Afsönnuðu að VG væri „eitthvað lopapeysulið“ í eyðimerkurgöngu – sem myndi aldrei nein áhrif hafa
Ýmsar illspár voru uppi þegar Vinstrihreyfingin grænt framboð var stofnuð í lok 20. aldarinnar og nú, rúmum tuttugu árum síðar, segir stofnandi hreyfingarinnar að hann hafi alltaf séð fyrir sér að hún yrði flokkur sem myndi vilja axla ábyrgð og vera við völd ef það væri í boði. „Það sem mér finnst verðmætast er að við höfum gjörsamlega afsannað hrakspár – og það rækilega – um að við yrðum einhver jaðarflokkur sem aldrei myndi skipta neinu máli í íslenskum stjórnmálum. Ætli þær raddir fari nú ekki að þagna hvað úr hverju þegar við meira að segja leiðum ríkisstjórn?“
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og stofnandi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, hefur nú tekið þá ákvörðun um að hætta og mun ekki bjóða fram krafta sína eftir 38 ár á þingi. Hann hefur helgað stærstum hluta fullorðinsára sinna í að vera í stjórnmálum og á þessum tíma hefur hann sinnt ýmsum skyldum fyrir land og þjóð.
Óumdeildur er hann ekki, enda hefur hann marga fjöruna sopið á löngum ferli. Kjarninn ræddi við Steingrím um ferilinn, hugmyndafræðina á bak við stjórnmálastefnu hans og hvernig honum líst á þær breytingar sem orðið hafa – bæði inni á þingi, sem og í stjórnmálunum sjálfum.
Hvað heillaði þig við stjórnmálin til að byrja með?
„Ég er frá félagslega sinnuðu og menningarlegu heimili – stóru heimili. Við erum sex systkinin og á heimilinu voru alltaf líflegar umræður og mikill menningar- og þjóðmálaáhugi. Þar var rætt um stjórnmál og voru foreldrar mínir tiltölulega róttækir á nútímamælikvarða. Móðir mín var til dæmis mjög mikill herstöðvarandstæðingur,“ segir Steingrímur og talar um þau sem róttækt félagshyggju- og samvinnufólk.
Snemma beygðist krókurinn og tók Steingrímur þátt í félagslífi í skólum, bæði í héraðsskólanum á Laugum og í Menntaskólanum á Akureyri en þar var hann fulltrúi nemenda í skólaráði. „Ég var skiptinemi í Nýja-Sjálandi í mjög pólitísku umhverfi en þar lenti ég hjá vinstrisinnuðu ungu fólki og ræddum við mikið um pólitík – sérstaklega við fóstra minn sem er mannfræðingur og kennari og tiltölulega róttækur. Þegar ég fór síðan í háskólann hér heima þá lenti ég eiginlega beint inn í stúdentaráð fyrir vinstri menn og var orðinn virkur í starfi samtaka herstöðvarandstæðinga. Ég var svo sem ekki farinn að skipta mér af flokkspólitík og það var ekki fyrr en eftir áramót 1978 sem ég gekk í Alþýðubandalagið.“
Steingrímur segir að hann hafi verið beðinn um að taka sæti á lista Alþýðubandalagsins fyrir kosningarnar 1978. „Eftir smá umhugsun sló ég á endanum til og var þá í fyrsta skipti í framboði, 22 ára gamall. Það var mjög gaman að fá að taka þátt í því en þetta var spennandi vor, meirihluti Sjálfstæðisflokksins féll í borginni og var gríðarleg vinstri sveifla í stjórnmálum – og það kom nánast allt upp í hendurnar á okkur.“
Hvað var það í stefnu Alþýðubandalagsins sem heillaði?
„Ég hef áður sagt að það voru þrír þættir sem toguðu mest í mig. Í fyrsta lagi voru það umhverfismálin en þá var ég kominn í raunvísindanám í Háskóla Íslands og var mjög umhverfisverndarsinnaður. Ég fór til dæmis á ráðstefnu erlendis sem fulltrúi háskólans þannig að umhverfismálin voru þá þegar orðin mikilvæg í mínum huga. Í öðru lagi voru það utanríkis- og friðarmálin, en sem herstöðvarandstæðingur var ég mjög ákveðinn í þeim efnum og átti ég þá augljóslega hvergi heima nema í Alþýðubandalaginu. Að síðustu var það að ég, sem kem nú úr einu afskekktasta og fámennasta héraði landsins, Norður-Þingeyjarsýslu, var þá þegar kominn með áhuga á byggðamálum og var ég búinn að skrifa einhverjar greinar í blöð á þessum tíma um málefnið.“
Steingrímur segir að eitthvað af þessu hafi kannski vakið athygli þeirra sem veltu vöngum yfir kandídötum á lista Alþýðubandalagsins og að þeir hafi ákveðið að leita til hans af þeim sökum. „Svo segjum að þetta þrennt hafi vegið svolítið saman; almenn félagshyggja, vinstri pólitík, umhverfismál og málefni þessara dreifðu byggða og vonin um að ég gæti kannski lagt þeim eitthvað lið ef ég færi inn í stjórnmál. Að öðrum þræði var þetta bara spennandi heimur fyrir ungan mann að kynnast og ég hafði gaman að því að gera eitthvað svona spennandi þótt ég væri sveitamaður,“ segir hann.
Miklar breytingar á þingmannahópnum
Eins og áður segir fór Steingrímur til Nýja-Sjálands sem skiptinemi 19 ára gamall. „Það var í fyrsta skiptið sem ég fór til útlanda en þetta var nokkurra sólarhringa ferð, alla leið til Nýja-Sjálands. Ég hafði gaman af að ferðast og var áhugasamur um hlutina og fannst þetta spennandi. Eitthvað var líka farið að bera á því, sem hefur fylgt mér síðan, að ég gat alveg komið fyrir mig orði og var búinn að vera virkur í kappræðum og málfundafélaginu fyrir norðan. Þannig að ég kveið ekki þeim hlutanum, þrátt fyrir að vera feiminn að upplagi. Ég var ekkert sérstaklega að troða mér fram, held ég, en ég var orðinn sæmilega sviðsvanur. Ég hafði tekið þátt í uppfærslu leikrita á Laugum og verið í kappræðum á málfundum. Og ég var auðvitað orðinn skólaður þegar ég leiddi listann árið 1983.
En eiginlega gerðist þetta skref af skrefi. Því ég sló til og sagði já þarna ‘78. Svo urðu óvænt kosningar ‘79 og ég fór á sama lista og aftur í fjórða sæti. Þá var ég miklu meira með í baráttunni. Eiginlega fór ég norður til að vera með yfir langa helgi þremur vikum fyrir kosningar og endaði með að koma ekkert suður. Ég skrópaði í skólanum í þrjár vikur og var á fullu í baráttunni.“
Þannig var mál með vexti að kosningarnar komu óvænt uppá og voru í byrjun desember. Ekki gátu allir efstu menn listans verið mikið með og segir Steingrímur frá því að Stefán Jónsson, forveri hans, hafi verið einn að berjast fyrir norðan fyrir flokkinn og hafi beðið hann um að vera kosningastjóri. Hann taldi sig þó ekki geta sinnt því starfi vegna námsins en ákvað samt að taka „rispu“ og vera fyrir norðan í þessar þrjár vikur.
Steingrímur var langyngsti þingmaðurinn þegar hann settist á þing árið 1983. „Þá var ekki, því miður satt best að segja, mjög mikið af ungu fólki. Það var miklu sjaldgæfara að ungt fólk kæmi inn heldur en hefur orðið í þessari miklu endurnýjun á síðustu 10 og 20 árum.“ Eins og Steingrímur segir þá hafa orðið miklar breytingar á þingmannahópnum – bæði hvað kynjahlutföll varðar og aldursbil og enn fremur hefur fólk af erlendum uppruna setið á þingi.
Það var enginn umboðsmaður Alþingis, það var enginn umboðsmaður barna og svo framvegis. Þannig hvað snertir stjórnsýslu og lýðræði og opið og gagnsætt samfélag þá erum við ljósárum í burtu frá þessum tíma.
Hvernig upplifir þú þessar breytingar?
„Ég held að í það heila tekið hafi þessu öllu fleytt fram og það hafa orðið gríðarlegar framfarir á svo mörgum sviðum. Með fullri virðingu fyrir því gamla gróna samfélagi sem ég kom inn í á þingi þá er þetta svo gjörbreytt,“ segir Steingrímur og bendir á að breytingarnar hafi verið að byrja á þessum tíma en um leið og hann settist á þing þá kom Kvennalistinn inn með hvelli og tvöfaldaði fjölda kvenna á þingi sama ár. Hann segir að þær hafi margar orðið góðar vinkonur hans og að þau hafi náð vel saman sem fulltrúar nýrra tíma.
„Kynjahlutföllin löguðust svo jafn og þétt áfram. Samfélagið hefur náttúrulega allt opnast svo mikið og það er svo margt gjörbreytt. Mér sárnar stundum þegar menn gagnrýna ýmislegt sem miður fer og gæti verið betra í dag en menn sýna því ekki sanngirni hversu gríðarlega Íslandi hefur fleytt fram á eiginlega öllum sviðum.“
Þetta eigi einnig við um stjórnsýslu og stjórnmál. Sem dæmi tekur hann að þegar hann kom fyrst inn á þing þá hafi alþingismenn verið í nánast öllum bankaráðum og stjórnum lánasjóða og slíkra stofnana. „Það þótti bara sjálfsagt mál, þetta hafði bara alltaf verið þannig. Þannig að stjórnmálin og þeir hlutir voru algjörlega samtvinnaðir.“
Hann minnir á að stjórnsýslulög hafi ekki verið til á þessum tíma. „Það var heldur ekkert til sem heitir upplýsingalög. Það var enginn umboðsmaður Alþingis, það var enginn umboðsmaður barna og svo framvegis. Þannig hvað snertir stjórnsýslu og lýðræði og opið og gagnsætt samfélag þá erum við ljósárum í burtu frá þessum tíma. Satt best að segja var Íslands á þessum árum býsna langt á eftir að mörgu leyti og það var nú eiginlega viðtekið að það væri hinn eðlilegi hlutur að Ísland biði eftir því hvað gerðist á hinum Norðurlöndunum og svo smátt og smátt síaðist eitthvað af því inn hér heima. Það var afar sjaldan sem Ísland gat verið stolt á alþjóðavettvangi og bent á að það hefði tekið forystu í einhverju.”
Jú, með kjöri Vigdísar sem kom þarna árið 1980. Ég var heiftarlegur stuðningsmaður hennar og agiteraði hart fyrir henni. Ég var þá að gera út minn vörubíl í vegavinnu og það var gamall framsóknarbóndi sem var aðalsamherji minn í þessu,“ segir hann og hlær. Sá hafði verið framsýnn samvinnumaður og stutt Vigdísi Finnbogadóttur til forseta.
„Margir aðrir studdu Albert en karlarnir kusu hann dálítið. Ég djöflaðist í áróðri og átti nóg af límmiðum fyrir Vigdísi og límdi á alla kaffibrúsana í vegagerðinni. Svo reyndu karlarnir að plokka miðana af en ég átti nóg af límmiðum og límdi alltaf aftur á brúsana – og ráðskonan stóð með mér,“ segir hann kíminn.
Ertu formfastur varðandi þingstörfin sjálf? Á að halda í hefðirnar eða hvað?
Steingrímur segist hafa forsögu í þessu eins og öðru. „Þegar ég kom hérna inn 1983 þá var ég til vandræða að þeirra dómi fyrir klæðaburð. Ég held að ég segi það alveg satt að ég átti ein jakkaföt og ég gat ekki verið í þeim alla daga. Svo ég var oft í stökum jakka og peysu og það var kvartað undan því. Það tók þá svona eitt og hálft ár að mylja mig niður þannig að ég var orðinn þægur. Fjárhagurinn hafði aðeins batnað en ég var bara blankur námsmaður þegar ég fór inn á þing. Ég gat þá splæst í ein eða tvenn jakkaföt og farið að ganga hér um eins og hinir,“ segir hann en bætir því við að hann hafi ekki haft neinn sérstakan áhuga á því að ögra – hann hafi einungis komið úr öðru umhverfi og viðurkennir hann að honum hafi sumpart fundist hann vera að ganga inn í „einhvern allt annan heim“.
„Í háskólanum var hálfgerð hippatíska og stutt í 1968. Þannig var andrúmsloftið í skólasamfélaginu svo þetta var gríðarleg breyting. Þá var Alþingi geysilega formföst og virðuleg stofnun. Þingverðirnir voru svo fínir að þeir báru af. Þetta voru yfirleitt allt karlar um sjötugt, stífklæddir alveg.“
Vill standa vörð um vissar hefðir
Þó segist Steingrímur vilja standa vörð um vissar hefðir sem hann telur góðar. „Að sjálfsögðu finnst mér að þingmenn eigi að vera sómasamlega til fara og að þeir sem eiga erfitt með að hlíta því eigi náttúrulega að líta aðeins í eigin barm og spyrja sig: „Eru það allir hinir sem eiga að aðlaga sig að mér eða á ég kannski að sýna félögum mínum líka vissa tillitssemi?“ Þetta snýst voðalega mikið um það og ég sé enga ástæðu til þess að særa tilfinningar annarra með einhverju slíku ef það er útlátalítið fyrir mann að setja upp bindi eða vera þannig klæddur. Án þess að ég telji það skipta einhverju höfuðmáli.“
Bendir Steingrímur á að hann sem forseti Alþingis hafi slakað á bindisskyldunni og hefði þannig gert vissar breytingar í rólegheitunum sem hann telur vera í átt til nútímans. „Ég hef líka beitt mér fyrir því að gera starfsemi þingsins opnari og gagnsærri. Ég hafði forystu um það að veita meiri upplýsingar um kostnað og endurgreiðslur og þvíumlíkt. Ég var kominn með það á dagskrá áður en einhverjir þingmenn fóru eitthvað að hreyfa við því með fyrirspurnum.“ Þannig sé eðlilegt að á Íslandi verði stjórnsýslan opnari.
Ég sé enga ástæðu til þess að særa tilfinningar annarra með einhverju slíku ef það er útlátalítið fyrir mann að setja upp bindi eða vera þannig klæddur.
Hvað stendur upp úr í þingmanna- eða ráðherraferlinum?
Þegar Steingrímur lítur yfir sinn eigin feril þá segir hann að einn stærsti kaflinn sé auðvitað tilurð Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og að taka þátt í því ævintýri. „Að stofna þá hreyfingu frá grunni með tvær hendur tómar – sem við gerðum – og með miklar hrakspár eiginlega allra um að við myndum nú ekki ríða feitum hesti frá því. Við vorum svo sem alveg tilbúin að taka því, hvað upp úr kössunum kæmi, og sögðum það gjarnan þegar það verið var að brigsla okkur um einhver svik við sameiningu vinstri manna og þvíumlíkt að við ætluðum bara að bjóða kjósendum upp á þennan valkost. Það var í þeirra höndum hvort þeir vildu að svona hreyfing yrði til. Það kom svo heldur betur á daginn.“
Hann segir enn fremur að hann sé þakklátur og auðmjúkur yfir því trausti sem honum hafi verið sýnt. „Ég hef notið mikils trausts. Mér hefur verið treyst fyrir því að leiða framboðslista ellefu sinnum í röð í alþingiskosningum. Það á sér ekki mörg fordæmi og ég hef verið með í síðustu þrettán kosningum til Alþingis. Ég hef notið mikils stuðnings. Útkoma okkar, fyrst Alþýðubandalagsins og síðan Vinstri grænna í Norðurlandi eystra og síðan Norðausturkjördæmi, hefur yfirleitt verið góð. Í síðustu kosningum Alþýðubandalagsins 1995 var Norðurland eystra orðið sterkasta kjördæmi flokksins og fengum við náttúrulega fljúgandi start í fyrstu kosningum VG árið 1999 þegar ég og Árni Steinar heitinn, blessuð sé minning hans, fengum 22 prósent atkvæða sem eiginlega kom öllum í opna skjöldu.“
Þetta þýddi að VG fékk sex þingmenn inn á þing í fyrstu kosningunum árið 1999. Steingrímur segist ekki síður þakklátur fyrir það hvernig gengið hafi allar götur síðan. „Við reyndumst ekki bara eitthvað tímabundið fyrirbæri sem fékk einar góðar kosningar og lognaðist síðan út af eins og stundum hefur verið með ný framboð. Heldur höfum við staðið sterk að vígi og haft mikil áhrif á stjórnmálin þessa rúma tvo áratugi sem við höfum starfað. Það var alltaf minn draumur að þó að við værum róttæk og með mikla sérstöðu málefnalega með umhverfismálin og utanríkis- og friðarmálin og femínismann og róttæka vinstristefnu, þá yrðum við samt flokkur sem myndi láta til sín taka. Við gengjum ekki í eitthvað sjálfskipað hlutverk gagnrýnenda. Við værum líka flokkur sem hefði einhver áhrif. Það var alltaf mín hugsun.“
Steingrímur nefnir í þessu samhengi að ýmsir félagar þeirra í sósíalískum flokkum á hinum Norðurlöndunum hafi sumir beinlínis valið sér það hlutverk og skilgreint sig sem þannig flokkur sem færi ekki í ríkisstjórn – heldur veittu aðhald og væru gagnrýnir. „Það er gott og mikilvægt hlutverk og flokkar hafa vissulega áhrif á fleiri vegu en þann einan að taka sæti í ríkisstjórn. Menn hafa dagskrárvald og geta barist fyrir málum þó að þeir séu ekki við völd. En ég er þeirrar skoðunar að ef menn bjóða sig fram á annað borð, bjóða fram krafta sína, þá verða þeir að fara með það alla leið. Það þýðir að menn verði að vera tilbúnir að axla ábyrgð. Standa og falla með störfum sínum. Og líka með verkum sínum ef þeir komast í áhrifastöður,“ segir hann.
Við skyldum gjöra svo vel að átta okkur á því að það væri ólíklegt að verða til vinsælda fallið að takast á við það að reyna að vinna landið út úr þessu.
Auðvitað er ekki hægt að sleppa því að nefna árið 2008, þegar bankahrunið átti sér stað, og segir Steingrímur að í kjölfarið hafi þeim í VG verið hent út „í það allt saman“. Hann segir að hann hafi verið virkilega stoltur af flokknum á þeim tíma. „Við hikuðum ekki og settum ekki sjálf okkur í fyrsta sæti heldur samfélagið og ástandið í þjóðfélaginu. Við fórum inn í ríkisstjórn, fyrst í minnihlutastjórn við þessar ógnvænlegu aðstæður, vitandi mjög vel að það yrði ekki auðvelt.
Ég skóf aldrei utan af því þegar ég ræddi það í flokksráði eða annars staðar í flokknum að þetta yrði enginn dans á rósum. Við skyldum gjöra svo vel að átta okkur á því að það væri ólíklegt að verða til vinsælda fallið að takast á við það að reyna að vinna landið út úr þessu. Að forða því frá gjaldþroti og reyna að koma því á lappirnar aftur. Það reyndist svo sannarlega. Við greiddum fyrir það dýru verði árið 2013 en við vorum fljót á fætur aftur og höfum staðið sterk síðan. Ég er ákaflega stoltur af okkar stöðu núna. Mér finnst það sögulegt að innan tuttugu ára séum við komin í annað sinn sem leiðandi afl í ríkisstjórn – og núna með forsætisráðherrann í okkar röðum og reyndar forseta þingsins líka sem er frekar óvenjulegt.“
Er eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi eftir hrun?
„Já, ef maður lítur í baksýnisspegilinn þá getur maður alveg séð það. Það er samt ekki margt sem ég sé að hefði verið hægt að gera öðruvísi á þeim tíma – haft rök fyrir því að taka einhverja aðra stefnu eða gera eitthvað annað. Það verður alltaf að dæma söguna út frá þeim aðstæðum þar sem hver atburður verður til. Annað er nú bara beturvitrungsháttur eftir á – að verða ægilega gáfaður í baksýnisspeglinum. En þetta voru náttúrulega svo gríðarlega erfiðar aðstæður og satt best að segja skelfilegur tími á margan hátt. Enginn gleymir, sem hér var á þingi, ástandinu í samfélaginu og hér í kringum húsið. Maður þarf eiginlega að klípa sig í handlegginn til að muna að þetta hafi raunverulega gerst á Íslandi; að þetta svakalega rof á trúnaði hafi orðið á milli almennings og æðstu stjórnvalda. Það voru ekki bara bankar sem hrundu, það hrundi allt traust í samfélaginu í garð stjórnmálanna og æðstu stofnana.“
Fór að heiman með æðruleysisbænina og út í daginn
Steingrímur segir að erfitt hafi reynst að byggja upp traustið á ný. „Ég varð fljótt upptekinn af því sem mér fannst öllu máli skipta: Að koma landinu út úr þessu efnahagslega og endurheimta okkar fjárhagslega sjálfstæði. Við komumst ekki af fyrir eigin vélarafli og urðum að fá aðstoð utanfrá. Fá lánaðan gjaldeyri, og svo framvegis, sem við ekki áttum. Það var líka ekkert sýnt um það að Ísland réði við sínar skuldbindingar lengi framan af. Það var ekki fyrr en við vorum komin inn undir mitt ár 2010 þegar ég sem fjármálaráðherra gat farið að halla mér aftur á bak og með sæmilegri vissu sagt: „Já, gott og vel. Við munum hafa okkur í gegnum þetta án þess að það verði greiðslufall.“ Ég man að það var mikill léttir þegar önnur endurskoðunin á samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var gengin í gegn í lok apríl 2010 og við fengum í framhaldinu gjaldeyrisforða sem þýddi það að við vorum með allar afborganir ríkisins, stærstu fyrirtækja og sveitarfélaga dekkaðar næstu misserin.“
Steingrímur rifjar upp að árið 2009 hafi ástandið verið þannig að hann hafi ekki vitað hvað hver dagur bæri í skauti sér. „Maður fór að heiman með æðruleysisbænina og út í daginn – því það var ómögulegt að vita hvað biði manns.“
Líf þingmanns og ráðherra er þó ekki einungis erfiðleikar og átök og segir Steingrímur að starfið geti verið ánægjulegt þegar barist sé fyrir skemmtilegri hlutum – þegar aðstæður séu til að berjast fyrir umbótum og framfaramálum. „Ég hef alltaf verið framkvæmdamaður í mér og hef til dæmis barist fyrir ýmsum stórum samgönguframkvæmdum og stundum komist í aðstöðu til að leggja þannig málum lið en það stendur líka svolítið upp úr. Ég hef haft gaman af því að keyra í gegnum Hvalfjarðagöngin sem ég átti minn þátt í að koma af stað, Vestfjarðagöngin og svo Vaðlaheiðagöngin nú fyrir norðan – eða sigla með gamla Herjólfi sem ég beitti mér fyrir að yrði smíðaður fyrir Vestmanneyinga. Ég er stoltur af því að hafa lagt grunn að strandveiðunum og þannig gæti ég áfram talið.“
Mig langar að ræða við þig um hugmyndafræði – um klassíska aðgreiningu milli vinstri og hægri. Nú heitir flokkurinn Vinstri grænir og þá ætti að vera ljóst fyrir hvað hann stendur. En hvað þýðir „vinstri“ fyrir þér?
„Sko, nafn flokksins varð til eftir mikla umhugsun og reyndar lögðum við mikla vinnu í undirbúning flokksstofnunarinnar. Það var ekki endilega ljóst fyrr en á miðju sumri eða undir haust 1998 að stefnan væri tekin á að stofna nýja stjórnmálahreyfingu. Það má segja að það hafi kannski verið nokkuð ljóst þegar við mynduðum þingflokk óháðra haustið 1998 en þá var undirbúningur líka settur á mikla ferð og mikil málefnavinna fór í að leggja grunninn að þessari hreyfingu.
Það var auðvitað augljóst mál hvar við stóðum. Við vorum lengra „til vinstri“ eða róttækari en margt af því fólki sem fór í Samfylkinguna. En það var líka alveg ljóst frá byrjun að við myndum verða flokkur herstöðvarandstöðu og með friðarstefnu – og að við myndum verða grænn flokkur,“ segir Steingrímur.
Við setjum miklu meiri fyrirvara við markaðinn og fjármagnið. Við viljum ekki ganga jafn langt í því að láta markaðinn og fjármagnið ráða.
Rifjar hann upp að þau hafi ekki viljað kalla sig flokk svo niðurstaðan hafi verið Vinstrihreyfingin og veltu þau því fyrir sér hvernig hægt væri að tengja græna nafnið við hreyfinguna. „Reyndar voru margir hikandi við það að beinlínis kenna sig við græna litinn. Hvort það minnti um of á Green peace og myndi fæla frá. Það var samt alveg á hreinu að þetta yrði samstarf vinstrisinnaðs fólks, umhverfisverndarsinna og róttækra femínista. Við suðum það saman í þetta nafn sem ýmsum fannst þó nokkuð óþjált. En það stytti sig fljótlega sjálft niður í Vinstri Græn eða bara VG og virkar vel.“
Samfélagið á að vera í fyrsta sæti og setja leikreglur sem markaðurinn á að lúta
Steingrímur segir að ef litið er á hugtakið „vinstri“ í klassískum skilningi þá þýði það að Vinstri græn séu lengra til vinstri en hefðbundnir sósíal-demókratar. „Við setjum miklu meiri fyrirvara við markaðinn og fjármagnið. Við viljum ekki ganga jafn langt í því að láta markaðinn og fjármagnið ráða. Þannig að þessi sambúð norræna módelsins, ef við tölum um það sem kapítalisma með félagslegu ívafi sem auðvitað stóru sósíal-demókrataflokkarnir á hinum Norðurlöndunum hafa haft mikið með að gera, þá togum við hana, norrænu samfélagsgerðina, frekar í vinstri átt.“
Telur hann að flestir flokksmenn séu óhræddir við að kalla sig sósíalista. „Við erum lýðræðissinnaðir sósíalistar enda höfum við verið kallaðir í Norðurlandaráði vinstri sósíalistar. Vegna þess að á hinum Norðurlöndunum líta kratar í umvörpum á sig sem sósíalista líka. Og þess vegna er þessi aðgreining í norrænum málum. Það er sósíalisti og vinstri sósíalisti. Þannig að við erum vinstri sósíalistar í hinni norrænu skilgreiningu,“ segir Steingrímur.
„Samfélagið á að vera í fyrsta sæti og setja leikreglur sem markaðurinn á að lúta – og eftir atvikum þegar þarf að setja honum skorður. Það held ég að sé lykilatriðið í þessu. Og þarna kristallast róttæk Vinstri græn vinstri stefna á eina hliðina og frjálshyggjan, eða nýfrjálshyggjan, á hina. Þetta eru hinar miklu andstæður sem hafa tekist á í vestrænum stjórnmálum síðastliðna áratugi – og gera auðvitað enn á vissan hátt þó að nýfrjálshyggjan sé ekki beinlínis söluvara í dag. Eða ég vona ekki.“
Þá liggur beinast við að spyrja: Ef einhver hafði sagt við þig fyrir tíu eða tuttugu árum að Vinstri græn færu í stjórn með Sjálfstæðisflokknum hvað hefðir þú þá sagt?
„Ég hefði mjög fljótlega ekki útilokað það. Og það tengist því sem ég minntist á áðan, að ég sá fyrir mér að við værum að stofna stjórnmálahreyfingu sem vildi hafa áhrif og setja sitt mark á þróunina. Ekki bara með því að vera til og gagnrýna og setja mál á dagskrá – eins mikilvægt og það er – heldur líka væri hún tilbúin að axla ábyrgð og vera við völd ef það væri í boði. Og jafnvel þótt langt væri á milli,“ segir Steingrímur.
Allt fari þetta eftir málefnum og hverju hægt sé að ná fram. „Því hefur verið veifað að sá möguleiki var ræddur í okkar herbúðum árið 2007 að við færum í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Það var nú eiginlega meira til að afstýra því, sem við töldum blasa við, að það yrði til enn verri stjórn. Sem og varð,“ segir hann og vísar þar í stjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sem sprakk síðan í janúar 2009 eftir hrunið árið áður.
Þó bendir hann á að auðvitað sé Samfylkingin næst þeim á hinu pólitíska litrófi. „Það er bara þannig og okkur gengur mjög vel að mjög miklu leyti að ná saman um mjög mörg mál. Og mun gera áfram treysti ég, það á ekki að þurfa að vera teljandi ágreiningur milli þessara tveggja flokka – sérstaklega í félagslegum málum.“
Steingrímur segir að þrátt fyrir það hafi VG tekið ákvörðun um að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum árið 2017. „Ég var nú eitthvað tengdur inn í þessar viðræður árið áður eða fylgdist allavega vel með þeim. Þær tilraunir og þreifingar sátu auðvitað svolítið í mönnum árið 2017. Þá var einfaldlega staðan á borðinu sú að það var ekkert hægt að búa til almennilega trúverðuga og stabíla ríkisstjórn nema tveir stærstu flokkarnir slíðruðu sverðin og væru í henni. Ég held að það sé alveg augljóst. Það var ekki efniviður í nema mjög fjölsamsetta ríkisstjórn sem hefði alltaf verið með ýmsa innbyggða veikleika – nema þetta tækist að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn, stærstu flokkarnir, leggðu krafta sína saman. Og það var ekki mikill áhugi á því að gera enn eina tilraun til að mynda einhverja ríkisstjórn sem væri kannski á mjög veikum forsendum og myndi kannski ekki lifa. Þjóðin var nú ekki mjög spennt fyrir því.“
Þá mat ég það þannig að allar helstu forsendur væru uppfylltar til þess að réttlætanlegt væri að gera þessa merkilegu tilraun.
Eins og fram hefur komið hefur Steingrímur tekið þátt í mörgum kosningum og segist hann aldrei hafa upplifað eins mikla kosningaþreytu og pirring í almenningi eins og haustið 2017. „Fólk var bara hundfúlt og lét okkur hafa það óþvegið.“
Þannig hafi verið mikil þörf fyrir það að koma á stöðugleika. „Það kom á daginn að þessir ólíku flokkar, eins langt frá hvor öðrum og þeir eru miðað við klassískar skilgreiningar, gátu sameinast um mjög mörg mikilvæg verkefni eins og öfluga innviðauppbyggingu, aðgerðir í loftslagsmálum og fleira sem að mínu mati er gott í prógrammi núverandi ríkisstjórnar.“
Hann segir enn fremur að komið hafi mjög fljótlega í ljós að forystumenn þessara flokka, þau Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir, hafi náð vel saman. „Þau treysta hvort öðru, sama gildir um Sigurð Inga og það er alltaf gríðarlega mikilvægt og eiginlega algjörlega bráðnauðsynlegt því það er svo mikilvægt fyrir liðsmennina að geta treyst því að þeirra forystumenn nái vel saman. Þá mat ég það þannig að allar helstu forsendur væru uppfylltar til þess að réttlætanlegt væri að gera þessa merkilegu tilraun.“
Telur betra að miðla málum en að „tala sig í sundur“
Steingrímur telur að stjórnmálamenn hafi ákveðið val í þessum efnum. „Það hefur kristallast í þróun stjórnmálanna, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, undanfarin ár og býsna langt aftur að það er auðveldasti hlutur í heimi að tala sig í sundur. Það er auðveldasti hlutur í heimi að pólarisera, að standa bara langt í burtu frá hvor öðrum og æpa hver á annan. En það er líka valkostur að reyna að tala sig saman, eða reyna að tala samfélögin saman. Að reyna að draga úr klofningnum.“
Þjóðin þurfi að hugleiða hvorn valkostinn hún kjósi. „Að það sé reynt að gera það sem verið er að gera á Íslandi og mér finnst virðingarvert; að tala sig frekar saman, miðla málum eða að fara hina leiðina; að auka á öfgarnar, að tala fólk sundur og þá er ég að sjálfsögðu að vísa til hægri-popúlismans í Evrópu og hægri-öfganna í Bandaríkjunum og hvernig það samfélag er rifið í sundur með skelfilegum afleiðingum sem þarf nú ekki að hafa mörg orð um. Þá finnst mér að við getum talist gæfusöm að þetta var gert hér.“
Hann segir að vissulega hafi þetta verið erfitt fyrir þau í VG og marga stuðningsmenn þeirra. „Mönnum var þessi hugsun mjög framandi og margir áttu erfitt með hana.“ Þannig segist hann skilja vel áhyggjur þeirra sem studdu flokkinn af þessu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. „Ég skil það mjög vel og ber fulla virðingu fyrir því sjónarmiði að menn vilji halda árinni hreinni og ekki gera málamiðlanir, vera á sínum stað og allt það. Það er líka alveg virðingarvert sjónarmið í stjórnmálum þó að ég sé ekki sammála því.“
Mér finnst ekki hátt á því risið þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í skammarkróknum út af einhverju að þá eyði sumir ónefndir flokkar, nær okkur í hinu pólitíska litrófi, allri orku sinni í að lemja á okkur en ekki á Sjálfstæðisflokknum.
Nú hafa flokkar sem unnið hafa með Sjálfstæðisflokknum þurft að taka ákveðnum afleiðingum þegar hneykslismál hafa komið upp er varða flokkinn. Þetta má sjá í kosningum og skoðanakönnunum. Hvað finnst þér um það?
„Mér finnst í fyrsta lagi það mjög óþroskað að ætla að nota það sem miður fer hjá einum stjórnmálaflokki til þess að berja, ekki á honum, heldur einhverjum öðrum. Ég segi það umbúðalaust: Mér finnst ekki hátt á því risið þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í skammarkróknum út af einhverju að þá eyði sumir ónefndir flokkar, nær okkur í hinu pólitíska litrófi, allri orku sinni í að lemja á okkur en ekki á Sjálfstæðisflokknum. Ekki þeim sem er þó sökudólgurinn. Það er bara ekkert hátt risið á þeirri pólitík og það er augljóst í hvaða tilgangi það er þá gert. Þá er það tekið og notað sem eitthvað barefli á okkur. Af því að það á bara hver flokkur að bera ábyrgð á sér, ekki satt? Og viðkomandi flokkar verða svo að gera það upp við sig og sína kjósendur þegar að því kemur.
En jú, auðvitað má segja að menn axli vissa ábyrgð – kollektífa ábyrgð – með því að vera saman í ríkisstjórn og kannski sérstaklega þá flokkur forsætisráðherrans sem leiðir þá ríkisstjórn. Það er svo sem ekkert undan því að kvarta og við verðum þá að taka því ef á köflum það séu gerðar kröfur til okkar, þó að við séum ekki gerendurnir í viðkomandi tilviki, og þá verðum við bara að reyna að rísa undir því og það höfum við nú gert, að ég tel,“ segir Steingrímur.
VG tekið á sig barsmíðarnar
Nefnir hann sem dæmi þegar Sigríður Á. Andersen steig til hliðar úr embætti dómsmálaráðherra þegar dómur Mannréttindadómstóls Evrópu féll í mars 2019 en dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að skipan í embætti dómara við Landsrétt hefði verið ólögleg. „Er ekki nokkuð ljóst að VG knúði fram til dæmis ráðherraskipti í þessari ríkisstjórn? Ég held að ég sé ekki að uppljóstra neinu leyndarmáli.“
Þannig hafi VG sett ákveðin mörk og telur Steingrímur að þau hafi verið mjög heil í þessu stjórnarsamstarfi og hafi þau tekið á sig barsmíðarnar. „Það er bara það sem fylgir og það verða náttúrulega flokkar sem eru svona óskaplega heilagir að horfast í augu við. Myndu þeir þá ekki gera það ef þeir væru í samstarfi við einhvern? Hversu lífseig yrði slík ríkisstjórn?“ spyr hann.
Vísar Steingrímur þarna í Samfylkinguna og spyr hann enn fremur að ef sá flokkur myndi nota öll mál, stór og smá, sem upp koma í þessu stjórnarsamstarfi til þess að lemja á Vinstri grænum og reyna að gera vandamál Sjálfstæðisflokksins að þeirra en ekki þess sem á sökina, væri það til marks um að Samfylkingin myndi halda út ef hún einhvern tímann færi í samstarf. „Ég myndi þá ekki vilja vinna með þeim því menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir. Líka þó þeir séu í stjórnarandstöðu og þetta sé voðalega ódýrt og þægilegt. Það er eitthvað til sem heitir að flokkar séu stjórntækir eða ekki stjórntækir. Og það að flokkur sé stjórntækur í mínum huga snýst meðal annars um það að hann viti hvað í því felst ef hann gengur til samstarfs við aðra. Að þú verður að taka því súra með því sæta að einhverju leyti.“
Hann bætir því við að þetta þýði þó að sjálfsögðu ekki að menn eigi að láta bjóða sér hvað sem er. „En það er þannig að menn verða stundum að snúa bökum saman í erfiðum málum og á erfiðum tímum. Það þurftum við nú heldur betur að gera, við Jóhanna Sigurðardóttir og hlupum ekkert undan því. Við tókum yfirleitt á okkur saman skellina og snerum bökum saman. Það var ástæðan fyrir því að sú ríkisstjórn hafði sig í gegnum eitt erfiðasta kjörtímabil Íslandssögunnar. Að við létum yfirleitt aldrei hnífinn komast á milli okkar.“
Hver væri draumaríkisstjórn Vinstri grænna?
„Af því að við vorum að ræða um Sjálfstæðisflokkinn áðan og þar sem ég ætla að vera hreinskilinn og opinskár í þessu viðtali þá er ég ekki endilega að segja að það sé eitthvað sem menn ættu að horfa á til langrar framtíðar. Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt að leyfa stjórnmálunum svolítið að þroskast og takast á með hefðbundnari hætti, að minnsta kosti inn á milli, þannig að samstæðari flokkar, hugmyndafræðilega séð, myndu vinna saman í annað hvort minnihluta eða meirihluta.
Þó held ég að það sé öllum hollt að velta fyrir sér því sem kallað er á skandinavísku „konsensus“-stjórnmál. Ég hef alltaf verið hallur undir að það væri að mörgu leyti gott fyrir samfélög að stjórnmálin virkuðu sem samstöðustjórnmál. Það þýðir að menn geri málamiðlanir. En það er líka veruleikinn í okkar mannlega samfélagi.“
Nú hefur þú aldeilis tekist á við aðra í stjórnmálum.
„Ég hef ekkert verið feiminn við það og það eiga menn líka að gera. Það er hluti af þessu og svo tefla menn fram mynduglega, og af hörku, sínum áherslum en þeir eiga að sjálfsögðu að gera það með rökum – og lúta svo lýðræðislegum niðurstöðum. Það er mjög mikilvægt að menn gleymi því aldrei, að það er lýðræðismeirihlutinn sem á að ráða niðurstöðunum í hverju máli og ef menn skrifa upp á lýðræðið á annað borð þá verða þeir að meina það. Ekki bara þegar hentar þeim. Stundum verða menn að sætta sig við það að lenda í minnihluta og taka því.“
Hefði ekkert á móti því að hér myndaðist sterk minnihlutastjórn
Steingrímur veltir því fyrir sér hvernig stjórnmálin muni þróast. Hvort hreinni línur muni myndast þannig að hægt verði að mynda sterka ríkisstjórn meira á annan hvorn vænginn. Væntanlega verði einhver miðlæg öfl með í því. „Síðan hefði ég ekkert persónulega á móti því ef hér myndaðist það sem kalla mætti sterka minnihlutastjórn. Það er að segja vel mannaða og öfluga stjórn þó að ekki væru allir flokkarnir með í ríkisstjórninni sem væru í hennar baklandi. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það gæti verið hollt, sérstaklega fyrir þingræðið. Það er almenn kenning að tímabil með minnihlutastjórnum styrki þjóðþingið því þá þurfa menn meira að semja um sín mál.“
Telur hann mikilvægt að þingið sé sterkt. „Þingið er kjarninn í lýðræðiskerfinu. Fulltrúasamkoma.“ Telur Steingrímur að samvinna með minnihlutastjórn myndi ýta stjórnmálunum í átt til samræðustjórnmála.
Ég tel auðvitað að Vinstrihreyfingin grænt framboð sé þessi sósíalíski flokkur. Ef það er ekki nógu róttækt fyrir menn þá það.
Nú er kominn til skjalanna flokkur sem er vinstra megin við Vinstri græna, Sósíalistaflokkurinn. Hvernig líst þér á að fá þann nýliða inn í stjórnmálin?
„Nú veit ég ekki hvort að þau muni ná mönnum inn á þing en þá bara gerist það – og það væri svo sem ekki endilega ófyrirsjáanleg þróun. Við höfum séð það gerast að einhverju marki.“
Steingrímur bendir á að á hinum Norðurlöndunum séu ýmsir valkostir til vinstri. „Ég tel auðvitað að Vinstrihreyfingin grænt framboð sé þessi sósíalíski flokkur. Ef það er ekki nógu róttækt fyrir menn þá það. Þá bara útbúa menn sinn málflutning miðað við það að þeir séu enn lengra til vinstri og svo ráða kjósendur niðurstöðunni.“
Telur hann jafnframt að líklegast til árangurs sé að sameinast í breiðum, sterkum, vinstri sinnuðum, grænum, femínískum flokki. „Ég spyr mig að því hvaða efniviður sé í heilsteypta pólitík sem ekki rúmast undir þeim formerkjum. Auðvitað þegar við vorum að stofna Vinstri græn og jafnvel enn þann dag í dag þá voru auðvitað kommúnistar með í hópnum. Það voru hreinir og klárir kommúnistar og mjög róttækt fólk – og það fólk blandaðist bara ágætlega við aðra sem í mesta lagi kölluðu sig sósíalista eða róttæka vinstri menn, verkalýðssinna, femínista og umhverfisverndarsinna.
Dýnamíkin hjá okkur hefur notið góðs af því að við höfum ekki bara verið tvískipt ef svo má að orði komast. Við höfum verið miklu fleira. Ekki einungis til vinstri eða græn heldur líka með femínískan arm og utanríkis- og friðarmálaarm, byggðamálaarm og svo framvegis.“
VG eiga auðvitað „engan einkarétt á því að vera eini róttæki vinstri flokkurinn“
Bendir Steingrímur á að þegar VG varð til hafi virkjast fjöldi félagslega sinnaðs fólks sem ekki hafði tekið þátt í stjórnmálum áður. „Það leystust nefnilega úr læðingi kraftar sem eiginlega voru sterkari en við áttum von á. Heilmikið af fólki mætti til leiks sem hafði ekki lagt stjórnmálunum lið. Félagsvant fólk úr stéttabaráttunni, verkalýðshreyfingunni eða félagasamtökum og mikið af ungu fólki. En við eigum auðvitað engan einkarétt á því að vera eini róttæki vinstri flokkurinn og það er bara lýðræði. Eðli málsins samkvæmt geta menn auðvitað látið á það reyna hvort að stuðningur sé við þá og þeirra hugmyndafræði.“
Sósíalistaflokkurinn sprettur upp úr ákveðnum jarðvegi í kringum búsáhaldabyltinguna og verkalýðshreyfinguna og virðist vera vöntun á ennþá róttækari vinstra afli. Hvað finnst þér um það?
„Ég tel að það fólk sé allt saman velkomið í okkar raðir, það er ekki vandinn í mínum huga. En kannski eru aðstæðurnar núna þegar við erum í ríkisstjórn þannig að þá finnst fólki það eitthvað fjarlægara. Ég á ekki von á öðru en að þeim yrði vel tekið ef þau vildu ganga í okkar raðir og efla okkur og gera okkur þá ennþá róttækari. Valið er auðvitað um það,“ segir Steingrímur.
Sérðu þá ekki róttæknina sem vandamál?
„Nei, alls ekki. Óli kommi og Þorvaldur Þorvaldsson voru til dæmis góðir liðsmenn okkar og voru fyrstu 10 til 15 árin í okkar hreyfingu. Ég man ekki til þess að það hafi skapað nein vandamál. Og þannig hafa menn þá áhrif inn í stærri hóp, getum við sagt, og toga þá hreyfinguna enn meira til vinstri,“ segir hann en bætir því við að auðvitað verði menn að finna út úr þessu sjálfir. Persónur og leikendur skipti alltaf máli og ætli hann síðastur manna að fara að tala úr mönnum kjarkinn hvað það varðar.
„Það er að mörgu leyti spennandi að láta reyna á gæfu sína í svona löguðu. Menn eiga fullan rétt á því og er það hluti af lýðræðinu og þingræðinu. Og ef eitthvað er þá þarf að passa upp á það að þröskuldarnir séu ekki of háir til þess að nýsköpun eigi sér stað innan stjórnmálanna.“
Hann segir að áhugavert verði að sjá hvað gerjist í þessum málum.
Bendir Steingrímur á að ekki séu einungis væringar á vinstri vængnum heldur sé ýmislegt að gerast á hinum hægri, sem og í miðjunni. „Það er kannski á sinn hátt ágætt því að það dregur úr hættunni á eins alvarlegri pólariseringu.“
Þú ert þá til í að hafa átta til níu flokka á þingi?
„Tjaa, ég er nú ekki að mæla með því að þeir verði alveg óendanlega margir. Það skapar viss vandamál líka, því er ekki að neita. Þetta er flóknara á ýmsan hátt eftir því sem þingflokkarnir eru fleiri en ég tel að þetta sé nú ekkert slíkt flokkakraðak ennþá að við þurfum að kvarta,“ segir Steingrímur en hann telur að mikilvægt sé að mörg sjónarmið komi að borðinu.
Það sem mér finnst verðmætast er að við höfum gjörsamlega afsannað hrakspár – og það rækilega – um að við yrðum einhver jaðarflokkur sem aldrei myndi skipta neinu máli í íslenskum stjórnmálum.
Hvernig líður þér með að hætta og fara frá flokknum sem þú stofnaðir?
Steingrímur segir að honum líði mjög vel með það. Saga Vinstri grænna sé mjög glæst og segist hann vera mjög stoltur af henni. „Það sem mér finnst verðmætast er að við höfum gjörsamlega afsannað hrakspár – og það rækilega – um að við yrðum einhver jaðarflokkur sem aldrei myndi skipta neinu máli í íslenskum stjórnmálum. Ætli þær raddir fari nú ekki að þagna hvað úr hverju þegar við meira að segja leiðum ríkisstjórn? En það voru nú spádómarnir.
Það gekk í raun og veru þannig fyrir sig að fyrst sögðu menn að við myndum aldrei ná manni inn á þing. Svo gerðum við það nú og reyndar mun fleiri en margir áttu von á. Nú þá var næsta stef í kórnum að segja að nú yrði til einhver lítill sérvitringaflokkur – einhver jaðarflokkur lengst til vinstri. Eitthvað lopapeysulið sem vildi bara týna fjallagrös og myndi aldrei hafa nein áhrif. Yrði bara í einhverri eyðimerkurgöngu, yst út á vinstri væng íslenskra stjórnmála. Þetta voru nú spádómarnir hjá mörgum. Ætli við séum ekki búin að afsanna það nokkuð hressilega með því að vera berandi afl í tveimur ríkisstjórnum og næst stærsti flokkur í tvennum kosningum?“
Þá segist hann vera ánægður með að geta valið sjálfur þann tíma sem hann hættir. „Mér finnst skynsamlegt núna að segja þetta gott. Vonandi er ég bara að gera það á góðum og réttum tíma fyrir mig og fyrir hreyfinguna og alla aðra. Það var alltaf mín von að ég gæti ákveðið þetta sjálfur en að aðrir gerðu það ekki fyrir mig. Það er betra að hætta á meðan maður getur gert sér vonir um að einhver sakni manns heldur en þegar allir vilja orðið losna við mann.“
Ætlarðu að halda áfram að láta til þín taka? Til dæmis á samfélagsmiðlum?
Steingrímur segir að á sínum tíma hafi hann valið að fara ekki á samfélagsmiðla. „Ég tók meðvitaða ákvörðun um að gera það ekki. Margir skoruðu á mig að gera það og kvörtuðu undan því þegar ég var formaður flokksins að ég væri ekki á samfélagsmiðlum. En það var eitthvað innra með mér sem ég átti erfitt með og ég ákvað bara að sleppa því. Það yrði þá bara að hafa það ef það yrði einhver mínus fyrir mig sem stjórnmálamann. Ég finn ekki að svo hafi verið.“
Hann bætir því við að það að vera ekki á samfélagsmiðlum hafi sparað honum mikinn tíma og segist hann vera óskaplega feginn að vera laus við margt af því sem þar er í gangi.
„Ég hef alveg næg tækifæri til að koma mér á framfæri og hef gert það.“
Steingrímur segist ekki hætta bitur eða reiður. „Ég ætla að hætta þegar ég hætti – og ekki verða til vandræða fyrir þá sem taka við og ekki að þvælast fyrir þeim. Vonandi tekst mér að standa við það loforð. Því ég hef séð menn gera það og þetta hefur tekist svo misvel til hjá þeim. Sumir hafa því miður dregið það of lengi að hætta og jafnvel verið látnir hætta. Hafa verið felldir eða eitthvað svoleiðis. Aðrir hafa ekki hætt sáttari en það að það lítur út fyrir að þeir vilji ekki sleppa. Það er ekki gott og erfitt fyrir þá sem taka við. Ég er nú ekki að segja að menn þurfi að fara til tunglsins, að þeir megi ekki vera á yfirborði jarðar áfram, en þeir eiga ekki að vera fyrir,“ segir Steingrímur að lokum.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars