Vilja ekki upplýsa um hver keypti hlut í Stoðum af Landsbankanum
Enginn hlutaðeigandi vill segja hvaða fjárfestar keyptu hlut Landsbankans í Stoðum á 3,3 milljarða króna í desember. Stoðir eru umsvifamesta fjárfestingafélag landsins um þessar mundir og er meðal annars á meðal stærstu eigenda Arion banka og Kviku banka.
Hvorki Landsbankinn né Stoðir telja sig geta veitt upplýsingar um hvaða fjárfestar keyptu 12,1 prósent hlut bankans í Stoðum í desember síðastliðnum fyrir 3,3 milljarða króna.
Þegar greint var frá sölunni á heimasíðu Landsbankans, þann 10. desember 2020, kom fram að bankinn hefði tekið tilboði sem Fossar markaðir hefðu gert fyrir hönd fjárfesta. Ekki var tilgreint um hvaða fjárfesta væri að ræða. Þar sem Stoðir eru óskráð félag, og tilkynningarskylda þess því verið einskorðuð við hluthafafundi og birtingu árs- og árshlutareikninga, er uppfærður hluthafalisti ekki aðgengilegur á heimasíðu félagsins eins og er hjá skráðum félögum. Enn fremur hefur gögnum um breytingu á eigendahópi Stoða ekki verið skilað inn til fyrirtækjaskrár og því ekki hægt að sjá hverjir keyptu í slíkum gögnum.
Kjarninn óskaði eftir upplýsingum frá Landsbankanum, sem er í eigu íslenska ríkisins, um hverjir hefðu keypt eignarhlut hans. Í svari upplýsingafulltrúa bankans sagði að Landsbankinn gæti ekki veitt umbeðnar upplýsingar. Fyrirspurninni yrði að beina til Stoða eða Fossa markaða, sem höfðu komið fram fyrir hönd kaupenda.
Þegar Kjarninn óskaði eftir upplýsingum um hverjir hefðu keypt hlutinn í Stoðum hjá félaginu sjálfu fengust þau svör að það væri ekki félagsins að veita upplýsingar um viðskipti hluthafa með bréf í því, enda félagið einungis andlag viðskiptanna.
Fossar markaðir vildu sömuleiðis ekki veita upplýsingar um hvern kaupandinn hafi verið. Fyrirtækið segist vera bundið þagnarskyldu gagnvart viðskiptavinum sínum.
Var á meðal kröfuhafa
Ástæða þess að ríkisbanki átti stóran hlut í fjárfestingafélagi má rekja aftur til bankahrunsins. Stoðir, sem hétu einu sinni FL Group, var einn umsvifamesti fjárfestirinn á uppgangsárunum sem leiddu til þess. Félagið var meðal annars stærsti eigandi Glitni banka.
Það fór í greiðslustöðvun þegar Glitnir fór á hausinn og kröfuhafar þess tóku félagið yfir. Á meðal þeirra voru þrotabú Glitnis, síðar Glitnir Holdco, og nýi Landsbankinn. Í næstum áratug snerist rekstur Stoða aðallega um að sinna eftirstandandi eignum.
Vorið 2017 keypti svo hópur ráðandi hlut í Stoðum. Sá eignarhlutur er nú inni í félaginu S121 ehf. stærsta eiganda Stoða.
Stærstu endanlegu eigendur S121 hafa margir hverjir tengsl við gamla FL Group, annað hvort störfuðu þar eða sátu í stjórn. Má þar nefna félög tengd Magnúsi Ármann, sem var hluthafi í FL Group og sat í stjórn félagsins, Örvari Kjærnested, sem var yfir starfsemi FL Group London fyrir hrun, og Bernhard Bogasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs FL Group. Þá á Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, líka stóran hlut.
Auk þess á eiginkona Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra FL Group/Stoða og núverandi stjórnarformanns Stoða, og fjölskylda hennar stóran hlut. Með Jóni í stjórninni sitja Sigurjón Pálsson og Örvar Kjærnested. Framkvæmdastjóri félagsins er Júlíus Þorfinnsson.
Þegar þessi sala átti sér stað áttu Stoðir einungis eina eign af viti sem átti eftir að vinna úr, hlut í hollenska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco. Sá hlutur var seldur í mars 2018 eftir yfirtökutilboð og eftir sátu um 18 milljarðar króna í Stoðum. Þeir fjármunir hafa verið notaðir í fjárfestingar á undanförnum misserum.
Glitnir Holdco hefur aldrei viljað veita upplýsingar um söluna. Á meðal þess sem Kjarninn hefur spurt félagið að vegna hennar er á hvað hluturinn hafi verið seldur.
Stór eigandi í tveimur bönkum
Stoðir er einn umsvifamesti einkafjárfestirinn á íslenskum hlutabréfamarkaði í dag. Félagið er stærsti innlendi einkafjárfestirinn í Arion banka með 4,99 prósent eignarhlut. Eigið fé Arion banka var 192 milljarðar króna í lok september síðastliðins.
Það er líka stærsti eigandi tryggingafélagsins TM, með 9,9 prósent eignarhlut. Í lok síðasta árs bættu Stoðir svo verulega við sig í Kviku banka, og eru nú stærsti einstaki eigandi hans með 8,24 prósent eignarhlut. Fyrir dyrum er að sameina TM, fjármögnunarfélagið Lykil sem TM á, og Kviku á þessu ári.
Í grunnsviðsmynd markaðsviðskipta Landsbankans sem send var út á valda aðila seint í desember kom fram að sameiginlegt félag væri metið á tæplega 82 milljarða króna samkvæmt verðmati deildarinnar.
Stoðir eru líka stærsti hluthafinn í Símanum, þar sem félagið heldur á 14,86 prósent eignarhlut.
Eignir Stoða voru metnar á 24,7 milljarða króna í lok júní síðastliðins og höfðu rýrnað um tæpan hálfan milljarð króna frá áramótum. Eignir Stoða skiptast að uppistöðu í fjárfestingar upp á 19,3 milljarða króna, reiðufé upp á 3,3 milljarða króna og veitt lán upp á rúma tvo milljarða króna.
Félagið skuldar hins vegar nánast ekkert og eigið fé þess því jafnt eignunum, eða 24,7 milljarðar króna. Þetta kom fram í árshlutareikningi Stoða sem birtur var í september.
Vænta má þess að virði eigna félagsins hafi hækkað umtalsvert á síðustu þremur mánuðum síðasta árs. Þau skráðu félög sem Stoðir eiga hlut í eru enda á meðal þeirra sem hækkuðu mest á árinu 2020. Hlutabréf í Kviku hækkuðu um 63,5 prósent, Í TM um 53,6 prósent og í Símanum um 49,8 prósent.
Örvar og Einar Örn sitja báðir í stjórn TM fyrir hönd Stoða. Jón Sigurðsson er stjórnarformaður Símans.
Bankar út úr Stoðum
Í maí 2019 fór fram hlutafjáraukning í Stoðum. Í henni jók S121 eignarhlut sinn í félaginu í 64,6 prósent. Greitt var fyrir þá hlutafjáraukningu með hlutabréfum eigenda S121 í TM. Arion banki átti á þessum tíma líka stóran hlut í Stoðum og tók þátt í hlutafjáraukningunni. Eftir það átti bankinn 19 prósent hlut. Þann hlut seldi Arion banki rúmum mánuði síðar.
Aðrir stórir eigendur Stoða eftir þau viðskipti voru Landsbankinn, með 12,1 prósent eignarhlut, og tveir sjóðir í stýringu hjá Stefni, sjóðstýringarfyrirtækis Arion banka.
Þann 23. nóvember auglýsti Landsbankinn svo 12,1 prósent hlut sinn í Stoðum til sölu, að öllu leyti eða hluta. Tilboðsfrestur var til 8. desember.
Tveimur dögum eftir að tilboðsfresturinn rann út var tilkynnt að alls 13 fjárfestar hefðu tekið þátt í söluferlinu. Landsbankinn hafi ákveðið að taka tilboði Fossa markaða, fyrir hönd hóps fjárfesta, sem greiddi 3,3 milljarða króna fyrir eignarhlutinn. Miðað við það er virði alls hlutafjár í Stoðum 27,3 milljarðar króna.
Hver kaupandinn var verður ekki opinberað fyrr en Stoðir skila inn ársreikningi sínum fyrir árið 2020. Samkvæmt lögum hefur félagið út ágústmánuð til að gera það en Stoðir birtu ársreikning sinn fyrir 2019 á heimasíðu sinni 21. febrúar í fyrra.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi