EPA Donald Trump
EPA

Lykilatriðin úr afhjúpun New York Times á skattamálum Trumps

Honum gengur illa í rekstri, en er virkilega góður í sniðganga skattgreiðslur. New York Times hefur komist yfir skattskýrslur Bandaríkjaforseta á 18 ára tímabili, sem forsetinn hefur reynt að halda leyndum. Kjarninn tók það helsta saman.

Don­ald Trump hefur greitt lít­inn eða engan tekju­skatt mörg ár frá alda­mót­um, sam­kvæmt ítar­legri umfjöllun New York Times, sem kom höndum yfir skatt­skýrslur for­set­ans tæpa tvo ára­tugi aftur í tím­ann og hóf umfjöllun sína um þær í gær­kvöldi.

Árið 2016 greiddi Trump 750 dali í tekju­skatt og hið sama árið 2017. Það er jafn­virði rúm­lega 100 þús­und íslenskra króna hvort ár. Tíu af fimmtán árum þar á undan greiddi for­set­inn alls engan tekju­skatt, þar sem hann gaf fram frá­drátt­ar­bært tap sem var langt umfram það sem hann þén­aði.

Upp­ljóstrun New York Times um skatta­mál for­set­ans, sem hingað til hefur viljað halda skatt­skýrslum sínum leynd­um, þvert á venju sem allir for­setar Banda­ríkj­anna hafa fylgt frá því að Jimmy Carter var for­seti, kemur sem storm­sveipur inn í kosn­inga­bar­átt­una vest­an­hafs nú þegar rúmur mán­uður er í kjör­dag.



Auglýsing

Kjarn­inn tekur hér saman lyk­il­at­riði úr umfjöllun New York Times, en í afar stuttu máli má þó segja að hún sýni helst fram á þrennt. 

  • For­set­inn er ekki far­sæll við­skipta­mað­ur, þrátt fyrir að hann hreyki sér gjarnan af því.
  • For­set­inn er hins vegar mjög flinkur í að snið­ganga tekju­skatt­greiðslur og hefur beitt til þess mörgum brögð­um, sumum vafasöm­um. 
  • For­set­inn er í þröngri fjár­hags­legri stöðu og hags­muna­á­rekstrar for­set­ans vegna við­skipta í erlendum ríkjum virð­ast tölu­verð­ir.

Borgar mjög lít­inn tekju­skatt

New York Times fór yfir alls 18 ár af skatt­skýrslum for­set­ans frá alda­mót­um. Ell­efu af þessum 18 árum borg­aði for­set­inn ekki einn ein­asta doll­ara í tekju­skatt. Hann borgar mun minni tekju­skatt en flestir aðrir sem eru svipað ríkir og hann er eða seg­ist ver­a. 

Sam­kvæmt tölum frá skatt­yf­ir­völdum í Banda­ríkj­unum er skatt­byrði 0.001 pró­sents þeirra allra rík­ustu í Banda­ríkj­unum 24,1 pró­sent að með­al­tali. Á meðan að þessi hópur borgar að með­al­tali um 25 millj­ónir doll­ara í tekju­skatt á ári hefur Trump, sam­kvæmt útreikn­ingum Times, greitt að með­al­tali 1,4 millj­ónir doll­ara á ári í tekju­skatt á þessu 18 ára tíma­bili.

Skatt­ur­inn vill fá risa­skatta­end­ur­greiðslu for­set­ans til baka

Don­ald Trump var um ára­bil and­lit raun­veru­leika­sjón­varps­þátt­anna The App­rent­ice og fékk vel greitt fyr­ir. Það leiddi til þess að hann þurfti að greiða háa tekju­skatta og hefur for­set­inn í heild­ina greitt 95 millj­ónir dala, jafn­virði 13,2 millj­arða króna, í tekju­skatt á þeim 18 árum sem Times skoð­að­i. 

Hins vegar sótti hann um end­ur­greiðslu á stærstum hluta þess sem hann greiddi í skatt og fékk 72,9 millj­óna dala, tæp­lega 10,2 millj­arða króna, í end­ur­greiðslu frá skatt­inum árið 2010.

Ivanka Trump (t.h.) virðist hafa fengið ráðgjafagreiðslur frá fyrirtæki föður síns, sem virka sem frádráttarbær kostnaður fyrir Trump-samstæðuna.
EPA

Skatta­yf­ir­völd hafa síðan sett spurn­inga­merki við það hvort það tap sem Trump gaf upp til að fá þessa end­ur­greiðslu hafi verið lög­mæt ástæða fyrir end­ur­greiðslu og hefur end­ur­skoðun banda­rískra skatta­yf­ir­valda á mál­inu staðið yfir frá árinu 2011. ­Sam­kvæmt umfjöllun New York Times gæti þetta að end­ingu leitt til þess að Trump yrði kraf­inn um að greiða til baka meira enn 100 millj­ónir dala.

Einka­neysla gefin upp sem frá­drátt­ar­bær kostn­aður

Sam­kvæmt skatt­skýrslum Trumps hefur mik­ill kostn­aður við ríku­legan lífs­stíl for­set­ans og fjöl­skyldu hans verið flokk­aður sem við­skipta­út­gjöld fyr­ir­tækja í Trump-­sam­stæð­unni, þar á meðal kostn­aður við einka­flug­vél hans og fast­eignir sem fjöl­skylda for­set­ans notar sem íveru­staði.

Einnig hefur Trump gefið upp kostnað við klipp­ingar sem við­skipta­út­gjöld, þar á meðal yfir 70.000 dali sem hann varði í hár­greiðslu sína þegar hann var í The App­rent­ice. Þessi kostn­aður allur verður því frá­drátt­ar­bær, sem þykir fram­sækin skil­grein­ing á við­skipta­út­gjöldum af hálfu for­set­ans.

Ráð­gjafagjöld hjálpa Trump að lækka skatt­byrð­ina

Times greinir frá því að nán­ast hverju ein­asta verk­efni hjá fyr­ir­tækjum Trumps fari um það bil 20 pró­sent af tekj­unum í óút­skýrðar greiðslur til ráð­gjafa. Ráð­gjafagreiðslur er hægt að flokka sem við­skipta­út­gjöld, sem gerir þau frá­drátt­ar­bær frá skatti.

Ivanka Trump, dóttir Trumps, virð­ist hafa fengið hluta af þessum ráð­gjafagjöld­um, þrátt fyrir að vera starfs­maður Trump-­sam­stæð­unn­ar. Skatta­gögn Trumps sýna alla­vega fram á að fyr­ir­tæki í hans eigu greiddi alls 747.622 doll­ara reikn­ing frá ónefndum ráð­gjafa fyrir ráð­gjöf við hót­el­verk­efni á Havaí og í Vancou­ver í Kana­da, en opin­ber gögn um fjár­mál Ivönku sýna að hún fékk nákvæm­lega sömu upp­hæð greidda, upp á doll­ara, í gegnum ráð­gjafa­fyr­ir­tæki sem hún átti.

Fyr­ir­tæki Trumps tapa gríð­ar­legum fjár­hæðum

Yfir­ferð New York Times á fjár­málum Trumps leiðir í ljós að fyr­ir­tæki hans tapa mörg hver gríð­ar­legum fjár­hæð­um. Golf­vellir í eigu Trumps hafa tapað meira en 315 millj­ónum doll­ara frá alda­mótum og hótel hans í Was­hington hefur tapað meira en 55 millj­ónum doll­ara frá því að það opn­aði árið 2016.

Und­an­tekn­ing­inn frá regl­unni er sam­kvæmt umfjöllun Times Trump-­turn­inn í New York, sem skilar háum leigu­tekjum og stöð­ugum hagn­aði. Trump-­sam­stæðan sam­anstendur af yfir 500 fyr­ir­tækj­um, sem eru nær öll í fullri eigu for­set­ans. Tapið af þessum rekstri í heild sinni er gríð­ar­legt og kemur í veg fyrir að for­set­inn greiði skatta af þeim hlutum sem hann þénar á, sem virð­ist sam­kvæmt sam­an­tekt New York Times aðal­lega vera sala á ímynd­ar­rétt­ind­um. 

Auglýsing

Times reikn­aði út að á milli 2004 og 2018 hefði Trump selt ímynd sína fyrir rúmar 427 millj­ónir doll­ara, and­virði 59,5 millj­arða króna á gengi dags­ins í dag.

Hefur hagn­ast á því að verða for­seti

Trump græddi vel á The App­rent­ice og réð­ist í miklar fjár­fest­ingar eftir að þætt­irnir fóru að skila honum umtals­verðum tekj­um. Síðan tók þó að halla undan fæti, þegar tekj­urnar frá App­rent­ice-þátt­unum hættu að streyma inn og segir Times frá því að fjár­mál for­set­ans hafi verið farin að þyngj­ast árið 2015. 

Því er velt upp í umfjöllun Times hvort fram­boð hans til for­seta hafi fyrst og síð­ast verið hugsað til þess að end­ur­vekja ímynd hans og Trump-vöru­merk­is­ins, sem fyr­ir­tæki hans bera flest, en um það er ekk­ert hægt að full­yrða.

En það hefur hjálpað fyr­ir­tækjum Trumps að hann varð for­seti. Tekj­urnar hafa vax­ið, meðal ann­ars frá hags­muna­hóp­um, stjórn­mála­mönnum og erlendum emb­ætt­is­mönnum sem greiða fyrir að gista á hót­elum í eigu for­set­ans eða ger­ast með­limir í einka­klúbbum hans. Þá hafa millj­óna doll­ara tekjur streymt inn frá verk­efnum Trumps á erlendri grundu, meðal ann­ars frá Fil­ipps­eyj­um, Ind­landi og Tyrk­landi eftir að hann sett­ist í Hvíta hús­ið.

Skulda­dagar virð­ast nálg­ast

Fjár­mál for­set­ans eru þó í nokkrum ólestri. Hann hefur ráð­ist í ýmsar ein­skipt­is­að­gerðir til þess að ná inn tekjum frá því að tekj­urnar af The App­rent­ice fóru að dala og tók meðal ann­ars 100 milljón doll­ara veð­lán út á atvinnu­hús­næðið sem hann leigir út í Trump-­turn­inum í New York, sem hann virð­ist ekki byrj­aður að borga af. Það er á gjald­daga árið 2020. 

Þá hefur hann selt nær öll hluta­bréf sín fyrir hund­ruð millj­óna doll­ara, en virð­ist ein­ungis eiga innan við milljón doll­ara í hluta­bréfum eftir til þess að selja. 

Trump virð­ist líka per­sónu­lega ábyrgur fyrir háum lán­um, alls að upp­hæð 421 milljón doll­ara, jafn­virði tæp­lega 59 millj­arða íslenskra króna á gengi dags­ins í dag. Flest eru þau á gjald­daga innan fjög­urra ára.

Á tíunda ára­tug síð­ustu aldar gekkst Trump í sjálf­skuld­ar­á­byrgð fyrir fyr­ir­tæki sín. Það kost­aði hann næstum því allt og hann sagð­ist aldrei ætla að gera það aft­ur. En hann virð­ist hafa tekið sama skref nú, sam­kvæmt umfjöllun New York Times.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiErlent