Alþingi utlendingamal120920.jpeg
Alþingi

„Hvað myndir þú gera, ef þú værir dómsmálaráðherra?“

Útlendingamál eru nú í brennidepli, vegna máls egypskrar fjölskyldu með fjögur börn sem á að vísa á brott á miðvikudag, eftir að hafa verið hér á landi í rúm tvö ár. Málið hefur vakið upp spurningar um hvort rýna þurfi reglurnar sem við höfum sett okkur um málefni útlendinga. Kjarninn bað þrjá stjórnarandstöðuþingmenn um að setja sig í spor dómsmálaráðherra. Hvað myndu þau gera, ef þau væru í hennar stöðu?

Mis­tökin í laga­smíð­inni eru að í henni er ekki gert ráð fyrir því að fólk myndi tengsl eftir að mál­inu er lokið á stjórn­sýslu­stigi. Aug­ljós­lega er það fjar­stæða, sér í lagi þegar kemur að börn­um. Fólk, og sér­stak­lega börn, myndar aug­ljós­lega tengsl þótt málið sé klárað á stjórn­sýslu­stigi. Börn hætta ekki að læra tungu­málið eða umgang­ast vini sína,“ segir Helgi Hrafn Gunn­ars­son þing­maður Pírata.

Kjarn­inn spurði hann og einnig þær Þor­björgu Sig­ríði Gunn­laugs­dóttur þing­mann Við­reisnar og Helgu Völu Helga­dóttur þing­mann Sam­fylk­ing­ar, að því hvað þau myndu gera ef að þau væru dóms­mála­ráð­herra í rík­is­stjórn Íslands í dag. 

Ástæða spurn­ing­ar­innar er sú að enn einu sinni er mál fjöl­skyldu með börn sem senda á úr landi til umræðu í sam­fé­lag­inu og margir spyrja sig að því hvort lögin og regl­urnar sem settar hafa verið í útlend­inga­málum séu í takt við það sem sam­fé­lagið vill.

Skorað er á dóms­mála­ráð­herra og aðra ráð­herra í rík­is­stjórn­inni um að koma í veg fyrir það að sex manna egypsk fjöl­skylda, sem hefur tengst sam­fé­lag­inu hér í rúm tvö ár, verði send aftur til Egypta­lands næsta mið­viku­dag, 16. sept­em­ber.

Þing­menn­irnir þrír sem Kjarn­inn hafði sam­band við hafa allir verið gagn­rýnir á þetta ein­staka mál og útlend­ingapóli­tík rík­is­stjórn­ar­innar almennt og telja breyt­inga þörf. En hvaða breyt­ingar ætti að gera í lögum og reglum um útlend­inga, að þeirra mati?

Í lögum um útlend­inga, sem sam­þykkt voru árið 2016, er kveðið á um að heim­ilt sé að veita útlend­ingi sem hér hafi sótt um alþjóð­lega vernd og ekki fengið nið­ur­stöðu í máli sínu á stjórn­sýslu­stigi innan 18 mán­aða eftir að hann sótti fyrst um vernd, dval­ar­leyfi af mann­úð­ar­á­stæð­um.

Í febr­úar á þessu ári ákvað rík­is­stjórnin að fresta brott­vís­unum barna­fjöl­skyldna ef að máls­með­ferð­ar­tími þeirra hefði farið yfir 16 mán­uði. Sú ákvörðun kom til góða fjöl­skyldu sem átti að senda úr landi á þeim tíma. En svarið sem dóms­mála­ráð­herra gaf varð­andi mál egyp­sku fjöl­skyld­unnar fyrr í vik­unni var að það sé ekki hægt að breyta reglu­gerðum „til að bjarga ein­staka fjöl­skyldum sem fara í fjöl­miðla“.

Helga Vala segir að til­mæli ráð­herra um rýmri túlkun myndu duga

Síðan er einnig lögum sam­kvæmt heim­ilt að veita mann­úð­ar­leyfi þrátt fyrir að skil­yrði alþjóð­legrar verndar hafi ekki talist upp­fyllt við efn­is­með­ferð, ef umsækj­and­inn getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd. Þetta bendir Helga Vala á.

Hún seg­ist í grunn­inn sam­mála því að ekki eigi að breyta reglum eftir á, en segir einnig að þess þurfi í raun ekki í til­felli egyp­sku fjöl­skyld­unn­ar, þar sem áður­nefnd heim­ild sé í lögum þess að veita mann­úð­ar­leyfi á grund­velli ríkrar þarf­ar.

Auglýsing

Dóms­mála­ráð­herra myndi því ekki þurfa að breyta neinni reglu­gerð, heldur ein­fald­lega mæl­ast til þess við þau stjórn­völd sem hún ber ábyrgð á að túlka ákvæði útlend­inga­laga um mann­úð­ar­leyfi ekki jafn þröngt og raun ber vitni.

„Það er ákvörðun stjórn­valda að beita ekki þessu ákvæð­i,“ segir Helga Vala og segir að túlk­unin á því hafi verið hert á und­an­förnum árum. Það sé reynsla lög­fræð­inga sem starfi við þennan mála­flokk. Ráð­herra þurfi því í raun bara að beina þeim til­mælum til Útlend­inga­stofn­unar að hætta að beita „svo þröngri lög­skýr­ingu að það kom­ist eng­inn inn í það þrönga nál­ar­auga,“ eins og raunin hafi ver­ið.

„Nú er það auð­vitað ekki þannig að við getum bjargað öllum heim­in­um, en þessi börn eru búin að vera hérna í tvö ár,“ segir Helga Vala um mál egyp­sku fjöl­skyld­unnar og bætir við að það hafi ekki verið þeirra val að festa hér ræt­ur, heldur hafi mál þeirra tekið svo langan tíma í með­förum stjórn­valda.

Hún segir Sam­fylk­ing­una til­búna með frum­varp sem verði lagt fram á haust­þingi sem end­ur­vekji í raun­inni ákvæði um mann­úð­ar­leyfin eins og þau voru í eldri útlend­inga­lög­um, þeim sem giltu hér fyrir árið 2016.

„Nú er það auðvitað ekki þannig að við getum bjargað öllum heiminum, en þessi börn eru búin að vera hérna í tvö ár.“

Það myndi gefa Útlend­inga­stofnun enn meira svig­rúm til að beita ákvæði um mann­úð­ar­leyfi, segir Helga Vala en bætir við að „þetta ákvæði eins og það er í lög­unum núna getur þó alveg komið í veg fyrir brott­vísun egyp­sku fjöl­skyld­unnar ef stjórn­völd hefðu yfir­leitt ein­hvern áhuga á því að vernda þessi börn.“

Börn mynda tengsl óháð því hvað stjórn­sýsl­unni finn­st 

Helgi Hrafn þing­maður Pírata segir vand­ann við lögin eins og þau eru í dag að það geti liðið langur tími frá end­an­legri ákvörðun á stjórn­sýslu­stigi og þar til end­an­legur brott­flutn­ingur á sér stað. Hann telur að breyta ætti lögum á þá vegu að 18 mán­uð­irnir miði við þann tíma sem umsækj­endur hafi verið á land­inu, algjör­lega óháð því hvers vegna þeir séu hérna.

„Ef yfir­völd vilja endi­lega losna við fólk fyrir þann tíma, þá verða yfir­völd bara að gjöra svo vel að klára málin nógu hratt frá A til Ö. Alveg sama hvaða afsak­anir yfir­völd hafa fyrir seina­gang­in­um, og alveg sama hvað stjórn­sýsl­unni finn­st, þá munu börn bara samt halda áfram að mynda tengsl hérna eftir 18 mán­uð­ina, og öll rök fyrir því að hafa 18 mán­aða mörkin yfir­höfuð gilda nákvæm­lega jafn mikið eftir að mál­inu lýkur á stjórn­sýslu­stig­i,“ segir Helgi Hrafn í svari sínu.

„Það eru veggirnir og verðirnir á honum sem valda kostnaðinum, ekki stimpillinn í vegabréfið.“

Hann segir að á þetta hafi verið bent í nefnd um útlend­inga­mál í þing­inu og að hann voni að sú umræða muni leiða af sér breyt­ingu á þessu atriði. Hann biður blaða­mann um að hafa í hug að þetta segi hann að því gefnu að ekki sé vilji til þess að koma á fót víð­tæk­ari flóru af dval­ar­leyfum hér­lend­is, en hans vilji stendur til þess.

„Við erum að sóa ótrú­legum upp­hæðum og tæki­færum með því að vera svo log­andi hrædd við að ein­fald­lega leyfa fleira fólki að vera hérna. Það þarf hvorki að leggja niður landa­mæri né eyða meiri pen­ingum til þess,“ segir Helgi og útskýrir að það þurfi ekki að verja meira fjár­magni til þess að hleypa fleira fólki inn. Það kosti að halda fólki úti.

„Til þess að afgreiða mál hraðar við núver­andi kerfi, hins­veg­ar, verður að setja meira fjár­magn í kerf­ið. Það hefur hins­vegar frekar verið vilji til að draga úr tæki­færum umsækj­enda til að njóta rétt­inda sinna til fulln­ustu í reynd, frekar en að horfast í augu við þessa stað­reynd. Ef fólk vill í alvör­unni spara pen­inga við rekstur þessa kerf­is, þá er aug­ljós­asta lausnin að auka heim­ildir fyrir fólk til að vera hérna. Það eru veggirnir og verð­irnir á honum sem valda kostn­að­in­um, ekki stimp­ill­inn í vega­bréf­ið,“ segir Helgi Hrafn.

Til­efni til að spyrja hvort þetta séu reglur sem sam­fé­lagið vilji

„Rauði kross­inn hefur nefnt að það skipti börn máli hversu lengi þau hafa verið hér. Þau hafa talað um að líta megi til þess ekki síður en máls­hraða. Ég tek undir það og myndi vilja sjá að litið væri til þess,“ segir Þor­björg Sig­ríður þing­maður Við­reisnar í svari til blaða­manns. 

Hún telur til­efni til að rýna regl­urnar vegna þessa máls sem nú er til umfjöll­un­ar, það myndi koma þess­ari fjöl­skyldu til góða og öðrum sem væru í sam­bæri­legri stöðu.

„Við­miðin verða að vera almenn, þau verða að vera skýr en þegar nið­ur­staðan verður þessi hlýtur að þurfa að skoða hvernig það getur gerst og hvort að baki séu reglur sem við sem sam­fé­lag vilj­u­m,“ segir Þor­björg Sig­ríð­ur, sem skrif­aði grein á Kjarn­ann um málið í gær þar sem hún velti vöngum yfir afstöðu Ásmundar Ein­ars Daða­sonar félags- og barna­mála­ráð­herra til þess.

Hann tók nær enga afstöðu til máls­ins í sam­tali við Vísi í gær og sagði það alfarið á borði dóms­mála­ráð­herra, sem hann sagð­ist treysta full­kom­lega fyrir því að gæta að Barna­sátt­mál­an­um.

Þor­björg segir að það þyrfti að líta bæði til veru­tíma á land­inu og máls­með­ferð­ar­tíma, þar sem reglur sem líti bara til ann­ars af tvennu gætu haft glopp­ur. Hún segir að það yrði hægt að girða fyrir mögu­lega mis­notkun á reglum með því að skoða fyrst hversu lengi afgreiðsla mála hefði tekið og svo hvort umsækj­endur hefðu sjálfir verið að tefja afgreiðslu, eins og sé gert til dæmis í saka­mál­um.

Varð­andi stefnu Við­reisnar í mál­efnum flótta­manna og hæl­is­leit­enda almennt segir Þor­björg Sig­ríður að hún myndi vilja sjá stjórn­völd hætta að senda fólk til ríkja á borð við Grikk­lands og Ung­verja­lands á meðan aðbún­aður fólks þar er eins og hann er. Hún segir að þetta verði gert í auknum mæli verði nýtt útlend­inga­frum­varp að lög­um.

„Útlendingapólitík sem gengur bara út á að segja nei og segja nei hratt er ekki pólitík sem ég get skrifað undir.“

„Ástæðan er að frum­varpið boðar þann skiln­ing að flótta­fólk sem hefur fengið alþjóð­lega vernd, sama hvar hún er, sama við hvaða ömur­legu aðstæður það nú er, telst þá ekki í hópi þess fólks sem sé í raun­veru­legri þörf. Þetta er flótta­fólk og þetta er fólk sem stendur frammi fyrir end­ur­send­ingum til þess­ara landa og þetta mun aukast. Þessu höfnum við,“ segir Þor­björg Sig­ríð­ur.

Hún segir að auð­vitað geti ekki allir komið hingað til lands, en Ísland þurfi að taka ein­hverja ábyrgð. Við for­gangs­röðun geti skil­virk og hröð máls­með­ferð þó ekki verið eina svar­ið.

Auglýsing

„Út­lend­ingapóli­tík sem gengur bara út á að segja nei og segja nei hratt er ekki póli­tík sem ég get skrifað und­ir. Styttri máls­með­ferð­ar­tími er ekki stóri sann­leik­ur­inn þegar nið­ur­staðan verður vond og jafn­vel ómann­úð­leg. Það er ekki það sem kallað hefur verið eft­ir. Við höfum séð sorg­legar sögur fólks, full­orð­inna og barna, sem sækja skjól á Íslandi og það er fólk sem raun­veru­lega þarf á þess­ari vernd að halda. Við hljótum að stefna að því að lögin séu skýr, fram­kvæmdin skil­virk en ekki þannig að mann­úðin hverfi. Jafn­vel þótt reglur séu skýrar og almennar koma alltaf upp álita­mál. Lög­fræðin er ekki raun­vís­inda­grein. Það er svig­rúm fyrir mat. Og stjórn­völd verða að hafa kjark til að rýna regl­urnar ef við sjáum vís­bend­ingar um að nið­ur­staðan verður allt að því ómann­úð­leg,“ segir Þor­björg Sig­ríð­ur.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent