Alþýðusamband Íslands (ASÍ) gagnrýnir áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á fjármagnstekjuskatti sem boðuð eru í fjárlagafrumvarpi hennar. Útfærslan á þeirri lækkun hefur enn ekki verið birt en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, boðaði hana þegar hann kynnti fjárlagafrumvarpið í byrjun mánaðar. Eina sem liggur fyrir um útfærsluna er að skattstofn fjármagnstekna á að miða við raunávöxtun í stað nafnávöxtunar, og fyrir vikið eiga tekjur ríkisins vegna skattsins að lækka um 2,1 milljarða króna á næsta ári.
Í umsögn ASÍ um fjárlagafrumvarpið segir að sambandið telji að skattalækkun um 2,1 milljarð til fjármagnseigenda eigi ekki að vera í forgangi við núverandi aðstæður. Verkefni stjórnvalda á núna eigi að vera að tryggja afkomu fólks.
Þá gagnrýnir sambandið líka fyrirhugaða hækkun skattleysismarka erfðafjárskatts, sem boðuð hefur verið án þess að fyrir liggi útfærsla á því hvernig stjórnvöld sjá fyrir sér þróun á erfðafjárskatti. „Þótt vel geti verið réttlætanlegt að hækka skattleysismörk erfðafjárskatts eigi sú aðgerð ekki að vera í forgangi við núverandi aðstæður. Þá ítrekar ASÍ þá afstöðu sína að færa þurfi skattlagningu annarra tekna þ.m.t. fjármagnstekna nær skattlagningu launa.“
Skattur á fjármagnstekjur er umtalsvert lægri en á launatekjur. Staðgreiðsla skatta á launatekjur í fyrra var á á bilinu 35,04 til 46,24 prósent að útsvari meðtöldu en fjármagnstekjuskattur var hækkaður upp í 22 prósent í byrjun árs 2018.
Kjarninn greindi nýverið frá því að þær tæplega 23 þúsund fjölskyldur sem mynda saman ríkustu tíund landsins afla þorra fjármagnstekna, sem eru allar vaxtatekjur auk söluhagnaðar, arðs og tekna af atvinnurekstri. Í fyrra tók hún til sín 99,8 milljarða króna í fjármagnstekjur eða um 70,5 prósent allra slíka tekna.
Atvinnuleysi megi ekki leiða til fátæktar og ójöfnuðar
Atvinnuleysi á Íslandi er sem stendur í hæstu hæðum. Í lok september mældist það 9,8 prósent og spár Vinnumálastofnunar gera ráð fyrir að það fari í 11,3 prósent í lok næsta mánaðar. Þetta ástand kemur verst niður á konum, ungu fólki og erlendum ríkisborgurum, en í síðastnefnda hópnum er atvinnuleysi yfir 20 prósent. Sérfræðingar hafa bent á að kreppan geti aukið ójöfnuð ef ekkert verði að gert, auk þess sem hætta er á félagslegri einangrun á meðal viðkvæmra hópa samfélagsins.
Mikilvægt sé að hafa í huga að um 40 prósent atvinnulausra sé erlent launafólk sem að stórum hluta býr í leiguhúsnæði. „Þessi hópur hefur haft ekki úrræði sambærileg við eigendur húsnæðis, t.d. greiðsluhlé, og ekki notið á sama hátt góðs af lækkun vaxta á húsnæðislánum.“
Sambandið telur að skilvirkasta leiðin til að styðja við atvinnuleitendur sé að hækka grunnbætur atvinnuleysisbóta ásamt því að lengja bótatímabilið til að mæta fyrirséðri aukningu langtímaatvinnuleysis. Í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir 3,6 prósent hækkun atvinnuleysisbóta og sagt að bæturnar taki mið af meðaltaxtaþróun á vinnumarkaði. Í lögum um almannatryggingar er hins vegar kveðið á um að bæturnar skuli taka mið af launaþróun.
ASÍ gagnrýnir það viðmið sem stjórnvöld ákveða að styðjast við og segir að það leiði til þess að atvinnuleysisbætur og bætur almannatrygginga dragist aftur úr almennri launaþróun.
Verði grunnbætur þannig sem stjórnvöld ætla þá leiði það að óbreyttu til þess að þær verði um 85 prósent af lágmarkstekjutryggingu og því lægri en þær voru á árunum 2008-2012.
ASÍ vill hækka bæturnar í 95 prósent af dagvinnutekjutryggingu.
Velferð og grunnþjónusta ekki notuð sem afkomubætandi aðgerð
Í umsögn ASÍ er einnig fjallað um þann mikla samdrátt sem ætlað er að verði á tekjum ríkissjóðs á þessu ári og því næsta. Áætlaður halli á árinu 2020 eða 269,2 milljarðar króna og á næsta ári er hann áætlaður 264,2 milljarðar króna. Því stefnir í rúmlega 533 milljarða króna halla á tveimur árum.
Þessum halla verður mætt með því að nýta svigrúm opinberra fjármála. Á mannamáli þýðir það að gjöldin munu haldast nánast þau sömu á næsta ári og í ár, þrátt fyrir hinn mikla tekjusamdrátt, og verða 1.036 milljarðar króna. Skuldum ríkissjóðs verður leyft að aukast á næstu árum til að mæta þessu og þær eiga að ná hámarki á árinu 2025 þegar þær eru áætlaðar 59 prósent af landsframleiðslu.
ASÍ segir að það markmið kalli hins vegar á afkomubætandi aðgerðir af hálfu stjórnvalda upp á 35 til 40 milljarða á ári fyrir árin 2023-2025. „Verði efnahagslegur bati hægari en samkvæmt forsendum yrði þörfin enn meiri en miðað við núverandi efnahagshorfur er raunveruleg hætta á að slík sviðsmynd raungerist. Þá myndi fjölgun ferðamanna verða minni en gert er ráð fyrir í forsendum og hjöðnun atvinnuleysis hægari. ASÍ ítrekar afstöðu sína að velferð og grunnþjónusta verði ekki notuð sem afkomubætandi aðgerð í ríkisfjármálum og að niðurgreiðsla skulda verði á forsendum kröftugrar viðspyrnu. Um þessi atriði mun þurfa að eiga sér stað pólitísk stefnumörkun á næstu misserum.“