Þrátt fyrir að Íslandsbanki, Landsbankinn og Arion banki hafi allir orðið fyrir neikvæðum áhrifum vegna efnahagsáhrifa útbreiðslu kórónuveirunnar skiluðu þeir tveggja til sjö milljarða króna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins. Þar vega þyngst aðgerðir stjórnvalda, breytt neytendahegðun og hagræðing í rekstri.
Milljarðar tapast og lítið lánað
Þegar árshlutareikningar bankanna þriggja eru bornir saman sést að mikil verðmæti í eigu bankanna hafa tapast á síðustu mánuðum í formi virðisrýrnunar lána. Leiða má líkum að því að stór hluti þessarar virðisrýrnunar komi frá innlendum fyrirtækjum í rekstrarvanda sem hafa útistandandi lán hjá bönkunum. Á fyrstu níu mánuðum ársins nam virðisrýrnunin hjá bönkunum þremur samtals um 26 milljörðum króna og var hún tæplega fjórföld því sem hún var á sama tímabili í fyrra, þegar hún nam sjö milljörðum króna.
Til viðbótar við aukna virðisrýrnun hefur fjárfesting í einkageiranum minnkað töluvert og hefur því lántaka þar dregist töluvert saman. Þetta sést ef fjöldi fyrirtækjalána er borinn saman við árin á undan, en ný lán til fyrirtækja í ár eru minna en tíu prósent af því sem var lánað árið 2018. Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka sagði á fjölmiðlafundi við kynningu á árshlutauppgjöri bankans að ástæðan á bak við litla lánveitingu til fyrirtækja væri sú að lítil eftirspurn væri eftir slíkum lánum þessa stundina.
Vaxtalækkanir juku eftirspurn
Þrátt fyrir minnkandi útlán til fyrirtækja hefur heildarfjöldi útlána aukist í bönkunum þremur á fyrstu níu mánuðum ársins. Frá áramótum hafa lán til viðskiptavina Arion banka aukist um fjögur prósent, á meðan samsvarandi aukning nemur átta prósentum hjá Íslandsbanka og tíu prósentum hjá Landsbankanum.
Þunginn af þessari aukningu er í íbúðalánum, en eftirspurn eftir þeim stórjókst eftir að þau urðu ódýrari vegna mikilla vaxtalækkana í Seðlabankanum í vor og hafa bankarnir þrír allir aukið verulega við sig í þeim flokki útlána.
Aukin innlán hjálpuðu bönkunum
Aftur á móti, þótt Seðlabankinn hafi aukið eftirspurn eftir íbúðalánum, var ekki sjálfgefið að bankarnir gætu annað henni. Það gátu þeir hins vegar nokkuð auðveldlega, þar sem magn innlána hefur aukist töluvert á síðustu mánuðum.
Arion banki bendir á þessa aukningu innlána í nýjustu hagspánni sinni, en samkvæmt honum hafa innlán í bankakerfinu aukist um 66 milljarða króna í ár. Bankinn telur að aukninguna megi að hluta til rekja til launahækkana, breyttrar neysluhegðunar og óvissu um efnahagshorfur. Þótt kreppan hafi leitt til mikillar aukningar í atvinnuleysi hafa kjarasamningsbundnar launahækkanir, auk þess að flest störf sem töpuðust voru láglaunastörf, leitt til þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist að meðaltali.
Hins vegar hefur neysla ekki aukist jafnhratt, ef til vill vegna þess að fólk ákveður að leggja meira til hliðar í efnahagsóvissu. Einnig má hér nefna að íslenskir lífeyrissjóðir fylgdu óformlegum tilmælum Seðlabankans á þessu tímabili um að halda aftur af fjárfestingum erlendis og gæti sú ákvörðun einnig hafa leitt til þess að meira hafi verið sett inn á innlánsreikninga bankanna.
Hjá Íslandsbanka jukust innlán um 13 prósent, á meðan samsvarandi aukning nam 15 prósentum í Landsbankanum og 22 prósentum í Arion banka. Þessi aukning, auk slakari eiginfjárkrafna í kjölfar þess að Seðlabankinn aflétti svokallaðan sveiflujöfnunarauka, gerði bönkunum kleift að bregðast við mikilli eftirspurnaraukningu með meiri útlánum.
Vaxtamunur breyttist lítið
Lækkun vaxta getur skapað vandræði fyrir rekstur viðskiptabanka, sem hagnast aðallega á vaxtamun inn- og útlána. Þegar vextir á útlánum bankanna lækka þurfa vextir á innistæðum þeirra að lækka jafnmikið svo að vaxtatekjurnar haldist óbreyttar. Erfitt er hins vegar að halda vaxtamuninum óbreyttum þegar innlánsvextir eru komnir nálægt núllinu, þar sem setja þyrfti neikvæða vexti á innlánsreikninga.
Þrátt fyrir það hefur vaxtamunur bankanna ekki minnkað svo mikið. Raunar hækkaði hann lítillega hjá Arion banka og er nú 2,9 prósent, miðað við 2,7 prósent á sama tíma í fyrra. Hjá Íslandsbanka lækkaði hann svo úr 2,6 prósentum niður í 2,5 prósent, og úr 2,3 niður í 2,2 prósent hjá Landsbankanum.
Skipulagsbreytingar drógu úr kostnaði
Einnig átti sér stað töluverð hagræðing á kostnaðarhliðinni, en skipulagsbreytingar sem bankarnir hófu í fyrra hafa skilað sér í töluvert minni rekstrarkostnaði hjá öllum bönkunum það sem af er ári, ef miðað er við sama tímabil í fyrra. Stöðugildum hjá bönkunum hefur fækkað um 70, sem er um þriggja prósenta fækkun starfsmanna í fullu starfi.
Fækkun starfsmanna, auk annarra aðgerða, leiddi til þess að rekstrarkostnaður Íslandsbanka minnkaði um 9 prósent milli ára, en minnkunin nam 13 prósentum hjá Landsbankanum og Arion banka.
Milljarðahagnaður
Þökk sé svipuðum rekstrartekjum og minni rekstrarkostnaði vegna skipulagsbreytinga skiluðu allir bankarnir milljarðahagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins. Hagnaður Íslandsbanka nam 3,2 milljörðum og var hann helmingi minni en á sama tíma í fyrra. Hjá Landsbankanum nam hagnaðurinn hins vegar fjórum milljörðum og jókst hann um 750 milljónir króna milli ára. Arion banki hagnaðist hins vegar um 6,7 milljarða króna, sem er nærri því tvöfalt meira en hann gerði á sama tímabili í fyrra.