Mynd: Stjórnarskrárfélagið

Stjórnarskrárdraugurinn vakinn með öflugri undirskriftarsöfnun og peningum úr fortíðinni

Á árinu sem er að líða safnaði hópur alls rúmlega 43 þúsund undirskriftum til stuðnings nýju stjórnarskránni. Hópnum tókst að vekja athygli á sér með ýmsum hætti, meðal annars vel heppnuðu veggjakroti. Í vegferðinni naut hann fjármuna sem safnað var fyrir rúmum áratug. Og höfðu legið óhreyfðir á bankareikning norður í landi alla tíð síðan.

Nýja stjórn­ar­skráin er orðin næstum ára­tuga­göm­ul. Saga hennar hófst haustið 2009 og henni átti að ljúka í októ­ber 2012, með ráð­gef­andi þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu. Þannig fór þó ekki. 

Þótt nið­ur­staða atkvæða­greiðsl­unnar hafi sú að 64,2 pró­sent þeirra sem tóku þátt hafi sagt já við því að til­lögur svo­kall­aðs stjórn­laga­ráðs yrðu lagðar til grund­vallar að frum­varpi að nýrri stjórn­ar­skrá þá er stjórn­ar­skráin enn alveg eins og hún var þennan dag í októ­ber 2012. 

Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd Alþingis tók frum­varpið svo til með­ferð­ar, gerði á því breyt­ingar og lagði fram á þing­inu. Þar tókst ekki að koma því í gegn fyrir kosn­ing­arnar 2013 og þannig hafa mál staðið síðan þá. 

Ferli í átt frá nýrri stjórn­ar­skrár

Þótt fyr­ir­ferða­mik­ill og hávær hópur fólks sem vill nýju stjórn­ar­skránna hafi haldið uppi linnu­lausri bar­áttu fyrir henni alla tíð síðan þá hefur lítið þok­ast. 

Í stjórn­ar­sátt­mála þeirrar óvenju­legu rík­is­stjórnar sem nú situr að völdum – skipuð flokkum frá vinstri, yfir miðju og til hægri – kom fram að rík­is­stjórnin myndi „halda áfram heild­ar­end­ur­skoðun stjórn­ar­skrár­innar í þverpóli­tísku sam­starfi með aðkomu þjóð­ar­innar og nýta meðal ann­ars til þess aðferðir almenn­ings­sam­ráðs.“

Þeirri vinnu er nú lokið og hyggst Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra leggja fram frum­vörp um nokkrar breyt­ingar á stjórn­ar­skrá á yfir­stand­andi þingi, en sem venju­legur þing­mað­ur. 

Auglýsing

Þeim sem vilja umfangs­miklar breyt­ingar á stjórn­ar­skránni þykir ekki mikið til þeirra áforma koma. Það sást til að mynda á því að alls 15 þing­menn Sam­fylk­ing­ar, Pírata, Flokks fólks­ins og tveir utan flokka lögðu fram eigið frum­varp til stjórn­skip­un­ar­laga á Alþingi sem byggir á til­lögum stjórn­laga­ráðs að nýrri stjórn­ar­skrá, en með þeim breyt­ingum sem stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd gerði á því 2013. 

Það frum­varp á enga mögu­leika að verða sam­þykkt. Um tákn­ræna fram­lögn var að ræða.

Söfn­uðu 74 pró­sent fleiri und­ir­skriftum en stefnt var að

Helst and­stæð­ingar stjórn­ar­skrár­breyt­inga töldu að sig­ur­inn væri unnin í þessu máli. Með hverju árinu yrði erf­ið­ara að vekja draug nýju stjórn­ar­skrár­innar af því dái sem hann hafði verið í frá vor­inu 2013. Von bráðar mætti taka tækin sem héldu í honum veiku lífi úr sam­bandi og nýja stjórn­ar­skráin yrði öll um ókomna tíð. 

Við þær aðstæð­ur, og þá stemmn­ingu, réð­ust Sam­tök kvenna um nýja stjórn­ar­skrá, í sam­vinnu við Stjórn­ar­skrár­fé­lag Íslands, í það verk­efni sum­arið 2020 að safna und­ir­skriftum til að hvetja Alþingi til að klára sam­þykkt nýju stjórn­ar­skrár­inn­ar. 

Mark­miðið var að safna að minnsta kostið 25 þús­und und­ir­skrift­um. Þegar und­ir­skrift­irnar voru afhentar Katrínu Jak­obs­dóttur for­sæt­is­ráð­herra og öðrum full­trúum stjórn­mála­flokka þann 20. októ­ber, þegar átta ár voru liðin upp á dag frá því að þjóð­ar­at­kvæða­greiðslan hafði farið fram, höfðu 43.423 skrifað und­ir. Verk­efnið hafði skilað því að Sam­tökum kvenna um nýja stjórn­ar­skrá tókst að ná í 74 pró­sent fleiri und­ir­skriftir en upp­haf­lega var stefnt að. 

Ein fyrirsvarsmanna átaksins er Katrín Oddsdóttir, lögmaður og aðgerðarsinni.
Mynd: Bára Huld Beck

Sam­hliða tókst að end­ur­vekja umræðu um það ferli sem félag­ið, og þeir sem að því standa, hafa barist fyrir að verði við­ur­kennt sem hið rétta til að smíða nýjan sam­fé­lags­sátt­mála. Það er ferli sem hófst með tveimur Þjóð­fund­um, sem haldnir voru 2009 og 2010, leiddi til kosn­inga til stjórn­laga­þings og síðar til skip­unar stjórn­laga­ráðs eftir að kosn­ingin á stjórn­laga­þingið var dæmd ólög­mæt og þess frum­varps um inni­hald nýrrar stjórn­ar­skrár sem hin ráð­gef­andi þjóð­ar­at­kvæða­greiðsla fór svo fram um 20. októ­ber 2012. 

Þrjár millj­ónir frá einum aðila

Hóp­ur­inn sem stóð að und­ir­skrifta­söfn­un­inni vann allt starf sitt í sjálf­boða­vinnu. Til þess að ná nægj­an­legri athygli þá þurfti fjár­muni til að kosta birt­ingu á efni frá félag­inu í fjöl­miðlum og á sam­fé­lags­miðlum þar sem vakin yrði athygli á söfn­un­inn­i. 

Þess vegna var farið að safna.

Fjár­öfl­unin var með ýmsum hætti. Mest áhersla var lögð á fram­lög frá ein­stak­ling­um, fram­lög vegna sölu bóka og vegna sölu á töskum og bol­um. Fyrstu fram­lögin komu inn á reikn­ing Stjórn­ar­skrár­fé­lags­ins í byrjun maí 2020 og í lok októ­ber höfðu alls safn­ast 4.415.184 krón­ur. 

Flest fram­lögin komu frá ein­stak­ling­um. Kjarn­inn fékk aðgengi að yfir­liti yfir þau og þar sást að uppi­staðan eru örfram­lög. Flestir ein­stak­lingar gefa nokkur þús­und krón­ur. Sam­tals nema ofan­greind fram­lög rúm­lega 1,4 milljón króna.

Auglýsing

Þá stóðu eftir þrjár millj­ónir króna sem Stjórn­ar­skrár­fé­lag­inu tókst að safna. Þær komu frá einum aðila.

Maura­þúfan sem safn­aði millj­ónum

Í aðdrag­anda fyrri Þjóð­fund­ar­ins, sem hald­inn var 2009, var mynd­aður und­ir­bún­ings­hópur ein­stak­linga með afar ólíkan bak­grunn. Þessi hópur taldi sig eiga það sam­eig­in­legt að hafa talað fyrir skipu­lagðri sam­eig­in­legri umræðu og hug­mynda­vinnu meðal þjóð­ar­innar til þess að finna bestu leið­ina til fram­fara við nýjar aðstæð­ur. Hóp­ur­inn kall­aði sig Maura­þúf­una með vísan til þess sem á ensku hefur verið kallað „Collect­ive Intelli­g­ence“. Þegar sam­tökin voru form­lega stofn­uð, í sept­em­ber 2009, sagði í til­kynn­ingu til fyr­ir­tækja­skrár að til­gangur þeirra væri „að halda Þjóð­fund og fylgja honum eft­ir.“

Um var að ræða hóp sem var nokkuð flæð­andi að stærð. Um tíma kom starf­aði tón­list­ar­konan Björk Guð­munds­dóttir með hon­um. Um tíma Guð­finna Bjarna­dótt­ir, fyrr­ver­andi þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Og um tíma var Ólafur Steph­en­sen, fyrr­ver­andi rit­stjóri bæði Frétta­blaðs­ins og Morg­un­blaðs­ins og núver­andi fram­kvæmda­stjóri Félags atvinnu­rek­enda, á meðal þeirra sem sagðir voru til­heyra hópnum á heima­síðu Þjóð­fund­ar­ins. 

Kjarn­inn í Maura­þúf­unni voru þó þeir níu ein­stak­lingar sem skip­uðu stjórn sam­tak­anna. Og skipa hana enn sam­kvæmt þeim gögnum sem aðgengi­leg eru í fyr­ir­tækja­skrá.

Á meðal þeirra voru núver­andi heil­brigð­is­ráð­herra Svan­dís Svav­ars­dótt­ir, Halla Tóm­as­dóttir sem síðar fór í for­seta­fram­boð og frum­kvöð­ull­inn Guð­jón Már Guð­jóns­son, oft­ast kenndur við OZ. Aðrir með­limir voru Bjarni Snæ­björn Jóns­son, Gunnar Jón­atans­son, Haukur Ingi Jón­as­son, María Ell­ingsen, Þor­gils Völ­und­ar­son og Lárus Ýmir Ósk­ars­son, sem var kjör­inn for­maður stjórn­ar. 

Þjóðfundurinn sem fram fór árið 2009.
Mynd: Brian Suda

Fjöl­margir aðil­ar, ein­stak­ling­ar, fyr­ir­tæki, stofn­anir og félaga­sam­tök lögðu til fé svo að Þjóð­fund­ur­inn yrði að veru­leika. Útlagður kostn­aður við funda­haldið var áætl­aður um 27 millj­ónum króna á end­an­um. Rík­is­stjórn, Reykja­vík­ur­borg og ríf­lega 70 fyr­ir­tæki, sveit­ar­fé­lög, félaga­sam­tök, stofn­anir og ein­stak­lingar voru í hópi stuðn­ings­að­ila. Þar af lagði rík­is­stjórn Íslands til sjö millj­ónir króna úr rík­is­sjóði og Reykja­vík­ur­borg lán­aði Laug­ar­dals­höll­ina undir fund­inn. 

Einn laun­aður starfs­maður var við verk­ið, verk­efn­is­stjór­inn, Kristín Erna Arn­ar­dótt­ir. Hún var ráðin tíma­bundið og laun hennar greidd af þeim frjálsu fram­lög­um, sem verk­efnið hafði feng­ið.

Þegar Þjóð­fund­ar­verk­efn­inu lauk voru enn til fjár­mun­ir. Sam­kvæmt því sem kom fram á styrkt­ar­síðu verk­efn­is­ins átti að setja það fé sem eftir sat í „kostnað við eft­ir­fylgni við Þjóð­fund­inn“. 

Féð var sett inn á banka­reikn­ing hjá Spari­sjóði Suð­ur­-­Þing­ey­inga og þar lá það fram á sum­arið 2020. Þegar stjórn Maura­þúf­unn­ar, sem hafði þá ekki hist árum sam­an, barst beiðni um styrk.

Beint fram­hald af Þjóð­fund­inum 2009

Sú beiðni kom frá stjórn Stjórn­ar­skrár­fé­lags­ins. Í henni sitja Katrín Odds­dóttir for­mað­ur, Sig­urður Hr. Sig­urðs­son rit­ari og Kristín Erna Arn­ar­dóttir gjald­keri, sem hafði starfað við Þjóð­fund­inn 2009 sem verk­efna­stjóri.

Með beiðn­inni fylgdi áætlun um fram­kvæmd og kostnað verk­efn­is­ins. Í henni var meðal ann­ars farið yfir hvernig tíma­lína þess yrði frá miðjum júlí­mán­uði og fram að 20. októ­ber, þegar und­ir­skriftir yrðu afhent­ar. Sam­kvæmt kostn­að­ar­á­ætlun átti verk­efnið að kosta um 3,3 millj­ónir króna. Þorri þess kostn­aðar féll til vegna birt­inga á aug­lýs­ing­um.

Stjórn Maura­þúf­unnar sam­þykkti beiðn­ina. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans þá setti eng­inn í stjórn sam­tak­anna sig á móti því að fjár­mun­unum sem legið höfðu á banka­reikn­ingi norður í landi í öll þessi ár yrði ráð­stafað með þessum hætt­i. 

Auglýsing

Þann 15. sept­em­ber síð­ast­lið­inn voru þrjár millj­ónir króna milli­færðar inn á reikn­ing Stjórn­ar­skrár­fé­lags­ins.  

Það er ekki hægt að þvo burt skila­boð sem eiga erindi

Kjarn­inn óskaði eftir því að fá að sjá yfir­lit yfir útgjöld vegna und­ir­skrifta­söfn­unar félags­ins, og fékk það. Í þeim gögnum sést að kostn­aður alls var rúm­lega 16 pró­sent undir áætl­un. Heild­ar­kostn­aður var tæp­lega 2,8 millj­ónir króna. Nær allur kostn­aður var vegna birt­ingar á aug­lýs­ingum í fjöl­miðlum og á sam­fé­lags­miðl­um, líkt og lagt hafði verið upp með í kostn­að­ar­á­ætl­un. Kostn­aður við það átak sem vakti einna mesta athygli á verk­efn­inu, þegar veggur sem þegar var þak­inn veggjakroti var mál­aður með orð­unum „Hvar er nýja stjórn­ar­skrá­in?“, var sára­lít­ill. Máln­ingin kost­aði 168 þús­und krónur og pizzur fyrir mál­ar­anna 22 þús­und krón­ur.

Sjálf­boða­liðar á vegum verk­efn­is­ins höfðu vikum saman verið að koma skila­boðum þess fyrir á öðrum svæðum í höf­uð­borg­inni þar sem að veggjakrot var þegar til stað­ar. En í októ­ber var ákveðið að mála stórt vegg­lista­verk á vegg við bíla­­stæði milli Sölv­hóls­­vegar og Skúla­­götu, við hlið atvinnu­vega- og nýsköp­un­ar­ráðu­neyt­is­ins. Sú aðgerð var þó ekki á vegum Sam­taka kvenna um nýja stjórn­ar­skrá né Stjórn­ar­skrár­fé­lags­ins, heldur stóð Narfi Þor­steins­son og skilta­málun hans fyrir henni.

Tveimur dögum eftir að verkið var full­klárað lét rekstr­ar­fé­lag stjórn­ar­ráðs­ins háþrýsti­þvo skila­boðin í burtu, eftir að ábend­ing hafði borist frá ráðu­neyt­inu. það var í fyrsta sinn sem að vegg­ur­inn, sem hefur verið úta­t­aður í veggjakroti árum sam­an, var þrif­inn. Annar veggur við hlið hans sem er líka þak­inn ­vegg­list, en inni­heldur ekki póli­tísk skila­boð, fékk að standa óáreitt­ur. 

Vegglistaverkið sem var háþrýstiþvegið af.
Mynd: Aðsend

Ákvörðun stjórn­ar­ráðs­ins að þrífa skila­boðin í burtu var það besta sem gat gerst fyrir und­ir­skrifta­söfn­un­ina. Athæfið varð frétt á öllum miðlum lands­ins og það rataði í umræður í þing­sal þar sem Jón Þór Ólafs­­son, þing­maður Pírata, sagði meðal ann­ars: „Það er tákn­rænt að þegar stjórn­­völd kom­­ast ekki lengur upp með það að sópa nýju stjórn­­­ar­­skránni undir teppið þá bein­línis háþrýsti ­þvo þau burt sann­­leik­ann um van­virð­ingu þeirra við þjóð­­ar­vilj­ann.“ 

Í kjöl­farið réðst Stjórn­ar­skrár­fé­lagið í að mála vegg­lista­verkið á annan vegg, skammt frá þeim sem hafði verið þrif­inn. Það verk stendur enn.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar