Kjarninn endurbirtir nú valda pistla Borgþórs Arngrímssonar sem samhliða eru gefnir út sem hlaðvarpsþættir. Fréttaskýringar Borgþórs njóta mikilla vinsælda og sú sem er endurbirt hér að neðan var upphaflega birt þann 19. mars 2017.
Brandur, Snúlla, Högni, Moli, Snælda, Rósa, Elvis, Simbi, Grámann, Stalín, Perla, Depla, Skotta, Kleópatra, Maó, Rómeó, Hamlet, Emilía, Ófelía, Nóra, Megas, Dimmalimm, Pjúska, Snúlli, Keli, Bjartur, Þorsteinn, Grámann, að ógleymdum Njáli (aðstoðar hjá póstinum Páli).
Þetta eru aðeins örfá þeirra nafna sem milljónir kattaeigenda um allan heim hafa gefið ferfætta heimilisvininum, honum kisa eða henni kisu. Fullyrða má að hvert einasta mannsbarn í veröld víðri þekki þetta dýr, köttinn, sem kannski er ekki undarlegt því kettir eru lang algengasta gæludýrið á jarðarkringlunni. Margfalt fleiri en hundar og páfagaukar.
Lengi vel voru elstu heimildir um tilvist katta frá Egyptalandi en fyrir nokkru síðan fundust á Kýpur heimildir sem eru mun eldri en þær egypsku, eða frá um 7500 f.Kr. Talið er að kettir hafi komið til Íslands á landnámsöld.
Enginn veit með vissu hve margir kettir eru til í henni veröld en talið að þeir séu um það bil 700 milljónir, þar af 30 til 40 þúsund á Íslandi. Stór hluti þessa mikla fjölda er það sem kalla mætti heimilisketti en villikattahópurinn er líka mjög stór.
Af hverju vill fólk eiga kött?
Fyrir því eru margar ástæður. Í nýlegri könnun í dönsku blaði (í Danmörku eru vel á aðra milljón katta) voru svör kattaeigenda af ýmsum toga. Sumir sögðust vera aldir upp við að hafa kött á heimilinu og kattarlaust líf væri óhugsandi, aðrir sögðu köttinn skemmtilegan og vandræðalítinn.
Köttum finnst oft gott að slaka á í fangi eiganda. Og kattaeigendum finnst það ekki síður gott.
„Mýsnar komast ekki upp með neitt þar sem köttur er í húsinu,“ sögðu nokkrir. „Það er róandi að sitja með köttinn og strjúka honum, heyra malið og sjá hvernig hann lygnir aftur augunum,“ var algengt svar. Og danskir kattaeigendur eru ekki einir um þessa skoðun.
Sérfræðingar við háskólann í Minnesota í Bandaríkjunum hafa árum saman rannsakað hvort það að eiga og umgangast kött hafi jákvæð áhrif á hjartasjúklinga. Og niðurstöður þeirra hafa leitt í ljós að svo sé.
Kattaorð
Mörg orð eru til í íslensku sem tengjast köttum. Talað er um að hinn eða þessi sé kattliðugur, eða jafnvel köttur liðugur. Sumir eru kattþrifnir, naumt skammtað er ekki upp í nös á ketti, það sem mistekst fer í hund og kött. Það að vera eins og grár köttur (einhvers staðar) er iðulega notað, sama gildir um að vera kattþrifinn. Að „fara eins og köttur í kringum heitan graut“ skýrir sig sjálft, það gerir líka „ leikur kattarins að músinni“ og „ köttur í bóli bjarnar“.
Fá dýr eyða jafn miklum tíma í að snyrta sig eins og kettir.Allt tengist þetta, og ýmis fleiri orðatiltæki, hegðun og hæfileikum kattarins. Enginn vill „fara í jólaköttinn“. Eitt orð sem talsvert er notað er all sérstakt í þessu kattasamhengi. Það er þegar talað er um kattarþvott; „óttalegur kattarþvottur“. Það orð hefur neikvæða merkingu því engir aðrir, hvorki dýr né menn eyða jafn löngum tíma á degi hverjum í að snyrta sig.
Endurskinsmerki á reiðhjólum og bílum eru iðulega kölluð kattaraugu, sökum þess að þau endurvarpa ljósinu, eins og augu kattarins. Lengi hefur verið til súkkulaði sem nefnt er kattatungur, nafnið væntanlega dregið af löguninni. Kettir myndu aldrei líta við slíku, því þeir eru ekki fyrir sætindi.
Eru kettir gáfaðir?
Svarið við þessari spurningu fer nokkuð eftir því við hvað er miðað, og kannski hver svarar. Mörgum kattaeigendum þykir sinn köttur gáfaður, oftast gáfaðri en aðrir kettir. Eins og flest dýr býr kötturinn yfir mörgum hæfileikum. Þeir eru annars eðlis en hjá manninum þótt vísindamenn segi heila kattarins ekki ólíkan mannsheilanum.
Kettir geta lært marga hluti, oftast praktíska en eitt er það sem þeir neita algjörlega að taka mark á, sama hvernig eigandinn skammast og brýnir raustina. Það er að leggja af veiðiskap. Þeir eru alltaf á útkikki. Ef allt gengur upp koma þeir stoltir með bráðina, t.d. mús eða fugl, og leggja fyrir fætur eigandans og skilja ekkert í uppnámi eigandans sem ekki fagnar þessari björg í bú.
Kettir eru tækifærissinnar, einkum þegar kemur að næringarhliðinni. Margir kattaeigendur þekkja það að kötturinn er kannski kominn í fæði hjá nágrannanum og ástæðan auðvitað sú að þar er betra í boði en í eldhúsinu heima.
Fræg er sagan af Humphrey, ketti breska forsætisráðherrans. Humphrey, sem settist að í bústað forsætisráðherrans árið 1989, var orðinn alltof þungur og auk þess nýrnaveikur og var því settur á sérstakt heilsufæði. Humphrey fýldi grön við þessum nýja lífsstíl sem eigandinn ætlaði honum að laga sig að og þegar heilsufæðið hafði mætt sjónum hans í matarskálinni í nokkra daga hvarf hann.
Forsíða bæklingsins The Charles Mingus CAT-alog for Toilet Training Your Cat. Forsætisráðherrahjónin höfðu áhyggjur af Humphrey, héldu kannski að hann hefði orðið fyrir slysi. En nei, eftir nokkurn tíma kom í ljós að hann var kominn í fæði í húsi í nágrenninu. Á þeim bæ var ekkert heilsujukk í boði (eins og Humphrey hefði örugglega orðað það hefði hann mátt mæla), bara almennilegt kattafæði.
Hugmyndir um heilsuátak Humphreys voru að mestu lagðar á hilluna og hann gaf upp öndina (væntanlega saddur og sæll) í mars 2006. Þá hafði hann um árabil búið á kattaelliheimili í Suður-London. Fjölmiðlar víða um heim greindu frá því að Humphrey hefði kvatt þetta jarðlíf og haldið á hinar eilífu veiðilendur, kannski frægasti köttur allra tíma, ef frá er talinn teiknimyndakötturinn Tommi.
Um ketti hafa verið skrifaðar margar bækur. Ein sú óvenjulegasta er líklega sú sem bandaríski tónlistarmaðurinn Charles Mingus, sem var mikill áhugamaður um ketti, skrifaði. Þessi bók, eða bæklingur, heitir „The Charles Mingus CAT-alog for Toilet Training Your Cat“. Hún fjallar um það sem nafnið gefur til kynna, klósettþjálfun fyrir ketti.