og stjórn­mála­menn­irnir séu á meðan upp­teknir við per­sónu­legar leiðir til þess að vinna að sínum mál­um.

„Ég er samt í smá bjart­sýniskasti í öllum þessum hremm­ingum núna og er að von­ast til að þetta gæti orðið punktur til þess að breyta þessu og við færum aftur að trúa á lýð­ræðið að því marki að almenn­ingur fengi meira að segja um gang mála.“

Það þurfi að ger­ast með ýmsum hætti. „Það þarf að ger­ast með því að stjórn­mála­menn­irnir taki sér aftur vald – og auð­vitað hljómar þetta illa – en það þarf að gera þetta að póli­tísku valdi. Póli­tískt vald hljómar illa en fag­legar ákvarð­anir hljóma vel. En póli­tískar ákvarð­anir eru engu að síður lýð­ræð­is­legar ákvarð­an­ir, þannig að ég hefði viljað sjá stjórn­mála­menn­ina vera frakk­ari í því að taka ákvarð­anir og bera ábyrgð á þeim.

Svo þurfum við líka að sjá beinni aðkomu fólks að gangi máli en það er eitt af því sem hefur verið rætt í sam­bandi við stjórn­ar­skrár­vinn­una.“

Sigmundur Davíð segir að pólitískar ákvarðanir séu lýðræðislegar ákvarðanir.
Bára Huld Beck

Hann segir að stjórn­mála­af­skipti hans hafi byrjað í bar­áttu fyrir því að reyna að láta almenn­ing og þjóð­ina hafa meiri áhrif í gegnum þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu. Hann seg­ist vilja sjá meiri aðkomu almenn­ings að því að setja mál á dag­skrá. „Mér hefur fund­ist galli á þeirri vinnu sem menn hafa verið að vinna í sam­bandi við stjórn­ar­skrár­breyt­ingar þar sem mikið er ein­blínt á mögu­leika fólks til að grípa inn í það sem stjórn­málin eru að gera. Jú, það þarf að vera til staðar eins og við höfum séð dæmi um á und­an­förnum árum. En við megum ekki gleyma þeim mögu­leika fólks á milli kosn­inga að koma málum í umræðu og jafn­vel með­ferðar hér á þing­in­u,“ segir hann en telur þó ekki að Íslend­ingar ættu að ganga alveg jafn langt og Sviss­lend­ingar en þar í landi er kosið reglu­lega í þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu um hin ýmsu mál.

Hann seg­ist vilja með þessu auka áhuga fólks á stjórn­málum og sam­fé­lags­málum og trú þess á að það geti haft áhrif. Þá þurfi fólkið betur að geta komið að því að setja mál á dag­skrá hér á landi.

Vildu ekki að fólk upp­lifði mis­munum

Sig­mundur Davíð segir að þegar far­ald­ur­inn kom fyrst upp hafi blasað við að Ísland yrði fyrir mjög stóru áfalli og að höggið væri mikið fyrir sam­fé­lagið í heild sinni. Í fram­hald­inu hafi Mið­flokk­ur­inn ákveðið að birta sínar eigin til­lögur að við­brögð­um. Sig­mundur Davíð segir að þær til­lögur hafi vakið tak­mark­aða athygli – eins og kannski eðli­legt væri við aðstæður sem þess­ar.

„Rík­is­stjórnin var ekki mikið að pæla í því hvað stjórn­ar­and­staðan hafði að segja en ég hef ákveð­inn skiln­ing á því. Þannig að við birtum aug­lýs­ingar í blöð­unum með þessum til­lögum og meg­in­hugs­unin með þeim var að þær væru til­tölu­lega ein­faldar og hægt væri að hrinda þeim í fram­kvæmd fljótt og almenn­ar. Þannig að menn sætu ekki uppi með ein­hver álita­mál til margra ára eins og gerð­ist að ein­hverju leyti eftir banka­hrun­ið.

Það yrði að lág­marka það að menn hefðu ástæðu til að ætla að þeim hefði verið mis­mun­að. Það var meg­in­hug­myndin með aðgerðum okk­ar,“ segir hann.

Ákveðin PR-kynn­ing – með litlu inni­haldi

Rík­is­stjórnin kynnti sínar fyrstu til­lögur – eða fyrsta aðgerða­pakk­ann svo­kall­aða – á blaða­manna­fundi í Hörpu þann 21. mars síð­ast­lið­inn og voru þau í stjórn­ar­and­stöð­unni kölluð á fund í aðdrag­anda kynn­ing­ar­inn­ar. „Ég hef skiln­ing á því að það eru tak­mörk fyrir því hversu mikið hægt er að blanda stjórn­ar­and­stöð­unni í und­ir­bún­ing á aðgerðum við þessar aðstæður – en samt var þetta sér­stakt að því leyti að það sem var kynnt fyrir okkur var ein­ungis hluti af því sem fram kom í Hörpu þar sem allt sner­ist um að setja ein­hverja upp­hæð á aðgerð­irn­ar: 230 millj­arðar sem umfang aðgerð­anna sem hafði ekk­ert verið nefnt með stjórn­ar­and­stöð­unn­i.“

Sig­mundur Davíð segir að honum hafi fund­ist þetta markast mjög af því að þetta væri PR-kynn­ing en hafi minna snú­ist um inni­hald. „Þegar ég fór að skoða hvað væri að baki þessum 230 millj­örðum þá var megnið af þessu hugs­an­leg lán úr bönk­un­um, brú­ar­lán­in, og hugs­an­leg frestun á sköttum – engin raun­veru­leg inn­spýt­ing.

En hvað um það, við tókum bara vel í þetta og ég sagði þá strax – og hef haldið mig meira og minna við þá stefnu alveg fram á það síð­asta – að við myndum styðja allar aðgerðir rík­is­stjórn­ar­innar sem miða að því að bregð­ast við þessu ástandi og ýta undir að þær færu sem hrað­ast í gegnum þing­ið,“ segir hann.

Auglýsing

Tók of langan tíma að kom­ast í fram­kvæmd

Sig­mundur Davíð rifjar upp aðgerða­pakka tvö frá rík­is­stjórn­inni sem hún kynnti mán­uði eftir þann fyrsta. Hann segir að sá aðgerða­pakki hafi ekki vakið jafn mikla lukku. „Svo var allt í einu hent í þriðja pakk­ann og boðað til þriðja blaða­manna­fund­ar­ins. En hvað sem því líður þá hefur þetta tekið allt saman svo­lítið langan tíma að kom­ast í fram­kvæmd.“

Sig­mundur nefnir sem dæmi lok­un­ar­styrk­ina til litlu fyr­ir­tækj­anna „sem koma eftir að fyr­ir­tækin eru búin að vera lokuð vikum sam­an. Fólkið hefur vænt­an­lega ekki getað greitt sér nein laun og menn búnir að bíða launa­lausir eftir að hafa verið sagt af rík­inu að þeir þyrftu að loka – og þá kemur þetta núna svo­lítið seint. En allt í lagi með það, það er betra en ekk­ert,“ segir hann.

Hann seg­ist hafa viljað gera hlut­ina öðru­vísi en hann taldi mik­il­vægt við þessar aðstæður að rík­is­stjórnin þyrfti ekki að sitja uppi með tafir eða óhóf­lega gagn­rýni frá stjórn­ar­and­stöð­unni því aðal­at­riðið væri að koma þessum málum í fram­kvæmd sem hrað­ast.

Sigmundur Davíð hefði viljað sjá aðgerðir ríkisstjórnarinnar ganga hraðar fyrir sig.
Bára Huld Beck

Má ekki gleyma að gagn­rýna

„Eins og ég sagði áðan þá finnst mér það ekki hafa gengið nægi­lega hratt að fram­kvæma og auð­vitað hafa ákveðnar aðgerðir reynst að sumu leyti gall­aðar – að sumu leyti er það fyr­ir­sjá­an­legt og að öðru leyti getur maður aldrei séð fyrir ákveðna hluti í svona aðstæð­u­m.“

Sig­mundur Davíð tekur sem dæmi hluta­bóta­leið­ina en hann segir að honum hefði fund­ist sér­kenni­legt þegar búið var að sam­þykkja þá leið að ráð­herr­ann sem fór með málið og rík­is­stjórnin öll hefði fagnað því hversu mikið leiðin væri notuð – hversu mörg fyr­ir­tæki tækju þátt í henni. „Því maður hefði haldið að þetta væru slæmar fréttir að margir vildu setja starfs­menn sína á hluta­bæt­ur. En þannig var þessu samt stillt upp, nán­ast eins og sem flestir ættu að nýta þetta úrræði. Svo átta menn sig á því að fyr­ir­tæki sem höfðu ekk­ert með það að gera væru að nota úrræðið en það mátti vera fyr­ir­séð.“

Hann segir jafn­framt að stjórn­ar­and­staðan hefði jafn­vel getað verið gagn­rýnni á þessum tíma en enn fremur að það geti reynst erfitt að feta milli­veg í þeim mál­um. „Þegar maður vill flýta fyrir að eitt­hvað ákveðið sé gert, þá verður maður samt að passa að gleyma ekki gagn­rýn­inni því að hún skiptir alltaf máli í stjórn­mál­un­um.“

Íslenskt sam­fé­lag hefur mikla aðlög­un­ar­hæfni

Leiðir út úr ástand­inu eru ýmiss konar og marg­ar, að mati Sig­mundar Dav­íðs. Hann telur að Ísland eigi eftir að koma vel út úr þessum kafla, jafn­vel betur en margar aðrar þjóð­ir.

„Auð­vitað skiptir miklu máli að heil­brigð­is­málið hafi verið tekin mjög föstum tökum hér því allt er þetta afleið­ing af því en auk þess vorum við efna­hags­lega betur í stakk búin frekar en flestir aðrir til að takast á við svona áfall. Ég held að, ver­andi þetta lítið sam­fé­lag en þó þró­að, þá höfum við mikla aðlög­un­ar­hæfni þannig að ég er orð­inn alveg tölu­vert bjart­sýnn á að við eigum að geta farið nokkuð vel út úr þessu.

Það sem ég hef mestar áhyggjur af, og hefur enn ekki verið til lykta lagt, eru ákveðnir veik­leikar sem voru und­ir­liggj­andi að mínu mati í alþjóð­lega hag­kerf­inu fyrir þetta. Því þá hafði síðan í fjár­málakrís­unni fyrir rúmum ára­tug verið meira og minna stöð­ugur upp­gang­ur,“ segir hann og bætir því við að hann hafi verið far­inn að ótt­ast að ný bóla væri farin að mynd­ast – sem undir ein­hverjum aðstæðum fyrr eða síðar myndi springa.

„Svo kemur þessi risa­skellur og þá ótt­ast maður að það verði það sem sprengi bóluna, til dæmis varð­andi rík­is­skuldir sem eru algjör­lega ósjálf­bærar í mörgum löndum og stöðu fjár­mála­kerf­is­ins – og þá sér­stak­lega í Evr­ópu sem hefur aldrei náð sér eftir fjár­málakrís­una á sínum tíma.“

Þannig hafi hann ótt­ast að jafn­vel þó Íslend­ingar kæmust í gegnum heil­brigð­is­vand­ann þá yrði þetta til að sprengja þessa bólu sem hafi byggst upp.

„Það hefur tek­ist að fresta því en hluta­bréfa­mark­aðir í Banda­ríkj­unum og Evr­ópu eru aftur á upp­leið. Ég hef samt sem áður ennþá áhyggjur af því að það sem gæti reynst okkur erf­ið­ast í þessu séu veik­leikar í hag­kerfum land­anna sem við treystum á við­skipti við,“ segir hann.

Bar­áttan við báknið

Varð­andi það hvernig íslenskt sam­fé­lag muni kom­ast út úr þeim efna­hags­erf­ið­leikum sem skap­ast hafa meðal ann­ars vegna COVID-19 far­ald­urs­ins þá segir Sig­mundur Davíð að hann hafi verið mjög svart­sýnn á efna­hags­á­standið þrátt fyrir að hafa verið með­vit­aður um að Ísland væri í betri stöðu en mörg önnur lönd. „En núna sýn­ist mér að ef þetta fer ekki mjög illa og ef ekki verður önnur fjár­málakreppa í Evr­ópu þá geti Ísland kom­ist mjög fljótt upp úr þessu.

En það er háð því að við nýtum tæki­færin til þess að vera fljót af stað þegar færi gefst. Og þá komum við að því sem mér finnst mjög mik­il­vægt en það er bar­áttan við bákn­ið; að það verði auð­veld­ara fyrir fólk að bjarga sér, að stofna fyr­ir­tæki, að byggja þau upp og ráða fólk í vinnu, finna upp nýja hluti og búa til verð­mæti úr þeim.“

Hann telur að hér á landi, sem og ann­ars stað­ar, hafi hlut­irnir færst allt of mikið í þá átt að ríkið setji hindr­anir í veg fólks í stað þess að vera í þjón­ustu­hlut­verki og reyna að aðstoða þá sem geri það sem gagn­ist sam­fé­lag­inu.

Ekki sér­ís­lenskt vanda­mál

Þá þurfi í fyrsta lagi að ein­falda kerf­ið, ann­ars vegar til þess að áherslan verði meira á þjón­ustu við almenn­ing og hins vegar þurfi að lækka kostn­að­inn – ekki ein­ungis fyrir þá sem þurfi að fást við kerfið og útgjöldin sem þeir standi frammi fyrir heldur einnig fyrir skatt­greið­end­ur. Það sem fari í báknið nýt­ist ekki í grunn­þjón­ustu á borð við heil­brigð­is­þjón­ustu og mennta­kerf­ið.

„Þetta er auð­vitað ekki eitt­hvað sér­ís­lenskt vanda­mál. Víða á Vest­ur­löndum er það eðli bákns­ins að stækka og stækka og verða dýr­ara og dýr­ara – og á sama tíma eru vel­ferð­ar­kerfi þess­ara landa í mik­illi vörn og þurfa meira og meira fjár­magn. Ég held að það þurfi að taka mjög rót­tækar ákvarð­anir til að taka á þessu.“

Auglýsing

Allt veltur á því að ákvarð­ana­takan verði í lagi

Sig­mundur Davíð seg­ist vera mjög bjart­sýnn á fram­tíð íslensks sam­fé­lags og miklu bjart­sýnni en hann var fyrir ekki svo löngu. „Ég hafði veru­legar áhyggjur af því hvert stefndi fyrir nokkrum vikum síð­an. Nú er ég miklu bjart­sýnni en allt veltur á því að ákvarð­ana­takan verði í lagi því að ég hef tekið eftir því, þrátt fyrir allt þetta í sam­bandi við kerfið og að aðrir stjórni en stjórn­mála­menn, að þegar stjórn­mála­menn koma með stefnu og fylgja henni eftir þá er hægt að gera mjög stórar breyt­ingar sem skipta máli. Þess vegna er nið­ur­staðan hjá mér í bili að ef við fylgjum skyn­sam­legri stefnu hér sé fram­tíðin mjög björt á Ísland­i,“ segir hann.

Auð­vitað verði alltaf gerð ein­hver mis­tök en ef menn gera of mörg mis­tök við stjórn lands­ins eða eft­ir­láta ein­hverjum öðrum en almenn­ingi að stjórna þá geti hlut­irnir farið mjög illa og góð staða hratt breyst til hins verra.

Þannig séu Íslend­ingar á mjög krítískum tíma. „Ákvarð­anir skipta alltaf máli en þær skipta óvenju­lega miklu máli nún­a.“

Sig­mundur Davíð segir að lokum að hann sé mik­ill lýð­ræð­is­sinni. „Ef maður trúir því raun­veru­lega að almenn­ingur sé best til þess fall­inn að taka ákvarð­anir um eigin fram­tíð og hvernig land­inu sé stjórnað þá þarf að vera beint sam­band þarna á milli. Þú þarft, í kosn­ing­um, að finna að það skipti ein­hverju máli hvernig atkvæði þínu er varið og þú þarft að hafa val um ólíka stefnu en ekki ein­hverja ólíka karakt­era sem kom­ast í gegnum kjör­tíma­bilið án þess að verða of umdeild­ir,“ segir hann.

„Þá lendir þú í því að við þarna hinum meg­in,“ segir hann og bendir á Alþing­is­hús­ið, „séum stöðugt með skít­kast út í hvort annað í stað­inn fyrir að deila um grund­vall­ar­at­riði og kjós­endur geti síðan valið á milli.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal