Bára Huld Beck Steingrímur J. Sigfússon
Bára Huld Beck

Afsönnuðu að VG væri „eitthvað lopapeysulið“ í eyðimerkurgöngu – sem myndi aldrei nein áhrif hafa

Ýmsar illspár voru uppi þegar Vinstrihreyfingin grænt framboð var stofnuð í lok 20. aldarinnar og nú, rúmum tuttugu árum síðar, segir stofnandi hreyfingarinnar að hann hafi alltaf séð fyrir sér að hún yrði flokkur sem myndi vilja axla ábyrgð og vera við völd ef það væri í boði. „Það sem mér finnst verðmætast er að við höfum gjörsamlega afsannað hrakspár – og það rækilega – um að við yrðum einhver jaðarflokkur sem aldrei myndi skipta neinu máli í íslenskum stjórnmálum. Ætli þær raddir fari nú ekki að þagna hvað úr hverju þegar við meira að segja leiðum ríkisstjórn?“

Stein­grímur J. Sig­fús­son, for­seti Alþingis og stofn­andi Vinstri­hreyf­ing­ar­innar græns fram­boðs, hefur nú tekið þá ákvörðun um að hætta og mun ekki bjóða fram krafta sína eftir 38 ár á þingi. Hann hefur helgað stærstum hluta full­orð­ins­ára sinna í að vera í stjórn­málum og á þessum tíma hefur hann sinnt ýmsum skyldum fyrir land og þjóð.

Óum­deildur er hann ekki, enda hefur hann marga fjör­una sopið á löngum ferli. Kjarn­inn ræddi við Stein­grím um fer­il­inn, hug­mynda­fræð­ina á bak við stjórn­mála­stefnu hans og hvernig honum líst á þær breyt­ingar sem orðið hafa – bæði inni á þingi, sem og í stjórn­mál­unum sjálf­um.

Hvað heill­aði þig við stjórn­málin til að byrja með?

„Ég er frá félags­lega sinn­uðu og menn­ing­ar­legu heim­ili – stóru heim­ili. Við erum sex systk­inin og á heim­il­inu voru alltaf líf­legar umræður og mik­ill menn­ing­ar- og þjóð­mála­á­hugi. Þar var rætt um stjórn­mál og voru for­eldrar mínir til­tölu­lega rót­tækir á nútíma­mæli­kvarða. Móðir mín var til dæmis mjög mik­ill her­stöðv­ar­and­stæð­ing­ur,“ segir Stein­grímur og talar um þau sem rót­tækt félags­hyggju- og sam­vinnu­fólk.

Snemma beygð­ist krók­ur­inn og tók Stein­grímur þátt í félags­lífi í skól­um, bæði í hér­aðs­skól­anum á Laugum og í Mennta­skól­anum á Akur­eyri en þar var hann full­trúi nem­enda í skóla­ráði. „Ég var skiptinemi í Nýja-­Sjá­landi í mjög póli­tísku umhverfi en þar lenti ég hjá vinstrisinn­uðu ungu fólki og ræddum við mikið um póli­tík – sér­stak­lega við fóstra minn sem er mann­fræð­ingur og kenn­ari og til­tölu­lega rót­tæk­ur. Þegar ég fór síðan í háskól­ann hér heima þá lenti ég eig­in­lega beint inn í stúd­enta­ráð fyrir vinstri menn og var orð­inn virkur í starfi sam­taka her­stöðv­ar­and­stæð­inga. Ég var svo sem ekki far­inn að skipta mér af flokkspóli­tík og það var ekki fyrr en eftir ára­mót 1978 sem ég gekk í Alþýðu­banda­lag­ið.“

Stein­grímur segir að hann hafi verið beð­inn um að taka sæti á lista Alþýðu­banda­lags­ins fyrir kosn­ing­arnar 1978. „Eftir smá umhugsun sló ég á end­anum til og var þá í fyrsta skipti í fram­boði, 22 ára gam­all. Það var mjög gaman að fá að taka þátt í því en þetta var spenn­andi vor, meiri­hluti Sjálf­stæð­is­flokks­ins féll í borg­inni og var gríð­ar­leg vinstri sveifla í stjórn­málum – og það kom nán­ast allt upp í hend­urnar á okk­ur.“

Auglýsing

Hvað var það í stefnu Alþýðu­banda­lags­ins sem heill­aði?

„Ég hef áður sagt að það voru þrír þættir sem tog­uðu mest í mig. Í fyrsta lagi voru það umhverf­is­málin en þá var ég kom­inn í raun­vís­inda­nám í Háskóla Íslands og var mjög umhverf­is­vernd­ar­sinn­að­ur. Ég fór til dæmis á ráð­stefnu erlendis sem full­trúi háskól­ans þannig að umhverf­is­málin voru þá þegar orðin mik­il­væg í mínum huga. Í öðru lagi voru það utan­rík­is- og frið­ar­mál­in, en sem her­stöðv­ar­and­stæð­ingur var ég mjög ákveð­inn í þeim efnum og átti ég þá aug­ljós­lega hvergi heima nema í Alþýðu­banda­lag­inu. Að síð­ustu var það að ég, sem kem nú úr einu afskekktasta og fámenn­asta hér­aði lands­ins, Norð­ur­-­Þing­eyj­ar­sýslu, var þá þegar kom­inn með áhuga á byggða­málum og var ég búinn að skrifa ein­hverjar greinar í blöð á þessum tíma um mál­efn­ið.“

Stein­grímur segir að eitt­hvað af þessu hafi kannski vakið athygli þeirra sem veltu vöngum yfir kandídötum á lista Alþýðu­banda­lags­ins og að þeir hafi ákveðið að leita til hans af þeim sök­um. „Svo segjum að þetta þrennt hafi vegið svo­lítið sam­an; almenn félags­hyggja, vinstri póli­tík, umhverf­is­mál og mál­efni þess­ara dreifðu byggða og vonin um að ég gæti kannski lagt þeim eitt­hvað lið ef ég færi inn í stjórn­mál. Að öðrum þræði var þetta bara spenn­andi heimur fyrir ungan mann að kynn­ast og ég hafði gaman að því að gera eitt­hvað svona spenn­andi þótt ég væri sveita­mað­ur,“ segir hann.

Miklar breyt­ingar á þing­manna­hópnum

Eins og áður segir fór Stein­grímur til Nýja-­Sjá­lands sem skiptinemi 19 ára gam­all. „Það var í fyrsta skiptið sem ég fór til útlanda en þetta var nokk­urra sól­ar­hringa ferð, alla leið til Nýja-­Sjá­lands. Ég hafði gaman af að ferð­ast og var áhuga­samur um hlut­ina og fannst þetta spenn­andi. Eitt­hvað var líka farið að bera á því, sem hefur fylgt mér síð­an, að ég gat alveg komið fyrir mig orði og var búinn að vera virkur í kapp­ræðum og mál­funda­fé­lag­inu fyrir norð­an. Þannig að ég kveið ekki þeim hlut­an­um, þrátt fyrir að vera feim­inn að upp­lagi. Ég var ekk­ert sér­stak­lega að troða mér fram, held ég, en ég var orð­inn sæmi­lega sviðsvan­ur. Ég hafði tekið þátt í upp­færslu leik­rita á Laugum og verið í kapp­ræðum á mál­fund­um. Og ég var auð­vitað orð­inn skólaður þegar ég leiddi list­ann árið 1983.

En eig­in­lega gerð­ist þetta skref af skrefi. Því ég sló til og sagði já þarna ‘78. Svo urðu óvænt kosn­ingar ‘79 og ég fór á sama lista og aftur í fjórða sæti. Þá var ég miklu meira með í bar­átt­unni. Eig­in­lega fór ég norður til að vera með yfir langa helgi þremur vikum fyrir kosn­ingar og end­aði með að koma ekk­ert suð­ur. Ég skróp­aði í skól­anum í þrjár vikur og var á fullu í bar­átt­unn­i.“

Þannig var mál með vexti að kosn­ing­arnar komu óvænt uppá og voru í byrjun des­em­ber. Ekki gátu allir efstu menn list­ans verið mikið með og segir Stein­grímur frá því að Stefán Jóns­son, for­veri hans, hafi verið einn að berj­ast fyrir norðan fyrir flokk­inn og hafi beðið hann um að vera kosn­inga­stjóri. Hann taldi sig þó ekki geta sinnt því starfi vegna náms­ins en ákvað samt að taka „rispu“ og vera fyrir norðan í þessar þrjár vik­ur.

Stein­grímur var lang­yngsti þing­mað­ur­inn þegar hann sett­ist á þing árið 1983. „Þá var ekki, því miður satt best að segja, mjög mikið af ungu fólki. Það var miklu sjald­gæfara að ungt fólk kæmi inn heldur en hefur orðið í þess­ari miklu end­ur­nýjun á síð­ustu 10 og 20 árum.“ Eins og Stein­grímur segir þá hafa orðið miklar breyt­ingar á þing­manna­hópnum – bæði hvað kynja­hlut­föll varðar og ald­urs­bil og enn fremur hefur fólk af erlendum upp­runa setið á þingi.

Það var enginn umboðsmaður Alþingis, það var enginn umboðsmaður barna og svo framvegis. Þannig hvað snertir stjórnsýslu og lýðræði og opið og gagnsætt samfélag þá erum við ljósárum í burtu frá þessum tíma.
Viðtal við Steingrím í dagblaðinu Degi árið 1988.
Skjáskot/timarit.is

Hvernig upp­lifir þú þessar breyt­ing­ar?

„Ég held að í það heila tekið hafi þessu öllu fleytt fram og það hafa orðið gríð­ar­legar fram­farir á svo mörgum svið­um. Með fullri virð­ingu fyrir því gamla gróna sam­fé­lagi sem ég kom inn í á þingi þá er þetta svo gjör­breytt,“ segir Stein­grímur og bendir á að breyt­ing­arnar hafi verið að byrja á þessum tíma en um leið og hann sett­ist á þing þá kom Kvenna­list­inn inn með hvelli og tvö­fald­aði fjölda kvenna á þingi sama ár. Hann segir að þær hafi margar orðið góðar vin­konur hans og að þau hafi náð vel saman sem full­trúar nýrra tíma.

„Kynja­hlut­föllin lög­uð­ust svo jafn og þétt áfram. Sam­fé­lagið hefur nátt­úru­lega allt opn­ast svo mikið og það er svo margt gjör­breytt. Mér sárnar stundum þegar menn gagn­rýna ýmis­legt sem miður fer og gæti verið betra í dag en menn sýna því ekki sann­girni hversu gríð­ar­lega Íslandi hefur fleytt fram á eig­in­lega öllum svið­u­m.“

Þetta eigi einnig við um stjórn­sýslu og stjórn­mál. Sem dæmi tekur hann að þegar hann kom fyrst inn á þing þá hafi alþing­is­menn verið í nán­ast öllum banka­ráðum og stjórnum lána­sjóða og slíkra stofn­ana. „Það þótti bara sjálf­sagt mál, þetta hafði bara alltaf verið þannig. Þannig að stjórn­málin og þeir hlutir voru algjör­lega sam­tvinn­að­ir.“

Hann minnir á að stjórn­sýslu­lög hafi ekki verið til á þessum tíma. „Það var heldur ekk­ert til sem heitir upp­lýs­inga­lög. Það var eng­inn umboðs­maður Alþing­is, það var eng­inn umboðs­maður barna og svo fram­veg­is. Þannig hvað snertir stjórn­sýslu og lýð­ræði og opið og gagn­sætt sam­fé­lag þá erum við ljósárum í burtu frá þessum tíma. Satt best að segja var Íslands á þessum árum býsna langt á eftir að mörgu leyti og það var nú eig­in­lega við­tekið að það væri hinn eðli­legi hlutur að Ísland biði eftir því hvað gerð­ist á hinum Norð­ur­lönd­unum og svo smátt og smátt síað­ist eitt­hvað af því inn hér heima. Það var afar sjaldan sem Ísland gat verið stolt á alþjóða­vett­vangi og bent á að það hefði tekið for­ystu í ein­hverju.”

Jú, með kjöri Vig­dísar sem kom þarna árið 1980. Ég var heift­ar­legur stuðn­ings­maður hennar og agiter­aði hart fyrir henni. Ég var þá að gera út minn vöru­bíl í vega­vinnu og það var gam­all fram­sókn­ar­bóndi sem var aðal­sam­herji minn í þessu,“ segir hann og hlær. Sá hafði verið fram­sýnn sam­vinnu­maður og stutt Vig­dísi Finn­boga­dóttur til for­seta.

„Margir aðrir studdu Albert en karl­arnir kusu hann dálít­ið. Ég djöfl­að­ist í áróðri og átti nóg af lím­miðum fyrir Vig­dísi og límdi á alla kaffi­brús­ana í vega­gerð­inni. Svo reyndu karl­arnir að plokka mið­ana af en ég átti nóg af lím­miðum og límdi alltaf aftur á brús­ana – og ráðs­konan stóð með mér,“ segir hann kím­inn.

Auglýsing

Ertu form­fastur varð­andi þing­störfin sjálf? Á að halda í hefð­irnar eða hvað?

Stein­grímur seg­ist hafa for­sögu í þessu eins og öðru. „Þegar ég kom hérna inn 1983 þá var ég til vand­ræða að þeirra dómi fyrir klæða­burð. Ég held að ég segi það alveg satt að ég átti ein jakka­föt og ég gat ekki verið í þeim alla daga. Svo ég var oft í stökum jakka og peysu og það var kvartað undan því. Það tók þá svona eitt og hálft ár að mylja mig niður þannig að ég var orð­inn þæg­ur. Fjár­hag­ur­inn hafði aðeins batnað en ég var bara blankur náms­maður þegar ég fór inn á þing. Ég gat þá splæst í ein eða tvenn jakka­föt og farið að ganga hér um eins og hin­ir,“ segir hann en bætir því við að hann hafi ekki haft neinn sér­stakan áhuga á því að ögra – hann hafi ein­ungis komið úr öðru umhverfi og við­ur­kennir hann að honum hafi sum­part fund­ist hann vera að ganga inn í „ein­hvern allt annan heim“.

„Í háskól­anum var hálf­gerð hippat­íska og stutt í 1968. Þannig var and­rúms­loftið í skóla­sam­fé­lag­inu svo þetta var gríð­ar­leg breyt­ing. Þá var Alþingi geysi­lega form­föst og virðu­leg stofn­un. Þing­verð­irnir voru svo fínir að þeir báru af. Þetta voru yfir­leitt allt karlar um sjö­tugt, stíf­klæddir alveg.“

Vill standa vörð um vissar hefðir

Þó seg­ist Stein­grímur vilja standa vörð um vissar hefðir sem hann telur góð­ar. „Að sjálf­sögðu finnst mér að þing­menn eigi að vera sóma­sam­lega til fara og að þeir sem eiga erfitt með að hlíta því eigi nátt­úru­lega að líta aðeins í eigin barm og spyrja sig: „Eru það allir hinir sem eiga að aðlaga sig að mér eða á ég kannski að sýna félögum mínum líka vissa til­lits­sem­i?“ Þetta snýst voða­lega mikið um það og ég sé enga ástæðu til þess að særa til­finn­ingar ann­arra með ein­hverju slíku ef það er útláta­lítið fyrir mann að setja upp bindi eða vera þannig klædd­ur. Án þess að ég telji það skipta ein­hverju höf­uð­máli.“

Bendir Stein­grímur á að hann sem for­seti Alþingis hafi slakað á bind­is­skyld­unni og hefði þannig gert vissar breyt­ingar í róleg­heit­unum sem hann telur vera í átt til nútím­ans. „Ég hef líka beitt mér fyrir því að gera starf­semi þings­ins opn­ari og gagn­særri. Ég hafði for­ystu um það að veita meiri upp­lýs­ingar um kostnað og end­ur­greiðslur og þvíum­líkt. Ég var kom­inn með það á dag­skrá áður en ein­hverjir þing­menn fóru eitt­hvað að hreyfa við því með fyr­ir­spurn­um.“ Þannig sé eðli­legt að á Íslandi verði stjórn­sýslan opn­ari.

Ég sé enga ástæðu til þess að særa tilfinningar annarra með einhverju slíku ef það er útlátalítið fyrir mann að setja upp bindi eða vera þannig klæddur.
Steingrímur segist vilja standa vörð um vissar hefðir á þingi sem hann telur góðar.
Birgir Þór Harðarson

Hvað stendur upp úr í þing­manna- eða ráð­herra­ferl­in­um?

Þegar Stein­grímur lítur yfir sinn eigin feril þá segir hann að einn stærsti kafl­inn sé auð­vitað til­urð Vinstri­hreyf­ing­ar­innar græns fram­boðs og að taka þátt í því ævin­týri. „Að stofna þá hreyf­ingu frá grunni með tvær hendur tómar – sem við gerðum – og með miklar hrakspár eig­in­lega allra um að við myndum nú ekki ríða feitum hesti frá því. Við vorum svo sem alveg til­búin að taka því, hvað upp úr köss­unum kæmi, og sögðum það gjarnan þegar það verið var að brigsla okkur um ein­hver svik við sam­ein­ingu vinstri manna og þvíum­líkt að við ætl­uðum bara að bjóða kjós­endum upp á þennan val­kost. Það var í þeirra höndum hvort þeir vildu að svona hreyf­ing yrði til. Það kom svo heldur betur á dag­inn.“

Hann segir enn fremur að hann sé þakk­látur og auð­mjúkur yfir því trausti sem honum hafi verið sýnt. „Ég hef notið mik­ils trausts. Mér hefur verið treyst fyrir því að leiða fram­boðs­lista ell­efu sinnum í röð í alþing­is­kosn­ing­um. Það á sér ekki mörg for­dæmi og ég hef verið með í síð­ustu þrettán kosn­ingum til Alþing­is. Ég hef notið mik­ils stuðn­ings. Útkoma okk­ar, fyrst Alþýðu­banda­lags­ins og síðan Vinstri grænna í Norð­ur­landi eystra og síðan Norð­aust­ur­kjör­dæmi, hefur yfir­leitt verið góð. Í síð­ustu kosn­ingum Alþýðu­banda­lags­ins 1995 var Norð­ur­land eystra orðið sterkasta kjör­dæmi flokks­ins og fengum við nátt­úru­lega fljúg­andi start í fyrstu kosn­ingum VG árið 1999 þegar ég og Árni Steinar heit­inn, blessuð sé minn­ing hans, fengum 22 pró­sent atkvæða sem eig­in­lega kom öllum í opna skjöld­u.“

Þetta þýddi að VG fékk sex þing­menn inn á þing í fyrstu kosn­ing­unum árið 1999. Stein­grímur seg­ist ekki síður þakk­látur fyrir það hvernig gengið hafi allar götur síð­an. „Við reynd­umst ekki bara eitt­hvað tíma­bundið fyr­ir­bæri sem fékk einar góðar kosn­ingar og logn­að­ist síðan út af eins og stundum hefur verið með ný fram­boð. Heldur höfum við staðið sterk að vígi og haft mikil áhrif á stjórn­málin þessa rúma tvo ára­tugi sem við höfum starf­að. Það var alltaf minn draumur að þó að við værum rót­tæk og með mikla sér­stöðu mál­efna­lega með umhverf­is­málin og utan­rík­is- og frið­ar­málin og femín­is­mann og rót­tæka vinstri­stefnu, þá yrðum við samt flokkur sem myndi láta til sín taka. Við gengjum ekki í eitt­hvað sjálf­skipað hlut­verk gagn­rýnenda. Við værum líka flokkur sem hefði ein­hver áhrif. Það var alltaf mín hugs­un.“

Stein­grímur nefnir í þessu sam­hengi að ýmsir félagar þeirra í sós­íal­ískum flokkum á hinum Norð­ur­lönd­unum hafi sumir bein­línis valið sér það hlut­verk og skil­greint sig sem þannig flokkur sem færi ekki í rík­is­stjórn – heldur veittu aðhald og væru gagn­rýn­ir. „Það er gott og mik­il­vægt hlut­verk og flokkar hafa vissu­lega áhrif á fleiri vegu en þann einan að taka sæti í rík­is­stjórn. Menn hafa dag­skrár­vald og geta barist fyrir málum þó að þeir séu ekki við völd. En ég er þeirrar skoð­unar að ef menn bjóða sig fram á annað borð, bjóða fram krafta sína, þá verða þeir að fara með það alla leið. Það þýðir að menn verði að vera til­búnir að axla ábyrgð. Standa og falla með störfum sín­um. Og líka með verkum sínum ef þeir kom­ast í áhrifa­stöð­ur,“ segir hann.

Við skyldum gjöra svo vel að átta okkur á því að það væri ólíklegt að verða til vinsælda fallið að takast á við það að reyna að vinna landið út úr þessu.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur tóku við erfiðu búi eftir hrunið 2008.
EPA

Auð­vitað er ekki hægt að sleppa því að nefna árið 2008, þegar banka­hrunið átti sér stað, og segir Stein­grímur að í kjöl­farið hafi þeim í VG verið hent út „í það allt sam­an“. Hann segir að hann hafi verið virki­lega stoltur af flokknum á þeim tíma. „Við hik­uðum ekki og settum ekki sjálf okkur í fyrsta sæti heldur sam­fé­lagið og ástandið í þjóð­fé­lag­inu. Við fórum inn í rík­is­stjórn, fyrst í minni­hluta­stjórn við þessar ógn­væn­legu aðstæð­ur, vit­andi mjög vel að það yrði ekki auð­velt.

Ég skóf aldrei utan af því þegar ég ræddi það í flokks­ráði eða ann­ars staðar í flokknum að þetta yrði eng­inn dans á rós­um. Við skyldum gjöra svo vel að átta okkur á því að það væri ólík­legt að verða til vin­sælda fallið að takast á við það að reyna að vinna landið út úr þessu. Að forða því frá gjald­þroti og reyna að koma því á lapp­irnar aft­ur. Það reynd­ist svo sann­ar­lega. Við greiddum fyrir það dýru verði árið 2013 en við vorum fljót á fætur aftur og höfum staðið sterk síð­an. Ég er ákaf­lega stoltur af okkar stöðu núna. Mér finnst það sögu­legt að innan tutt­ugu ára séum við komin í annað sinn sem leið­andi afl í rík­is­stjórn – og núna með for­sæt­is­ráð­herr­ann í okkar röðum og reyndar for­seta þings­ins líka sem er frekar óvenju­leg­t.“

Er eitt­hvað sem þú hefðir viljað gera öðru­vísi eftir hrun?

„Já, ef maður lítur í bak­sýn­is­speg­il­inn þá getur maður alveg séð það. Það er samt ekki margt sem ég sé að hefði verið hægt að gera öðru­vísi á þeim tíma – haft rök fyrir því að taka ein­hverja aðra stefnu eða gera eitt­hvað ann­að. Það verður alltaf að dæma sög­una út frá þeim aðstæðum þar sem hver atburður verður til. Annað er nú bara bet­ur­vitr­ungs­háttur eftir á – að verða ægi­lega gáf­aður í bak­sýn­is­spegl­in­um. En þetta voru nátt­úru­lega svo gríð­ar­lega erf­iðar aðstæður og satt best að segja skelfi­legur tími á margan hátt. Eng­inn gleym­ir, sem hér var á þingi, ástand­inu í sam­fé­lag­inu og hér í kringum hús­ið. Maður þarf eig­in­lega að klípa sig í hand­legg­inn til að muna að þetta hafi raun­veru­lega gerst á Íslandi; að þetta svaka­lega rof á trún­aði hafi orðið á milli almenn­ings og æðstu stjórn­valda. Það voru ekki bara bankar sem hrundu, það hrundi allt traust í sam­fé­lag­inu í garð stjórnmál­anna og æðstu stofn­ana.“

Fór að heiman með æðru­leys­is­bæn­ina og út í dag­inn

Stein­grímur segir að erfitt hafi reynst að byggja upp traustið á ný. „Ég varð fljótt upp­tek­inn af því sem mér fannst öllu máli skipta: Að koma land­inu út úr þessu efna­hags­lega og end­ur­heimta okkar fjár­hags­lega sjálf­stæði. Við komumst ekki af fyrir eigin vél­ar­afli og urðum að fá aðstoð utan­frá. Fá lán­aðan gjald­eyri, og svo fram­veg­is, sem við ekki átt­um. Það var líka ekk­ert sýnt um það að Ísland réði við sínar skuld­bind­ingar lengi framan af. Það var ekki fyrr en við vorum komin inn undir mitt ár 2010 þegar ég sem fjár­mála­ráð­herra gat farið að halla mér aftur á bak og með sæmi­legri vissu sagt: „Já, gott og vel. Við munum hafa okkur í gegnum þetta án þess að það verði greiðslu­fall.“ Ég man að það var mik­ill léttir þegar önnur end­ur­skoð­unin á sam­starfs­á­ætl­un­inni við Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóð­inn var gengin í gegn í lok apríl 2010 og við fengum í fram­hald­inu gjald­eyr­is­forða sem þýddi það að við vorum með allar afborg­anir rík­is­ins, stærstu fyr­ir­tækja og sveit­ar­fé­laga dekk­aðar næstu miss­er­in.“

Auglýsing

Stein­grímur rifjar upp að árið 2009 hafi ástandið verið þannig að hann hafi ekki vitað hvað hver dagur bæri í skauti sér. „Maður fór að heiman með æðru­leys­is­bæn­ina og út í dag­inn – því það var ómögu­legt að vita hvað biði manns.“

Líf þing­manns og ráð­herra er þó ekki ein­ungis erf­ið­leikar og átök og segir Stein­grímur að starfið geti verið ánægju­legt þegar barist sé fyrir skemmti­legri hlutum – þegar aðstæður séu til að berj­ast fyrir umbótum og fram­fara­mál­um. „Ég hef alltaf verið fram­kvæmda­maður í mér og hef til dæmis barist fyrir ýmsum stórum sam­göngu­fram­kvæmdum og stundum kom­ist í aðstöðu til að leggja þannig málum lið en það stendur líka svo­lítið upp úr. Ég hef haft gaman af því að keyra í gegnum Hval­fjarða­göngin sem ég átti minn þátt í að koma af stað, Vest­fjarða­göngin og svo Vaðla­heiða­göngin nú fyrir norðan – eða sigla með gamla Herj­ólfi sem ég beitti mér fyrir að yrði smíð­aður fyrir Vest­mann­ey­inga. Ég er stoltur af því að hafa lagt grunn að strand­veið­unum og þannig gæti ég áfram talið.“

Mig langar að ræða við þig um hug­mynda­fræði – um klass­íska aðgrein­ingu milli vinstri og hægri. Nú heitir flokk­ur­inn Vinstri grænir og þá ætti að vera ljóst fyrir hvað hann stend­ur. En hvað þýðir „vinstri“ fyrir þér?

„Sko, nafn flokks­ins varð til eftir mikla umhugsun og reyndar lögðum við mikla vinnu í und­ir­bún­ing flokks­stofn­un­ar­inn­ar. Það var ekki endi­lega ljóst fyrr en á miðju sumri eða undir haust 1998 að stefnan væri tekin á að stofna nýja stjórn­mála­hreyf­ingu. Það má segja að það hafi kannski verið nokkuð ljóst þegar við mynd­uðum þing­flokk óháðra haustið 1998 en þá var und­ir­bún­ingur líka settur á mikla ferð og mikil mál­efna­vinna fór í að leggja grunn­inn að þess­ari hreyf­ingu.

Það var auð­vitað aug­ljóst mál hvar við stóð­um. Við vorum lengra „til vinstri“ eða rót­tæk­ari en margt af því fólki sem fór í Sam­fylk­ing­una. En það var líka alveg ljóst frá byrjun að við myndum verða flokkur her­stöðv­ar­and­stöðu og með frið­ar­stefnu – og að við myndum verða grænn flokk­ur,“ segir Stein­grím­ur.

Við setjum miklu meiri fyrirvara við markaðinn og fjármagnið. Við viljum ekki ganga jafn langt í því að láta markaðinn og fjármagnið ráða.
Steingrímur segir að ekki hafi endilega verið ljóst fyrr en á miðju sumri eða undir haust 1998 að stefnan væri tekin á að stofna nýja stjórnmálahreyfingu.
VG

Rifjar hann upp að þau hafi ekki viljað kalla sig flokk svo nið­ur­staðan hafi verið Vinstri­hreyf­ingin og veltu þau því fyrir sér hvernig hægt væri að tengja græna nafnið við hreyf­ing­una. „Reyndar voru margir hik­andi við það að bein­línis kenna sig við græna lit­inn. Hvort það minnti um of á Green peace og myndi fæla frá. Það var samt alveg á hreinu að þetta yrði sam­starf vinstri­s­inn­aðs fólks, umhverf­is­vernd­ar­sinna og rót­tækra femínista. Við suðum það saman í þetta nafn sem ýmsum fannst þó nokkuð óþjált. En það stytti sig fljót­lega sjálft niður í Vinstri Græn eða bara VG og virkar vel.“

Sam­fé­lagið á að vera í fyrsta sæti og setja leik­reglur sem mark­að­ur­inn á að lúta

Stein­grímur segir að ef litið er á hug­takið „vinstri“ í klass­ískum skiln­ingi þá þýði það að Vinstri græn séu lengra til vinstri en hefð­bundnir sós­í­al-demókrat­ar. „Við setjum miklu meiri fyr­ir­vara við mark­að­inn og fjár­magn­ið. Við viljum ekki ganga jafn langt í því að láta mark­að­inn og fjár­magnið ráða. Þannig að þessi sam­búð nor­ræna mód­els­ins, ef við tölum um það sem kap­ít­al­isma með félags­legu ívafi sem auð­vitað stóru sós­í­al-demókra­ta­flokk­arnir á hinum Norð­ur­lönd­unum hafa haft mikið með að gera, þá togum við hana, nor­rænu sam­fé­lags­gerð­ina, frekar í vinstri átt.“

Telur hann að flestir flokks­menn séu óhræddir við að kalla sig sós­í­alista. „Við erum lýð­ræð­is­sinn­aðir sós­í­alistar enda höfum við verið kall­aðir í Norð­ur­landa­ráði vinstri sós­í­alist­ar. Vegna þess að á hinum Norð­ur­lönd­unum líta kratar í umvörpum á sig sem sós­í­alista líka. Og þess vegna er þessi aðgrein­ing í nor­rænum mál­um. Það er sós­í­alisti og vinstri sós­í­alisti. Þannig að við erum vinstri sós­í­alistar í hinni nor­rænu skil­grein­ing­u,“ segir Stein­grím­ur.

„Sam­fé­lagið á að vera í fyrsta sæti og setja leik­reglur sem mark­að­ur­inn á að lúta – og eftir atvikum þegar þarf að setja honum skorð­ur. Það held ég að sé lyk­il­at­riðið í þessu. Og þarna krist­all­ast rót­tæk Vinstri græn vinstri stefna á eina hlið­ina og frjáls­hyggj­an, eða nýfrjáls­hyggj­an, á hina. Þetta eru hinar miklu and­stæður sem hafa tek­ist á í vest­rænum stjórn­málum síð­ast­liðna ára­tugi – og gera auð­vitað enn á vissan hátt þó að nýfrjáls­hyggjan sé ekki bein­línis sölu­vara í dag. Eða ég vona ekki.“

Auglýsing

Þá liggur bein­ast við að spyrja: Ef ein­hver hafði sagt við þig fyrir tíu eða tutt­ugu árum að Vinstri græn færu í stjórn með Sjálf­stæð­is­flokknum hvað hefðir þú þá sagt?

„Ég hefði mjög fljót­lega ekki úti­lokað það. Og það teng­ist því sem ég minnt­ist á áðan, að ég sá fyrir mér að við værum að stofna stjórn­mála­hreyf­ingu sem vildi hafa áhrif og setja sitt mark á þró­un­ina. Ekki bara með því að vera til og gagn­rýna og setja mál á dag­skrá – eins mik­il­vægt og það er – heldur líka væri hún til­búin að axla ábyrgð og vera við völd ef það væri í boði. Og jafn­vel þótt langt væri á milli,“ segir Stein­grím­ur.

Allt fari þetta eftir mál­efnum og hverju hægt sé að ná fram. „Því hefur verið veifað að sá mögu­leiki var ræddur í okkar her­búðum árið 2007 að við færum í stjórn með Sjálf­stæð­is­flokkn­um. Það var nú eig­in­lega meira til að afstýra því, sem við töldum blasa við, að það yrði til enn verri stjórn. Sem og varð,“ segir hann og vísar þar í stjórn Sam­fylk­ing­ar­innar og Sjálf­stæð­is­flokks­ins sem sprakk síðan í jan­úar 2009 eftir hrunið árið áður.

Þó bendir hann á að auð­vitað sé Sam­fylk­ingin næst þeim á hinu póli­tíska lit­rófi. „Það er bara þannig og okkur gengur mjög vel að mjög miklu leyti að ná saman um mjög mörg mál. Og mun gera áfram treysti ég, það á ekki að þurfa að vera telj­andi ágrein­ingur milli þess­ara tveggja flokka – sér­stak­lega í félags­legum mál­u­m.“

Stein­grímur segir að þrátt fyrir það hafi VG tekið ákvörðun um að fara í stjórn með Sjálf­stæð­is­flokknum árið 2017. „Ég var nú eitt­hvað tengdur inn í þessar við­ræður árið áður eða fylgd­ist alla­vega vel með þeim. Þær til­raunir og þreif­ingar sátu auð­vitað svo­lítið í mönnum árið 2017. Þá var ein­fald­lega staðan á borð­inu sú að það var ekk­ert hægt að búa til almenni­lega trú­verð­uga og stabíla rík­is­stjórn nema tveir stærstu flokk­arnir slíðr­uðu sverðin og væru í henni. Ég held að það sé alveg aug­ljóst. Það var ekki efni­viður í nema mjög fjöl­sam­setta rík­is­stjórn sem hefði alltaf verið með ýmsa inn­byggða veik­leika – nema þetta tæk­ist að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn og Vinstri græn, stærstu flokk­arn­ir, leggðu krafta sína sam­an. Og það var ekki mik­ill áhugi á því að gera enn eina til­raun til að mynda ein­hverja rík­is­stjórn sem væri kannski á mjög veikum for­sendum og myndi kannski ekki lifa. Þjóðin var nú ekki mjög spennt fyrir því.“

Þá mat ég það þannig að allar helstu forsendur væru uppfylltar til þess að réttlætanlegt væri að gera þessa merkilegu tilraun.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, kynna stjórnarsáttmálann í lok árs 2017.
Birgir Þór Harðarson

Eins og fram hefur komið hefur Stein­grímur tekið þátt í mörgum kosn­ingum og seg­ist hann aldrei hafa upp­lifað eins mikla kosn­inga­þreytu og pirr­ing í almenn­ingi eins og haustið 2017. „Fólk var bara hund­fúlt og lét okkur hafa það óþveg­ið.“

Þannig hafi verið mikil þörf fyrir það að koma á stöð­ug­leika. „Það kom á dag­inn að þessir ólíku flokk­ar, eins langt frá hvor öðrum og þeir eru miðað við klass­ískar skil­grein­ing­ar, gátu sam­ein­ast um mjög mörg mik­il­væg verk­efni eins og öfl­uga inn­viða­upp­bygg­ingu, aðgerðir í lofts­lags­málum og fleira sem að mínu mati er gott í prógrammi núver­andi rík­is­stjórn­ar.“

Hann segir enn fremur að komið hafi mjög fljót­lega í ljós að for­ystu­menn þess­ara flokka, þau Bjarni Bene­dikts­son og Katrín Jak­obs­dótt­ir, hafi náð vel sam­an. „Þau treysta hvort öðru, sama gildir um Sig­urð Inga og það er alltaf gríð­ar­lega mik­il­vægt og eig­in­lega algjör­lega bráð­nauð­syn­legt því það er svo mik­il­vægt fyrir liðs­menn­ina að geta treyst því að þeirra for­ystu­menn nái vel sam­an. Þá mat ég það þannig að allar helstu for­sendur væru upp­fylltar til þess að rétt­læt­an­legt væri að gera þessa merki­legu til­raun.“

Telur betra að miðla málum en að „tala sig í sund­ur“

Stein­grímur telur að stjórn­mála­menn hafi ákveðið val í þessum efn­um. „Það hefur krist­all­ast í þróun stjórn­mál­anna, bæði í Evr­ópu og Banda­ríkj­un­um, und­an­farin ár og býsna langt aftur að það er auð­veld­asti hlutur í heimi að tala sig í sund­ur. Það er auð­veld­asti hlutur í heimi að pól­arisera, að standa bara langt í burtu frá hvor öðrum og æpa hver á ann­an. En það er líka val­kostur að reyna að tala sig sam­an, eða reyna að tala sam­fé­lögin sam­an. Að reyna að draga úr klofn­ingn­um.“

Þjóðin þurfi að hug­leiða hvorn val­kost­inn hún kjósi. „Að það sé reynt að gera það sem verið er að gera á Íslandi og mér finnst virð­ing­ar­vert; að tala sig frekar sam­an, miðla málum eða að fara hina leið­ina; að auka á öfgarn­ar, að tala fólk sundur og þá er ég að sjálf­sögðu að vísa til hægri-popúl­ism­ans í Evr­ópu og hægri-öfganna í Banda­ríkj­unum og hvernig það sam­fé­lag er rifið í sundur með skelfi­legum afleið­ingum sem þarf nú ekki að hafa mörg orð um. Þá finnst mér að við getum talist gæfu­söm að þetta var gert hér.“

Hann segir að vissu­lega hafi þetta verið erfitt fyrir þau í VG og marga stuðn­ings­menn þeirra. „Mönnum var þessi hugsun mjög fram­andi og margir áttu erfitt með hana.“ Þannig seg­ist hann skilja vel áhyggjur þeirra sem studdu flokk­inn af þessu sam­starfi við Sjálf­stæð­is­flokk­inn. „Ég skil það mjög vel og ber fulla virð­ingu fyrir því sjón­ar­miði að menn vilji halda árinni hreinni og ekki gera mála­miðl­an­ir, vera á sínum stað og allt það. Það er líka alveg virð­ing­ar­vert sjón­ar­mið í stjórn­málum þó að ég sé ekki sam­mála því.“

Mér finnst ekki hátt á því risið þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í skammarkróknum út af einhverju að þá eyði sumir ónefndir flokkar, nær okkur í hinu pólitíska litrófi, allri orku sinni í að lemja á okkur en ekki á Sjálfstæðisflokknum.
Mótmælendur létu sig ekki vanta á Austurvöll þegar Panamaskjölin litu dagsins ljós. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sprakk en formenn beggja flokka voru í skjölunum. Kosið var á óhefðbundnum tíma í október 2016.
Birgir Þór Harðarson

Nú hafa flokkar sem unnið hafa með Sjálf­stæð­is­flokknum þurft að taka ákveðnum afleið­ingum þegar hneyksl­is­mál hafa komið upp er varða flokk­inn. Þetta má sjá í kosn­ingum og skoð­ana­könn­un­um. Hvað finnst þér um það?

„Mér finnst í fyrsta lagi það mjög óþroskað að ætla að nota það sem miður fer hjá einum stjórn­mála­flokki til þess að berja, ekki á hon­um, heldur ein­hverjum öðr­um. Ég segi það umbúða­laust: Mér finnst ekki hátt á því risið þegar Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er í skammar­króknum út af ein­hverju að þá eyði sumir ónefndir flokk­ar, nær okkur í hinu póli­tíska lit­rófi, allri orku sinni í að lemja á okkur en ekki á Sjálf­stæð­is­flokkn­um. Ekki þeim sem er þó söku­dólg­ur­inn. Það er bara ekk­ert hátt risið á þeirri póli­tík og það er aug­ljóst í hvaða til­gangi það er þá gert. Þá er það tekið og notað sem eitt­hvað bar­efli á okk­ur. Af því að það á bara hver flokkur að bera ábyrgð á sér, ekki satt? Og við­kom­andi flokkar verða svo að gera það upp við sig og sína kjós­endur þegar að því kem­ur.

En jú, auð­vitað má segja að menn axli vissa ábyrgð – kollek­tífa ábyrgð – með því að vera saman í rík­is­stjórn og kannski sér­stak­lega þá flokkur for­sæt­is­ráð­herr­ans sem leiðir þá rík­is­stjórn. Það er svo sem ekk­ert undan því að kvarta og við verðum þá að taka því ef á köflum það séu gerðar kröfur til okk­ar, þó að við séum ekki ger­end­urnir í við­kom­andi til­viki, og þá verðum við bara að reyna að rísa undir því og það höfum við nú gert, að ég tel,“ segir Stein­grím­ur.

VG tekið á sig bar­smíð­arnar

Nefnir hann sem dæmi þegar Sig­ríður Á. And­er­sen steig til hliðar úr emb­ætti dóms­mála­ráð­herra þegar dómur Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu féll í mars 2019 en dóm­stóll­inn komst að þeirri nið­ur­stöðu að skipan í emb­ætti dóm­ara við Lands­rétt hefði verið ólög­leg. „Er ekki nokkuð ljóst að VG knúði fram til dæmis ráð­herra­skipti í þess­ari rík­is­stjórn? Ég held að ég sé ekki að upp­ljóstra neinu leynd­ar­máli.“

Þannig hafi VG sett ákveðin mörk og telur Stein­grímur að þau hafi verið mjög heil í þessu stjórn­ar­sam­starfi og hafi þau tekið á sig bar­smíð­arn­ar. „Það er bara það sem fylgir og það verða nátt­úru­lega flokkar sem eru svona óskap­lega heilagir að horfast í augu við. Myndu þeir þá ekki gera það ef þeir væru í sam­starfi við ein­hvern? Hversu lífseig yrði slík rík­is­stjórn?“ spyr hann.

Vísar Stein­grímur þarna í Sam­fylk­ing­una og spyr hann enn fremur að ef sá flokkur myndi nota öll mál, stór og smá, sem upp koma í þessu stjórn­ar­sam­starfi til þess að lemja á Vinstri grænum og reyna að gera vanda­mál Sjálf­stæð­is­flokks­ins að þeirra en ekki þess sem á sök­ina, væri það til marks um að Sam­fylk­ingin myndi halda út ef hún ein­hvern tím­ann færi í sam­starf. „Ég myndi þá ekki vilja vinna með þeim því menn verða að vera sjálfum sér sam­kvæm­ir. Líka þó þeir séu í stjórn­ar­and­stöðu og þetta sé voða­lega ódýrt og þægi­legt. Það er eitt­hvað til sem heitir að flokkar séu stjórn­tækir eða ekki stjórn­tæk­ir. Og það að flokkur sé stjórn­tækur í mínum huga snýst meðal ann­ars um það að hann viti hvað í því felst ef hann gengur til sam­starfs við aðra. Að þú verður að taka því súra með því sæta að ein­hverju leyt­i.“

Hann bætir því við að þetta þýði þó að sjálf­sögðu ekki að menn eigi að láta bjóða sér hvað sem er. „En það er þannig að menn verða stundum að snúa bökum saman í erf­iðum málum og á erf­iðum tím­um. Það þurftum við nú heldur betur að gera, við Jóhanna Sig­urð­ar­dóttir og hlupum ekk­ert undan því. Við tókum yfir­leitt á okkur saman skell­ina og snerum bökum sam­an. Það var ástæðan fyrir því að sú rík­is­stjórn hafði sig í gegnum eitt erf­ið­asta kjör­tíma­bil Íslands­sög­unn­ar. Að við létum yfir­leitt aldrei hníf­inn kom­ast á milli okk­ar.“

Auglýsing

Hver væri draumarík­is­stjórn Vinstri grænna?

„Af því að við vorum að ræða um Sjálf­stæð­is­flokk­inn áðan og þar sem ég ætla að vera hrein­skil­inn og opin­skár í þessu við­tali þá er ég ekki endi­lega að segja að það sé eitt­hvað sem menn ættu að horfa á til langrar fram­tíð­ar. Það getur vel verið að það sé nauð­syn­legt að leyfa stjórn­mál­unum svo­lítið að þroskast og takast á með hefð­bundn­ari hætti, að minnsta kosti inn á milli, þannig að sam­stæð­ari flokk­ar, hug­mynda­fræði­lega séð, myndu vinna saman í annað hvort minni­hluta eða meiri­hluta.

Þó held ég að það sé öllum hollt að velta fyrir sér því sem kallað er á skand­in­av­ísku „kon­sensus“-­stjórn­mál. Ég hef alltaf verið hallur undir að það væri að mörgu leyti gott fyrir sam­fé­lög að stjórn­málin virk­uðu sem sam­stöðu­stjórn­mál. Það þýðir að menn geri mála­miðl­an­ir. En það er líka veru­leik­inn í okkar mann­lega sam­fé­lag­i.“

Nú hefur þú aldeilis tek­ist á við aðra í stjórn­mál­um.

„Ég hef ekk­ert verið feim­inn við það og það eiga menn líka að gera. Það er hluti af þessu og svo tefla menn fram mynd­ug­lega, og af hörku, sínum áherslum en þeir eiga að sjálf­sögðu að gera það með rökum – og lúta svo lýð­ræð­is­legum nið­ur­stöð­um. Það er mjög mik­il­vægt að menn gleymi því aldrei, að það er lýð­ræð­is­meiri­hlut­inn sem á að ráða nið­ur­stöð­unum í hverju máli og ef menn skrifa upp á lýð­ræðið á annað borð þá verða þeir að meina það. Ekki bara þegar hentar þeim. Stundum verða menn að sætta sig við það að lenda í minni­hluta og taka því.“

Hefði ekk­ert á móti því að hér mynd­að­ist sterk minni­hluta­stjórn

Stein­grímur veltir því fyrir sér hvernig stjórn­málin muni þró­ast. Hvort hreinni línur muni mynd­ast þannig að hægt verði að mynda sterka rík­is­stjórn meira á annan hvorn væng­inn. Vænt­an­lega verði ein­hver mið­læg öfl með í því. „Síðan hefði ég ekk­ert per­sónu­lega á móti því ef hér mynd­að­ist það sem kalla mætti sterka minni­hluta­stjórn. Það er að segja vel mann­aða og öfl­uga stjórn þó að ekki væru allir flokk­arnir með í rík­is­stjórn­inni sem væru í hennar bak­landi. Ég hef lengi verið þeirrar skoð­unar að það gæti verið hollt, sér­stak­lega fyrir þing­ræð­ið. Það er almenn kenn­ing að tíma­bil með minni­hluta­stjórnum styrki þjóð­þingið því þá þurfa menn meira að semja um sín mál.“

Telur hann mik­il­vægt að þingið sé sterkt. „Þingið er kjarn­inn í lýð­ræð­is­kerf­inu. Full­trúa­sam­kom­a.“ Telur Stein­grímur að sam­vinna með minni­hluta­stjórn myndi ýta stjórn­mál­unum í átt til sam­ræðu­stjórn­mála.

Ég tel auðvitað að Vinstrihreyfingin grænt framboð sé þessi sósíalíski flokkur. Ef það er ekki nógu róttækt fyrir menn þá það.
Steingrímur segist ekki eiga von á öðru en að fylgismönnum Sósíalistaflokksins yrði vel tekið ef þeir vildu ganga í þeirra raðir og efla þau og gera þau þá ennþá róttækari.
Bára Huld Beck

Nú er kom­inn til skjal­anna flokkur sem er vinstra megin við Vinstri græna, Sós­í­alista­flokk­ur­inn. Hvernig líst þér á að fá þann nýliða inn í stjórn­mál­in?

„Nú veit ég ekki hvort að þau muni ná mönnum inn á þing en þá bara ger­ist það – og það væri svo sem ekki endi­lega ófyr­ir­sjá­an­leg þró­un. Við höfum séð það ger­ast að ein­hverju marki.“

Stein­grímur bendir á að á hinum Norð­ur­lönd­unum séu ýmsir val­kostir til vinstri. „Ég tel auð­vitað að Vinstri­hreyf­ingin grænt fram­boð sé þessi sós­íal­íski flokk­ur. Ef það er ekki nógu rót­tækt fyrir menn þá það. Þá bara útbúa menn sinn mál­flutn­ing miðað við það að þeir séu enn lengra til vinstri og svo ráða kjós­endur nið­ur­stöð­unn­i.“

Telur hann jafn­framt að lík­leg­ast til árang­urs sé að sam­ein­ast í breið­um, sterk­um, vinstri sinn­uð­um, græn­um, femínískum flokki. „Ég spyr mig að því hvaða efni­viður sé í heil­steypta póli­tík sem ekki rúm­ast undir þeim for­merkj­um. Auð­vitað þegar við vorum að stofna Vinstri græn og jafn­vel enn þann dag í dag þá voru auð­vitað komm­ún­istar með í hópn­um. Það voru hreinir og klárir komm­ún­istar og mjög rót­tækt fólk – og það fólk bland­að­ist bara ágæt­lega við aðra sem í mesta lagi köll­uðu sig sós­í­alista eða rót­tæka vinstri menn, verka­lýðs­sinna, femínista og umhverf­is­vernd­ar­sinna.

Dýnamíkin hjá okkur hefur notið góðs af því að við höfum ekki bara verið tví­skipt ef svo má að orði kom­ast. Við höfum verið miklu fleira. Ekki ein­ungis til vinstri eða græn heldur líka með femínískan arm og utan­rík­is- og frið­ar­mála­arm, byggða­mála­arm og svo fram­veg­is.“

VG eiga auð­vitað „engan einka­rétt á því að vera eini rót­tæki vinstri flokk­ur­inn“

Bendir Stein­grímur á að þegar VG varð til hafi virkj­ast fjöldi félags­lega sinn­aðs fólks sem ekki hafði tekið þátt í stjórn­málum áður. „Það leyst­ust nefni­lega úr læð­ingi kraftar sem eig­in­lega voru sterk­ari en við áttum von á. Heil­mikið af fólki mætti til leiks sem hafði ekki lagt stjórn­mál­unum lið. Félags­vant fólk úr stétta­bar­átt­unni, verka­lýðs­hreyf­ing­unni eða félaga­sam­tökum og mikið af ungu fólki. En við eigum auð­vitað engan einka­rétt á því að vera eini rót­tæki vinstri flokk­ur­inn og það er bara lýð­ræði. Eðli máls­ins sam­kvæmt geta menn auð­vitað látið á það reyna hvort að stuðn­ingur sé við þá og þeirra hug­mynda­fræð­i.“

Sós­í­alista­flokk­ur­inn sprettur upp úr ákveðnum jarð­vegi í kringum bús­á­halda­bylt­ing­una og verka­lýðs­hreyf­ing­una og virð­ist vera vöntun á ennþá rót­tæk­ari vinstra afli. Hvað finnst þér um það?

„Ég tel að það fólk sé allt saman vel­komið í okkar rað­ir, það er ekki vand­inn í mínum huga. En kannski eru aðstæð­urnar núna þegar við erum í rík­is­stjórn þannig að þá finnst fólki það eitt­hvað fjar­læg­ara. Ég á ekki von á öðru en að þeim yrði vel tekið ef þau vildu ganga í okkar raðir og efla okkur og gera okkur þá ennþá rót­tæk­ari. Valið er auð­vitað um það,“ segir Stein­grím­ur.

Sérðu þá ekki rót­tækn­ina sem vanda­mál?

„Nei, alls ekki. Óli kommi og Þor­valdur Þor­valds­son voru til dæmis góðir liðs­menn okkar og voru fyrstu 10 til 15 árin í okkar hreyf­ingu. Ég man ekki til þess að það hafi skapað nein vanda­mál. Og þannig hafa menn þá áhrif inn í stærri hóp, getum við sagt, og toga þá hreyf­ing­una enn meira til vinstri,“ segir hann en bætir því við að auð­vitað verði menn að finna út úr þessu sjálf­ir. Per­sónur og leik­endur skipti alltaf máli og ætli hann síð­astur manna að fara að tala úr mönnum kjarkinn hvað það varð­ar.

„Það er að mörgu leyti spenn­andi að láta reyna á gæfu sína í svona lög­uðu. Menn eiga fullan rétt á því og er það hluti af lýð­ræð­inu og þing­ræð­inu. Og ef eitt­hvað er þá þarf að passa upp á það að þrösk­uld­arnir séu ekki of háir til þess að nýsköpun eigi sér stað innan stjórn­mál­anna.“

Hann segir að áhuga­vert verði að sjá hvað gerj­ist í þessum mál­um.

Bendir Stein­grímur á að ekki séu ein­ungis vær­ingar á vinstri vængnum heldur sé ýmis­legt að ger­ast á hinum hægri, sem og í miðj­unni. „Það er kannski á sinn hátt ágætt því að það dregur úr hætt­unni á eins alvar­legri pól­aris­er­ing­u.“

Þú ert þá til í að hafa átta til níu flokka á þingi?

„Tjaa, ég er nú ekki að mæla með því að þeir verði alveg óend­an­lega marg­ir. Það skapar viss vanda­mál líka, því er ekki að neita. Þetta er flókn­ara á ýmsan hátt eftir því sem þing­flokk­arnir eru fleiri en ég tel að þetta sé nú ekk­ert slíkt flokka­kraðak ennþá að við þurfum að kvarta,“ segir Stein­grímur en hann telur að mik­il­vægt sé að mörg sjón­ar­mið komi að borð­inu.

Það sem mér finnst verðmætast er að við höfum gjörsamlega afsannað hrakspár – og það rækilega – um að við yrðum einhver jaðarflokkur sem aldrei myndi skipta neinu máli í íslenskum stjórnmálum.
Steingrímur tók meðvitaða ákvörðun á sínum tíma að fara ekki á samfélagsmiðla. Hann er mjög ánægður með þá ákvörðun í dag.
Bára Huld Beck

Hvernig líður þér með að hætta og fara frá flokknum sem þú stofn­að­ir?

Stein­grímur segir að honum líði mjög vel með það. Saga Vinstri grænna sé mjög glæst og seg­ist hann vera mjög stoltur af henni. „Það sem mér finnst verð­mæt­ast er að við höfum gjör­sam­lega afsannað hrakspár – og það ræki­lega – um að við yrðum ein­hver jað­ar­flokkur sem aldrei myndi skipta neinu máli í íslenskum stjórn­mál­um. Ætli þær raddir fari nú ekki að þagna hvað úr hverju þegar við meira að segja leiðum rík­is­stjórn? En það voru nú spá­dóm­arn­ir.

Það gekk í raun og veru þannig fyrir sig að fyrst sögðu menn að við myndum aldrei ná manni inn á þing. Svo gerðum við það nú og reyndar mun fleiri en margir áttu von á. Nú þá var næsta stef í kórnum að segja að nú yrði til ein­hver lít­ill sér­vitr­inga­flokkur – ein­hver jað­ar­flokkur lengst til vinstri. Eitt­hvað lopa­peysulið sem vildi bara týna fjalla­grös og myndi aldrei hafa nein áhrif. Yrði bara í ein­hverri eyði­merk­ur­göngu, yst út á vinstri væng íslenskra stjórn­mála. Þetta voru nú spá­dóm­arnir hjá mörg­um. Ætli við séum ekki búin að afsanna það nokkuð hressi­lega með því að vera ber­andi afl í tveimur rík­is­stjórnum og næst stærsti flokkur í tvennum kosn­ing­um?“

Þá seg­ist hann vera ánægður með að geta valið sjálfur þann tíma sem hann hætt­ir. „Mér finnst skyn­sam­legt núna að segja þetta gott. Von­andi er ég bara að gera það á góðum og réttum tíma fyrir mig og fyrir hreyf­ing­una og alla aðra. Það var alltaf mín von að ég gæti ákveðið þetta sjálfur en að aðrir gerðu það ekki fyrir mig. Það er betra að hætta á meðan maður getur gert sér vonir um að ein­hver sakni manns heldur en þegar allir vilja orðið losna við mann.“

Ætlarðu að halda áfram að láta til þín taka? Til dæmis á sam­fé­lags­miðl­um?

Stein­grímur segir að á sínum tíma hafi hann valið að fara ekki á sam­fé­lags­miðla. „Ég tók með­vit­aða ákvörðun um að gera það ekki. Margir skor­uðu á mig að gera það og kvört­uðu undan því þegar ég var for­maður flokks­ins að ég væri ekki á sam­fé­lags­miðl­um. En það var eitt­hvað innra með mér sem ég átti erfitt með og ég ákvað bara að sleppa því. Það yrði þá bara að hafa það ef það yrði ein­hver mínus fyrir mig sem stjórn­mála­mann. Ég finn ekki að svo hafi ver­ið.“

Hann bætir því við að það að vera ekki á sam­fé­lags­miðlum hafi sparað honum mik­inn tíma og seg­ist hann vera óskap­lega feg­inn að vera laus við margt af því sem þar er í gangi.

„Ég hef alveg næg tæki­færi til að koma mér á fram­færi og hef gert það.“

Stein­grímur seg­ist ekki hætta bitur eða reið­ur. „Ég ætla að hætta þegar ég hætti – og ekki verða til vand­ræða fyrir þá sem taka við og ekki að þvæl­ast fyrir þeim. Von­andi tekst mér að standa við það lof­orð. Því ég hef séð menn gera það og þetta hefur tek­ist svo mis­vel til hjá þeim. Sumir hafa því miður dregið það of lengi að hætta og jafn­vel verið látnir hætta. Hafa verið felldir eða eitt­hvað svo­leið­is. Aðrir hafa ekki hætt sátt­ari en það að það lítur út fyrir að þeir vilji ekki sleppa. Það er ekki gott og erfitt fyrir þá sem taka við. Ég er nú ekki að segja að menn þurfi að fara til tungls­ins, að þeir megi ekki vera á yfir­borði jarðar áfram, en þeir eiga ekki að vera fyr­ir,“ segir Stein­grímur að lok­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal