Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður í fjárlaganefnd, telur að rannsóknarregla stjórnsýslulaga og ákvæði laga um opinber fjármál um stefnumótun stjórnvalda séu ekki uppfyllt með greinargerð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um sölu Íslandsbanka og öðrum kynningum sem ráðist var í fyrir fjárlaganefnd í kjölfarið.
Þetta kemur fram í athugasemd hans við umsögn fjárlaganefndar um greinargerð Bjarna, sem send til hennar 21. desember síðastliðinn og leggur til að söluferli Íslandsbanka verði hafið. Á grundvelli þessa mats þá setur Björn Leví ekki fram efnislega athugasemd um söluáformin.
Meirihluti fjárlaganefndar, sem skipaður er þingmönnum stjórnarflokkanna þriggja (Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks) styður áform um söluna og leggur, líkt og meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar, til að 25 til 35 prósent af bankanum verði seldur. Meirihlutinn vill líka að hver tilboðsgjafi fái ekki að kaupa meira en 2,5 til 3,0 prósent.
Jón Steindór segir þó að reynslan af fyrri bankasölu, þegar tveir ríkisbankar voru einkavæddir á árunum 2002 og 2003, hafi haft þunga eftirmála. „ Ekki á að loka augum fyrir því að margir eru tortryggnir og ekki að ástæðulausu. Tveir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn voru það líka þegar einkavæðingin hin fyrri fór fram. Persónur og leikendur skipta máli. Þess vegna þarf salan að gerast í vel afmörkuðum skrefum og af yfirvegun til þess að draga úr tortryggni og auka traust á söluferlinu.“
Einkavæðing banka rétt fyrir kosningar stórmál
Ágúst Ólafur Ágústsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, segir í athugasemd sinni að einkavæðing banka fyrir rétt fyrir kosningar sé stórmál. „Að hefja einkavæðingu banka í 100 ára djúpri kreppu er hins vegar vont mál. Þessi hraði og tímasetningin á einkavæðingunni hefur í för með sér tvennt: Lægra verð og færri kaupendur. Það segir sína sögu að ekkert annað ríki er að selja banka á þessum tíma þrátt fyrir að fjölmörg dæmi séu um eignarhald ríkisins á hinum ýmsum bönkum. Má þar nefna Bretland, Noreg, Belgíu, Holland, Írland, Grikkland, Spán og Þýskaland.“
Markaðsaðstæður séu því augljóslega ekki hagfelldar, heimurinn sé í djúpri kreppu og þar af leiðandi séu færri kaupendur til staðar en ella. „Í ljósi þess að bankar eru ekki eins og hvert annað fyrirtæki skiptir eigendahópur þeirra miklu máli. Þá er ljóst að engir erlendir kaupendur eru fyrir hendi um þessar mundir.“
Ágúst Ólafur gagnrýnir líka hraðann á sölunni og segir hann í raun tortryggilegan. „Það getur ekki verið skynsamleg hagfræði að selja eign ríkisins af nauð, sé það ástæða sölunnar eins og heyrst hefur. Sé markmiðið að nota söluandvirðið til að greiða niður skuldir ríkisins þá er rétt að benda á að vextir eru lágir og liggur því ekki lífið á að borga niður skuldir ríkisins.“
Ljóst sé að það vanti mun dýpri samfélagsumræðu um söluna. „Það tókst að keyra allt einkarekið bankakerfi í þrot á 5 árum, síðast þegar það var einkavætt. Það er því ekki einungis áhætta fyrir ríkið að eiga í banka heldur er einnig til staðar áhætta fyrir ríkið af einkareknu bankakerfi.“
Þjóðnýta tapið en einkavæða gróðann
Fulltrúi Miðflokksins í nefndinni, Birgir Þórarinsson, telur að álitamálin varðandi söluáform ríkisstjórnarinnar séu einkum tvenns konar. Í fyrsta lagi sé álitamál hvort þetta sé rétti tíminn til að selja banka og í öðru lagi hvort aðferðin sé rétt, það er að segja að selja 25 prósent hlut. Bíða ætti með sölu Íslandsbanka þangað til að óvissa um efnahag bankans (20 prósent fyrirtækjalána hans eru í frystingu vegna COVID-19) liggi fyrir og endurreisn hagkerfisins hafin.
Þá telur Birgir nauðsynlegt að leitað verið að erlendum fjárfesti, til dæmis erlendum banka, til að kaupa hlut í bankanum. „Auk þess má telja að óheppilegt sé að banki í ríkiseigu sé í sölumeðferð rétt fyrir kosningar og enginn muni þarf að leiðandi bera hina pólitísku ábyrgð. Í miðjum veirufaraldri er minni líkur á því að rétt verð fáist og mögulegum kaupendum fækkar. Hámarksverð verður að fást fyrir þessa verðmætu eign fólksins í landinu. Við núverandi aðstæður, hér heima og erlendis, vegna veirufaraldursins er ólíklegt að svo verði.“
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir í sínum athugasemdum að þeim sex markmiðum sem stjórnvöld vilja ná með sölunni á hlut i Íslandsbanka sé ekki náð með þeirri áætlun sem lögð hefur verið fram, nema að það verði á kostnað annara hagsmuna almennings og ríkisins. „Fyrirhuguð sala á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka á ljóshraða þjónar því ekki hagsmunum almennings. Áform um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka er aðeins nýjasta dæmið um þá stefnu ríkisstjórnarinnar að þjóðnýta tapið en einkavæða gróðann.“