Svínarækt var á árum áður aðeins aukabúgrein í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Í ríkinu var það tóbaks- og bómullarrækt sem gaf mest í aðra hönd. En á níunda og tíunda áratug síðustu aldar varð sprenging í ræktun svína og risavaxin eldishús, þar sem um 60 þúsund dýr voru haldin í hverju og einu, spruttu upp á sléttunum við ströndina. Frá öllum þessum svínum fellur til gríðarlegt magn af skít og þvagi og á upphafsárunum var úrganginum skolað niður úr rimlagólfum svínastíanna og út í opnar tjarnir eða lón. Þegar lónin fylltust var skítnum dælt upp og honum dreift á akra sem áburði.
Þannig var það þegar hið umfangsmikla þauleldi hófst og þannig er það enn í dag. Skíturinn á það líka til að flæða yfir bakka lónanna, sérstaklega í fellibyljum sem eru nokkuð tíðir á þessum slóðum.
Yfirvöld í Norður-Karólínu stóðu vörð um svínaræktina og voru treg til að krefja eigendur búanna um úrbætur. Að því kom þó í lok síðustu aldar að ákveðið var að banna nýjum búum að beita sömu aðferðum við að losa sig við úrgang sem varð svo aftur til þess að svínabúunum hætti loks að fjölga en þau eru í dag um 2.300.
Eldri bú, bú sem fengu starfsleyfi fyrir árið 1997, er hins vegar enn frjálst að moka skítnum ofan í lón og dreifa honum svo á akra þegar lónin fyllast. Fnykurinn sem angrað hefur nágranna búanna í áravís liggur því enn í loftinu. Veldur því að fólk getur ekki hengt út þvott eða notið þess að dvelja utandyra við heimili sín. „Lyktin er eins og af líki sem hefur fengið að rotna í mánuð,“ segir Rene Miller, vörubílstjóri á eftirlaunum, sem býr í Duplin-sýslu – í hjarta svínaræktunarinnar. Í samtali við The Guardian á síðasta ári sagði hún frá því að áður hafi fjölskyldan notið þess að koma saman eftir messu, grilla í garðinum, tefla og dansa. „Þannig var líf mitt þá,“ sagði hún. Í dag lokar hún sig inni og setur loftkælinguna á fullt því óþefurinn af svínaskítnum, sem dreift er um allar koppagrundir, er svo stækur.
Árið 2018 var birt vísindagrein í læknablaðinu North Carolina Medical Journal þar sem fram kom að ungbarnadauði væri hærri í fjölskyldum sem byggju í námunda við svínabúin en annarra. Einnig var niðurstaðan sú að nágrönnum búanna, sem flestir eru svart fólk, væri hættara við ýmsum sjúkdómum á borð við nýrnabilun.
Samtök fyrirtækja í svínarækt gagnrýndu rannsóknarniðurstöðurnar og beindu sjónum að því að Duke-háskóli, sem framkvæmdi hana, fengi styrki frá aðilum sem eru mótfallnir verksmiðjubúskap.
Yfirvöld í Norður-Karólínu hafa markvisst haldið kvörtunum frá íbúum vegna mengunar frá svínabúunum fyrir sig og ekki komið þeim í ferli innan viðeigandi stofnanna. Árið 2014 voru sett lög í ríkinu sem heimiluðu að merkja kvartanir til umhverfisstofnunar ríkisins sem „trúnaðarmál“ nema að hún mæti það sem svo að um meint lögbrot af hálfu þess sem kvartað var undan væri að ræða. Talsmenn stofnunarinnar sögðu þetta gert til að koma í veg fyrir að „menn úti í bæ“ gætu komið fram með órökstuddar kvartanir.
Á tíu ára tímabili, 2008-20018, skráði umhverfisstofnunin í Norður-Karólínu aðeins hjá sér 33 kvartanir frá almenningi vegna svínabúanna. Á sama tímabili skiptu kvartanir vegna slíkra búa þúsundum í öðrum ríkjum Bandaríkjanna þar sem svínarækt er umfangsmikil.
Málaferli hefjast
Yfir 500 íbúar í Norður-Karólínu höfðuðu fjölda skaðabótamála árið 2014. Margir þeirra búa í næsta nágrenni búa sem rækta svín fyrir fyrirtækjarisann Smithfield eða í nálægð við bú sem fyrirtækið á sjálft.
Á hverju ári framleiðir Smithfield yfir þrjár milljónir tonna af svínakjöti. Enginn annar í heiminum framleiðir svo mikið magn. Þó að fyrirtækið sé „bandarískt“ – stofnað af bandarískum feðgum á fjórða áratug síðustu aldar og með höfuðstöðvar í Virginíu-ríki – er það í dag í meirihluta eigu kínverskra félaga. Stærstur hluti starfseminnar fer fram í Bandaríkjunum en hún teygir einnig anga sína til Evrópu og Suður-Ameríku.
Smithfield rekur einnig um 500 svínabú, m.a. í gegnum dótturfélög sín. Árið 2006 voru á þessum búum aldar um 15 milljónir svína til slátrunar en í heild var um 26 milljónum svína slátrað hjá fyrirtækinu það ár. Stærsta sláturhúsið, Tar Heel, er í Norður-Karólínu og þar er slátrað um 32 þúsund svínum á dag. Hagsmunirnir eru því miklir. Svínarækt er ekki lengur aukabúgrein í ríkinu.
Dómsmálin gegn Smithfield og dótturfélögum eru mörg og hefur fyrirtækið þegar tapað fyrstu fimm sem niðurstaða er komin í. En að vendipunkti var komið fyrir nokkrum dögum. Þá var endurupptökukrafa Smithfield í einu málanna tekin fyrir við umdæmisdómstól í Virginíu. Mál snerist um eitt bú í eigu dótturfélags Smitfield: Kinlaw Farms. Nágrannarnir sem kærðu sögðu ólíft utandyra við heimili sín vegna ólyktar, flugna og stöðugrar umferðar flutningabíla – allan sólarhringinn. Þrátt fyrir að vita af þessu neituðu eigendur búsins að breyta háttum sínum.
Dómurinn staðfesti niðurstöðu sem fengist hafði á lægra dómstigi og var nágrönnum svínabús, sem málið snerist um, í vil. Íbúarnir hefðu sannarlega orðið fyrir óþægindum vegna starfsemi svínabúanna. Hún var einnig sú að upphæð skaðabóta sem dótturfélögum Smithfield hefði verið gert að greiða kærendum, sem hljóp á milljónum Bandaríkjadala, væri of íþyngjandi og að hana yrði að endurskoða.
Samkomulag um skaðabætur
Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að niðurstaðan lá fyrir tilkynnti Smithfield að fyrirtækið hefði komist að samkomulagi um skaðabætur við kærendur í málinu sem og öðrum sambærilegum málum í Norður-Karólínu. Keira Lombardo, einn af framkvæmdastjórum Smithfield, sagði við það tilefni að málshöfðanirnar hefðu verið „skipulagðar aðgerðir“ lögmanna kærenda og settar fram í þeim tilgangi að rífa niður „okkar öruggu, traustu og nútímalegu matvælaframleiðslu“. Í miðjum heimsfaraldri, þar sem matvælaöryggi væri ógnað, væri betra fyrir alla að einbeita sér að því að „framleiða góð matvæli“ í stað þess að eyða tíma í „truflandi“ málaferli.
Einn af dómurum umdæmisdómstólsins í Virginíu, Stephanie Thacker, sagði í séráliti sínu að kviðdómendur á lægra dómstigi hefðu haft næg sönnunargögn til að komast að þeirri niðurstöðu að dótturfyrirtæki Smithfield hefði haldið starfseminni til streitu þrátt fyrir að vita af þeim skaða sem hún væri að valda nágrönnum Kinlaw Farms. Hún nefndi sérstaklega hauga af svínahræjum í gámum við búið og umfangsmikla skítadreifingu á tún og akra yfir sumartímann.
Smánarlegur aðbúnaður
Annar dómari gagnrýndi verksmiðjubúskapinn harðlega í séráliti sínu og sagði aðbúnað á Kinlaw Farms „smánarlegan“ og engin ástæða væri til að halda að hann væri ekki sambærilegur í öðrum búum.
„Hvernig varð þetta svona?“ spurði J. Harvie Wilkinson III í áliti sínu. Wilkinson hefur áratuga reynslu sem dómari. Það var Ronald Reagan sem skipaði hann dómara við umdæmisdómstólinn árið 1984. „Það sem vantaði hjá Kinlaw Farms – og frá Murphy Brown [dótturfélagi Smithfield] – var að átta sig á því að það að koma vel fram við dýr gagnast mannfólki.“ Að velferð dýra og manna færi saman. Sagði hann verksmiðjubúskap afhjúpa skort á þessum tengslum og að dýrin þyrftu að búa við „kæfandi þrengsli“. Iðnaðurinn hefði svo einnig áhrif á starfsfólk búanna og loks nærsamfélagið.
Smithfield er eitt þeirra fyrirtækja í Bandaríkjunum sem flokkuð voru sem þjóðhagslega mikilvæg í upphafi faraldurs kórónuveirunnar. Framleiðslan mátti ekki detta niður enda þurfti að passa upp á að keðjan milli svínabúa og loks neytenda rofnaði ekki. Þegar í apríl voru hins vegar komin upp smit af kórónuveirunni meðal starfsmanna í sláturhúsunum, m.a. einu af þeim stærstu í Suður-Dakóta. Starfsmennirnir eru flestir innflytjendur og þó að veikindi hefðu gert var við sig var þeim sagt að halda áfram að vinna. Tæplega þúsund starfsmenn í sláturhúsi Smithfield í Sioux Falls veiktust og smituðu svo hundruð annarra í fjölskyldum sínum. Yfirvöld sem rannsökuðu atburðinn segja fyrirtækinu hafa „mistekist að vernda starfsmenn sína fyrir kórónuveirunni“ og því var gert að greiða sekt, um 13 þúsund dali.
Fyrirtækið hefur nú tekið sig á í sóttvörnum og smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna, sem segist fylgjast reglulega með, segir ekkert hópsmit hafa komið upp síðustu vikur.