Allir 628 fastráðnir starfsmenn Arion banka sem eiga rétt á að gerð kaupréttarsamning við bankann hafa gert slíkan. Í samningnum fellst að starfsmennirnir geta keypt hlutabréf í bankanum fyrir alls 600 þúsund krónur einu sinni á ári í fimm ár. Fyrsti nýtingardagur er í febrúar á næsta ári en sá síðasti í febrúar 2026.
Kaupverð starfsmanna Arion banka á hlutum í bankanum er vegið meðalverð í viðskiptum með hlutabréf félagsins tíu viðskiptadaga fyrir samningsdag, sem er 3. febrúar 2021, eða 95,5 krónur hver hlutur. Það er um 14 prósent undir núverandi markaðsvirði Arion banka, en bréf bankans hafa hækkað töluvert í verði síðustu daga.
Samanlagt kaupverð þeirra bréfa sem starfsmennirnir geta keypt er um 377 milljónir króna á ári, eða um 1,9 milljarðar króna yfir samningstímann.
Kaupréttaráætlunin, sem nær til allra fastráðinna starfsmanna, var samþykkt á aðalfundi Arion banka í mars í fyrra og markmið hennar er sagt vera að „samþætta hagsmuni starfsfólks við langtímahagsmuni bankans.“
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands sem send var út í gær. Samhliða var send út innherjatilkynning þar sem greint var frá því að allir helstu stjórnendur Arion banka hafi einnig tekið þátt í kaupréttaráætluninni, þar með talið Benedikt Gíslason, bankastjóri bankans, og Ásgeir Reykfjörð Gylfason aðstoðarbankastjóri hans. Þeir áttu fyrir umtalsverðan hlut í Arion banka. Benedikt á nú alls hluti sem metnir eru á um 207 milljónir króna miðað við markaðsvirði og Ásgeir á hluti sem metnir eru á 125 milljónir króna.
Kaupaukakerfi innleitt
Til viðbótar við kauprétti stendur starfsfólki Arion banka til boða kaupaukar, einnig kallaðir bónusar. Í desember í fyrra var greint frá því að öllu fastráðnu starfsfólki bankans muni standa til boða að geta fengið allt að tíu prósent af föstum árslaunum sínum á árinu 2021 í kaupauka þegar ársreikningur bankans fyrir árið 2021 liggur fyrir, ef þau markmið sem nýtt kaupaukakerfi tilgreinir nást.
Þeir stjórnendur og það starfsfólk sem hefur hvað mest áhrif á tekjur og kostnað bankans mun geta fengið allt að 25 prósent af föstum árslaunum í kaupaukagreiðslu, en þá í formi hlutabréfa í bankanum sem verða ekki laus til ráðstöfunar fyrr en að þremur árum liðnum.
Það fólk er með mun hærri laun en venjulegt starfsfólk bankans. Mánaðarlaun bankastjóra Arion banka voru til að mynda 4,7 milljónir króna á mánuði á árinu 2019.
Þau markmið sem Arion banki þarf að ná til að kaupaaukakerfið fari í gang fela í sér að arðsemi bankans verðir að vera hærri en vegið meðaltal arðsemi helstu keppinauta bankans: Íslandsbanka, Landsbanka og Kviku. „Náist þetta markmið ekki, verður ekki greiddur út kaupauki. Heildarfjárhæðin sem veitt verður til kaupaukagreiðslna verður þó aldrei hærri en sem nemur arðsemi bankans umfram vegið meðaltal arðsemi samkeppnisaðila,“ segir í tilkynningu frá Arion banka til þeirra hlutabréfamarkaða sem bankinn er skráður á, en hann er tvískráður á Íslandi og í Svíþjóð.
Stjórn Arion banka hefur samþykkti hið breytta kaupaukakerfi og telur það í fullu samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins um kaupaukagreiðslur starfsfólks fjármálafyrirtækja og starfskjarastefnu bankans sem samþykkt var á hluthafafundi. Áður hafði stjórn bankans samþykkt að engar kaupaukagreiðslur yrðu greiddar út vegna ársins 2020.
Kaupa eigin bréf fyrir 15 milljarða
Arion banki birtir uppgjör sitt vegna síðasta árs síðar í dag. Á mánudag tilkynnti bankinn um að fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefði veitt honum heimild til að kaupa aftur eigin hlutabréf að andvirði 15 milljarða króna. Heimildin nær til allt að 8,7 prósent af útgefnu hlutafé bankans.
Líkt og arðgreiðslur eru kaup á eigin bréfum (e. buyback) ein leið fyrirtækja til að gefa eigendum sínum hluta af eigin fé. Í slíkum kaupum greiðir fyrirtækið markaðsvirði ákveðins hluta af útgefnu hlutafé til hluthafa sinna.
Samkvæmt tilkynningunni sem birtist á vef Kauphallarinnar veittu hluthafar Arion banka stjórn bankans endurnýjaða heimild til að kaupa allt að 10 prósent af útgefnu hlutafé þess á síðasta ársfundi bankans í fyrra. Hins vegar voru fyrirhuguð endurkaup sett á bið eftir að heimsfaraldurinn skall á og Seðlabankinn gaf út tilmæli til bankanna um að greiða ekki til hluthafa sinna á meðan hið opinbera yki framboð fjármagns í fjármálakerfinu með ýmsum aðgerðum.
Á síðustu mánuðum hefur Arion banki svo gefið til kynna að hann hygðist greiða hluta af eigin fé til hluthafa, en í síðasta ársfjórðungsuppgjöri sagðist bankinn vera með of mikið eigið fé sem nær ómögulegt væri að ávaxta í takt við eigin markmið.
Arion banki minntist einnig á eiginfjárstöðu sína í tilkynningu sinni vegna endurkaupa á eigin bréfum, en þar sagði hann hana vera mjög sterka. Bankinn minntist einnig á skuldabréfaútboð bankans í fyrra, sem veitti bankanum fé að andvirði 13 milljarða króna.
Ekki hefur enn verið ákveðið að ráðast í endurkaupaáætlunina, en áform un framkvæmd hennar bíða nú ákvörðunar stjórnar Arion banka. Upplýst verður um ákvörðun hennar samhliða birtingu ársuppgjörs bankans sem verður birt, eins og fyrr segir, síðar í dag.