Síðastliðinn miðvikudag hófust stærstu réttarhöld á Ítalíu í 30 ár þar sem réttað verður yfir 355 manns sem tengjast ‘Ndrangheta glæpasamtökunum þar í landi. Í réttarhöldunum, sem eiga sér fimm ára aðdraganda, verða meira en 900 vitni kölluð til og um 24 þúsund hljóðupptökur lagðar fram sem sönnunargögn. Saksóknarinn að baki ákærunum vonar að málið laski starfsemi samtakanna verulega og marki nýtt upphaf hjá þeim sem hafa þurft að lifa í skugga þeirra.
Rinascita-Scott aðgerðin
Meirihluti þeirra sem réttað er yfir var handtekinn í lok árs 2019, í kjölfar viðamikillar rannsóknar ítölsku lögreglunnar. Rannsóknin, sem staðið hafði yfir síðan árið 2016, teygði anga sína víðs vegar um Ítalíu og til nærliggjandi landa.
Hún bar heitið Rinascita-Scott, eftir manni að nafni Scott, sem var starfsmaður bandarísku fíkniefnalögreglunnar (DEA) og hjálpaði ítölsku lögreglunni um árabil en lést nýlega. Orðið rinascita þýðir svo endurfæðing á ítölsku sem táknar vonir þeirra sem að baki rannsókninni standa um að hún marki nýtt upphaf.
Um þrjú þúsund lögreglumenn tóku þátt í handtökunum á sínum tíma á Ítalíu, í Sviss, Þýskalandi og Búlgaríu. Þeirra á meðal voru sérsveitarmenn ítölsku lögreglunnar, sem kallaðir eru „veiðimennirnir,“ en þeir leituðu uppi hátt setta meðlimi glæpasamtakanna í leynibyrgjum í ítölsku sveitinni.
Á meðal þeirra handteknu var fyrrum þingmaður flokks Silvio Berlusconi, sem var forsætisráðherra landsins um árabil, ásamt lögreglustjóra og fjölmörgum embættismönnum og athafnamönnum í viðskiptalífinu. Allir voru þeir ásakaðir um að eiga samstarf við samtökin með einum eða öðrum hætti.
Að baki handtökunum var Nicola Gratteri, saksóknari bæjarins Catanzaro á Suður-Ítalíu, en hann er einn þekktasti saksóknari landsins sem sérhæfir sig í skipulagðri glæpastarfsemi. Samkvæmt fréttamiðlinum Vice hefur ítalska mafían kallað eftir dauða hans, en Gratteri hefur búið við lögregluvernd á síðustu árum.
Dómsalur í símaveri
Gratteri hefur látið safna 24 þúsund hljóðupptökum fyrir réttarhöldin, sem eru þau stærstu í marga áratugi á Ítalíu. Til viðbótar við þá 355 einstaklinga sem réttað verður yfir hafa yfir 900 vitni verið kölluð til í málinu.
Sökum stærðar málsins og strangra sóttvarnaraðgerða hafa ítölsk yfirvöld búið til dómsal í húsnæði sem var áður gríðarstórt símaver í bænum Lamezia Terme. Stór hluti hinna ákærðu mun aðeins vera viðstödd réttarhöldin í gegnum fjarfundarbúnað, en þeir sem geta munu mæta í gamla símaverið. Þar munu sumir hinna ákærðu standa í búrum sem smíðuð hafa verið sérstaklega fyrir tilefnið.
Verðmætari en Deutsche Bank og McDonalds til samans
Glæpasamtökin, sem eru frá Calabria-héraði á Suður- Ítalíu, hafa aukið ítök sín á síðustu áratugum og tekið toppsætið af sikileysku mafíunni, Cosa Nostra, sem valdamestu glæpasamtök Ítalíu. Samkvæmt Europol stjórnar hún stórum hluta af kókaínsölu í allri Evrópu, en hún er einnig talin stunda peningafölsun, mútugreiðslur og ólöglega förgun spilliefna. Rannsóknarstofnunin Demoskopita taldi virði mafíunnar vera meira en virði Deutsche Bank og McDonalds til samans árið 2013.
Hins vegar, þrátt fyrir viðamikla starfsemi sem teygir sig langt út fyrir Ítalíu, fara leiðtogar samtakanna sjaldan út fyrir heimaþorpin sín. Þar hafa þeir náð að fara huldu höfði, meðal annars vegna fjölda neðanjarðargangna sem þeir hafa útbúið milli húsa, auk leynibyrgja sem þeir geta dvalið í í afskekktum sveitum héraðsins.
Mancuso fjölskyldan
‘Ndrangheta mafían skiptist í tugi smærri eininga sem kallaðar eru ‘ndrinur. Ein af stærstu ‘ndrinunum er kennd við Mancuso-fjölskylduna. Einn meðlimur fjölskyldunnar, Emanuele Mancuso, hefur uppljóstrað um ýmis leyndarmál hennar gegn því að fá lögregluvernd. Hann mun bera vitni gegn leiðtoga hennar og einu af valdamestum meðlimum samtakanna sem voru handteknir í Rinascita-Scott-aðgerðinni, frænda sínum Luigi Mancuso, í réttarhöldunum.
„Þessi réttarhöld eru fyrir allt heiðarlega viðskiptafólkið og borgarana sem hafa þurft að þola árásir og áreitni frá þessum glæpamönnum,“ sagði Gratteri í viðtali við Guardian. „Ég vona að þessi viðburður merki nýtt upphaf fyrir íbúa Calabria sem eru þreyttir á að lifa í skugga ‘Ndrangheta.“