Fyrir tæpum fimm mánuðum fundust kórónasmitaðir minkar á búi á Norður-Jótlandi. Yfirvöld fyrirskipuðu að öllum dýrum á viðkomandi búi skyldi lógað. Fljótlega kom í ljós að smit var komið í dýr á fleiri búum á Norður-Jótlandi og einnig á Vestur-Jótlandi. Á þeim búum voru öll dýr aflífuð. Á þessum tíma greindist einnig smit í fólki á Norður-Jótlandi.
7. júlí tilkynntu stjórnvöld að smituðum dýrum skyldi ekki lógað. Þess í stað skyldu allar umgengnisreglur á búum þar sem smit fyndist hertar. Skylt yrði að bera grímu, nota hanska og spritt ásamt reglum um hlífðarbúnað. Áður en þessar ákvarðanir voru tilkynntar höfðu dýr á 125 búum verið skimuð og hvergi fundist smit.
4. september greindi dagblaðið Information frá því að í áhættumatsskýrslu Dönsku rannsóknarstofnunarinnar, Statens Serum Institut (SSI) komi fram að sérstakt afbrigði kórónaveirunnar (særlig minkvariant) hafi breiðst út til fólks á Norður-Jótlandi. Og einnig til Borgundarhólms og Króatíu. Þetta afbrigði veirunnar fannst einnig á þremur minkabúum þar sem smit hafði greinst í júní. Skýrslan var send sóttvarnayfirvöldum. Tveimur vikum síðar, 16. september kom fram í minnisblaði SSI til Mogens Jensen matvælaráðherra að þetta „nýja“ afbrigði hefði fundist í minkum og fólki á sex minkabúum á Norður- og Vestur-Jótlandi. Nauðsynlegt væri að grípa til varúðarráðstafana, einkum skimunar. Þess má geta að stærstur hluti danskra minkabúa, sem eru rúmlega eitt þúsund talsins, er í þeim landshluta.
Mikil alvara á ferðum
18. september skrifuðu sérfræðingar SSI og Hafnarháskóla matsskýrslu um ástandið. Í henni sagði að áhrif „nýja“ afbrigðisins gætu orðið til þess að ekki myndi nást hjarðónæmi og bóluefni virki ekki. Og augljóst virðist, segir í skýrslunni, að þetta „nýja“ afbrigði geti myndað smitkeðjur meðal íbúa landsins. Fimm dögum síðar hélt matvælaráðherra fund með sérfræðingum þar sem reynt var að meta stöðuna. Allir voru sammála um að staðan væri alvarleg, mjög alvarleg.
Hættulegra að vera minkabóndi en heilbrigðisstarfsmaður
Á fyrsta degi októbermánaðar hafði ríkisstjórnin skipt um kúrs. Á fréttamannafundi þann dag tilkynnti Mogens Jensen ráðherra matvælamála að minkar á smituðum búum skyldu aflífaðir, það var viðsnúningur frá 7. júlí. Ráðherrann sagði að um væri að ræða rúmlega eina milljón minka á um það bil 100 búum. Smit hefðu greinst á rúmlega 40 búum og ekki væri á neitt hættandi. Kåre Mølbak, einn yfirmanna SSI, sagði að nú væri hættulegra að vera minkabóndi en heilbrigðisstarfsmaður. Á fundinum kom fram að öll búin þar sem smit hefði greinst væru á Norður-Jótlandi.
13. október sagði Anders Fomsgaard yfirlækni frá því í sjónvarpsfréttum DR, danska útvarpsins, að það bóluefni sem nú væri unnið að víða um heim, myndi hugsanlega reynast gagnslaust í baráttunni við „nýja“ afbrigðið. „Áhyggjuefni er að „nýja“ afbrigðið nái útbreiðslu í samfélaginu og þá er illt í efni.“
Í fyrirspurnatíma í danska þinginu, Folketinget, 26. október sagði Mogens Jensen að aukin útbreiðsla „nýju“ veirunnar (cluster 5) í minkum ylli áhyggjum og ótta. Sér í lagi áhyggjum vegna hugsanlegra áhrifa á heilsufar almennings eins og ráðherrann komst að orði. Þegar hann var spurður um aðgerðir sagði ráðherrann að við þeim mætti búast einhvern næstu daga. Sú varð líka raunin.
Skipað að skera allt niður
Miðvikudaginn 4. nóvember boðaði Mette Frederiksen forsætisráðherra til fréttamannafundar. Flogið hafði fyrir að þar mættu minkabændur búast við alvarlegum tíðindum, eins og kom á daginn.
Mette Frederiksen sagði að stjórnvöld hefðu ákveðið að allur minkastofn á öllum búum landsins skyldi felldur. „Þetta er stór og sársaukafull ákvörðun, en því miður nauðsynleg. Við eigum ekki um neitt að velja“ sagði ráðherrann. Hún sagði að samtals væri um að ræða 17 milljón minka á rúmlega eitt þúsund búum. Mette Frederiksen sagði jafnframt að grípa þyrfti til fleiri aðgerða, sem tilkynntar yrðu á næstu tveimur til þremur dögum.
Norður-Jótlandi nánast skellt í lás
5. nóvember, daginn eftir að danski forsætisráðherrann hafði fyrirskipað að öllum dýrum á öllum minkabúum landsins skyldi lógað, fengu Danir fleiri fréttir. Á fréttamannafundi þann dag sagði Mette Frederiksen að segja mætti að Norður-Jótlandi verði skellt í lás. „Strax í kvöld.“ Ráðherrann sagði stjórnvöld mælast til þess að íbúar sjö sveitarfélaga á Norður-Jótlandi haldi sig innan sveitarfélagsins, nema brýna nauðsyn beri til. Jafnframt ferðist engir utanaðkomandi til þessara sjö sveitarfélaga.
Öll kaffihús verða lokuð, sömuleiðis barir. Matsölustöðum verður eingöngu heimilt að afgreiða heimtökumat (takeaway) en verða að öðru leyti lokaðir. Almenningssamgöngur liggja niðri, nema skólarútur og nemendur í efri bekkjum grunnskóla fá einungis fjarkennslu. Sama gildir um nemendur á hærri skólastigum. Íþróttahús, kvikmyndahús, bókasöfn, sundlaugar, skemmtigarðar, samkomuhús, dýragarðar o.s.frv. Allt lokað. Fyrirtæki og stofnanir eru hvött til að láta starfsmenn vinna heima eins og kostur er.
Yfirvöld hafa mælst til þess að allir íbúar sveitarfélaganna sjö fari í skimun. Það verður gert eftir tilteknu skipulagi og hófst reyndar í gær (laugardag). Reiknað er með að skimun allra íbúa á þessu svæði, sem eru samtals um 280 þúsund, taki tíu til tólf daga.
Að Norður-Jótlandi skuli skellt í lás hefur margvísleg áhrif. Á svæðinu eru mörg stór fyrirtæki sem reiða sig á greiðar samgöngur og flutningakerfi. Þar að auki kemur margt starfsfólk fyrirtækja á svæðinu frá öðrum sveitarfélögum, þetta á ekki síst við um ýmiss konar framleiðslufyrirtæki, þar sem ekki er hægt að sinna störfum að heiman. Allt skapar þetta margs konar vandamál, sem óljóst er hvernig á að leysa.
Engin viðbrögð þrátt fyrir margar viðvaranir
Í dagblaðinu Politiken birtist í gær, laugardag, löng umfjöllun um viðbrögð eða réttara sagt skort á viðbrögðum. Í umfjöllun blaðsins kemur fram að þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir úr mörgum áttum á undanförnum mánuðum gerðist lítið. Til dæmis hafði verið bent á að nauðsynlegt væri að skima starfsfólk minkabúanna. Ekki síst í ljósi þess að um helmingur alls starfsfólks á búunum er frá Austur-Evrópu og ferðast gjarna til heimalandsins í fríum. Nákvæmlega þetta atriði veldur nú miklum áhyggjum. Sömuleiðis hafði verið bent á að fólk sem starfar við að flá dýr sem aflífuð hafa verið fer gjarna á milli búa og slíkt bjóði smithættunni heim.
Gögnin sem Politiken hefur undir höndum sýna að minkabændur og starfsfólk á búum þeirra sinnti lítt um varúðarráðstafanir. Einn bóndi sagði að margir hefðu litið á ábendingar um spritt, grímur og fleira þess háttar sem tilmæli en ekki skipanir.
Mogens Jensen matvælaráðherra hefur undanfarna daga sætt mikilli gagnrýni fyrir að bregðast seint og illa við. Ráðherrann hefur sagt að hann hafi í einu og öllu fylgt ráðleggingum sérfræðinga. Politiken bendir í umfjöllun um málið á að það var Mette Frederiksen sem tilkynnti um hinar ströngu aðgerðir. „Tengdi hún fram hjá Mogens Jensen“ spyr blaðið og bendir í leiðinni á að forsætisráðherrann njóti mikils trausts á Jótlandi.
Mikið efnahagslegt tjón
Á síðustu árum hefur dönskum minkabúum fækkað. Fyrir því eru einkum tvær ástæður: tíðarandinn hefur breyst, samtökum sem vinna að velferð dýra, minka þar með talinna, hefur vaxið ásmegin sem þýðir að sala á skinnum hefur minnkað. Þótt verð á minkaskinnum hafi ætíð sveiflast hefur það undanfarið verið mjög lágt og það hefur mikil áhrif á afkomu bænda.
Danir hafa um margra ára skeið verið stærstu framleiðendur minkaskinna í heiminum en í allmörgum löndum hefur minkabúskapur verið aflagður á síðustu árum. Á síðasta ári voru dönsk minkaskinn tæpur þriðjungur allra selda skinna í heiminum.
Útflutningstekjur Dana vegna sölu á minkaskinnum námu á síðasta ári um það bil 5 milljörðum danskra króna (110 milljarðar íslenskir) en til samanburðar má nefna að árið 2013 voru útflutningstekjurnar rúmir 12 milljarðar danskra króna.
Á dönskum minkabúum starfa um það bil 3 þúsund manns. Annar eins fjöldi vinnur störf sem tengjast minkabúum með einum eða öðrum hætti. Því er ljóst að efnahagsáhrifin eru umtalsverð „og var nú ekki á bætandi“ svo notuð séu orð Mette Frederiksen forsætisráðherra.