Norrænt samstarf er vel þekkt og hefur verið að þróast um áratuga skeið. Nú er verið að stíga ný skref með aukinni samvinnu í öryggis- og utanríkismálum sem taka mið af breyttum heimi. Grundvöllurinn að norrænu öryggismálasamstarfi er ekki aðeins sameiginlegir landfræðilegir hagsmunir, heldur enn frekar ímynd, og hugmyndafræðileg sýn ríkjanna. Þar er því bæði litið til hagnýtra úrlausna vegna viðbúnaðar og viðbragða við ógnum, og ekki síður til þess að efla ákveðna hugmyndafræðilega heild. Það styrkir samstarfið út á við og getur jafnvel orðið eins konar fyrirmynd fyrir önnur ríki og ríkjasamstarf.
Ný skýrsla Björns Bjarnasonar
Í sumar sem leið kom út skýrsla sem Björn Bjarnason vann fyrir utanríkisráðherra Norðurlandanna um nánari þróun samstarfs á sviði öryggis- og utanríkismála, en skýrslan var gerð að undirlagi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. Um áratugur eru liðinn frá því að sambærileg skýrsla Thorvalds Stoltenbergs kom út.
Hún sneri að miklu leyti að nánara hermálasamstarfi en þó var hugað að breyttum aðstæðum sem kölluðu á nýja nálgun hvað varðar samfélagslegt öryggi og netöryggismál. Sú skýrsla er talin hafa verið mjög gagnleg því talsverðar framfarir hafa orðið í norrænni samvinnu á sviði öryggis- og varnarmála, bæði heildrænt undir merkjum NORDEFCO og einnig með tvíhliða samstarfi.
Vá vegna loftslagsbreytinga og afleiðinga þeirra, nettækni sem getur af sér sífellt meiri ógnir vegna misnotkunar og beinna árása, og nú síðast heimsfaraldur. Allt getur þetta riðlað samfélögum og þar með ógnað öryggi án þess að hefðbundnar hervarnir komi að gagni. Meginviðfangsefni hinnar nýju skýrslu beinist því sérstaklega að samfélagslegu öryggi eða almannaöryggi og þeim fjölmörgu þáttum sem þar hafa áhrif og geta ógnað því.
Má skipta viðfangsefni hennar í þrennt; loftslagsbreytingar, fjölþáttaógnir og netöryggi, auk þess að leita leiða til að að efla fjölþjóðasamstarf og virðingu fyrir alþjóðareglum. Verða hér dregin saman í stuttu máli helstu atriði skýrslunnar í þessum þremur flokkum og í kjölfarið metið gildi hennar, sérstaklega með tilliti til getu og möguleika Íslands í slíku samstarfi.
Loftslagsbreytingar
Í skýrslunni segir að loftslagsbreytingar séu ein mesta áskorun sem heimurinn standi frammi fyrir og bent er á mikilvægi sameiginlegs framlags Norðurlandanna til þess að takast á við þær. Þetta sé áskorun sem einungis alþjóðasamvinna geti brugðist við á áhrifaríkan hátt og sé nú þegar forgangsatriði í utanríkis- og öryggismálum Norðurlandanna. Þróa ætti sameiginlega stefnumótun til að efla norrænar aðgerðir í loftslagsmálum á heimsvísu. Þar er nefnt að ýmis tæki hefðbundinnar utanríkisþjónustu, þar með talin þróunarsamstarf og viðskipti, megi nota frekar til að aðstoða og hvetja önnur lönd og aðila til að efla aðgerðir gagnvart loftslagsbreytingum.
Aukin verkefni Norðurlanda á þessu sviði geti mögulega aukið metnað annarra ríkja í loftslagsmálum, flýtt fyrir alþjóðlegum grænum umskiptum og tryggt aukið fjármagn til málaflokksins. Fyrir Norðurlönd eru þrjú mál talin skera sig sérstaklega úr: græn orka, norðurslóðir og tilflutningur fólks (e. migration).
Fjölþáttaógnir – netöryggi
Einnig eru fjölþáttaógnir nefndar til sögunnar, sem meðal annars fela í sér netárásir og upplýsingafölsun sem getur af sér upplýsingaóreiðu. Þetta eru alvarlegar og vaxandi ógnir og eru Norðurlöndin þar ekki undanskilin. Slíkar fjölþáttaógnir eru tvíræðar og hannaðar til að gefa svigrúm fyrir afneitun og segir í skýrslunni að opin lýðræðisleg samfélög séu hugsanlega berskjaldaðri fyrir slíkum árásum, sem geta grafið undan lýðræðislegum gildum. Sagt er að mikil samstaða ríki um þá sýn að sameinuð gætu Norðurlöndin mætt þessum áskorunum á áhrifaríkari hátt en ella.
Lagt er til að komið verði á samstarfi milli ríkisstjórna og einkafyrirtækja til að stuðla að lýðræðislegri stafrænni framtíð, til að tryggja grundvöll sameiginlegra norrænna gilda um málfrelsi, friðhelgi, frjálsan markað og gagnsæi. Þetta myndi styðja viðleitni Norðurlandabúa til að standa vörð um frjálslyndar, lýðræðislegar meginreglur í skipan heimsmála.
Dvínandi fjölþjóðahyggja – mótvægisaðgerðir
Jafnframt kemur fram að á Norðurlöndunum hafi fólk verulegar áhyggjur af því að fjölþjóðahyggja njóti minnkandi trausts í heiminum, nú þegar mæta þarf auknum áskorunum á heimsvísu. Virðing og virkni alþjóðakerfisins sem byggir á samningum um lög og reglur er smáríkjum hvað mikilvægust.
Ef þar á skorti grafi það undan grunnþáttum samfélags eins og þess sem Norðurlandabúar leggi ríka áherslu á; lýðræði, réttarríki og mannréttindum, ferðafrelsi og alþjóðaviðskiptum. Því ættu Norðurlöndin jafnframt að leita eftir samstarfi við önnur ríki, þvert á svæðisbundna hópa, til að endurbæta fjölþjóðleg samtök og stofnanir. Það ætti að gerast á öllum stigum og innan frá, og leitast við að gera stjórnskipulagið skilvirkara og fulltrúavænna.
Þá er lögð til stafræn kynning á norræna vörumerkinu og þeim grunngildum sem það stendur fyrir. Að Norðurlandabúar nýti sér stafræn samskipti við skipulagningu ráðstefna og með þátttöku á samfélagsmiðlum með texta og myndböndum til að virkja stuðning við þessi grunngildi, bæði heima og erlendis. Jafnframt ætti að leita samráðs við sérfræðinga á sviði almannatengsla og upplýsingatækni vegna samræmds átaks til að kynna norræna vörumerkið.
Norrænt samstarf í öryggis- og utanríkismálum
Það sem almennt gerir alla Norðurlandasamvinnu auðvelda er hin hugmyndafræðilega samstaða ríkjanna fimm. Þetta á sérstaklega við þegar treysta þarf á fylgi og velvilja, bæði almennings og stjórnmálamanna, því allt sem heitir norrænt samstarf hefur gjarnan yfir sér friðsemdarblæ og er nánast sjálfgefið að það njóti frekari pólitísks stuðnings heima fyrir.
Fyrr á tímum var öryggis- og varnarmálum haldið fyrir utan norrænt samstarf sem snéri að mestu að menningar- og félagslegum þáttum. Ákveðið samstarf þróaðist þó, sér í lagi sem leið til sparnaðar, t.a.m. með sameiginlegum kaupum og nýtingu á herbúnaði. Mismunandi áherslur og skuldbindingar ríkjanna fimm gátu þar valdið talsverðum vandkvæðum en er orðið mun auðveldara viðfangs og náið á ýmsum sviðum, bæði tví- og þríhliða og þvert á bandalög eins og NATO og ESB.
Nú eru öryggis- og varnarmál jafnframt skoðuð í mun víðara samhengi en áður og mörkin milli harðra og mjúkra öryggismála ógreinilegri, sér í lagi með aukinni netvæðingu og ógnum henni tengdri. Þær tillögur sem skýrslan boðar snúa því meira að ýmsum almennum þáttum samfélagsins, sem áður voru utan hefðbundins öryggismálasamstarfs, en byggja á sameiginlegri sýn og gildum sem eiga sér djúpar rætur í norrænu samstarfi. Slík stefnumál er auðveldara að samræma og hrinda í framkvæmd heldur en þeim sem snúa að harðari öryggismálum á hernaðarlegum grunni, eða þar sem beita þarf hernaðarlegum úrræðum.
Þó er ljóst að ef slíkt samstarf á að verða raunverulegt og ná tilgangi sínum til fulls krefst það einhverra formlegra skuldbindinga. Slíkar skuldbindingar fara ekki alltaf saman við stefnu, úrræði og viðbúnað hvers og eins ríkis. Sem dæmi má nefna að ef beita á sameiginlegum styrk þegar vá ber að höndum, þar sem blandast saman hernaðar- og borgaraleg starfsemi, þarf lagarammi hvers ríkis fyrir sig að vera mjög skýr. Sé slíkum atriðum ekki fylgt fast eftir er hætta á að samstarf eins og hér um ræðir verði lítið annað en orðin tóm.
Þekking og geta er ekki það sama
Því verður fróðlegt að sjá hvernig til tekst með framkvæmd þessara metnaðarfullu tillaga en Danir hafa tekið að sér að útbúa áætlun um hvernig þeim verður framfylgt. Skýrslunni virðist hafa verið vel tekið og hefur þegar verið ákveðið að verkaskipting verði milli ríkjanna um framkvæmd, sem verði fylgt eftir með skýrslugjöf undir stjórn utanríkisráðherranna. Nefna má að fastanefndir norrænu ríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum styðjast nú þegar við tillögur skýrslunnar.
Einhverjir kynnu að gagnrýna skýrsluna á þeim forsendum að þar sé um svokallaða öryggisvæðingu að ræða og hætta sé á að gengið verði of langt í að gera allt mögulegt að öryggismálum. Það er vissulega gilt sjónarmið því það er ákveðið grundvallaratriði þegar viðbrögð við vá og ógnum eru annars vegar að varnarviðbúnaðurinn verði ekki of mikil byrði á samfélaginu, skerði ekki lífsgæði og vegi jafnvel að frelsi og grundvallarmannréttindum.
Að sama skapi má setja spurningarmerki við þær vangaveltur sem settar er fram í skýrslunni, að frjáls og opin norræn samfélög séu á einhvern hátt berskjaldaðri gagnvart netglæpum og upplýsingaóreiðu en önnur.
Má í raun fullyrða að því sé einmitt öfugt farið, að opin og frjáls lýðræðissamfélög séu betur í stakk búin til að verjast slíkum undirróðri, þó samfélögin geti vissulega laskast og tjónið orðið umtalsvert. Þetta er mikilvægt atriði og varpar einmitt ljósi á þann styrk sem felst í opnu, frjálsu lýðræðislegu samfélagi hvar félagsleg samheldni er mikil og er í raun ákveðinn undirtónn skýrslunnar. Þar er eitt af markmiðunum að Norðurlöndin styrki og haldi á lofti þeirri ímynd sem tekist hefur að skapa og gæti orðið fyrirmynd annarra ríkja – sem er einmitt gott dæmi um mjúkt vald.
Einnig er rétt að hafa í huga að margt af því sem skýrsla Björns snertir á er þegar í einhverju formi til umfjöllunar á vettvangi ESB og þau þrjú ríki sem eiga beina aðild að sambandinu eru að nýta sér kosti þess. Norðmenn hafa einnig verið iðnir við að koma sér inn í samstarf er tengist öryggis- og varnarmálum á vettvangi ESB, í krafti þess utanríkispólitíska samráðs sem EES-samningurinn leggur grunninn að. Noregur hefur þannig tekið þátt í beinum verkefnum á þeim sviðum á vettvangi ESB og gerði t.d. sérstakan samstarfssamning við Varnarmálastofnun Evrópu (EDA) árið 2011.
Sjálfstæð geta til skilvirkrar stefnumótunar er lykilatriði
Þetta beinir sjónum að þeirri spurningu hvort Ísland hafi það sem til þarf í slíku samstarfi. Ljóst er að fullvalda sjálfstætt ríki verður að búa yfir möguleikum á sjálfstæðri upplýsingaöflun, greiningu og stefnumótun því sú staða getur ætíð komið upp, hvað sem samningum við önnur ríki líður, að enginn gæti hagsmuna þeirra nema þau sjálf. Ríki verða því að búa yfir greiningargetu; getu til að afla þekkingar og skilja ógnir annars vegar, og úrræðum og getu til að bregðast við hinsvegar.
Það má rökstyðja að margt af þessu skorti mjög á Íslandi og Íslendingar séu vanmáttugir þegar kemur að viðureign við utanaðkomandi ógnir af hvaða tagi sem er, hernaðarlegar eða aðrar. Við treystum á að aðrir komi til bjargar ef á bjátar og einmitt þess vegna er enn mikilvægara að geta talað skýrt, ígrundað vel og af þekkingu; hvað getum við lagt til og hvað ætlum við raunverulega að leggja til málanna, á sannfærandi hátt.
Þetta á t.a.m. við um hinar nýju fjölþáttaógnir sem tengjast netöryggi og hernaði. Þar þurfa Íslendingar að byggja upp betri þekkingu og skilning á upplýsingaóreiðu annars vegar og síðan því sem tengist aðgerðum gegn þessum ógnum hins vegar. Alþjóðasamstarf getur einmitt komið að góðum notum en þátttaka í t.d. öndvegissetrum NATO og ESB getur byggt undir þekkingargrunn Íslendinga. Möguleg þátttaka íslenskra sérfræðinga í aðgerðastöðvum NATO og ESB gegn t.d. netógnum væri einnig rétt að athuga vel, en gera má ráð fyrir að á vettvangi beggja stofnana séu vannýttir möguleikar til íslenskrar þátttöku og þekkingarsóknar.
Góður grunnur til að byggja á – fyrir Ísland sérstaklega
Ljóst er að leiðin að nánara norrænu samstarfi á sviði öryggis- og utanríkismála, sér í lagi þeim sem snúa að beitingu sameiginlegra hernaðarlegra úrræða, getur reynst torfær. Hins vegar má fullyrða að Norðurlöndin búi vel þegar kemur að pólitískum samhljómi og sameiginlegum gildum þeirra. Það eru þættir sem vega þungt þegar verja á almannaöryggi gegn upplýsingaóreiðu og einræðistilburðum, og efla virðingu fyrir alþjóðalögum og reglum. Auðveldar þetta mjög sameiginlega, eða a.m.k. samræmda, stefnumótun, sem snýr að flestu því sem lagt er til í skýrslunni.
Hér eru einnig sérstök sóknarfæri fyrir Ísland, því þrátt fyrir þann vanmátt sem stundum virðist einkenna aðkomu Íslands að þessum málum hafa Íslendingar sína styrkleika, er skýrsla Björns gott dæmi um hvað leggja má til. Styrkur íslensks samfélags og samstaða í viðureignum við náttúruhamfarir og nú síðast heimsfaraldur er einnig mikilvægt innlegg. Ísland hefur því einstakt tækifæri til að leggja sitt af mörkum í þessu samstarfi, en jafnframt að byggja upp aukna þekkingu og getu, ef pólitískur vilji er nægjanlegur. Af því að hér er reistur grunnur á undirstöðum norræns samstarfs ætti, að öllu jöfnu, sá pólitíski vilji og samstaða sem til þarf að vera auðsóttari en ef einungis væri byggt á hinum hefðbundnari grunni NATO-aðildar og varnarsamstarfs við Bandaríkin.