Julie Oasis

„Upplifum í fyrsta sinn að hlustað sé á okkur“

Stjórnmálamenn eru ekki með á reiðum höndum hvernig takast eigi á við metoo-byltinguna sem nú ríður yfir Danmörku – en konur í stjórnmálum stigu fram í síðasta mánuði og greindu frá reynslu sinni af kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Þrátt fyrir það er mikil bjartsýni fyrir framhaldinu og er hugur í konunum að nú verði raunverulegar breytingar. Ein af þeim konum sem tók þátt í vitundarvakningunni segir mikilvæg skref hafa verið tekin.

Metoo-bylgja reið yfir heimsbyggðina fyrir þremur árum og nú hefur Danmörk tekið við sér. Þúsundir kvenna úr hinum ýmsu stéttum hafa skrifað undir yfirlýsingar eða áskoranir um að stöðva kynbundið ofbeldi og kynferðislega áreitni þar í landi. 

Kjarninn talaði við Camillu Søe sem er ein úr hópi kvenna í stjórnmálum sem sagði hingað og ekki lengra. Hópurinn sem samanstóð af yfir 300 konum krafðist þess af leiðtogum stjórnmálaflokka að útrýma áreitni og ofbeldi. Yfirlýsing þess efnis birtist í danska blaðinu Politiken þann 25. september – í kjölfar þess að fræg leikkona og skemmtikraftur greindi óvænt frá reynslu sinni í byrjun september. Læknar og lögfræðingar eru meðal þeirra sem fylgt hafa fordæmi þeirra og birt sameiginlega yfirlýsingu á borð við þeirra. 

Camilla er 29 ára gömul og vinnur sem almannatengill – en hún hefur verið viðriðin stjórnmál til fjölda ára. „Ég hef verið meðlimur í Venstre í um átta ár – bæði í ungmennahreyfingunni og síðan í flokknum sjálfum.“

Auglýsing

Camilla segir að miklar umræður og ólga hafi verið í Danmörku undanfarnar vikur eftir að Sofie Linde, leikkona og skemmtikraftur, steig fram í sjónvarpsþætti á TV2 og greindi frá skammarlegri framkomu karla gagnvart henni. Málið vakti gríðarlega mikla athygli en rúmlega 1.600 núverandi og fyrrverandi fjölmiðlakonur lýstu í kjölfarið stuðningi við Sofie Linde og hrósuðu henni fyrir að segja frá.

Viðbrögðin yfirþyrmandi

„Við vildum hrinda af stað hreyfingu – ég og þrjár konur úr tveimur öðrum flokkum hér í Danmörku. Við settumst niður saman og ræddum málin en við vildum skrifa skoðanagrein um ástandið í stjórnmálum og birta í einu stærsta blaðinu í Danmörku. Við bjuggum til sameiginlegt skjal og buðum konum sem við þekktum í stjórnmálum að taka þátt í framtakinu,“ segir hún en tekur sérstaklega fram að um sameiginlegt átak hafi verið að ræða. 

Það sem gerðist næst kom Camillu mikið á óvart en framtakið fékk strax geysilegan stuðning. Konur gátu ritað nafn sitt undir yfirlýsinguna, þar sem þær hvöttu stjórnmálamenn og forystufólk flokka til að uppræta kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi á þessum vettvangi. Enn fremur létu margar konur fylgja með frásagnir af reynslu sinni í stjórnmálum en þær innihéldu allt frá óþægilegum athugasemdum karlmanna í þeirra garð til grófra kynferðisbrota. Konurnar komu úr öllum flokkum en alls skrifuðu 322 konur undir áskorunina og 79 frásagnir fylgdu henni. 

Camilla segir að verkefnið hafi vaxið og vaxið – og hafi viðbrögðin í raun verið yfirþyrmandi. Áskorunin birtist, sem fyrr segir, í danska blaðinu Politiken þann 25. september og segir hún að mörgum innan stjórnmálanna, sem og utan þeirra, hafi verið verulega brugðið. 

Metoo-hreyfingin í Danmörku náði ekki fótfestu fyrir þremur árum

Metoo-byltingin er um þriggja ára gömul en í árslok 2017 sögðu konur úr hinum ýmsu heimshornum frá reynslu sinni af kynbundnu ofbeldi, áreitni og mismunun sem á sér stað. Íslenskar konur gerðu slíkt hið sama en það voru einmitt konur í stjórnmálum sem riðu á vaðið og sendu frá sér áskorun í nóvember sama ár. Fjöldi starfsstétta og samfélagshópa gaf í kjölfarið út yfirlýsingar þar sem kynferðislegu áreiti, ofbeldi og mismunun var mótmælt. Krafan var skýr: Konur vildu breytingar, að samfélagið viðurkenndi vandann og hafnaði núverandi ástandi. Þær kröfðust þess að samverkamenn þeirra tækju ábyrgð á gjörðum sínum og að verkferlar og viðbragðsáætlanir yrðu gangsettar. 

Camilla segir að vissulega hafi metoo verið til umræðu í Danmörku fyrir þremur árum og minnist hún sérstaklega á umfjöllun um kynferðislega áreitni og ofbeldi í garð kvenna í kvikmyndaiðnaðinum þar í landi. Hún bendir á að það hafi þó ekki náð að ýta á konur innan annarra starfsgreina eða geira til þess að stíga fram og greina frá sinni reynslu. 

„Þetta snerist aðallega um kvikmynda- og fjölmiðlaheiminn á sínum tíma. Enginn hafði til dæmis talað um áreitni eða kynbundið ofbeldi sem vandamál í stjórnmálum – þrátt fyrir að bent hafi verið á eitt og eitt atvik. Hreyfingin hafði ekki náð fótfestu,“ segir hún. 

Þessi menning heldur konum frá stjórnmálum

Það sem þær vildu gera núna með því að rjúfa þagnarmúrinn var að benda á þá staðreynd að kynferðisleg áreitni væri hluti af menningu innan stjórnmálanna. Camilla segir að þetta vandamál haldi konum frá því að taka þátt í pólitísku starfi og vilji þær þar af leiðandi ekki vera hluti af danska þinginu og öðrum pólitískum vettvangi. „Við vildum sanna að kynjamisrétti væri hluti af dönskum stjórnmálum,“ segir hún og bætir því við að viðbrögðin og samstaðan hafi komið henni algjörlega í opna skjöldu. 

Frásagnirnar hljóma oft kunnuglega og það er ákveðinn samhljómur á milli þeirra. Ég hef heyrt að núna líði konum eins og þær séu hluti af hreyfingu – að þær standi ekki einar.
Camilla segir að leiðtogar stjórnmálaflokkanna viti ekki endilega hver næstu skref eigi að vera. Sumir séu mjög óttaslegnir við það að takast á við ástandið með röngum hætti.
EPA

Camilla segir að viðbrögðin hafi enn fremur verið mjög tilfinningaþrungin, sérstaklega varðandi frásagnir kvennanna, og að kallað hafi verið eftir aðgerðum í framhaldinu. „Ég hef tekið eftir því að leiðtogar stjórnmálaflokkanna vita ekki endilega hver næstu skref eigi að vera. Sumir eru mjög óttaslegnir við það að takast á við ástandið með röngum hætti. Þeir vilja vissulega gera hið rétta en þeir vita ekki endilega hver réttu viðbrögðin við þessu ákalli eru og þar af leiðandi næstu skref.“

Hún segir að viðbrögðin séu ólík milli flokkanna en þeir þrír stærstu hafa allir boðið þeim konum sem skrifuðu undir áskorunina á fund til þess að á þær verði hlustað og málin rædd. Sumar af þessum konum hafa aldrei áður greint frá sinni reynslu og segir Camilla að fundirnir séu hugsaðir sem vettvangur fyrir þær að segja frá. „Miðað við það sem ég hef heyrt þá hefur þetta málefni – hvernig komið er fram við fólk á vinnustöðum og í stjórnmálum – farið sem eldur í sinu um samfélagið allt.“

Núna loksins er hlustað á raddir kvenna

Hugur er í fólki að breyta þessari menningu – breyta hlutunum til betri vegar, að sögn Camillu. „Nú hafa konur vettvang til þess að ræða þessa hluti en við erum til dæmis með danskt myllumerki #enblandtos sem í raun þýðir „ein af okkur“. Frásagnirnar hljóma oft kunnuglega og það er ákveðinn samhljómur á milli þeirra. Ég hef heyrt að núna líði konum eins og þær séu hluti af hreyfingu – að þær standi ekki einar. Núna er loksins hlustað á raddir kvenna hvívetna.“ Þarna skiptir fjöldinn máli, að hennar mati. 

Tilgangurinn sé þannig að gera menningarlegar breytingar en ekki einblína á einstök mál. „Menning er ekki eitthvað sem við sjáum með berum augum – hún er óræðari en það. Við stefnum á að breyta því hvernig við komum fram við hvort annað, hvernig við tölum við hvort annað og um annað fólk. Það er tilgangur okkar með hreyfingunni.“

Varðandi það hvernig þessu markmiði verði náð þá segir Camilla að hún vonist til þess að hreyfingin verði innblástur fyrir aðrar konur. „Núna upplifum við í fyrsta sinn að hlustað sé á okkur og það er mjög mikilvægt fyrsta skref. Nú vita konur hvert á að fara með kvartanir um kynferðislega áreitni og kynjamisrétti og þá ætti að vera hægt að takast á við það með réttum aðferðum,“ segir hún að lokum. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal