Sjávarútvegurinn sterk stoð þegar aðrar bresta
Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að hundruð milljarða króna tap verði á rekstri ríkissjóðs á næstu misserum og atvinnuleysi er í hæstu hæðum. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk þeirra sýn á stöðu mála. Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS er næst í röðinni og ræðir hér stöðuna í sjávarútvegi.
Áhrif kórónuveirufaraldursins á íslenskan sjávarútveg hafa verið töluverð á árinu og veruleikinn sem blasir við núna í haust, vegna þess bakslags sem hefur orðið í baráttunni við veiruna víða á helstu útflutningsmörkuðum er lægri verð, aukin birgðasöfnun vegna minni sölu og breytingar á þeim afurðum sem héðan eru fluttar.
„Öll óvissa hefur mikil áhrif, upp á að fyrirtæki geti skipulagt starfsemi sína og framleiðslu og viti hvað er framundan,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), í samtali við Kjarnann.
Blaðamaður hitti á hana í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni nýlega og spurði út í stöðuna í greininni í ljósi heimsfaraldurs, þá viðvarandi umræðu sem er í samfélaginu um gjaldtöku af auðlindum hafsins, áhrif Samherjamálsins og ýmislegt fleira.
Heiðrún Lind segir sölu á sjávarafurðum hafa orðið erfiða í lok vetrar þegar veiran lét á sér kræla og þá hafi verið uppi verulegar áhyggjur, en síðan hafi staðan batnað á ný í sumar. Nú þegar haustið bresti á sé aftur kippur til baka í sölu sjávarafurða og markaðurinn fyrir ferskan fisk sé aftur orðinn erfiður, enda sé veitingahúsum víða gert að loka í sóttvarnaskyni og sömuleiðis ferskfiskborðum í matvörumörkuðum.
„Einstaka tegundir eiga erfitt uppdráttar, rækja, bleikja og sjófryst, sem dæmi. Það verða ýmis konar áskoranir sem þarf að takast á við í vetur,“ segir Heiðrún Lind. „Ég nefni bara rækjuna sem dæmi, hún fer að mestu leyti á Bretland. Og þegar öllum er fyrirskipað að vinna að heiman þá kaupir sér enginn rækjusamlokur í hádeginu.“
Lítill fiskur borðaður á Zoom-fundum
Hún segist vona að langtímaáhrif faraldursins á sjávarútveginn verði ekki mikil en að hún sjái fyrir sér erfiðan vetur og jafnvel erfitt næsta ár líka. „Dýrustu afurðir okkar, þessi ferski fiskur, hann er að fara inn á hátt borgandi markaði, veitingahús að miklu leyti og hótel. En í einhverjum tilvikum hafa þessi veitingahús þetta ekki af og munu ekki opna aftur,“ segir Heiðrún Lind. Hún nefnir líka að þverrandi kaupmáttur í útflutningslöndunum gæti haft áhrif á fisksölu. Einnig gætu fleiri fjarfundir í viðskiptalífinu og færri viðskiptaferðir, sem ýmsir spá að verði framtíðin þegar faraldurinn er að baki, haft áhrif á fisksölu.
„Menn hafa tileinkað sér breytta tækni og þessi betri veitingahús reiða sig á viðskiptavini sem eru þar í viðskiptalegum erindagjörðum,“ segir Heiðrún Lind, en margt bendir til þess að til framtíðar munu æ fleiri slíkir fundir fara fram úr fjarlægð í gegnum Zoom eða Teams, en ekki á yfir málsverði á veitingahúsi. „Við erum öll að tileinka okkur þá tækni og þó menn sjái það kannski ekki í fljótu bragði þá mun það hafa áhrif á fisksölu,“ segir Heiðrún Lind.
Afkoman 2019 „ljós í erfiðum aðstæðum“
Sjávarútvegsdagurinn svokallaði var haldinn um miðjan mánuðinn. Þar var að venju birt samantekt um það hvernig íslenskum félögum í sjávarútvegi vegnaði í rekstri sínum á síðasta ári. Niðurstaðan var heilt yfir mjög góð, eins og fjallað var um í fréttaskýringu Kjarnans upp úr gögnum sem Deloitte tók saman fyrir SFS og ná til uppgjörs um 90 prósent þeirra félaga sem starfa í íslenskum sjávarútvegi. Samanlagður hagnaður í greininni nam 43 milljörðum í fyrra.
„Þetta var gott ár í sjávarútvegi og afkoman endurspeglar það. Við erum lánsöm hvað þetta varðar, enda þarf þjóðfélagið nú sem aldrei fyrr að reiða sig á að atvinnugreinar standi af sér skakkaföllin af völdum kórónuveirunnar,“ segir Heiðrún Lind, sem talar um afkomuna sem „ljós í erfiðum aðstæðum.“ Hún segir að samdrátturinn í sjávarútvegi það sem af sé þessu ári sé meiri en á nýlegum erfiðum árum í sjávarútvegi.
„Það var minni samdráttur á fyrstu sjö mánuðum ársins árið 2017, þegar sjómannaverkfallið leiddi til þess að ekki var dreginn sporður úr hafi í sex vikur. Sama með efnahagshrunið, þá var fyrst og fremst lækkun á afurðaverði en magnið hélst tiltölulega stöðugt. Það var samdráttur 2008 og 2009 sem reyndist mjög erfiður sjávarútvegi, en við erum með meiri samdrátt núna það sem af er þessu ári heldur en var í hruninu. Þetta hefur mikil og neikvæð áhrif á sjávarútveg núna en fyrirtækin eru, heilt yfir, vel í stakk búin inn í árferðið og sjávarútvegur mun standa þetta af sér, en þetta verða erfiðir næstu mánuðir,“ segir Heiðrún Lind.
Samdrátturinn sem hún ræðir hér um er í magni og verðmæti í erlendri mynt, en gengi krónunnar hefur á móti fallið.
„Það hjálpar auðvitað til. Þegar við sjáum lækkun á afurðaverði í erlendri mynt og minnkun í magni þá hjálpar til að krónan hafi gefið eftir. En, til lengri tíma litið þá er það jafnvægi gjaldmiðilsins sem er hinn gullni meðalvegur. Miklar sveiflur í gengi krónu eru ekki góðar, fyrir utan það að sjávarútvegsfyrirtæki eru auðvitað líka með kostnað sem eykst við veikingu krónu, þau þurfa að reiða sig á að geta keypt aðföng, olíu, varahluti og annað, og þá er kannski síður heppilegt að krónan veikist mikið. En veiking krónu, þegar verð í erlendri mynt lækkar og selt magn minnkar, húnléttir undir, ekki bara í sjávarútvegi heldur í öllum útflutningi,“ segir Heiðrún Lind.
Ekki gefið að öll fyrirtæki standi þetta af sér
Kórónuveirukreppan og aðstæður á útflutningsmörkuðum koma á mismunandi hátt við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Heiðrún Lind segir að fyrirtækin sem eru með meiri einsleitni í framleiðslu eigi kannski erfiðara um vik við að bregðast við aðstæðum og nefnir sem dæmi fyrirtæki sem hafa fjárfest mikið í ferskfiskvinnslu eigi erfiðara með að færa sig yfir í frystar afurðir, hafi jafnvel ekki frystigeymslur fyrir þær.
„En innan SFS eru tæplega 130 fyrirtæki, þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Þau framleiða ólíkar afurðir, eru mismunandi að stærð og búa yfir æði misjöfnum fjárhagslegum styrk. Það er ekki gefið að öll fyrirtæki standi þetta af sér, en sjávarútvegur heilt yfir sem gjaldeyrisskapandi atvinnugrein fyrir Íslendinga þegar aðrar atvinnugreinar bresta, á að geta staðið þennan storm af sér,“ segir Heiðrún Lind.
Alltaf til í að taka umræðu um gjaldtöku
Viðvarandi umræða er í samfélaginu um sjávarútveg og það hversu miklu atvinnugreinin skilar í fjárhirslur ríkisins. Þessi umræða hefur verið hávær að undanförnu og skiptar skoðanir, að venju. Heiðrún Lind segir ágætt að talað sé um sjávarútveg, það sem hann skapar og skilar til samfélagsins.
„Allt er þetta eðlileg umræða og við eigum að taka hana, sama á hvaða tíma hún kemur. En það er hins vegar mikilvægt, nú sem fyrr, að við séum með traustar stoðir undir efnahag landsins,“ segir Heiðrún Lind og nefnir að tvær hinar stóru stoðirnar, ferðaþjónustan og álið, eigi nú undir högg að sækja.
„Þá hefði ég talið þeim mun mikilvægara að umræðan snerist um það hvernig við skjótum styrkari stoðum undir sjávarútveg. Hvernig getur hann skapað meira verðmæti? Umræðan, því miður, er stundum á þann veg eins og einu verðmætin geti falist í veiðigjaldi eða gjaldi fyrir nýtingu auðlindarinnar. Auðlindagjaldið er bara einn hluti af þeim verðmætum sem sjávarútvegur skilar til samfélagsins, að sjálfsögðu greiðir sjávarútvegur skatta og gjöld til samfélagsins, tekjuskatt eins og önnur fyrirtæki, tryggingagjald og svo framvegis. Við greiðum góð laun og af þeim greiða starfsmenn útsvar og annað þess háttar. Í því felast verðmæti en þau felast líka, og ekki síður, í því hvernig við getum hámarkað verðmætið á afurðunum þegar við flytjum þær úr landi,“ segir Heiðrún Lind.
„Það að skattleggja greinina úr hófi mun leiða til þverrandi samkeppnishæfni. Það mun draga úr fjárfestingum, það verður minna svigrúm til að fjárfesta í nýsköpun og markaðsstarfi, öllu því sem á að leiða til verðmætasköpunar. Vel má vera að aukin gjaldtaka leiði til þess að meiri fjármunir fara í ríkissjóð til skamms tíma, en til lengri tíma litið mun það þýða þverrandi samkeppnishæfni og minni verðmæti. Og þannig að endingu minni verðmæti til bæði ríkissjóðs og samfélagsins. Mér finnst umræðan oft einfölduð að þessu leyti, eins og að verðmætin verði til með því að við fáum skatt í formi auðlindagjaldsins. Ef að tekjur ríkisins á ári eru ríflega 900 milljarðar króna, þá hefur einn milljaður til eða frá í formi veiðigjalds ekki úrslitaáhrif í því hvort okkur takist að reka Landspítalann þannig að sómi sé af eða byggja tvær Hörpur á ári eða hvað sem að menn vilja að verði gert fyrir gjald af nýtingu auðlinda,“ segir Heiðrún Lind, sem segir þó að öll umræða eigi rétt á sér.
Halda verði fiskvinnslu samkeppnishæfri
Hún sé þó oft á þann veg að sjávarútvegurinn sé svo stór og þar séu allir svo ríkir og skipta þurfi kökunni öðruvísi. „Við erum ekki með ríkulegri fiskveiðiauðlind en aðrar þjóðir sem við erum að keppa við. Við erum raunar mjög lítil í alþjóðlegu samhengi, á lista yfir 100 stærstu fyrirtæki heims hefur eitt íslenskt fyrirtæki ratað inn,“ segir Heiðrún Lind, en það er Samherji og þar er starfsemi fyrirtækisins á heimsvísu undir.
Að auki, segir Heiðrún Lind, veit hún ekki til þess að nein önnur þjóð sé með sjávarútveg sem að engu leyti reiði sig á framlög úr ríkissjóði. Sjávarútvegur sé að hluta ríkisstyrktur bæði í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum. Við þetta þurfa íslensk fyrirtæki að keppa, segir Heiðrún og tekur dæmi frá Póllandi.
Vel má vera að aukin gjaldtaka leiði til þess að meiri fjármunir fara í ríkissjóð til skamms tíma, en til lengri tíma litið mun það þýða þverrandi samkeppnishæfni og minni verðmæti.
„[Pólverjar] hafa verið að treysta verulega samkeppnishæfni sína í vinnslu sjávarafurða og hafa meðal annars verið að kaupa íslenskan fisk héðan óunninn til að vinna í Póllandi. Þá má eðlilega velta fyrir sér, hver er samkeppnishæfni íslenskrar fiskvinnslu? Metnaður okkar liggur auðvitað í því að fullvinna afurðirnar hér heima og skapa verðmætin hér, en samkeppnishæfnin í íslenskri fiskvinnslu fer þverrandi og framlegðin fer minnkandi. Við greiðum laun hérna heima sem eru um þrisvar sinnum hærri en starfsmaður fiskvinnslu í Póllandi fær. Til viðbótar fá þessi fyrirtæki svo styrki frá ESB og sínu heimalandi til þess að reka starfsemi sína,“ segir Heiðrún Lind.
Hún segir að til framtíðar þurfi að huga að því hvernig íslenskur sjávarútvegur geti verið samkeppnishæfur í þessum efnum, ella gæti farið svo að fullvinnsla afurða hér á landi borgi sig ekki og íslensku fyrirtækin verði bara hráefnisútflytjendur, sem flytji óunninn fisk beint úr landi.
„Við munum ekki keppa við þetta með því að skattleggja greinina enn frekar. Við munum ekki keppa við þetta með því að lækka laun í fiskvinnslu og það er enginn vilji til þess, við viljum greiða góð laun. Hingað til höfum við keppt á grundvelli fjárfestinga, nýsköpunar og tækni sem við sjálf höfum búið til í samstarfi við íslensk tæknifyrirtæki og hugvit. Þetta eitt og sér er orðin útflutningsafurð, sem er orðin ný stoð undir efnahaginn okkar. Þarna er til dæmis risastórt tækifæri fyrir okkur til að skapa verðmæti í sjávarútvegstengdri tækni. Þarna getum við keppt og ætlum að keppa, en í þessu felst líka áskorun, því í þessu felst að við erum með þessu að fækka störfum í hefðbundnum störfum fiskvinnslu og útgerðar,“ segir Heiðrún Lind en bætir við að í staðinn verði til öðruvísi störf við það að stýra vélunum, betri og líkamlega léttari störf.
Sameiginlegt verkefni samfélagsins að takast á við sjálfvirknivæðingu
Þetta sé þó áskorun, því aðstoða verði þá sem missa þau störf sem vélar leysi af hólmi við að takast á við nýja tilveru. „Það er ekki bara verkefni sjávarútvegs, það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar sem samfélags, að takast á við þessa sjálfvirknivæðingu. Sjávarútvegurinn er bara fyrsta atvinnugreinin af mörgum sem er komin í þessa vegferð og aðrar munu fylgja á eftir, þar sem sjálfvirkni og gervigreind munu koma í auknum mæli inn. En ef við getum lækkað kostnað með því að auka tækni í vinnslu, þá getum við verið samkeppnishæf,“ segir Heiðrún Lind.
Metnaðurinn sjáist í fjárfestingunni
Hún segir að metnaður íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja standi til þess að fjárfesta í tækninni, bæði á sjó og landi til að halda í samkeppnishæfni sína. Nefnir hún þar sex til sjö milljarða fjárfestingu í nýrri fiskvinnslu Samherja á Dalvík, sjö milljarða fjárfestingu Eskju á Eskifirði, þriggja milljarða fjárfestingu Brims í Reykjavík og tveggja til þriggja milljarða fjárfestingu G.Run í Grundarfirði, í það einmitt að fullvinna afurðir í landi með hjálp nýjustu tækni. „Við ætlum okkur síst af öllu að verða bara hráefnisútflytjandi, við ætlum að keppa í fullvinnslu afurða,“ segir Heiðrún Lind.
Öll neikvæð umræða hefur áhrif
Brátt verður liðið ár síðan að fjölmiðlar ljóstruðu upp um mögulega saknæma viðskiptahætti Samherja í Namibíu og hefur málið síðan verið til rannsóknar hjá þar til bærum yfirvöldum hér á Íslandi og ytra. Blaðamaður spurði Heiðrúnu Lind að því hvort hún teldi mál fyrirtækisins hafa haft áhrif á ímynd íslensks sjávarútvegs.
„Öll neikvæð umræða hefur að sjálfsögðu áhrif á atvinnugreinina í heild sinni og sérstaklega þegar stór og öflug fyrirtæki eiga í hlut. En það er hins vegar þannig að hvert og eitt fyrirtæki verður að svara fyrir sitt leyti hvernig það hagar starfsemi sinni og hvort að það starfi í samræmi við lög og reglur. Sem samtök gerum við auðvitað þá kröfu að allir fylgi þeim leikreglum sem settar hafa verið, af hálfu löggjafans og af hálfu samfélagins. Að mínu viti er það þó jákvætt í þessu annars neikvæða máli, að það er til staðar löggjöf sem tekur á svona málum og þessum ásökunum sem uppi eru. Málið er þá komið til rannsóknar hjá þeim yfirvöldum sem eru til þess bær og við verðum að treysta þeim yfirvöldum, og hugsanlega síðar dómstólum, til að skera úr um hvort háttsemin hafi verið í samræmi við lög eða ekki. Að svo komnu máli verðum við að leyfa réttarríkinu að hafa sinn gang,“ segir Heiðrún Lind.
Hún segist ekki hafa heyrt af því að önnur íslensk fyrirtæki hafi fengið fyrirspurnir frá kaupendum eða lent í vandræðum af einhverju tagi vegna máls Samherja.
„Þessar ásakanir varða enda ekki starfsemi fyrirtækisins á Íslandi. Mér finnst stundum ágætt að hugsa til þess að við sem manneskjur gerum mistök á hverjum einasta degi. Fyrirtæki gera líka mistök. Með því er ég ekki að segja að það eigi ekki að hafa neinar afleiðingar, en umhverfið má ekki verða þannig að fyrirtæki eða stjórnendur þeirra megi engin mistök gera. Væri það raunin, þá væru ólíklega teknar ákvarðanir í erfiðum aðstæðum. Það væri ekki góð staða. En hvað þetta tiltekna mál áhrærir sem þú nefnir, þá hefur það ekki haft áhrif á íslenskan sjávarútveg í heild sinni eða sölu íslenskra sjávarafurða erlendis. Blessunarlega.“