Nokkuð hefur gustað í vikunni um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra og formann Samfylkingarinnar og síðar forstjóra Lýðræðis- og mannréttindastofnunar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ODIHR). Tadsíkistan setti sig upp á móti áframhaldandi skipan hennar í forstjóraembættið og Tyrkland tók undir þær mótbárur. Þetta varð til þess að hún var ekki endurskipuð í starfið þrátt fyrir að sækjast eftir því.
Ingibjörg Sólrún segir í samtali við Kjarnann að þessi framvinda hafi að vissu leyti komið sér á óvart. „Fyrir svona rúmum mánuði síðan hefði mér ekki dottið þetta í hug – að þetta væri yfirvofandi. Ef menn hefðu virt ákveðnar siðareglur hefðu þeir látið mig vita að þetta væri eitthvað sem þeir ætluðu að gera áður en að þeir létu til skarar skríða.“ Þá hefði hún hugsanlega metið stöðuna öðruvísi.
Albanía gegnir nú formennsku í ÖSE og fram var komin tillaga frá þeim að endurráða hana, sem og tvo aðra forstjóra yfir öðrum undirstofnunum ÖSE og framkvæmdastjóra ÖSE. „Þar af leiðandi datt mér ekki í huga að annað væri í stöðunni en að það yrði gert.“ Ingibjörg Sólrún frétti af þessum nýju vendingum fyrir um hálfum mánuði síðan, það er að Tyrkland og Tadsíkistan myndu leggjast gegn því að tillagan um endurráðningu yrði samþykkt.
Tyrkir að senda ákveðin skilaboð
Aðspurð hvað Ingibjörgu Sólrúnu þyki um þessa afgreiðslu þá segir hún að henni finnist hún mjög vond að mörgu leyti.
„Í fyrsta lagi að Tyrkir skuli ganga svona fram fyrir skjöldu og leggjast gegn minni endurráðningu með þessum hætti. Það segir mér að þeir séu að senda skilaboð um að það hafi afleiðingar í för með sér ef menn makki ekki rétt þegar þeir eigi hlut að máli. Þeir hefðu vel getað gert þetta með öðrum hætti en þeir kusu að gera þetta svona.
Hitt er að fyrst Tyrkir kusu að gera þetta svona þá þýðir það að það verður enginn yfirmaður í þessari stofnun að minnsta kosti þangað til í desember og væntanlega lengur – en það var komin tillaga um að tímabundin ráðning yrði fram í desember svo það væri tími til þess að ganga frá ýmsum hlutum á þessu tímabili,“ segir hún.
Þá telur Ingibjörg Sólrún þetta veikja verulega þær stofnanir sem hlut eiga að máli og mynda ákveðið tómarúm. Þegar krísa sem þessi myndast sé mjög erfitt að vinda ofan af henni.
Fyrirkomulagið hefur sína kosti og galla
Eins og fram hefur komið í umfjöllun um þetta mál þá eiga 57 ríki aðild að ÖSE og hefur hvert þeirra neitunarvald þegar kemur að skipan æðstu yfirmanna. Þegar Ingibjörg Sólrún er spurð út í það fyrirkomulag þá segir hún að tvær hliðar séu á þeim peningi.
„Í fyrsta lagi þessi hugmynd um að allar ákvarðanir séu teknar með sammæli allra; hún gekk vel og var mikilvæg í byrjun 10. áratugarins þegar stofnunin var að verða til. Þá voru menn líka bjartsýnir og framsæknir – og þá var allt þetta umboð sem okkur var gefið á sviði lýðræðis, mannréttinda og réttarríkisins mjög sterkt.“ Hún segir að nú sé ekki hægt að taka þetta umboð til baka. Til þess þurfi samþykki allra. „Þetta er mjög mikilvægt til að verja stofnunina því það er ekki hægt að veikja umboðið.“
Svo er það hin hliðin: „Á meðan þetta er svona þá er alltaf hægt að taka mál í gíslingu. Fjárhagsáætlun er á hverju ári til dæmis tekin í gíslingu. Menn reyna að ná einhverju fram og „vetóa“ fjárhagsáætlunina eða einhverja fundi sem á að halda. Svo er dagskrá „vetóuð“, tímasetningar og annað. Það er alltaf verið að reyna að taka einhver mál í gíslingu. Nú var það þannig að ég var tekin í gíslingu.“
Byrjaði strax árið 2017
Ástæðan fyrir því að Ingibjörg Sólrún var ekki í náðinni hjá Tyrklandi og Tadsíkistan var að hennar sögn sú að hún var ekki tilbúin að skilgreina ákveðin félagasamtök sem hryðjuverkasamtök.
„Þetta byrjaði strax þegar ég kom til starfa í ágúst árið 2017. Á hverju ári er haldinn mjög stór fundur í september þar sem fulltrúar ríkjanna koma saman og fulltrúar frjálsra félagasamtaka. Þar sitja allir við sama borð og hafa sama rétt til að tala og tjá sig. Þetta hefur alltaf verið styrkur ÖSE að geta boðið frjálsum félagasamtökum til fundar og þangað koma þau samtök sem vilja koma. Það er ekki valið inn á fundinn. Ef þau vilja vera þá geta þau það,“ segir hún.
Árið 2017 mótmæltu Tyrkir að tvö tiltekin samtök væru skráð á fundinn, að sögn Ingibjargar Sólrúnar, og sögðu þau vera hryðjuverkasamtök – og að þeir myndu ekki sitja við sama borð og þau. „Tyrkir hafa aldrei getað komið fram með neinar sannanir fyrir því að svo sé og ég var búin að segja í þrjú ár að ég gæti ekki upp á mitt eindæmi sett slíkan merkimiða á einhver félagasamtök – bara vegna þess að Tyrkir kjósi að nefna þau sem slík.“
Hún segir að þessi afstaða hennar sé studd af langflestum ÖSE-ríkjunum.
Tyrkir tengja samtökin við Fethullah Gülen
Þessi félagasamtök sem Tyrkir sögðu að væru hryðjuverkasamtök eru eða voru ekki endilega starfrækt þar í landi, að sögn Ingibjargar Sólrúnar. „Öll eru þau þó að vinna að tyrkneskum málum. Þetta eru til dæmis samtök í Þýskalandi sem vinna að málum flóttamanna og hafa einbeitt sér að málum tyrkneskra flóttamanna. Þetta eru einnig samtök rithöfunda og blaðamanna – og samtök sem telja sig vera að vinna á sviði mannréttinda. Þannig eru þetta samtök sem eru öll að vinna á okkar málasviði en ástæðan fyrir því að Tyrkir vilja skilgreina þau sem hryðjuverkasamtök er að þau eiga hugmyndafræðilega samleið með Fethullah Gülen.“
Téður Fethullah Gülen er útlagi í Fíladelfíu í Bandaríkjunum en hann hefur verið sakaður um að standa að valdaránstilraun í Tyrklandi árið 2016. „En jafnvel þótt að þessi samtök séu hugmyndafræðilega tengd þessum manni og að hann hefði verið hreyfiaflið í valdaránstilrauninni þá er ekkert sem segir að þau séu hryðjuverkasamtök.“
Hún nefnir einnig að Tadsíkistan hafi útilokað ákveðin félagasamtök sem þeir telji að séu hryðjuverkamenn.
Ekkert eins mikilvægt og orðspor stofnunarinnar
Varðandi starfið sjálft síðastliðin þrjú ár segir Ingibjörg Sólrún að það hefði verði mjög gefandi. „Málaflokkarnir sem við vinnum með eru málaflokkar sem skipta fólk máli. Dags daglega átta menn sig kannski ekki á því að allt sem lýtur að lýðræðislegum stofnunum, kosningum, mannréttindum og réttarríkinu er alveg gríðarlega mikilvægt. Ef þessir þættir virka ekki þá er það mjög hættulegt fyrir almenning í viðkomandi ríki.“
Hún segir að gaman hafi verið að vinna á þessu málasviði og með því öfluga fagfólki sem starfar hjá stofnuninni – og vinni það að málum af heilum hug. „Það sem ég hef hins vegar lært af þessu starfi er að það skiptir mjög miklu máli að vinna með aðildarríkjunum og aðstoða þau við að standa við sínar skuldbindingar en ég hef einmitt lagt mikla áherslu á það. Ég held að það sé mikilvægt en um leið er líka mikilvægt að standa í fæturna þegar ríkin reyna að hafa áhrif á það sem maður er að gera með einhverjum óeðlilegum hætti.“
Ekkert sé eins mikilvægt og orðspor stofnunarinnar og heilindi.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur tjáð sig um málið og sagt það vera aðför að ÖSE. Ingibjörg Sólrún tekur undir það og segir þessa úrvinnslu veikja stofnunina. „Þetta eru skilaboð um að ekki sé samskonar sammæli um þessi gildi og um þessar skuldbindingar og voru á 10. áratugnum. Þannig að mér finnst mjög vont að þetta hafi gerst.“
Lesa meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars