„Vissi að ég myndi bráðlega missa meðvitund ef ég kæmist ekki út“
„Reykur kom úr öllum áttum inn í herbergið,“ segir ungur maður sem greip til þess örþrifaráðs að stökkva út um glugga af rishæð hússins að Bræðraborgarstíg 1 er stórbruni varð þar í sumar. Reykurinn kom út úr veggjunum, undan hurðinni og upp í gegnum gólfið. Hann gat ekki beðið eftir björgun.
Hann er um þrítugt. Fæddur og uppalinn í Póllandi. Fyrir rúmlega fjórum árum, þegar atvinnuleysi var mikið í heimalandinu, ákvað hann að freista gæfunnar og flytja til Íslands. Þá var næga vinnu að hafa hér. Ferðaþjónustan að springa út og ná methæðum og fjöldi fyrirtækja spratt upp í kringum hana. Og í þeim geira fékk hann vinnu. Samstarfsmennirnir voru bæði Íslendingar og útlendingar og hann kynntist mörgum þeirra ágætlega.
75 þúsund fyrir lítið herbergi
Fljótlega eftir komuna til landsins tók hann herbergi á leigu á rishæðinni að Bræðraborgarstíg 1. Leigan var 75 þúsund krónur á mánuði, fyrir lítið svefnherbergi með aðgang að baði og eldhúsi. „Þetta var gott verð fyrir herbergi í miðborg Reykjavíkur,“ segir hann. Hann kynntist sambýlingum sínum misvel og segir ástæðuna þá að hann hafi aðeins litið á húsið sem sinn svefnstað. Fyrir utan litla eldhúsið hafi ekki verið neitt sameiginlegt rými í húsinu til að safnast saman og spjalla. „Marga þekkti ég aðeins eins og hverja aðra nágranna. Við heilsuðumst þegar við hittumst og spjölluðum lítillega um daginn og veginn.“
Þess vegna kynntist ekki mikið hann pólsku pörunum tveimur sem bjuggu á sömu hæð enda höfðu þau aðeins búið í húsinu í nokkra mánuði ólíkt honum og nágrannanum Vasile Tibor Andor sem höfðu leigt herbergi hlið við hlið í nokkur ár. Hann spjallaði þó annað slagið við þau. Þau hafi líkt og hann unnið mikið og verið að safna sér pening, meðal annars fyrir brúðkaupunum sínum.
Þegar kórónuveirufaraldurinn braust út og skyndilegur samdráttur varð í ferðaþjónustunni missti hann vinnuna. Það var ástæðan fyrir því að þann 25. júní var hann heima á Bræðraborgarstígnum allan daginn. Herbergið sem hann hafði fyrst og fremst notað sem svefnstað til þessa var orðið að athvarfi hans í atvinnuleysinu.
Ekkert eftirminnilegt henti framan af degi. Hann minnist þess ekki að hafa hitt nágranna sína og þegar leið á daginn ákvað hann að leggja sig.
Náði varla andanum
Hann var sofnaður er hann hrökk upp með andfælum við öskur framan af gangi. Hann hentist á fætur og reif upp hurðina en það eina sem hann sá var kolsvartur reykur sem engin leið var að greina nokkuð í gegnum.
Hann lokaði hurðinni í skyndi og það sem á eftir fór gerðist allt mjög hratt. Hann hafði lítinn tíma til að hugsa hvaða valmöguleikar voru í stöðunni. „Reykur kom úr öllum áttum inn í herbergið,“ segir hann, út úr veggjunum, undan hurðinni og upp í gegnum gólfið. Herbergið fylltist fljótt af reyk og það eina sem hann hugsaði var að hann yrði að fá súrefni til að missa ekki meðvitund. „Ég náði varla andanum.“
Gat ekki beðið
Hann greip stól og braut gluggann. Tibor vinur hans í næsta herbergi heyrði brothljóðið og talaði til hans í gegnum þunnan vegginn. „Bíddu rólegur, slökkviliðið er á leiðinni,“ rifjar hann upp að Tibor hafi sagt. „En ég gat ekki beðið. Ég vissi að ég myndi bráðlega missa meðvitund ef ég kæmist ekki út. Sá möguleiki að bíða í einhvern tíma var ekki í boði á þessum tímapunkti“.
Þrátt fyrir að allt hafi gerst á ógnarhraða, kannski á um mínútu frá því að hann vaknar, man hann eftir að hafa hugsað að húsið væri gamalt og úr timbri í hólf og gólf. Hann óttaðist hreinlega að húsið myndi fuðra upp – falla eins og spilaborg, segir hann.
Eftir að hafa brotið gluggann vonaði hann að það myndi duga. Að hann gæti stungið höfðinu út, myndi ná andanum og gæti þá jafnvel beðið í smá stund eftir hjálp. „En reykurinn kom alls staðar inn af svo miklum krafti og svo hratt að það hjálpaði mér ekkert að reyna að anda út um gluggann.“
Ákvað að klifra út
Reykurinn þéttist ennþá hraðar eftir að hann hafði brotið gluggann. Hann tók þá ákvörðun að klifra út. Það var enginn tími til að velta fyrir sér hvernig best væri að gera það. Enginn tími var til að meta aðstæður. Hann greip um gluggakarminn og hékk utan á húsinu um stund þar til hann sleppti takinu og féll niður á gangstéttina.
Hann missti meðvitund. Hann er ekki viss hvenær hann rankaði við sér, hvort að það var um nóttina eða morguninn eftir. Hann hafði andað að sér svo miklum reyk að hann kastaði stöðugt upp. „Það var ringulreið í hausnum á mér. Ég vissi ekki hvað væri raunverulegt og hvað ekki. Ég átti erfitt með að trúa að því að þetta hefði allt saman gerst.“
Atburðirnir síast inn
Það var ekki fyrr en hjúkrunarfræðingur sýndi honum forsíðu dagblaðs daginn eftir að það rann upp fyrir honum að þetta hefði ekki bara verið slæm martröð. Húsið hefði raunverulega brunnið. Hann fékk líka að vita að einhverjir hefðu dáið en hann vissi ekki hverjir.
Þær fréttir bárust síðar. Að þrír nágrannar hans og landar, fólk sem hafði búið í herbergjum á rishæðinni, fólk sem hann þekkti, hefði dáið.
Sjálfur skarst hann mikið á bæði höndum og fótum. Hann hlaut einnig mörg höfuðkúpubrot, fékk blóðtappa í slagæð í lunga, staðbundna heilaáverka og reykeitrun. Hann vill ekki gera mikið úr meiðslum sínum og vill ekki ræða sársaukann sem þeim fylgdi. Hann hafi lifað. Aðrir hafi týnt lífi. Því fylgi óbærilegur sársauki fyrir aðstandendur.
Það þykir kraftaverki líkast að hann hafi ekki slasast meira í fallinu. Að hann hafi verið útskrifaður og fluttur á sjúkrahótel aðeins viku eftir brunann. „Ég var í mjög góðu formi, fór þrisvar í viku í sund og út að hlaupa jafn oft. Það hefur líklega hjálpað mér.“
Hjartað fór að slá hraðar
Á sjúkrahótelinu dvaldi hann í þrjár vikur og í kjölfarið fór hann til foreldra sinna í Póllandi. Hann vildi vera nærri fólkinu sínu. Líkamlegi batinn hefur þegar verið mikill. Hann segist vinnufær. En það er andlega hliðin sem enn er að valda honum erfiðleikum. „Einn daginn, þegar ég sá reyk koma frá kolakyndingunni í kjallaranum í húsi foreldra minna, fór hjartað skyndilega að slá hraðar. Ég fann það greinilega. Mér líður ekki vel að sjá reyk og finna lyktina af honum í lokuðu rými. Ósjálfrátt vaknar tilfinningin um að þurfa mögulega að berjast fyrir lífi mínu.
Ég hef heldur ekki sofið vel. Sérstaklega ekki fyrst eftir eldsvoðann. Þá kom það oft fyrir að ég hrökk upp á nóttunni. Bara það að rifja þetta upp núna hefur orðið til þess að bolurinn minn er blautur af svita.
Það er mjög grunnt á minningunum um þetta. Þær eiga eftir að fylgja mér lengi. Ég efast um að þær muni nokkurn tímann yfirgefa mig. Ég hugsa til fólksins sem missti ástvini sína í eldinum. Hvað þau eru að ganga í gegnum.“
Eldsvoðinn gleypti allar hans eigur fyrir utan bílinn sem hann hafði lagt nokkur hundruð metrum frá húsinu. Hann telur sig hafa átt rétt á einhverjum smávægilegum fjárstyrk frá félagsþjónustu borgarinnar en að hann hafi ekki borið sig eftir honum. Sömu sögu er að segja um pólska sendiráðið og stéttarfélagið sem hann var í. Hann hefði getað leitað þangað en gerði það ekki.
Til stendur að hann snúi aftur til Íslands. Flugmiðinn er klár en hann er ekki viss um hvort það verði flogið. Kórónuveirufaraldurinn heldur áfram að setja strik í líf hans og annarra. „Ég vil finna mér vinnu á Íslandi og halda áfram að búa þar. Ég á mjög erfitt með að vera aðgerðalaus,“ segir hann og bætir svo við á íslensku: „Ég tala bara smávegis íslensku.“ Hann hlær að framburði sínum. Orðaforðinn er að hans sögn enn sem komið er mjög einfaldur. „Mig langar að læra meiri íslensku svo ég eigi möguleika á fleiri störfum.“
Hefði ekki átt að treysta öðrum
Um fimm mánuðir eru liðnir frá brunanum á Bræðraborgarstíg. Hvernig líður þér núna?
Hann dregur djúpt andann áður en hann svarar. „Þetta var mikill harmleikur,“ segir hann og hugsar sig svo um áður en hann heldur áfram. „Ég hefði getað gert hlutina öðruvísi. Ég hefði getað sett upp reykskynjara í herberginu mínu. Ég hefði átt að vita að ég gæti ekki treyst öðrum.“
Hann segir það líka hafa verið mistök af sinni hálfu að kaupa ekki tryggingu líka þeirri sem hann keypti vegna ferðalags til áhættusvæðis snemma á árinu. „En ég hugsaði með mér að ég þyrfti ekki svona tryggingu á Íslandi. Hér gerðist ekkert slæmt. Þetta er sá persónulegi lærdómur sem ég verð að draga af þessu.“
Hlý hjörtu Íslendinga
Á þessari stundu, þrátt fyrir allt sem gekk á, er þakklæti honum ofarlega í huga. „Ég fékk aldrei tækifæri til að þakka öllum þeim sem aðstoðuðu mig og önnur fórnarlömb eldsins með ýmsum hætti. Lögreglan, slökkviliðið, sjúkraflutningamenn og allt fólkið hitt fólkið sem rétti fram hjálparhönd. Á meðan ég var á sjúkrahúsinu þá fékk ég poka með fötum og nauðsynlegum hreinlætisvörum. Við þetta hlýnaði mér um hjartaræturnar, eftir að hafa misst næstum því aleiguna. Stuðningur frá vinum og kunningjum var líka ómetanlegur. Eldsvoðinn á Íslandi tók allt sem ég átti fyrir utan bílinn og skóna sem ég var í þegar ég stökk út. En á sama tíma þá komst ég að því að hjörtu fólksins sem býr hér eru allt annað en ísköld.“
Umfjöllun Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg
Lesa meira
-
23. október 2021„Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni“
-
14. október 2021Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“
-
9. október 2021Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
-
19. júní 2021„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
-
11. júní 2021Bæturnar aðeins „dropi í hafi“ miðað við tjónið
-
10. júní 2021Ríkissaksóknari ætlar ekki áfrýja dómi í Bræðraborgarstígsmálinu
-
3. júní 2021Marek metinn ósakhæfur og sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins
-
5. maí 2021„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
-
28. apríl 2021Marek segist ekki hafa tekið geðlyfin í hálft ár
-
27. apríl 2021„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð