Skáldsaga Johannesar V. Jensen „Kongens Fald“ er eitt þekktasta bókmenntaverk Dana og hefur margoft verið valin besta danska skáldsaga síðustu aldar, kom út 1901. Nokkrir danskir fjölmiðlar stóðust ekki mátið þegar Frank Jensen yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar, og oft kallaður konungur Kaupmannahafnar, tilkynnti afsögn sína síðastliðinn mánudag og slógu hinum þekkta bókartitli „Kongens Fald“ upp, með „heimsstyrjaldarletri“, á forsíðunni.
Frank Jensen, sem er 59 ára, ólst upp á Jótlandi og er hagfræðingur að mennt. Hann gekk ungur til liðs við flokk jafnaðarmanna, Socialdemokraterne, og gegndi frá upphafi forystuhlutverkum í ungliðahreyfingu flokksins á Jótlandi. Hann var kjörinn á þing, Folketinget, árið 1987, og var lítt áberandi til að byrja með.
Í þingkosningum árið 1990 jókst fylgi jafnaðarmanna verulega en vegna persónulegs ágreinings Svend Auken við forystumenn annarra flokka á vinstri vængnum, einkum Radikale Venstre, tókst honum ekki að mynda stjórn. Þetta olli mikilli ólgu innan flokks jafnaðarmanna og á flokksþinginu 1992 var Svend Auken, sem verið hafði formaður frá 1987, velt úr formannsstólnum. Ræða Frank Jensen, sem studdi Svend Auken, vakti mikla athygli. Við formennskunni tók Poul Nyrup- Rasmussen. Ári síðar, 1993, baðst Poul Schluter, sem verið hafði forsætisráðherra frá 1982 lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt, vegna Tamila-málsins svonefnda. Við tók, án þess að þingkosningar færu fram, stjórn jafnaðarmanna.
Krónprins
Eftir kosningarnar árið 1994 voru jafnaðarmenn áfram við stjórnvölinn og Frank Jensen varð ráðherra vísindarannsókna (forskningsminister). Á gamlársdag 1996 var hann skipaður dómsmálaráðherra og gegndi þeirri stöðu fram að kosningum árið 2001, en þá misstu jafnaðarmenn stjórnartaumana. Þótt Frank Jensen sæti ekki lengur á ráðherrastóli gegndi hann mikilvægum embættum innan þingsins. Hann var þá löngu orðinn einn af „þungavigtarmönnum“ jafnaðarmannaflokksins, og oft nefndur „krónprinsinn“.
Formannsslagur við Helle Thorning- Schmidt
Mogens Lykketoft tók við formennsku í Jafnaðarmannaflokknum árið 2002 en gegndi þeirri stöðu aðeins fram yfir kosningar árið 2005. Og jafnaðarmenn þurftu að velja nýjan formann. Tvö buðu sig fram, Frank Jensen og Helle Thorning-Schmidt. Hún var ný á þingi, en hafði setið á Evrópuþinginu um fimm ára skeið, frá 1999. Úrslit formannskjörsins urðu þau að Helle Thorning-Schmidt bar sigur úr býtum, fékk 53% atkvæða en Frank Jensen 47%. Hann hætti á þingi tveimur árum síðar. Löngu síðar sagði hann að það hafi verið gott fyrir flokkinn að Helle Thorning- Schmidt skyldi sigra í formannskjörinu „ég var í margra augum fulltrúi hins gamla í flokknum, hún hins nýja“.
Frank Jensen tók í kjölfar þingmennskunnar við starfi framkvæmdastjóra fjarskiptafyrirtækisins Telecom og síðar hjá Landssamtökum danskra lögfræðinga. Og undi, að sögn, glaður við sitt.
Svo hringdi síminn
Kvöld eitt árið 2009 hringdi síminn heima hjá Frank Jensen. Þegar hann svaraði þekkti hann strax röddina en sagði síðar að hann hefði orðið undrandi á að Helle Thorning- Schmidt væri að hringja í sig. En þegar hún sagði honum erindið sagðist Frank Jensen hafa velt fyrir sér hvort röddin í símanum tilheyrði flokksformanninum eða einhverri eftirhermu. Svo hissa var hann.
Erindi Helle Thorning-Schmidt var að biðja Frank Jensen að gefa kost á sér í sæti yfirborgarstjóra Kaupmannahafnar (borgarstjórarnir eru sjö) í næstu bæjar- og sveitarstjórnarkosningum. Sú staða væri afar mikilvæg, sagði Helle Thorning-Schmidt en frá árinu 1903 hafa jafnaðarmenn nær óslitið setið í þessu embætti. „Ritt Bjerregaard er að hætta og okkur vantar vanan mann. Þig,“ sagði Helle Thorning. „Ég sagði nei, ég væri hættur í pólitík,“ sagði Frank Jensen.
En, Helle Thorning- Schmidt gafst ekki upp og svo fór að Frank Jensen ákvað að hella sér í pólitíkina á nýjan leik. Skemmst er frá því að segja að hann var kjörinn yfirborgarstjóri árið 2010. Jafnframt var hann annar tveggja varaformanna Jafnaðarmannaflokksins frá árinu 2012. Þangað til síðastliðinn mánudag. Þá sagði hann af sér sem borgarstjóri og varaformaður. „Ferli mínum í pólitík er lokið,“ sagði Frank Jensen á fréttamannafundi á kajanum á Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn.
Ásakanir um áreitni
Frank Jensen hefur oft sagt að hann sé glaðsinna maður, sem njóti þess að skemmta sér og fá sér í glas á góðri stund. Enginn gerir athugasemdir við glaðsinna fólk en stundum getur sú gleði orðið of mikil og innileg. Þannig er það með Frank Jensen og hefur nú komið honum í koll.
Árið 2004 sagði vikuritið Se & Hør frá því að Frank Jensen hefði í jólakvöldverði þingmanna gerst of innilegur við starfsnema á dansgólfinu. Þrýst stúlkunni full þétt að sér, eins og blaðið orðaði það. Stúlkunni þótti þetta mjög óþægilegt, og kvartaði. Sagði að þarna hefði þingmaðurinn farið yfir strikið. Frank Jensen baðst síðar afsökunar á framferði sínu.
Árið 2011, þegar Frank Jensen var orðinn yfirborgarstjóri gerðist það að hann, á dansgólfinu, sleikti eyra samstarfskonu sinnar og ennfremur hálsinn á annarri. Frásagnir um þetta rötuðu í fjölmiðla en þar við sat, um árabil.
Föstudaginn 16. október síðastliðinn birti Jótlandspósturinn frásögn Marie Gudme, sem situr í svæðisráði jafnaðarmanna og annarrar, ónafngreindrar, konu um áreitni af hálfu Frank Jensen. Hann hefði gerst nærgöngull og þuklað á þeim (befamlet). Vegna þessara ásakana boðaði Frank Jensen ráðherra og formenn kjördæmisráða jafnaðarmanna á fund síðastliðið sunnudagskvöld. Áður en til þess fundar kom höfðu átta konur til viðbótar greint frá áreitni af hálfu yfirborgarstjórans. Á þessum fundi lýstu fundarmenn yfir stuðningi við Frank Jensen, athygli vakti að atkvæði voru greidd með handauppréttingu. Eftir fundinn sagðist Frank Jensen ánægður með traustsyfirlýsinguna. Hálfum sólarhring síðar, hafði hann skipt um skoðun, eins og áður var nefnt.
Dönsku frásagnaflóðgáttirnar opnast
Danskir fjölmiðlar hafa kallað sunnudaginn 6. september síðastliðinn upphafsdag MeToo2-bylgjunnar í Danmörku. Í sjónvarpsútsendingu að kvöldi þessa sunnudags lýsti leikkonan og skemmtikrafturinn Sofie Linde framkomu þekkts sjónvarpsmanns við sig, þegar hún var nýkomin til starfa hjá danska útvarpinu, DR. Frásögn hennar vakti mikla athygli og segja má að flóðgáttir hafi opnast.
16. september greindi Lotte Rod, þingmaður Radikale Venstre, frá því að hún hefði þurft að ýta óvelkominni þingmannshönd, eins og hún komst að orði, af lærinu á sér. „Höndin tilheyrði samflokksmanni mínum,“ sagði Lotte Rod. Þetta gerðist árið 2010. 7.október sagði Morten Østergaard af sér formennsku í Radikale Venstre, það var hann sem hafði lagt hönd á læri Lotte Rod, en reynt að leyna því að hann ætti í hlut, þegar farið var að fjalla um málið.
Ekki öll kurl komin til grafar
Í viðtali við fréttamenn eftir afsögn Frank Jensen sagðist Mette Frederiksen forsætisráðherra viss um að fleiri mál af svipuðu tagi ættu eftir að koma fram, bæði í sínum flokki og öðrum flokkum. „Því miður.“ Það reyndust orð að sönnu, því tveimur dögum eftir þessi ummæli forsætisráðherrans sendi Íhaldsflokkurinn frá sér fréttatilkynningu. Þar var greint frá því að einn þingmanna flokksins, Orla Østerby, hefði verið sviptur ýmsum embættum innan þingflokksins vegna ásakana um áreitni gegn samflokkskonu sinni á þingi. Orla Østerby kvaðst í viðtali ekki muna tiltekið atvik, en efaðist ekki um frásögn konunnar. Hann hefði beðist afsökunar, sem viðkomandi hefði tekið góða og gilda. „En ég virði ákvörðun þingflokksins og flokksforystunnar.“