Icelandair Group hefur átt í miklum rekstrarvanda undanfarna mánuði. Alls nam tap samstæðunnar um 45 milljörðum króna á fyrri hluta ársins 2020. Stærstan hluta þess taps, sem nemur 245 milljónum króna á dag, má rekja beint til kórónuveirufaraldursins.
Síðustu mánuði hefur félagið því róið lífróður og undirbúið það að sækja sér nýtt hlutafé til að standa af sér yfirstandandi storm. Upphaflega ætlaði það að halda hlutafjárútboð sem myndi ljúka í júnímánuði og átti að safna 200 milljónum dala, um 27 milljörðum króna á núvirði. Það gekk ekki eftir vegna þess að Icelandair náði ekki samningum við ýmsa hagaðila í tíma til að það væri hægt. Því var hlutafjárútboðinu frestað fram í ágúst og þegar ljóst var að sá tímafrestur myndi ekki nást var greint frá nýjum áformum: Upphæðin sem sækja átti var lækkuð og útboðið myndi fara fram í september.
Hlutafjárútboð Icelandair hefst í dag klukkan níu og lýkur á morgun klukkan fjögur síðdegis. Stund sannleikans er að renna upp.
1. Ætlað að safna 20-28,8 milljörðum króna
Icelandair ætlar sér að safna að lágmarki 20 milljörðum króna í nýtt hlutafé, en hver hlutur verður seldur á eina krónu. Ef umframeftirspurn skapast eftir hlutum verður hægt að stækka útgáfuna um þrjá milljarða króna auk þess sem að kaup á hverjum hlut mun fylgja áskriftarréttindi sem svara til 25 prósent af skráningu nýrra hluta. Það þýðir að þeir sem kaupa hlut mega bæta við fjárfestinguna sína á sama gengi sem nemur fjórðungi af upphaflegri fjárfestingu. Verði þessi réttindi fullnýtt mun Icelandair að hámarki safna 28,75 milljörðum króna.
2. Samkomulag við haghafa
Icelandair hefur gert við ýmsa kröfuhafa sína bæta lausafjárstöðu félagsins, eða draga úr fjárhagslegum skuldbindingum þess, um alls 450 milljónir dali, eða um 61 milljarð króna. Þar skipta langmestu máli breytingar á kaupsamningum á Boeing flugvélum. Þessir samningar voru forsenda þess að hægt var að ráðast í útboðið. Til viðbótar hafa samningar við stærstu starfsstéttirnar sem starfa hjá félaginu skilað töluverðu kostnaðarhagræði, en í því felst að mestu að starfsmenn þurfa að skila fleiri tímum í vinnu en áður.
Ekkert hefur hins vegar verið afskrifað af skuldum Icelandair Group.
3. Almenningur má kaupa en þarf að standast próf
Almenningur mun fá að kaupa fyrir að minnsta kosti 100 þúsund krónur og upp að 20 milljónum króna. Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur hins vegar gert kröfu um að almenningur sem tekur þátt í útboðinu geti sýnt fram á reynslu og tilhlýðilega þekkingu á afleiðuviðskiptum.
4. Lífeyrissjóðirnir þeir sem þurfa að kaupa
Stjórnendur Icelandair hafa sagt það opinberlega að horft sé til samtals við helstu núverandi innlendu hluthafa um þátttöku í hlutafjárútboðinu.
Þar eru fjórir íslenskir lífeyrissjóðir stærstir: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi og Birta. Eigendur lífeyrissjóðanna eru almenningur í landinu.
Áratugur er síðan að Icelandair fór síðast í gegnum endurskipulagningu og á því tímabili hefur ávöxtun sjóðanna ekki verið beysin. Tveir þeirra hafa raunar tapað verulega á þeirri fjárfestingu, líkt og Kjarninn greindi frá nýverið.
5. Allskyns ríkisframlag
Flestar þeirra efnahagsaðgerða sem íslenska ríkið hefur gripið til vegna kórónuveirufaraldursins hafa verið sniðnar að Icelandair. Félagið var það einstaka fyrirtæki sem nýtti mest allra hlutabótaleið stjórnvalda. Í mars og apríl fengu launamenn hjá þeim félögum sem mynda Icelandair-samstæðuna alls um 1,1 milljarð króna í greiðslur frá Vinnumálastofnun vegna minnkaðs starfshlutfalls. Icelandair nýtti líka leiðina í maí en ekki hefur verið greint frá því hversu háar greiðslur Vinnumálastofnunar vegna starfsmanna samstæðunnar námu þann mánuð.
Auk þess fóru rúmlega 3,4 milljarðar króna af hinum svokölluðu uppsagnarstyrkjunum, sem samtals námu átta milljörðum króna, til Icelandair Group eða tengdra aðila, eða um 43 prósent heildarupphæðarinnar.
6. Sölutrygging ríkisbanka
Þann 1. september var greint frá því að Icelandair hefði náð samkomulagi við ríkisbankana tvo, Íslandsbanka og Landsbankann, um að þeir sölutryggðu samtals sex milljarða króna í komandi hlutafjárútboði. Hvor um sig mun sölutryggja þrjá milljarða króna.
Það þýðir á mannamáli að Icelandair þarf í raun ekki að selja nema 14 milljarða króna af útgáfunni vegna þess að ríkisbankarnir tveir hafa þegar skuldbundið sig til að kaupa fyrir sex ef 14 milljarða króna markið næst. Gangi það eftir verður ríkið óbeinn eigandi að Icelandair í gegnum banka sem það á að öllu leyti.
7. Þegar stórir lánveitendur
Íslandsbanki hefur lengi verið helsti viðskiptabanki Icelandair og lánað honum háar fjárhæðir. Bankinn er með veð í fasteignum og flughermum félagsins. Í mars í fyrra lánaði Landsbankinn Icelandair 80 milljónir dala, þá um tíu milljarða króna en nú mun hærri fjárhæð, gegn veði í tíu Boeing 757 flugvélum félagsins, sem eru gamlar og líkast til verðlausar miðað við þá stöðu sem er uppi í heiminum í dag, samkvæmt viðmælendum Kjarnans.
8. Rekstrarlína og ríkisábyrgð
Til viðbótar við allt ofangreint þá hafa ríkisbankarnir tveir heitið því að leggja fram rekstrarlínu upp á samtals sjö milljarða króna sem Icelandair mun geta dregið á. Íslandsbanki leggur til fjóra af þeim milljörðum króna en Landsbankinn þrjá.
Icelandair mun auk þess fá þrautavaralánalínu upp á 16,5 milljarða króna, sem félagið getur dregið á ef allur annar peningur er búinn. Íslandsbanki og Landsbankinn munu skipta því láni á milli sín, og lána 8,25 milljarða króna hvor ef á línuna reynir.
Alþingi samþykkti nýverið að ábyrgjast 90 prósent lánalínunnar, eða tæplega 15 milljarða króna.
9.Búast við fyrri umsvifum 2024
Icelandair Group hefur gefið það út að félagið búist við því að ná fyrri umsvifum sínum árið 2024. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í Kastljósi í vikunni að það það myndi þurfa að draga á lánalínuna sem ríkisábyrgðin hvílir á ef staðan myndi ekki batna næsta sumar. Það myndi þá fleyta Icelandair áfram inn á vorið 2022.
Margir viðmælendur Kjarnans innan fjármálageirans hafa hrósað Icelandair fyrir að leggja fram varfærna rekstraráætlun og búast við því að umframeftirspurn verði í útboðinu. Aðrir hafa sagt rekstraráætlunina óraunhæfa og til að mynda bent á að í henni sé ekki reiknað með samkeppni frá PLAY, en stjórnendur þess félags segja það geta farið í loftið á innan við mánuði þegar aðstæður skána.
10. Harðlega gagnrýnt líka
Hörð gagnrýni hefur líka verið sett fram á útboðið. Hluti verkalýðshreyfingarinnar hefur til að mynda verið stórorð, en stéttarfélög skipa hluta stjórnarmanna í sumum af stærstu lífeyrissjóðum landsins. Það sem stendur mest í forkálfum hennar er ákvörðun Icelandair að segja upp flugfreyjum og -þjónum fyrr í sumar og í kjölfarið hótun félagsins um að ganga til samninga við annað stéttarfélag að eigin vali. Drífa Snædal, forseti ASÍ, kallaði þetta í grein í Morgunblaðinu í gær eina „grófustu aðför að réttindum vinnandi fólks hér á landi á síðari tímum, aðför sem er þegar skráð á spjöld sögunnar“. Málinu hefur verið stefnt fyrir félagsdóm.
Sambærileg gagnrýni kom fram í grein Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Jónu Sveinsdóttur, stjórnarmanna í Eflingu sem báðar sitja í fulltrúaráði Gildis lífeyrissjóð, sem birtist um helgina. Þar sagði m.a.: „Við munum aldrei una við það að eftirlaunasjóður okkur verði notaður til að niðurgreiða taprekstur stórfyrirtækisins Icelandair og árásir þess á grunnréttindi launafólks. Aldrei."
Gagnrýnin hefur líka komið annars staðar frá. „Þetta er gríðarleg áhætta og algjör óvissa hvað kemur út úr þessu,“ sagði Gylfi Magnússon, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður bankaráðs Seðlabankans, um mögulega þátttöku íslenskra lífeyrissjóða í hlutafjárútboðinu á nýlegu málþingi Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Hann og Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja, lýstu þar báðir yfir efasemdum um að þátttaka íslenskra lífeyrissjóða í útboðinu væri réttlætanleg.