Icelandair bjargaði sér fyrir horn og fékk sjö þúsund nýja eigendur
Það fyrirtæki á Íslandi sem orðið hefur fyrir mestu efnahagslegum áhrifum af kórónuveirufaraldrinum er Icelandair Group. Það fékk líka mestu hjálp allra fyrirtækja frá skattgreiðendum. Í september réðst Icelandair svo í hlutafjárútboð þar sem almenningur keypti bréf í meira mæli en hann hefur gert í rúman áratug. Árið 2020 var róstursamt hjá flugfélagi allra landsmanna.
Icelandair Group átti í miklum rekstrarvanda á árinu 2020. Alls nam tap samstæðunnar um 45 milljörðum króna á fyrri hluta þess. Stærstan hluta þess taps, sem nam um 245 milljónum króna á dag, mátti rekja beint til kórónuveirufaraldursins. Fyrir lá að félagið átti ekki nægt laust fé til að lifa mikið lengur við óbreyttar aðstæður.
Í sumar, og fram á haust, réri Icelandair Group því lífróður og undirbjó það að sækja sér nýtt hlutafé til að standa af sér yfirstandandi storm. Hlutafjárútboðinu var nokkrum sinnum frestað á meðan að stjórnendur Icelandair hnýttu aðra lausa enda til að gera þátttöku í því eftirsóknarverðari. Útboðið fór loks fram í september. Og lukkaðist. Icelandair var fyrir vind. Að minnsta kosti um sinn.
Efnahagsaðgerðum beint að Icelandair
Flestar þeirra efnahagsaðgerða sem íslenska ríkið hefur gripið til vegna kórónuveirufaraldursins hafa verið sniðnar að Icelandair. Félagið var það einstaka fyrirtæki sem nýtti mest allra hlutabótaleið stjórnvalda.
Auk þess fóru rúmlega 3,4 milljarðar króna af hinum svokölluðu uppsagnarstyrkjunum, sem samtals námu átta milljörðum króna, til Icelandair Group eða tengdra aðila, eða um 43 prósent heildarupphæðarinnar.
Þann 1. september var greint frá því að Icelandair hefði náð samkomulagi við ríkisbankana tvo, Íslandsbanka og Landsbankann, um að þeir sölutryggðu samtals sex milljarða króna í hlutafjárútboðinu sem þá var framundan. Hvor um sig sölutryggði þrjá milljarða króna. Það þýddi á mannamáli að Icelandair þurfti í raun ekki að selja nema 14 milljarða króna af útgáfunni vegna þess að ríkisbankarnir tveir höfðu þegar skuldbundið sig til að kaupa fyrir sex ef 14 milljarða króna markið næst.
Íslandsbanki hefur lengi verið helsti viðskiptabanki Icelandair og lánað honum háar fjárhæðir. Bankinn er með veð í fasteignum og flughermum félagsins. Í mars í fyrra lánaði Landsbankinn Icelandair 80 milljónir dala, þá um tíu milljarða króna en nú mun hærri fjárhæð, gegn veði í tíu Boeing 757 flugvélum félagsins, sem eru gamlar og líkast til verðlausar miðað við þá stöðu sem er uppi í heiminum í dag, samkvæmt viðmælendum Kjarnans.
Lánalínur og ríkisábyrgð
Til viðbótar við allt ofangreint þá hétu ríkisbankarnir tveir því að leggja fram rekstrarlínu upp á samtals sjö milljarða króna sem Icelandair mun geta dregið á. Íslandsbanki leggur til fjóra af þeim milljörðum króna en Landsbankinn þrjá.
Icelandair mun auk þess fá þrautavaralánalínu upp á 16,5 milljarða króna, sem félagið getur dregið á ef allur annar peningur er búinn. Íslandsbanki og Landsbankinn munu skipta því láni á milli sín, og lána 8,25 milljarða króna hvor ef á línuna reynir.
Alþingi samþykkti fyrr á þessu ári að ábyrgjast 90 prósent lánalínunnar, eða tæplega 15 milljarða króna.
Veruleg umframeftirspurn
Icelandair Group ætlaði sér að safna að minnsta kosti 20 milljörðum króna í hlutafjárútboðinu í september. Hægt yrði að hækka þá fjárhæð í 23 milljarða króna ef umframeftirspurn yrði.
Alls bárust yfir níu þúsund áskriftir upp á alls 37,3 milljarða króna. Umframeftirspurn var því 85 prósent, bæði frá fagfjárfestum og almennum fjárfestum. Nýjum hlutum fylgdi 25 prósent áskriftarréttindi, eða sem nemur 5,75 milljörðum hluta. Það þýðir að hver og einn sem keypti gat bætt við sig 25 prósent af því sem viðkomandi skráði sig fyrir í viðbót á sama gengi og var í hlutafjárútboðinu, en það var ein króna á hlut.
Stjórn Icelandair Group ákvað að samþykkja ekki allar áskriftir, heldur einungis fyrir 30,3 milljarða króna. Það þýddi að áskriftum fyrir sjö milljarða króna var hafnað af stjórninni.
Þeir sem áttu hlutabréf í Icelandair fyrir þynntust strax niður um 80,9 prósent. Sú þynning mun aukast þegar nýir hluthafar nýta áskriftarréttindi sín.
Það á þó einungis við þá hluthafa sem ákváðu að taka ekki þátt í útboðinu nú. Þeir úr hópi þeirra sem vörðu eignastöðu sína voru hlutfallslega á svipuðu róli og þeir voru áður, en borguðu vitanlega nýja peninga inn í Icelandair Group.
Hluthöfum fjölgaði í yfir ellefu þúsund
Mikil eftirspurn var hjá almennum fjárfestum í útboðinu. Eignarhlutur þeirra var um 50 prósent eftir það og fjöldi hluthafa í félaginu verður yfir ellefu þúsund. Hluthöfum Icelandair Group fjölgaði því um sjö þúsund.
Lífeyrissjóðir landsins voru áður stærstu eigendur félagsins með samtals 53,3 prósent eignarhlut.
Á meðal þeirra sem þynntist mest niður var bandaríski fjárfestingarsjóðurinn PAR Capital Management. Sá sjóður sérhæfir sig í fjárfestingum í flugfélögum og er því í vanda víðar en á Íslandi. Hann kom inn í eigendahóp Icelandair í hlutafjáraukningu í apríl í fyrra þegar hann keypti 11,5 prósent á 5,6 milljarðar króna. Síðar bætti sjóðurinn við sig hlutum og átti þegar mest var 13,5 prósent. Síðustu mánuði hefur PAR verið að selja sig niður í Icelandair Group á hrakvirði og fyrir lá fyrir nokkrum síðan að þar væru ekki til peningar til að styðja frekar við íslenska flugfélagið.
Hluti lífeyrissjóða tók þátt
Mikil spenna var um hvaða lífeyrissjóðir sem áttu þegar í Icelandair Group myndu taka þátt í útboðinu, en þátttaka þeirra var talin lykilatriði í því að það tækist að ná markmiðum þess. Á endanum varð niðurstaðan sú að sumir tóku þátt, en aðrir ekki.
Af fjórum stærstu sjóðum landsins, sem allir voru á meðal stærstu eigendur Icelandair Group fyrir útboðið, tóku tveir (Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Gildi lífeyrissjóður) þátt en tveir (Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Birta lífeyrissjóður) sögðu pass. Auk þess vakti athygli að bæði Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Festa lífeyrissjóður ákváðu að taka ekki þátt. Síðan þá hefur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins selt hluta þeirra bréfa sem hann keypti með prýðilegum hagnaði.
Fjöldi sjóða í stýringu hjá fjármálafyrirtækjum tók þátt. Þar voru sjóðir í stýringu Stefnis, sjóðstýringafyrirtækis Arion banka, umsvifamestir.
Gætu þurft að draga á lánalínuna næsta sumar
Í aðdraganda útboðsins gaf Icelandair Group það út félagið búist við því að ná fyrri umsvifum sínum árið 2024. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í Kastljósi skömmu fyrir hlutafjárútboðið að það það myndi þurfa að draga á lánalínuna sem ríkisábyrgðin hvílir á ef staðan myndi ekki batna næsta sumar. Það myndi þá fleyta Icelandair áfram inn á vorið 2022.
Mikil óvissa ríkir um ferðamannasumarið á Íslandi á næsta ári. Jákvæð tíðindi af bóluefni gegn COVID-19, og það að bólusetning er þegar hafin í heiminum, veitir von um að viðspyrnan hefjist af alvöru á næsta ári.
Heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu í byrjun desembermánaðar þar sem sagði að vonast yrði eftir að hjarðónæmi myndi nást á Íslandi á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Þann 17. desember sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að ekki mætti búast við að því yrði náð fyrr en á síðara hlut ársins 2021. Samningar sem stjórnvöld hafa gert við framleiðendur um afhendingu á bóluefni benda til þess að Þórólfur fari með rétt mál.
Þá byggir Seðlabanki Íslands greiningar sínar á því að hingað komi 750 þúsund ferðamenn á árinu 2021, en þeir voru tvær milljónir 2019. Það hvernig helstu viðskiptalöndum Íslands mun ganga að bólusetja mun loks skipta meginmáli í því að fá ferðamenn til að koma á ný til landsins.
Hlutabréfin hafa hækkað í virði
Hlutabréf í Icelandair hafa hækkað umtalsvert frá því að hlutafjárútboð Icelandair fór fram. Það er nú um 1,6 krónur á hlut, eða 60 prósent yfir genginu í hlutafjárútboðinu, sem var ein króna á hlut. Það þýðir að sá sem keypti fyrir eina milljón króna á nú bréf sem metin eru á 1,6 milljónir króna. Þá jákvæðni má rekja að mestu annars vegar til aukinna væntinga um eðlilega starfsemi vegna bóluefna og hins vegar vegna þess að 737-Max vélar félagsins, sem hafa verið kyrrsettar frá því í mars í fyrra, hafa fengið leyfi víða um að fara aftur í loftið og búist er við því að Icelandair geti notað þær næsta vor.
Gengið er þó langt frá því sem það var þegar Icelandair var á mestu flugi. Í apríl 2016 fór gengi bréfa í félaginu í 38,5 krónur á hlut.
Lestu meira:
-
24. desember 2022Jólasagan: Litla stúlkan með eldspýturnar
-
24. desember 2021Jólasagan: Litla stúlkan með eldspýturnar
-
21. janúar 2021Tæknivarpið – Þáttur ársins
-
4. janúar 2021Hlutabréfaviðskipti hafa ekki verið fleiri á Íslandi frá hrunárinu 2008
-
3. janúar 2021Ár veiru, almannagæða og almannaskaða
-
3. janúar 2021Betri tíð
-
3. janúar 2021Faraldurinn yfirskyggði allt
-
3. janúar 2021Kannt þú að beygja kýr?
-
2. janúar 2021Draumur á jólanótt
-
2. janúar 20212020 og leiðin fram á við