Sá flokkur sem þegar er með kjörna þingmenn sem hefur bætt við sig mestu fylgi það sem af er kjörtímabili, samkvæmt könnunum MMR, eru Píratar. Í síðustu tveimur könnunum fyrirtækisins hefur fylgi flokksins mælst að meðaltali 13,9 prósent, sem er 3,4 prósentustigum meira en Píratar fengu í kosningunum 2017.
Fyrir liggur að einhverjar breytingar verða á forystusveit Pírata þegar kosið verður til Alþingis í september 2021, en bæði Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy, sem báðir voru oddvitar lista í síðustu kosningum, hafa greint frá því að þeir ætli ekki að bjóða sig fram í næstu kosningum.
Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Björn Leví Gunnarsson hafa öll gefið það út að þau sækist eftir áframhaldandi þingmennsku Jón Þór Ólafsson hefur ekki greint opinberlega frá áformum sínum.
Píratar hafa sýnt það að flokkurinn er vel stjórntækur, með því að vera hluti af meirihlutastjórn í Reykjavík á síðustu tveimur kjörtímabilum þar sem samstarf við þrjá aðra flokka, tvo í stjórnarandstöðu á þingi og einn í ríkisstjórn, hefur gengið vel.
Mjög sterk staða á Vesturlandi
Ef einungis fólk undir þrítugu myndi kjósa á Íslandi þá væru Píratar stærsti flokkur landsins með 24,9 prósent atkvæða. Þeir væru líka eini flokkurinn sem fengi yfir 20 prósent fylgi og hafa bætt við sig 7,1 prósentustigi hjá þessum aldurshópi á kjörtímabilinu.
Stuðningur við Pírata dalar svo eftir því sem kjósendur eldast og er minnstur hjá 68 ára og eldri, þar sem hann mælist einungis 5,7 prósent.
Það er bæting upp á 11,6 prósentustig á kjörtímabilinu. Einungis Sjálfstæðisflokkurinn, með 21,1 prósent, mælist stærri á Vesturlandi og Vestfjörðum.
Staða Pírata er verst á Norðurlandi, þar sem 7,4 prósent aðspurðra í könnun MMR segist styðja flokkinn.
Bæta við sig hjá öllum tekjuhópum
Þá er ljóst að Píratar eru það stjórnmálaafl sem höfðar mest til tekjulægstu einstaklinganna í samfélaginu. Hjá þeim sem eru með undir 400 þúsund krónur á mánuði í heimilistekjur mælist stuðningur við þá 24,6 prósent. Sá flokkur sem kemst næst þeim er Samfylkingin með 13,5 prósent, eða 11,1 prósentustigi minna fylgi.
Í kringum síðustu kosningar voru Píratar líka sá flokkur sem mældist með sterkustu stöðuna hjá þessum tekjuhópi, en þá sögðust 15,8 prósent aðspurðra innan hans styðja flokkinn. Það var nánast sama hlutfall og studdi Vinstri græn (15,7 prósent) og lítillega fleiri en sögðust ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn (14,7 prósent) og Flokk fólksins (14,4 prósent).
Athygli vekur að Píratar bæta við sig fylgi í öllum tekjuhópum þótt það minnki með hverjum þeirra, og mælist minnst hjá þeim kjósendum sem eru með 1,2 milljón krónur eða meira á mánuði í heimilistekjur (8,9 prósent).
Fylgi Pírata dreifist nokkuð jafnt á fólk eftir menntunarstigi og ekki er mikill munur á milli kynja, þótt aðeins fleiri konur segist styðja flokkinn en karlar.
Vita með hverjum þeir vilja starfa
Píratar hafa verið nokkuð skýrir með hvert hugur þeirra stefnir eftir næstu kosningar, í ríkisstjórn.
Halldóra Mogensen sagði í hlaðvarpsþættinum Arnarhóli í síðustu viku að Samfylkingin og Viðreisn væru augljósu kostirnir fyrir Pírata í því ríkisstjórnarsamstarfi. „Það þyrfti væntanlega að verða fjórði aðili. Ég veit ekki hver það yrði, bara hver það yrði ekki. Það yrði klárlega ekki Sjálfstæðisflokkurinn og ég sé engar forsendur til að vinna með Miðflokknum.“
Þar sagði Halldóra að hún upplifi Pírata sem frjálslyndan félagshyggjuflokk á miðjunni. Hún sæi Samfylkinguna líka sem frjálslyndan flokk sem halli sér til vinstri og Viðreisn sem slíkan sem halli sér til hægri. Hún sagði að hún þoli ekki þá forræðishyggju sem henni finnst birtast víða í stjórnmálum. „Það er ástæðan fyrir því að ég á mjög erfitt með suma flokka. Þessi íhaldssemi felur í sér ofboðslega mikið stjórnlyndi og forræðishyggju.“