4. nóvember síðastliðinn var örlagadagur í lífi danskra minkabænda. Þann dag skýrði Mette Frederiksen forsætisráðherra frá því að allir minkar á öllum minkabúum í Danmörku skyldu slegnir af. Ástæðuna sagði ráðherrann þá að nýtt afbrigði kórónuveirunnar hefði greinst í minkum, afbrigði sem hugsanlega væri ónæmt fyrir bóluefni, sem unnið er að víða um heim. Þess vegna væri ákvörðunin um aflífun alls minkastofnsins í landinu, 15- 17 milljónir dýra, nauðsynleg og engan tíma mætti missa. Og nú hefur nær allur danski minkastofninn verið felldur.
Þetta minkamál, eins og það er kallað, hefur verið eitt allsherjar klúður frá upphafi. Meðal annars var matvæla- og landbúnaðarráðherrann, Mogens Jensen, látinn fjúka. Klúðurssagan, sem örugglega er ekki lokið, verður ekki rakin hér en benda má á pistil sem birtist hér í Kjarnanum 29.11 undir heitinu „Minkaklúðrið“.
Þungt högg
Á áðurnefndum örlagadegi, 4. nóvember, var fótunum skyndilega kippt undan starfsemi um það bil þúsund minkabúa. Störf á búunum voru um það bil þrjú þúsund og annar eins fjöldi hefur haft atvinnu við ýmis störf sem tengjast minkaeldinu með einum eða öðrum hætti. Með yfirlýsingu forsætisráðherrans hvarf lífsviðurværið, líkt og hendi væri veifað.
Þótt höggið væri þungt fyrir starfsfólk búanna og þeirra sem höfðu vinnu þeim tengda var höggið þó langþyngst fyrir eigendur búanna. Eigendurnir eru í langflestum tilvikum bændurnir sjálfir og mörg búanna hafa verið í eigu sömu fjölskyldna í áratugi. Danir hafa um lagt árabil verið í hópi stærstu minkaskinnsframleiðenda heims, með tæplega þriðjung heimsframleiðslunnar, og dönsk minkaskinn haft á sér gæðastimpil.
Verð á minkaskinnum hefur sveiflast mikið á undanförnum árum en eftir mikla uppsveiflu á árunum 2011- 2013 hefur það lækkað mikið. Það segir sína sögu að útflutningstekjurnar árið 2019 voru innan helmingur þess sem þær voru árið 2013. Afkoma minkabænda hefur af þessum sökum versnað mjög og margir þeirra hafa átt mikið undir velvild lánastofnana.
Tjónið yrði bætt
Þegar tilkynnt var að allur danski minkastofninn yrði sleginn af vöknuðu strax ótal spurningar. Ein þeirra, og ekki sú léttvægasta var: hvernig verður gríðarmikið tjón bænda bætt? Þegar fréttamenn vörpuðu fram þessari spurningu á upplýsingafundi forsætisráðherra var Mette Frederiksen fljót til svars: Tjón bænda yrði bætt. Bætti svo við að þar væri í mörg horn að líta og þess vegna tæki nokkurn tíma að „reikna það dæmi“, eins og ráðherrann komst að orði.
Og hornin eru vissulega mörg. Fyrir utan beint tjón vegna slátrunar dýranna á búunum þarf að meta húsakost og tæki, sömuleiðis þarf að meta tekjutap margra næstu ára. Þótt sumir minkabændur vilji kannski endurreisa búin líður langur tími áður en búskapurinn fer að skila tekjum á ný. Þetta og ýmislegt fleira þarf að leggja mat á varðandi bótaupphæðina.
Á áðurnefndum upplýsingafundi sagði Mette Frederiksen að ljóst væri að upphæð bótanna myndi hlaupa á milljörðum. Í viðtölum við fjölmiðla hafa nokkrir þingmenn nefnt 20 milljarða (408 milljarða íslenska) en fram hefur komið að ágreiningur er meðal þingmanna um aðferðirnar við reikna út bæturnar, sumir vilja miða við meðaltekjur síðustu 10 ára og borga samkvæmt því 10 ár fram í tímann, aðrir vilja eingreiðsluleið.
Enginn veit hvenær bændur fá greitt
Eins og fyrr var getið lýsti Mette Frederiksen forsætisráðherra því yfir á „örlagadeginum“ 4. nóvember að bændum yrðu greiddar bætur. Hún sagði jafnframt að málið væri flókið og útreikningur bóta gæti tekið nokkurn tíma. Minkabóndi sem dagblaðið Politiken ræddi við þennan dag sagði að loforð forsætisráðherra væri mikils virði en hann hefði áhyggjur af því að langan tíma tæki að reikna út bæturnar. „Það tekur ekki langan tíma að fella minkastofninn, en framhaldið verður örugglega tímafrekara“. Þessi bóndi virðist ætla að reynast sannspár.
Málið er flókið. Fyrst þarf danska þingið, Folketinget, að ná samkomulagi um upphæðir og fyrirkomulag sem ekki er víst að reynist auðvelt. Þegar slíkt samkomulag liggur fyrir þarf að leggja það fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Hún þarf að leggja blessun sína yfir ákvarðanir danskra stjórnvalda. Innan ESB gilda strangar reglur um ríkisstyrki og svonefndar ofgreiðslur. Það er að segja að ekki séu borgaðar bætur sem séu hærri en eðlilegt og réttmætt geti talist. Þegar danskir fréttamenn spurðu hvenær búast mætti við að reglur um upphæðir og greiðslufyrirkomulag lægju fyrir fengu þeir þau svör að því væri ekki hægt að svara.
Bændur í vanda en bankarnir hafa litla biðlund
Á meðan „bótamálið“ er til meðferðar, hjá danska þinginu og síðan ESB gerist fá minkabændur ekkert greitt. Það veldur þeim þungum áhyggjum. Lágt verð á minkaskinnum á síðustu árum hefur þýtt erfiðleika í búrekstrinum og margir bændur skuldum vafnir. Nú hrannast ógreiddir reikningar upp. Allir vilja fá borgað en bændur hafa enga sjóði að leita til.
Margar lánastofnanir eiga mikið fé útistandandi hjá bændum, neita frekari lánum og krefjast greiðslna frá bændunum „sem ekki vita sitt rjúkandi ráð“ eins og Tage Pedersen formaður samtaka minkabænda komst að orði í viðtali við danska útvarpið. Hann segir það undarlegt að bankarnir geti ekki sýnt biðlund á meðan beðið er eftir bótagreiðslunum. Margir þingmenn hafa tekið undir þessi orð.
Bændur sem danskir fjölmiðlar hafa rætt við segja að ef ekkert gerist á allra næstu dögum blasi algjört þrot við og margir missi sitt í hendur bankanna. „Allur sandurinn er runninn úr stundaglasinu,“ sagði einn þeirra í viðtali við Jótlandspóstinn.