Húsið að Bræðraborgarstíg 1 var „óbyggilegt“
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kemst að þeirri niðurstöðu að út frá brunatæknilegu sjónarhorni hafi húsið að Bræðraborgarstíg 1, þar sem þrjár manneskjur fórust í eldsvoða í sumar, verið óbyggilegt.
Meginástæða þess að eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg 1 í júní varð jafn skæður og raunin varð var ástand hússins og hversu lélegar brunavarnir voru í því. Breytingar höfðu verið framkvæmdar á húsinu sem ekki voru til samræmis við samþykktar teikningar.
Teikningar af húsinu voru lagðar fram hjá byggingarfulltrúa sem samþykkti þær árið 2000. Ekki var kallað eftir sérstakri brunahönnun eins og hefði átt að gera en slík hönnun hefði að öllum líkindum leitt til breytinga á fyrirkomulagi íbúðarhæða á 2. og rishæð hússins. Þá voru þær litlu brunavarnir sem þó komu fram á samþykktum teikningum frá árinu 2000 ekki til staðar þegar eldsvoðinn átti sér stað. Það gerði húsið óbyggilegt frá brunatæknilegu sjónarhorni.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á eldsvoðanum að Bræðraborgarstíg en rannsóknarskýrsla stofnunarinnar kom út í dag. Í skýrslunni er fjallað um eldsvoðann, bygginguna, aðkomu og aðgerðir slökkviliðs í þeim tilgangi að auka þekkingu á orsökum og afleiðingum eldsvoða. Talið er að kveikt hafi verið í húsinu, fyrst í herbergi á 2. hæð og svo á öðrum stað á sömu hæð.
Í skýrslunni kemur einnig fram að teikningar hússins geri ráð fyrir að á 2. hæð og í risi hefðu verið íbúðir. Raunveruleg notkun var önnur. Forsendur gagnvart brunaöryggi voru því allt aðrar. Húsið var í raun notað af fjölda einstaklinga sem hver hafði sitt herbergi og sameiginlegan aðgang að eldhúsi og baði en ekki sem tvær íbúðir. Fjöldi herbergja var meiri en á teikningum og því hefði húseigandi átt að sækja um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins. Breytt notkun kallaði á breyttar brunavarnir og eldvarnaeftirlit.
Í ljósi aðstæðna var ekki hægt að bjarga þeim sem létust
Niðurstaða rannsóknar HMS á slökkvistarfi var að vel hafi gengið, eftir að vettvangurinn var fullmannaður. Ekki hafi verið hægt, eins og aðstæður voru, að bjarga þeim þremur manneskjum sem létu lífið í eldsvoðanum. Full mönnun á vettvangi innan sjö mínútna frá því að símtalið barst Neyðarlínu hefði ekki breytt neinu þar um. En á útkallssvæði 1 er miðað við að slökkvistarf sé hafið á vettvangi innan 10 mínútna frá boðun slökkviliðs. Í ljósi þess mikla álags sem almennt er í sjúkraflutningum á svæði SHS telur HMS þörf á að íhuga vandlega möguleika á eflingu mannafla liðsins. Þetta þyrfti að gera samhliða árlegri endurskoðun á mannaflaþörf í brunavarnaáætlun SHS.
Ítarleg umfjöllun Kjarnans um eldsvoðann á Bræðraborgarstíg
Þrír ungir Pólverjar fórust í brunanum. Allir bjuggu þeir í herbergjum á rishæð hússins. Karl og kona urðu innlyksa í eldhafinu en önnur kona, unnusta mannsins sem lést, greip til þess örþrifaráðs að stökkva út um glugga. Hún lést skömmu síðar.
Tveir slösuðust alvarlega. Ungur karlmaður stökk einnig út um glugga herbergis síns á rishæðinni. Hann hafði vaknað við öskur fram af gangi, opnaði hurðina en mætti þá reyk og eldi. Í viðtali við Kjarnann sagðist hann ekki hafa átt annarra kosta völ en að stökkva út um gluggann þar sem reykurinn kom inn í herbergi hans úr öllum áttum og hann átti erfitt með að ná andanum. Hann skarst mikið bæði á höndum og fótum og hlaut mörg höfuðkúpubrot, fékk blóðtappa í slagæð í lunga, staðbundna heilaáverka og reykeitrun.
Maður sem leigði herbergi á annarri hæðinni hlaut alvarleg brunasár á stórum hluta líkamans og þurfti að gangast undir margar aðgerðir á Landspítalanum, m.a. húðágræðslu.
Kjarninn birti nýverið ítarlega umfjöllun um brunann á Bræðraborgarstíg, mannskæðasta eldsvoða sem orðið hefur í höfuðborginni, þar sem m.a. var rætt við eftirlifendur. Í viðtölum við þá kom fram að enginn reykskynjari hefði farið í gang í húsinu er eldurinn kviknaði.
Húsið að Bræðraborgarstíg 1 var byggt árið 1910. Það var í áratugi í eigu sömu fjölskyldu. Í kjallaranum hefur lengst af verið atvinnustarfsemi, bakarí lengi vel, einnig verslanir og um síðustu aldamót var þar rekinn leikskóli.
Síðustu ár hafa herbergi hússins verið leigð út, fyrst og fremst til erlendra verkamanna. Fjögur herbergi voru leigð út á rishæðinni og fimm á annarri hæðinni, þar sem eldurinn kom upp. Í ljós hefur svo komið að á jarðhæðinni hafðist við fólk og svaf en slík notkun er ekki í samræmi við byggingarleyfi húsnæðisins.
Bræðraborgarstígur 1 er í eigu HD verks ehf. Það félag á einnig húsið að Bræðraborgarstíg 3. Byggingafulltrúi fór fram á það í október við eigandann að brunarústirnar yrðu rifnar og fjarlægðar. HD verk sætti sig hins vegar ekki við mat tryggingafélags síns á tjóninu og höfðaði mál á hendur því. Það aftur segir félagið koma í veg fyrir að hægt sé að rífa brunarústirnar þar sem þær séu „sönnunargögn“ í vátryggingarmálinu og sagði lögmaður þess í samtali við Kjarnann að ef borgin vildi rífa húsið myndi HD verk sækja bætur til hennar.
Þorpið vistfélag fékk nýverið samþykkt kauptilboð í bæði Bræðraborgarstíg 1 og 3. Það hefur áhuga á að hefja byggingarreitinn aftur til fyrri vegs og virðingar, rífa rústirnar og byggja nýtt hús á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu.
Ríkissaksóknari ákærði í haust Marek Moszczynski, sem var íbúi í húsinu, fyrir íkveikju, manndráp og tilraun til manndráps. Marek er pólskur ríkisborgari en hefur verið búsettur á Íslandi í nokkur ár. Samkvæmt geðmati sem geðlæknir framkvæmdi í haust var hann ósakhæfur á verknaðarstundu. Tveir geðlæknar til viðbótar, svokallaðir yfirmatsmenn, voru fengnir til að fara yfir geðmatið. Enn er beðið niðurstöðu þeirra og er hennar ekki að vænta á þessu ári. Því hefur dagsetning aðalmeðferðar málsins ekki verið ákveðin.
Verjandi Mareks fór fram á að þinghaldið yrði lokað, að minnsta kosti að hluta. Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur ákvað hins vegar í nóvember að það yrði opið. Þeirri ákvörðun var áfrýjað til Landsréttar og niðurstaða hans liggur enn ekki fyrir.
Í heildina bjuggu yfir tuttugu manns í húsinu þegar eldsvoðinn átti sé stað þann 25. júní. Þar af voru fimm heima í herbergjum sínum á rishæðinni og þrír einstaklingar í herbergjum sínum á 2. hæð hússins. Grunur leikur á að sá fjórði hafi verið heima og yfirgefið 2. hæð fljótt eftir að eldurinn kviknaði. Í íbúðunum tveimur á 2. hæð og á rishæðinni bjuggu 13 manns, þar af sex á rishæðinni í fjórum aðskildum herbergjum með sameiginlegt eldhús og baðherbergi.
Á 2. hæð bjuggu átta manns í sex aðskildum herbergjum með sameiginlegt eldhús og baðherbergi. Á 2. hæð í viðbyggingunni og á 1. hæð bjuggu líklega um 10 manns en það var ekki kannað sérstaklega í rannsókn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Upphafspunktur úrbóta
„Bruninn á Bræðraborgarstíg er mikill harmleikur,“ er haft eftir Hermanni Jónassyni, forstjóra HMS, í fréttatilkynningu sem fylgdi útgáfu skýrslunnar í dag.
„Það er óásættanlegt fyrir okkar samfélag að aðstæður íbúa hússins skuli hafa verið þeim hætti sem lýst er í skýrslunni. Erlent verkafólk er hópur sem við höfum lengi vitað að er í einna verstu stöðunni á húsnæðismarkaði. Á Bræðraborgarstíg voru brunavarnir ekki í samræmi við lög. Þessi skýrsla þarf að verða upphafspunktur úrbóta og til þess þurfa margir ólíkir aðilar að koma að borðinu. Við höfum verið með óleyfisbúsetu, sem við köllum það þegar fólk býr í húsnæði sem ekki er ætlað sem íbúðarhúsnæði, í sérstakri skoðun að undanförnu, í samvinnu við borgaryfirvöld, slökkvilið og verkalýðshreyfinguna. Nú liggur þessi skýrsla fyrir og birtir okkur veruleika fólks sem býr í ósamþykktu leiguhúsnæði en sem reynist svo vera brunagildra. Við skuldum bæði þeim sem létust og þeim sem búa í óviðunandi húsnæði í dag að bregðast við. Að ósk ráðherra þá munum við vinna þetta hratt og skila tillögum innan fimm til sex vikna. Við ætlum að eiga samtal við alla hlutaðeigandi. Það verður að taka betur utan um þessi mál en hefur verið gert hingað til, svo tryggja megi að hræðilegir atburðir eins og þessi endurtaki sig ekki.“
Lestu meira
-
23. október 2021„Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni“
-
14. október 2021Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“
-
9. október 2021Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
-
19. júní 2021„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
-
11. júní 2021Bæturnar aðeins „dropi í hafi“ miðað við tjónið
-
10. júní 2021Ríkissaksóknari ætlar ekki áfrýja dómi í Bræðraborgarstígsmálinu
-
3. júní 2021Marek metinn ósakhæfur og sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins
-
5. maí 2021„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
-
28. apríl 2021Marek segist ekki hafa tekið geðlyfin í hálft ár
-
27. apríl 2021„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð