Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla á ríkisstjórnarfundi í morgun, og var það í kjölfarið afgreitt af ríkisstjórn. Frumvarpið fer nú til kynningar fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna og samkvæmt heimildum Kjarnans munu þær fara fram um helgina.
Þann 12. nóvember síðastliðinn birtist frétt í Morgunblaðinu um að nýtt fjölmiðlafrumvarp væri í bígerð og að í því væri horft til þess að skattkerfið yrði notað „til þess að skjóta styrkari stoðum undir rekstrarumhverfi fjölmiðlanna“. Sú leið, sem snerist um að afnema tryggingagjald á fjölmiðla, er að uppistöðu samhljóma frumvarpi sem fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu fram í desember í fyrra.
Heimildir Kjarnans herma að frumvarpið sem var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í dag sé ekki byggt á slíkri skattaleið heldur á sama grunni og fyrri frumvörp Lilju, sem hafa ekki náð í gegn vegna andstöðu sömu þingmanna Sjálfstæðisflokks og lögðu fram tryggingagjaldsfrumvarpið fyrir tæpu ári síðan.
Taka 1 í byrjun árs 2019
Í skýrslu nefndar um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi, sem skipuð var í lok árs 2016 kom fram að rekstur einkarekinna fjölmiðla væri svo erfiður að það gefi stjórnvöldum tilefni til að stuðla að bættu rekstrarumhverfi þeirra.
Frumvarp ráðherra um slíkar stuðningsgreiðslur, sem byggði á vinnu nefndarinnar, var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í janúar 2019. Meginefni frumvarpsins snerist um að veita stjórnvöldum heimild til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla í formi endurgreiðslu á tilteknum hluta ritstjórnarkostnað einkarekinna fjölmiðla. Skilyrði fyrir styrknum áttu að vera að viðtakendur uppfylltu ýmis skilyrði fjölmiðlalaga, efni þeirra væri fjölbreytt og fyrir allan almenning og byggðist á fréttum, fréttatengdu efni og samfélagsumræðu í víðum skilningi.
Gert var ráð fyrir endurgreiðsluhæfur kostnaður yrði bundinn við beinan launakostnað blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara auk verktakagreiðslna fyrir sömu störf, í frumvarpsdrögunum.
Hlutfall endurgreiðslu yrði að hámarki 25 prósent af kostnaði við framangreint, þó ekki hærri en 50 milljónir til hvers umsækjanda vegna síðastliðins árs. Jafnframt kom fram í frumvarpsdrögunum að heimild væri til að veita staðbundnum fjölmiðlum viðbótar endurgreiðslu.
Þessi útgáfa af frumvarpinu mætti andstöðu innan Sjálfstæðisflokksins og það var ekki lagt fram.
Ný útgáfa af fjölmiðlafrumvarpinu var kynnt á ríkisstjórnarfundi í byrjun maí 2019. Í því var búið að gera margháttaðar breytingar á upprunalega frumvarpinu sem flestar höfðu þá virkni að meira fé myndi rata til stærstu fjölmiðla landsins en minna til allra hinna.
Frumvarpinu var dreift á Alþingi þann 20. maí en það komst þó ekki til umræðu á Alþingi áður en þingið fór í sumarleyfi. Meginástæða þess var aftur mikil andstaða hluta þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem vildu miklar breytingar á því þrátt fyrir að ráðherrar flokksins hefðu þegar afgreitt málið út af borði ríkisstjórnarinnar.
Taka 2 í lok síðasta árs og COVID-styrkur
Í fyrrahaust stóð til að mæla fyrir málinu á ný í september en því var sífellt frestað vegna óróa um málið milli stjórnarflokkanna.
Þegar breytt frumvarp var loks lagt fram í desember 2019 hafði endurgreiðsluhlutfall ritstjórnarkostnaðar verið lækkað í 18 prósent og sérstakur viðbótarstuðningur, sem átti að nema allt að fjórum prósentum af þeim hluta af launum launamanna fjölmiðils sem falla undir lægra skattþrep tekjuskattsstofns, hafði líka lækkað. Kostnaðurinn við frumvarpið var takmarkaður við þær 400 milljónir króna sem þegar hefur verið tryggðar til málaflokksins á fjárlögum, sem samþykkt voru í desember 2019.
Ráðherra fékk að mæla fyrir málinu en það var svo svæft í mennta- og menningarmálanefnd sem Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks, stýrir.
Þrátt fyrir að frumvarp ráðherrans hefði ekki fengið brautargengi á vorþingi var 400 milljónum króna útdeilt til einkarekinna fjölmiðla sem sérstökum neyðarstyrkjum til að mæta efnahagsáhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Í þeirri útfærslu var þak á greiðslum til hvers fjölmiðils hækkað úr 50 í 100 milljónir króna. Fyrir vikið skertust greiðslur sem upprunalega voru ætlaðar 20 smærri fjölmiðlafyrirtækjum um 106 milljónir króna en sama upphæð fluttist til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins, Árvakurs, Sýnar og Torgs. Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, fékk hæsta styrkinn, eða rétt um 100 milljónir króna.
Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem birt var í haust kom fram að Lilja ætlaði sér að leggja fram fjölmiðlafrumvarpið að nýju í október. Það kom ekki fram þá en í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að 392 milljónir króna fari í styrki til einkarekinna fjölmiðla á næsta ári.
Það frumvarp var afgreitt í ríkisstjórn í morgun og fer nú til þinglegrar meðferðar.