Ef allt væri eðlilegt stæði fimleikakeppni Ólympíuleikanna sem hæst þessa dagana, en útsendingar frá úrslitum í fimleikum kvenna er eitt allra vinsælasta sjónvarpsefni leikanna. Í forgrunni keppninnar undanfarna leika hafa verið hetjurnar í bandaríska kvennaliðinu, allir vilja berja þær augum enda sýningin stórkostleg. Engir Ólympíuleikar eru í ár en á einni stærstu efnisveitu heims, Netflix, er sýnd heimildarmyndin Athlete A sem fjallar um myrkar hliðar árangurs liðsins og það þegar dagblaðið Indianapolis Star fletti ofan af Larry Nassar, níðingnum sem komst upp með það áratugum saman að misnota ungar fimleikastúlkur í Bandaríkjunum.
Í myndinni, sem sýna átti á Tribeca kvikmyndahátíðinni hefði henni ekki verið aflýst, er rýnt í þá menningu sem ríkti, eða ríkir, í bandaríska fimleikaheiminum og átti mögulega þátt í því að Nassar var ekki stöðvaður fyrr.
Draumar barna nýttir til að byggja upp vörumerki
„Þessi börn fengu öll ráð frá fullorðnu fólki um hvernig þau gátu látið Ólympíudrauminn rætast. Það var svo í raun verið að nota þessa drauma þeirra til að byggja upp vörumerki, og fullorðna fólkið var svo upptekið við að selja vörumerkið að það hafði ekki tíma fyrir þessar stelpur.”
Svona kemst rannsóknarblaðamaðurinn Steve Berta að orði þegar hann lýsir yfirmönnum bandaríska fimleikasambandsins, USA Gymnastics, og vinnubrögðum þeirra í heimildarmyndinni Athlete A, en Berta stýrði rannsóknarteymi dagblaðsins Indianapolis Star sem fyrst allra miðla fletti ofan af níðingnum Larry Nassar.
Fórnarlömbin reyndust mörg hundruð
Myndin, sem er gerð af Bonni Cohen og Jon Shenk, er með vinsælasta efni á Netflix þessa dagana en nafnið Athlete A vísar í heiti sem blaðamenn Indianapolis Star gáfu fyrstu afrekskonunni sem greindi fimleikasambandinu frá brotum Larry Nassars, læknis bandaríska landsliðsins í fimleikum til tveggja áratuga og háskólalæknis Michigan háskóla, en sú vildi ekki koma fram undir nafni fyrst þegar sagðar voru fréttir af málinu haustið 2016.
Hún kom síðar fram og heitir Maggie Nichols, ein allra besta fimleikakona Bandaríkjanna, sem þó var horft fram hjá við val í Ólympíuliðið 2016 enda hafði hún þá tilkynnt um brot Nassar til fimleikasambandsins og virðist hafa verið sniðgengin fyrir vikið.
Rannsóknarblaðamennska upphafið að endinum
Eins og allir sem fylgjast með fréttum vita var mál Nassars eitt mesta hneyksli innan íþróttahreyfingarinnar, ekki bara í Bandaríkjunum heldur í heiminum öllum, í áraraðir. Vart er hægt að ímynda sér neitt verra en að komast að því að læknir sem átti að halda utan um börn og vernda þau þegar þau meiddust eða glímdu við verki, misnotaði þau þess í stað í skjóli aðstöðu sinnar.
Í upphafi, þegar IndyStar fór af stað með málið, greindu þrjár stúlkur þeim frá brotum Nassars en síðar stigu alls fram yfir 500 fórnarlömb læknisins. Líkt og heimsbyggðin fékk að fylgjast með var Larry Nassar árið 2018 dæmdur í allt að 175 ára fangelsi fyrir að hafa beitt mörg hundruð stúlkur kynferðislegu ofbeldi og misnotkun.
Hann var einnig dæmdur í 60 ára fangelsi fyrir vörslu barnakláms og því ljóst að Nassar mun ekki um frjálst höfuð strjúka framar.
Saksóknari í málinu sagði að rannsóknarblaðamennsku væri að þakka fyrir að Larry Nassar hefði náðst.
Hefði IndyStar ekki hafið sína rannsókn og fylgt málinu vandlega eftir væri óvíst að hann hefði verið fundinn sekur. En, eins og myndin sýnir fram á, hefði verið hægt að ná honum fyrr. Hann fékk óáreittur að fremja brot sín jafnvel eftir að tilkynnt hafði verið um brotin til fimleikasambandsins og Michigan-háskóla. Mörgu er enn ósvarað varðandi þetta andstyggilega mál, einkum um það hver vissi hvað og af hverju ekkert var gert fyrr.
Spurningarnar sem eftir standa
Hvernig gat þetta gerst? Þetta er spurningin sem ómar í höfðum flestra sem setja sig inn í málið og reynt er að finna einhver svör við í myndinni. Larry Nassar starfaði í yfir tvo áratugi með börnum og unglingum og virðist á þeim tíma hafa náð að misnota og beita mörg hundruð stúlkur kynferðisofbeldi.
Líkt og reynt er að varpa ljósi á í myndinni þá er það ekki síður umhverfið í kringum Nassar sem sætir gagnrýni. Eitruð keppnismenning, harðræði og óeðlilegt andrúmsloft sem skapast hefur í fimleikaheiminum í Bandaríkjunum er talið hafa ýtt undir það að enginn sagði frá.
Með öðrum orðum, það var svo illa farið með þessar stelpur dagsdaglega að þær áttu litla möguleika á að koma auga á framkoma Nassars væri óeðlileg. Ef þær voru svangar var þeim sagt að það væri misskilningur, ef þær voru meiddar var þeim sagt að það væri eðlilegt. Fimleikakonur vöndust því frá unga aldri að þeirra þarfir skiptu ekki máli. Einhvern veginn svona er andrúmsloftinu í bandaríska fimleikaheiminum lýst í myndinni og því haldið fram að teknar hafi verið upp gagnrýnislaust þjálfunaraðferðir frá fyrrum Sovétríkjunum þar sem harðræði og niðurlæging voru talin hluti af því að ná árangri. Gengið er svo langt að segja að aðalþjálfarar bandaríska kvennaliðsins um árabil, hjónin Marta og Bela Karolyi, hafi normalíserað grimmd sem þjálfunaraðferð.
Þetta er langt því frá í fyrsta sinn sem hjónin, sem áður þjálfuðu í Rúmeníu, eru gagnrýnd og þessari menningu ógnar og ótta í fimleikaheiminum er lýst. Í bókinni Pretty Girls in Little Boxes eftir blaðamanninn Joan Ryan sem kom út árið 1995 kom fram hörð gagnrýni á nákvæmlega þessa ógnarstjórn sem einkennir þjálfun fimleikakvenna. Bent var á að ungar stelpur væru látnar æfa þótt þær væru meiddar og svelti væri daglegt brauð, enda varpaði bókin mikilvægu ljósi á átraskanir sem vandamál í svona andrúmslofti. Ryan hefur sagt í viðtölum eftir að myndin Athlete A kom fram að það sé sorglegt að sjá hversu lítið hafi í raun breyst frá því bókin kom út fyrir aldarfjórðungi.
„Þetta hefði verið hægt að forðast”
„Það var horft fram hjá okkur of lengi. Þetta hefði verið hægt að forðast. Við þurftum bara einn fullorðinn einstakling til að standa á milli okkar og Nassars,” sagði Ólympíufarinn Aly Raisman sem einnig hefur komið fram opinberlega sem þolandi læknisins.
En enginn fullorðinn stóð þarna á milli eins og lýst er í myndinni. Enginn stoppaði níðinginn og hann hafði óheftan aðgang að börnum. Hluti af því að Nassar náði sífellt í ný fórnarlömb var einmitt að hann var svo skemmtilegur, hann var viðkunnanlegur og jafnvel eini fullorðni einstaklingurinn sem fimleikastúlkurnar hittu í tengslum við sínar æfingar sem öskraði ekki á þær. Hann laumaði til þeirra mat og nammi meðan þjálfararnir kröfðust þess að þær borðuðu sem minnst. Hann var hressi gaurinn sem hrósaði þeim og stappaði í þær stálinu meðan þjálfararnir niðurlægðu þær.
Það er einmitt þessi jarðvegur ógnarstjórnar sem var svo frjór fyrir níðinginn Nassar.
Ljóst er að fimleikasambandið virðist hafa gert fátt til að vernda börn og ljóst er að fjöldi tilkynninga um misnotkun eða grun um slíkt náðu aldrei til yfirvalda frá sambandinu heldur stoppuðu eða var stungið ofan í skúffu hjá Steve Penny, formanni sambandsins.
Tilkynntu ekki um meint brot til yfirvalda
Penny tók við stjórnartaumum hjá sambandinu árið 2005 og stýrði því þar til hann lét af störfum vegna brota Nassars árið 2017. Hann var ráðinn vegna reynslu sinnar af markaðssetningu íþróttaviðburða og reynslu af viðskiptaþróun á þeim vettvangi, ekki vegna reynslu af því að vinna með börnum.
Penny viðurkenndi, þegar mál Nassars kom upp, að sambandið tilkynnti mál þar sem grunur léki á misnotkun nánast aldrei til yfirvalda, jafnvel þegar börn ættu í hlut, enda gæti slíkt skaðað þjálfara reyndust ásakanirnar fyrir rest vera ósannar.
Rúmu ári eftir að Penny lét af störfum var hann handtekinn grunaður um að hafa eytt sönnunargögnum sem hefðu getað nýst í máli Nassars. Hann á að hafa fyrirskipað að gögn um fjölda læknismeðferða á búgarði landsliðsþjálfaranna, nokkurs konar æfingabúðum, þar sem þjálfun landsliðskvenna fór fram, yrðu flutt á skrifstofu sína eftir að ásakanir á hendur Nassar komu fram. Gögnin hafa aldrei fundist og því var hann ákærður fyrir að eyða þeim.
Það er áhrifaríkt atriði í myndinni þegar sýnt er frá nefndarfundi á Bandaríkjaþingi þar sem Penny á að sitja fyrir svörum um vinnulag innan fimleikasambandsins í kjölfar Nassar-hneykslisins. Penny ítrekar aðeins að lögmenn hafi ráðlagt honum að svara ekki og hann hyggist nýta sér þann rétt. Þingmaður spyr hvort hann finni ekki til ábyrgðar gagnvart fimleikafólkinu, börnunum, sem hann átti að vernda.
Penny svarar því ekki heldur, endurtekur bara að lögfræðingur hafi ráðlagt sér að segja ekkert. Og enginn spyr meira, hann bara fær að yfirgefa salinn. Penny var færður í gæsluvarðhald þegar hann var handtekinn en síðar sleppt gegn tryggingu. Enn hefur ekki verið réttað í máli Pennys en hans gæti beðið allt að tíu ára fangelsisdómur verði hann fundinn sekur.
Sagði foreldrunum að rannsókn stæði yfir
Athlete A er fimleikakonan Maggie Nichols, afrekskona í fimleikum, en bæði hún og foreldrar hennar koma fram í myndinni. Hún var sú fyrsta sem sagði frá brotum Nassars, sagði að hann hefði snert sig á óviðeigandi hátt. Þjálfari hennar sagði yfirmanni innan fimleikasambandsins frá og þaðan barst málið til Steve Penny, sem gerði ekkert í því. Hann hélt því samt stöðugt fram við foreldra hennar að rannsókn stæði yfir og FBI væri að skoða málið.
Ýmsu er enn ósvarað um það mál og IndyStar bíður enn úrskurðar um hvort það fái gögn um það hvort Steve Penny var í raun að vinna að málinu í samstarfi við FBI eða ekki.
Kvikmyndagerðarmennirnir hafa sagt að myndin sé í raun um fólk sem sé misnotað af stofnun sem missir sjónar á ábyrgð sinni. Fimleikasambandið hafi farið að snúast um sigra, peninga og sæmd. Það hafi misst sjónar á því hlutverki sínu að vernda iðkendur en hugsað um það eitt að markaðssetja íþróttina og hetjur hennar en ekki hugað að fórnarkostnaðinum. Alltumlykjandi var draumurinn um að komast á toppinn, að ná á Ólympíuleikana og vinna gull.
Þáttur Karolyi-hjónanna
Bela og Marta Karolyi koma töluvert fyrir í myndinni. Þau eiga heiðurinn að þjálfun margra sigursælla fimleikastúlkna. Þau komu upphaflega til Bandaríkjanna frá Rúmeníu eftir að hafa þjálfað sjálfa Nadiu Comaneci. Í fimleikaheiminum hafa þau í gegnum tíðina verið talin nánast goðsagnakenndar verur.
Það er talið að miklu leyti þeim að þakka hversu vel bandaríska kvennaliðinu hefur gengið á stórmótum á síðustu áratugum. En nú velta margir því fyrir sér hvort verðmiðinn fyrir þennan árangur hafi verið of hár?
Þeim var treyst og risu fljótt til metorða í bandarískum fimleikaheimi og höfðu umsjón með vali í landslið kvenna og þjálfun þess meira og minna frá því á níunda áratugnum og þar til þau hættu að vinna fyrir sambandið eftir Ólympíuleikana í Ríó 2016.
Búgarður þeirra í Texas var oft vettvangur brota Nassars eins og lýst er í myndinni, en þar fóru fram æfingabúðir hinna bestu. Eftir að fimleikaofurhetjan Simone Biles tísti um að hún hefði verið misnotuð af Nassar einmitt á þessum búgarði var ákveðið að loka fimleikabúðunum þar.
Hvergi er því haldið fram að þjálfarahjónin hafi vitað af brotunum eða átt neinn beinan þátt í þeim hryllingi sem Nassar kallaði yfir fimleikastúlkurnar. En það andrúmsloft sem þau sköpuðu, meðal annars á fimleikabúgarðinum, kann að hafa verið frjór jarðvegur fyrir þögnina um brotin. Stúlkurnar voru lokaðar frá umheiminum, engir foreldrar fengu að koma nærri, því var stýrt hvað þær borðuðu, þær þurftu að pína sig í gegnum meiðsli. Ef þær voru svangar var ekki hlustað á það, ef þær voru meiddar var þeim ekki trúað. Hvernig átti þeim að detta í hug að segja frá því að læknirinn snerti þær á óviðeigandi hátt? Þeim datt líklega ekki í hug að neinn gerði neitt í því - sem var líka raunin eins og Maggie Nichols fékk að reyna.
Fangelsun Larry Nassars ekki endapunktur
Athlete A dregur ýmsar hliðar Nassar málsins fram og minnir áhorfandann á að málinu er ekki lokið þótt Nassar sé kominn bak við lás og slá.
Þrátt fyrir að því hafi verið fagnað þegar Larry Nassar var stungið í steininn þá er ljóst að tölvuert vantar uppá að réttlæti hafi náð fram að ganga í málinu. Hvaða dóm hlýtur Steve Penny? Verður hægt að draga hann til ábyrgðar og refsa fyrir að hafa ekki greint yfirvöldum frá ásökunum Maggie Nichols og fleiri um misnotkun Nassars? Og hvað með Karolyi-hjónin, verður þeirra þáttur í málinu rannsakaður frekar?
Að auki hafa þjálfarar við Michigan-háskóla verið ákærðir fyrir að hafa ekki tilkynnt um brot Nassars sem iðkendur greindu þeim frá, en enn hafa ekki fallið dómar í þessum málum.
Myndin Athlete A hefur frá því hún kom út fyrir rúmum mánuði nú þegar haft töluverð áhrif. Í Ástralíu hafa fimleikakonur stigið fram og lýst ógnarstjórn á æfingum og andlegu ofbeldi sem landlægu í íþróttagreininni þar í landi og úrbótum verið heitið af ástralska fimleikasambandinu. Svipað er uppi á teningnum í Bretlandi, þar stíga fimleikakonur fram ein af annarri á samfélagsmiðlum og lýsa ástandi sem um margt líkist lýsingum bandarísku fimleikakvennanna á harðræði og slæmri framkomu fullorðna fólksins.
Hvort fleiri verði dregnir til ábyrgðar verður tíminn að leiða í ljós. En myndin er áminning um það að þótt Ólympíugull sé eftirsóknarverður gripur að hafa um hálsinn þá eru ótal brotnar barnssálir ekki fórnarkostnaður sem nein þjóð ætti að sætta sig við.