Stjórnvöld verða að hætta að velja sigurvegara
Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að hundruð milljarða tap verði á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda sjá fram á að verða án atvinnu og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau komi til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála. Sá fimmti sem rætt er við er Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Það voru óveðursský yfir Íslandi áður en kórónuveiran breiddi úr sér yfir alla heimsbyggðina. Það voru blikur á lofti, hagkerfið hafði kólnað og grundvallarspurningu var ósvarað um hvað yrði drifkraftur vaxtar á næstu árum og áratugum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins í samtali við Kjarnann. Grundvallarspurningunni segir hann að stjórnvöld eigi ennþá eftir að svara.
„Það eru mjög stórar ákvarðanir og strategískar sem bíða þess að vera teknar, um það á hverju við ætlum að byggja verðmætasköpunina,“ segir Sigurður, en í samtali við blaðamann Kjarnans á dögunum lýsti hann þeirri skoðun sinni að ferðaþjónusta hafi á árunum eftir hrun fengið of mikla athygli stjórnvalda á sama tíma og önnur vaxtartækifæri hafi farið forgörðum. Það sama megi ekki gerast nú – stjórnvöld þurfi að hætta að velja sigurvegara.
Sigurður segir að það sé alveg ljóst að þrjár meginstoðirnar í hagkerfinu; sjávarútvegur, orkusækinn iðnaður og ferðaþjónusta, hafi verið komnar að þolmörkum áður en COVID-kreppan kom upp og þar sé ekki svigrúm til mikils vaxtar. Við veiðum ekki meiri fisk en sérfræðingar Hafró segi að sjálfbært sé hverju sinni og samkeppnishæfni orkufreks iðnaðar hérlendis eigi undir högg að sækja af ýmsum ástæðum, svo ólíklegt sé að þar verði mikill vöxtur á næstunni.
Ferðaþjónustan, segir Sigurður, mun taka við sér, hvort sem það taki mánuði eða ár. Hann telur þó ólíklegt sé að hún muni vaxa mikið umfram það sem hún var orðin áður en veiran og viðbrögðin við henni settu allt á annan endann.
„Vöxturinn verður að koma annarsstaðar frá. Þess vegna þarf að leggja grunninn og taka stórar ákvarðanir og ég held því fram, og við hjá Samtökum iðnaðarins, að á næstu einum til tveimur árum verði teknar ákvarðanir sem muni ráða því hvernig framtíðin til næstu tíu, tuttugu og jafnvel þrjátíu ára verði í þessu samhengi,“ segir Sigurður og bætir við að Samtök iðnaðarins hafi árum saman kallað eftir því að stjórnvöld móti hér atvinnustefnu.
„Það hrökkva ýmsir í kút þegar þetta orð er nefnt, því það er ekki vel skilgreint hugtak og hefur breyst í tímans rás. Ef við förum langt aftur í tímann, segjum 100 ár, þá byggði atvinnustefna – ekki bara hér á landi heldur víðar – á miklum ríkisafskiptum og eignarhaldi ríkisins á atvinnurekstri. Síðan kom tímabil þar sem stjórnvöld völdu sigurvegara og þar á eftir kom tímabil einkavæðingar og kannski afskiptaleysis,“ segir Sigurður. Atvinnustefna stjórnvalda í dag ætti hins vegar að snúast um að auka samkeppnishæfni með umbótum.
Sigurður segir þar horft til fjögurra meginstoða samkeppnishæfni; menntunar, innviða, nýsköpunar og starfsumhverfis. Stjórnvöld þurfi að tryggja að fyrirtæki hafi aðgang að fólki með rétta menntun og færni, að innviðir hverskonar séu traustir og áreiðanlegir og byggi undir verðmætasköpun, að umgjörð nýsköpunar sé með því besta sem þekkist og réttir hvatar séu þar innbyggðir og að starfsumhverfi fyrirtækja þurfi að vera aðlaðandi, hvað varðar regluverk, skatta, hagstjórn og fleira í þeim dúr.
„Með umbótum á þessum sviðum batnar samkeppnishæfni svo verðmætasköpunin eykst sem styður við meiri lífsgæði. Það er auðvitað það sem við sækjumst eftir sem samfélag, að auka við þau takmörkuðu gæði sem við höfum, að það verði meiri gæði til skiptanna,“ segir Sigurður og bætir við að heilmiklar umbætur hafi orðið á undanförnum árum, en tækifæri hafi þó farið forgörðum. Stjórnvöld séu ekki að grípa þau.
„Núna þegar rykið er að setjast held ég að það þurfi að hugsa þetta allt á svolítið nýjan hátt. Það þarf að fjárfesta með markvissari hætti í tækifærum framtíðar og sækja þau.“
Raunar segir Sigurður að aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna kórónuveirufaraldursins sýni „svart á hvítu“ að stjórnvöld séu með atvinnustefnu af öðrum toga en þá sem hann teldi æskilega.
„Sú atvinnustefna gengur út á það að velja sigurvegara og þar er raunar einn sigurvegari sem er á blaði og það er ferðaþjónustan. Aðgerðir stjórnvalda miða fyrst og fremst við að bjarga ferðaþjónustunni. Það er skiljanlegt, með hliðsjón af því hvaða vægi hún hefur haft, þar eru fjölmörg störf undir og greinin mun sannarlega ná fyrri styrk, það er bara spurning um tíma, en á sama tíma eru tækifæri sem fara forgörðum vegna þess að athygli stjórnvalda beinist ekki að þeim,“ segir Sigurður.
Þarf að horfa í auknum mæli til framtíðar
Hann telur viðbrögð stjórnvalda um margt skynsamleg, en ekki að öllu leyti, og segir Samtök iðnaðarins velta fyrir sér forgangröðuninni sem birtist í því að greiða laun starfsmanna á uppsagnarfresti, sem hingað til hefur kostað ríkissjóð rúma 8 milljarða króna. „Þar er horft til fortíðar. Á sama tíma er fjárfesting í nýsköpun aukin um tæpa 5 milljarða, eða lægri tölu, þar er verið að tala um fjárfestingu til framtíðar,“ segir Sigurður.
Hann segir að staldra megi við eitt og annað í aðgerðum stjórnvalda, en líta verði til þess „að þarna var brugðist mjög hratt við, það gafst mjög lítill tími til að hugsa þessar aðgerðir, ráðast í þær og koma þeim í framkvæmd, þannig að heilt yfir held ég að það megi alveg hrósa stjórnvöldum fyrir þessar aðgerðir. En núna þegar rykið er að setjast held ég að það þurfi að hugsa þetta allt á svolítið nýjan hátt. Það þarf að fjárfesta með markvissari hætti í tækifærum framtíðar og sækja þau.“
Sigurður telur að tækifæri hafi farið forgörðum á fyrri árum, þegar ferðaþjónustan var í gríðarlega örum vexti. Dæmi um það varði gagnaversiðnað, þar sem Ísland hafi fyrir um það bil fimm árum síðan haft náttúrulegt forskot á önnur ríki, en svo misst af lestinni.
„Raforkan [í gagnaverum] er að miklu leyti notuð til kælingar, en hér er mjög hagstætt veðurfar í því samhengi, sem skapaði þetta náttúrulega samkeppnisforskot. Þetta forskot höfðum við sér í lagi gagnvart okkar nágrannalöndum Norðurlöndunum, en staðan núna fimm árum síðar er sú að Norðurlöndin hafa tekið algjöra forystu á þessum sviðum með skýrri stefnumörkun stjórnvalda sem hefur skilað sér í því að stór alþjóðleg fyrirtæki hafa sett upp starfsemi í þeim löndum, til dæmis í Noregi, í Svíþjóð og í Danmörku,“ segir Sigurður.
Það sem vantaði upp á hjá íslenskum stjórnvöldum í þessu dæmi var að hlúa að tryggum gagnatengingum. „Stór alþjóðleg fyrirtæki setja ekki upp starfsemi hér á landi, til dæmis vegna þess að gagnatengingar eru ekki nægilega öruggar. Ef það væri þriðji stóri gagnastrengurinn til Íslands, þá myndi það opna margar dyr,“ segir Sigurður, en ríkisstjórnin samþykkti einmitt á fundi sínum síðasta föstudag að tryggja fjármögnun á þriðja fjarskiptastrengnum, IRIS, sem á að liggja til Írlands og verða kominn í notkun árið 2022 eða 2023.
Sigurður bendir á að tæknifyrirtækið Google hafi nýlega staðfest að fyrirtækið ætlaði sér að ráðast í starfsemi í Danmörku sem myndi skila um 740 milljónum evra inn í danskt hagkerfi á uppbyggingartímanum og 80 milljónum evra á ári eftir það. Ísland gæti að hans mati verið að sækja svona tækifæri, ef innviðirnir væru sterkari.
„Það er fyllilega raunhæft ef vilji er fyrir hendi, en það krefst auðvitað ákveðinna umbóta, eins og ég nefndi með gagnatengingarnar, umgjörð rafokumarkaðarins og fleira. En, ég held að það sé fyllilega raunhæft. Þarna sjáum við skýra stefnu stjórnvalda og hvernig hún leiðir til verðmætasköpunar. Þetta er dæmi, en við vorum í þessari stöðu fyrir fimm árum, það var hik á stjórnvöldum og fyrir vikið misstum við af lestinni. Á sama tíma er nægur tími til að velta fyrir sér og greina hvort ástæða sé til að breyta klukkunni eða ekki. Það er nægur tími í það en ekki nægur tími til að ná í þessi stóru tækifæri. Þetta er dæmi um forgangsröðunina hjá stjórnvöldum,“ segir Sigurður og bætir við til þess að ná árangri í þessum efnum þurfi stjórnvöld að setja málin á dagskrá, sýna skýran vilja og ráðast í umbæturnar.
„Að þessu sögðu vil ég hrósa stjórnvöldum fyrir umbætur til dæmis í menntamálum,“ segir Sigurður og nefnir að skýr áhersla hafi verið á tvo helstu veikleikana í menntakerfinu og snúa að iðnaði og atvinnulífinu, annars vegar iðnmenntun og tæknigreinum á háskólastigi, en of fáir útskrifast úr slíkum greinum til þess að mæta þörfum atvinnulífsins.
Hlutfallslega færri útskrifast út tæknigreinum á háskólastigi hér á landi en víða erlendis, segir Sigurður. „Á sama tíma stöndum við okkur mjög vel þegar kemur að fjölda ritrýndra fræðigreina í sömu fögum, sem segir okkur að við erum með sterkan grunn en að það séu bara of fá sem sækja nám í þessum greinum. Þetta hefur verið áhersluefni í menntamálum og það er vel,“ segir hann.
Áratugur nýsköpunar gæti verið framundan
Hann hrósar stjórnvöldum líka fyrir aðgerðir sínar í nýsköpunarmálum, en segir að nú þurfi að stíga enn frekar á bensíngjöfina. „Það er fullt tilefni til að ætla að þriðji áratugur þessarar aldar geti verið áratugur nýsköpunar,“ segir Sigurður og nefnir að umbætur á borð við endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar, hvatar til að laða erlenda sérfræðinga til landsins, hvatar til fjárfestingar í sprotum og efling Tækniþróunarsjóðs og fleiri sjóða séu af hinu góða.
„Það hefur verið ráðist í þetta og fjárfest í þessu, fræjum hefur verið sáð og það er full ástæða til að ætla að við getum uppskorið núna á þriðja áratugnum, en þá þarf líka að halda áfram á sömu braut, sækja tækifærin með markvissum hætti og ekki láta þetta einhvernveginn sitja á hakanum, sem hefur svolítið verið raunin. Það var svipuð umræða fyrir rúmum áratug síðan, síðast þegar við lentum í áfalli, að reyna að byggja upp á nýjum grunni, við munum eftir McKinsey-skýrslunni og umfjöllun um alþjóðageirann, en það hefur ekki gengið eftir, eða gengið mjög hægt,“ segir Sigurður og bætir við að þar hafi ævintýralegur uppgangur í ferðaþjónustu spilað stórt hlutverk.
„Það kom eitthvað annað sem fékk alla athyglina og að einhverju leyti bara gleymdum við okkur. Tækifærin eru sannarlega til staðar, en það er undir okkur komið að sjá til þess að við getum uppskorið og að tíu árum liðnum getum við litið til baka, séð stór fyrirtæki sem hafa orðið til með verðmætum störfum sem skila verðmætum inn í þjóðarbúið. Þetta er allt saman hægt og það þarf vilja, sem ég tel sannarlega til staðar, en það þarf eftirfylgni, það þarf að setja þetta á dagskrá og það þarf markvissa stefnu til þess að láta þetta verða að veruleika,“ segir Sigurður.
Stjórnvöld verði að framlengja Allir vinna
Varðandi COVID-aðgerðir stjórnvalda segir Sigurður að honum langi að nefna átakið Allir vinna, sem hafi verið einstaklega vel heppnað, sem gengur út á það að endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu iðnaðarmanna var hækkuð tímabundið upp í 100 prósent.
„Það dregur úr svartri atvinnustarfsemi sem er mjög jákvætt og skapar hvata til umsvifa. Þetta hefur sannarlega skilað góðum árangri, við finnum það á samtölum við okkar félagsmenn að það er mjög mikið að gera – það er mjög mikið að gera til áramóta, þegar úrræðið fellur úr gildi,“ segir Sigurður og segir þess vegna blasa við að það verði að framlengja úrræðið „að minnsta kosti út næsta ár ef vel á að vera.“
Hann segist þó hafa skilning á því að stjórnvöld hafi ákveðið að hafa úrræðið svona tímabundið til að byrja með, til að skapa rétta hvata til að ráðast í framkvæmdir.
„Þetta hefur gert það að verkum að störf eru varin, það verða til störf sem ella hefðu ekki orðið til og það verða til umsvif líka hjá versluninni. Það hefur verið mikið að gera í byggingavöruverslunum svo dæmi sé tekið. Það fer af stað ákveðin keðjuverkun, sem er akkúrat það sem við þurfum á að halda við þessar aðstæður,“ segir Sigurður, sem segir líka gott að verkefnið var látið ná til sveitarfélaga sem sjá nú hag sinn í að ráðast í stórar og smáar framkvæmdir.
„Það góða er að þetta eru verkefni af öllum toga, lítil og stór og úti um allt land, þetta skapar möguleika fyrir mjög breiðan hóp til atvinnu,“ segir Sigurður.
Stöðnun möguleg í uppbyggingu íbúða
Spurður um það hvernig staðan sé í byggingariðnaði um þessar mundir segir Sigurður að hún litist af óvissunni sem er í hagkerfinu, sem þýði almennt að fyrirtæki haldi að sér höndum. „Þess vegna er svo mikilvægt að hið opinbera stígi fram með markvissum hætti og auki fjárfestingu. Það er jákvætt,“ segir Sigurður, en bætir við að það sé að verða ákveðin tilfærsla á markaðnum yfir í vegagerð og opinberar byggingar frá íbúðamarkaðnum.
Nýbyggingarnar á Kirkjusandi blöstu við út um gluggann á Húsi atvinnulífsins þar sem Kjarninn hitti á Sigurð. „Við erum þá ekki að fara að fá mörg svona verkefni á teikniborðið á næstunni?“ spyr blaðamaður.
„Nei, nei. Þó við sjáum mikið af krönum víða, þá eru það að langstærstu leyti verkefni sem fóru af stað fyrir löngu síðan,“ segir Sigurður og bendir síðan á að samdráttur í fjölda íbúða á fyrstu byggingarstigum hafi raunar verið hafinn þegar kórónuveiran barst til landsins.
„Samtök iðnaðarins eru með starfsmann, Friðrik Ólafsson, sem keyrir um bæinn og telur íbúðir í byggingu tvisvar á ári. Hann er að telja núna svo við fáum tölur í lok þessa mánaðar um umsvifin. En við sáum í síðustu talningu, í lok febrúar [...] þá var mjög mikill samdráttur í fjölda íbúða í byggingu upp að fokheldu, fjöldi íbúða á fyrstu byggingarstigum hafði lækkað um rúmlega 40 prósent á 12 mánuðum. Það segir okkur að það voru miklu, miklu færri verkefni sem fóru af stað á því tímabili heldur en áður og ég á von á því að sú þróun hafi haldið áfram núna síðan í febrúar. Óvissan náttúrlega spilar þar inn í að miklu leyti. Þetta gæti verið mikið áhyggjuefni eftir 2-5 ár. Núna eru margar íbúðir í byggingu og að koma inn á markaðinn um þessar mundir og á næsta ári, en það er hætt við því að það verði lítið framboð af nýjum íbúðum 2022 til 2025,“ segir Sigurður.
Þannig að við gætum verið að horfa fram á svipaða stöðu á íbúðarmarkaðnum og á árunum eftir hrun?
„Ef ekkert verður að gert, þá óttumst við að það verði raunin. Það er mjög alvarlegt fyrir samfélagið í heild sinni, því það þýðir hækkun fasteignaverðs, leiguverðs og fleira og á síðustu árum höfum við séð hvernig sú staða meðal annars leiddi til ólgu á vinnumarkaði. Því að þó að laun hafi hækkað mikið í samningunum 2015-16 og krónunum í veskinu fjölgaði þá fóru þær sömu krónur í hækkun á leiguverði og meira til,“ segir Sigurður, en hann hefur trú á því að nýlega samþykkt frumvarp um hlutdeildarlán gæti verkað á móti þessum áhrifum, þar sem slík lán eigi að hafa jákvæð áhrif á framboðshliðina og mynda hvata til uppbyggingar.
„Á sama tíma og þetta er stuðningur við fólk til að komast inn á fasteignamarkaðinn þá leiðir þetta til framboðs á nýju húsnæði, íbúðum sem voru ekki á markaði fyrir. Það er jákvætt og þetta er fyrsta úrræðið sem ég man eftir sem leiðir til aukins framboðs á íbúðarhúsnæði og þar af leiðandi hefur þetta kannski ekki þau áhrif á verð sem margir vilja vera að láta,“ segir Sigurður, en bætir við að stjórnvöld þurfi einnig að ráðast í umbætur á skipulagsferlinu í kringum byggingu íbúðarhúsnæðis til þess að einfalda það og draga úr kostnaði.
„Það er sama eftirlit í byggingarferlinu á mannvirki hvort sem um er að ræða flókna byggingu eins og hátæknisjúkrahús eða Hörpu annars vegar og einbýlishús hins vegar, sem eru í eðli sínu mjög ólík. Önnur ríki hafa skilið þarna á milli og hugmyndin er að gera það sama hérna,“ segir Sigurður og segir þingið verða að einbeita sér að því að hrinda þessum nauðsynlegu umbótum í framkvæmd.
Sigurður segir að iðnaðurinn í landinu hafi lagt mjög mikið til endurreisnarinnar eftir hrun og geti gert það aftur núna, þegar við kröfsum okkur út úr kórónuveirukreppunni.
„Eitt af hverjum fjórum nýjum störfum varð til í iðnaði, sem eru fjölmörg störf, á árunum 2011 til 2019 og þriðjungur vaxtar varð í iðnaði, sem er umfram hlutfall iðnaðar í landsframleiðslunni. Iðnaðurinn lagði meira til endurreisnarinnar heldur en stærð hans gaf til kynna. Þetta getur gerst með mun kröftugri hætti núna ef rétt er á spilunum haldið,“ segir Sigurður.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði