Af hverju vilja Rússar alltaf vera í vörn?

Bandaríkjamenn og Rússar reyna nú að koma samskiptum ríkjanna í samt lag. Rússnesk stjórnvöld hafa þó lítinn áhuga á því að Rússland verði lýðræðissamfélag eftir höfði Vesturlanda – styrkur þess liggi í að vera óútreiknanlegt herveldi.

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, tekur í höndina á Joe Biden, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna, í Moskvu fyrir tíu árum síðan.
Vladímír Pútín, forseti Rússlands, tekur í höndina á Joe Biden, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna, í Moskvu fyrir tíu árum síðan.
Auglýsing

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti og Vla­dimir Pútín for­seti Rúss­lands munu hitt­ast til við­ræðna í Genf í Sviss á mið­viku­dag­inn. Ekki er lík­legt að fund­ur­inn valdi neinum straum­hvörfum í sam­skiptum ríkj­anna en þau hafa verið mjög stirð að und­an­förnu. Don­ald Trump hafði hrein­lega hampað Pútín og því þurfti Biden að marka afger­andi stefnu til að aðgreina sig frá for­vera sínum með hertum aðgerðum gagn­vart Rúss­um. Biden og Pútín þekkj­ast frá fyrri tíð, er sá fyrr­nefndi var vara­for­seti Banda­ríkj­anna og hefur látið í ljós að hann hafi ekk­ert allt of mikið álit á Rúss­lands­leið­tog­an­um.

Stirð sam­skipti við Banda­ríkin

Rúss­land, sem var burð­ar­ríkið í Sov­ét­ríkj­un­um, tók hik­andi skref í átt að opn­ara sam­fé­lagi og mark­aðs­hag­kerfi á tíunda ára­tugn­um. Þau skref hafa vel­flest verið stigin til baka, sér í lagi eftir að Pútín tók aftur við for­seta­emb­ætti árið 2012. Rúss­nesk stjórn­völd hafa í tíð Pútíns spyrnt við fótum gagn­vart hinni vest­rænu alþjóða­væð­ingu sem þeim hefur þótt flæða full hratt yfir með kröfum um aukið lýð­ræði og opið sam­fé­lag.

Þetta á einnig við um fyrrum lýð­veldi heims­veld­is­ins fyrr­ver­andi eins og Hvíta Rúss­land og Úkra­ínu, sem mynda eins­konar brjóst­vörn gagn­vart Vest­ur­löndum í hugum þeirra sem fylgja Pútín að mál­um. Frek­ari þróun í átt að vest­rænum gildum ógnar þannig aug­ljós­lega stöðu Rúss­lands að þeirra mati, og afleið­ingin er að landið hefur hrokkið til baka til ein­ræð­is­legra stjórn­ar­hátta fyrri tíma.

Auglýsing

Banda­ríkja­menn hafa hert refsi­að­gerðir gagn­vart Rússum vegna ýmissa saka; afskipta af kosn­ing­um, ofsókna og jafn­vel morð­til­rauna gagn­vart aðgerðasinn­um, and­ófs­fólki og rúss­neskum blaða­mönn­um, þar á meðal Alexei Navalny sem nú er í fang­elsi, netárása víða um heim, og yfir­gangs í Úkra­ínu og víð­ar. Rússar hafa aftur á móti gagn­rýnt Banda­ríkja­menn fyrir að hafa blandað sér í inn­an­rík­is­mál sín og ógnað alþjóð­legum stöð­ug­leika.

Það er því af nógu að taka ef bæta á sam­skipti ríkj­anna tveggja. Pútín seg­ist ganga út frá því þeir Biden verði að reyna að finna leiðir til að bæta tví­hliða sam­skipti ríkj­anna sem hann segir hafa verið í lág­marki. Pútín segir einnig þurfa að ræða stra­tegískan stöð­ug­leika milli ríkj­anna, lausnir vegna helstu átaka­svæða heims­ins, bar­átt­una gegn hryðju­verk­um, við heims­far­ald­ur­inn og umhverf­is­mál. Hann kveðst ekki búast við afger­andi árangri á fund­inum í Genf en hann gæti orðið byrj­unin að því að koma sam­skiptum ríkj­anna í réttan far­veg.

Vest­ræn áhrif – Pútín nýtir sér og kyndir undir þjóð­ern­is­hyggju

Þegar fjallað er um alþjóða­sam­skipti er jafnan talað um að aðgreina yfir­lýs­ingar sem séu til heima­brúks. Þá tala stjórn­mála­menn á til­tek­inn máta til hópa inn­an­lands sem oft er fjarri raun­veru­leik­anum í alþjóð­legu sam­hengi – oft til að styrkja stöðu sína eða koma höggi á and­stæð­inga. Þetta er sér­stak­lega mik­il­vægt að hafa í huga þegar Rúss­land er ann­ars vegar því þar ríkir mikil þjóð­ern­is­hyggja sem stjórn­völd reyna að efla enn frekar með hörðum yfir­lýs­ing­um. Þar birt­ist sú mynd að Rúss­land og hin rúss­neska þjóð eigi í vök að verj­ast gegn ýmis­konar ógn, sér í lagi þeirri sem kemur frá Vest­ur­lönd­um.

Pútín hefur stjórnað að hætti ein­valds und­an­farin 20 ár og haldið á lofti þeirri hug­mynd að með ágangi Vest­ur­landa sé í húfi ein­hvers­konar guð­leg arf­leifð Rúss­lands. Pútín hefur í ræðum sett sjálfan sig í sögu­legt sam­hengi, látið í það skína að hann sé heil­agur Vla­dimir prins end­ur­bor­inn, sá sem sam­ein­aði hið forna ríki Rúss­lands, Hvíta-Rúss­lands og Úkra­ínu á tíundu öld. Þessi tvö fyrrum Sov­étlýð­veldi hafa því ákveðna sér­stöðu hjá Rússum og hvað sem alþjóða­lögum um full­veld­is­rétt ríkja líður þá líta þeir svo á að þessi ríki til­heyri í raun Rúss­landi.

Pútín á því dyggan stuðn­ing innan til­tek­ins hóps, sem lítur á hann sem vernd­ara Rúss­lands, þjóð­ar­innar og hinna sönnu rúss­nesku gilda. Með slíkri orð­ræðu – sem auð­vitað hefur við­geng­ist lengi þó hún hafi verið á aðeins öðrum for­sendum á tímum Sov­ét­ríkj­anna – hefur þessum hópi verið talin trú um að vest­ræn menn­ing sé á ein­hvern hátt óhrein og úrkynj­uð. Nái hún útbreiðslu í Rúss­landi þýði það hnignun þjóð­ar­inn­ar.

Vest­rænt lýð­ræði geti m.a. af sér sam­kyn­hneigð, úrkynjun og óeðli með auknum rétt­indum kvenna og hin- og kynsegin fólks – en sam­kvæmt opin­berri stefnu þá er sam­kyn­hneigð ekki til í Rúss­landi. And­stæðan og svarið við þessu er sönn karl­mennska, eins og sú sem Pútín sýnir gjarn­an. Pútín hefur þannig gert sjálfan sig að lyk­il­manni í þess­ari bar­áttu og beitir óspart gam­al­reyndum aðferðum til að sverta óvini rík­is­ins og þjóð­ar­inn­ar, sem hann muni síðan veita vernd gegn.

Pútín hefur ítrekað reynt að viðhalda karlmennskuímynd sinni, meðal annars með því að láta mynda sig beran að ofan við veiðar. Mynd: Alexey Nikolsky/Getty.

Þarna þarf líka að skoða hug­tökin þjóð og ríki í öðru ljósi en t.d. almennt á Vest­ur­löndum því að mörkin milli rík­is­valds­ins og þjóð­ar­innar eru ógreini­legri í því fasíska stjórn­ar­fari sem Pútín hefur inn­leitt. Jafn­framt er ein­stak­ling­ur­inn minna met­inn því hann til­heyrir þjóð sem hefur göf­ugri til­gang en hans eigin hags­muni.

Hin eilífa ógn er grund­völlur valda­kerf­is­ins og sæti við borð stór­veld­anna

Rússum finnst þeir vera í varn­ar­stöðu, eins og þeir hafa í raun löngum ver­ið, því er þjóð­holl­usta og öryggi Rúss­lands grund­vall­ar­at­riði í þjóð­arsál­inni – sé slíkt fyr­ir­bæri til. Rússar byggja til­vist, fram­tíð og styrk rík­is­ins á hern­að­ar­mætti sem verður þá hluti af karl­mennskuí­mynd­inni sem Pútín leggur áherslu á.

Þarna er mjög mik­il­vægt að hafa í huga að Rússar eru í bráð ekk­ert að fara að vera til friðs og reyna að aðlaga sig hinum vest­ræna hugs­un­ar­hætti. Þeir eru annað mesta hern­að­ar­veldi heims og styrkur þeirra liggur í hern­að­ar­mætt­inum þar sem kjarn­orku­vopn liggja til grund­vall­ar. Ekki ein­ungis á tákn­rænan og óbeinan hátt heldur eru kjarn­orku­vopn bein­línis hluti af hern­að­ar- og varn­ar­á­ætlun Rúss­lands.

Það þjónar því rúss­neskum hags­munum vel að vera í þess­ari varn­ar­stöðu, sem kallar á að hnykla vöðva­na, sýna hern­að­ar­mátt og tryggja Rússum þannig sæti við borð stór­veld­anna. En þeir sjá einnig að með mark­vissri beit­ingu fjöl­þátta­hern­aðar geti þeir valdið usla og óróa og grafið undan keppi­nautum og óvinum en jafn­framt stutt stjórn­mála­öfl til valda sem eru hlið­holl Rússum – hvort sem það er í Banda­ríkj­unum eða á Balkanskaga.

Þeir nota Hvíta-Rúss­land, hvar Lúk­asjenkó for­seti er alger­lega undir hælnum á stjórn­völdum í Kreml, sem til­rauna­stofu til að sjá hversu langt þeir geta geng­ið. Má þar nefna þegar far­þega­þot­unni var snúið til Minsk þar sem blaða­mað­ur­inn Roman Prota­sevich var hand­tek­inn. Rússar segj­ast jafn­framt vera að verj­ast yfir­gangi Vest­ur­landa og nota gjarnan afsök­un­ina: þið Banda­ríkja­menn gerið svona, af hverju ættum við ekki alveg eins að mega það?

Þeir vilja samt sem áður halda opnum sam­skiptum við Banda­ríkin á hefð­bundnum stór­velda­grunni því Rússar líta svo á að það séu í raun bara stór­veldin sem skipti máli þegar full­veldi ríkja er ann­ars veg­ar.

Rússar vilja halda áhrifum í fyrrum lýð­veldum – skortir mjúkt vald?

Nú telja Rússar sig sjálf­kjörna sem for­ystu­ríki á svæð­inu sem áður til­heyrði Sov­ét­ríkj­un­um, og þeir vilja reyna að líma saman aftur að ein­hverju leyti. Þeir telja mik­il­vægt að halda áhrifum í þessum ríkj­um, sem hafa veitt þeim ákveðið land­fræði­legt skjól. Til þess hafa þeir beitt afls­mun­um, en ef vel ætti að vera þyrftu Rússar miklu fremur að vera aðlað­andi í augum þess­ara fyrrum Sov­étlýð­velda – sem Rússar kalla útlönd nær.

Til þess skortir þá þó efna­hags­legan styrk en öðru máli gegnir um svæði og ríki eins og Evr­ópu­sam­bandið og Kína sem þessi fyrrum Sov­étlýð­veldi lað­ast sum frekar að. Rússar eiga þó heil­mikið inni þegar kemur að mjúku valdi. Þeir eiga ríka menn­ing­ar­sögu, hvort sem það er á sviði alþýðu­menn­ingar eða í hámenn­ingu, tón­list, bók­menntum eða ballet – og hafa einnig allar for­sendur til að vera meðal fremstu þjóða heims þegar kemur að efna­hags­legri vel­sæld.

Núver­andi stjórn­völd virð­ast þó ekki sjá þann flöt á mál­inu, að með því að efla slíka þætti og tefla fram á alþjóða­vett­vangi, gæti það orðið til að styrkja stöðu Rússa – bæði gagn­vart fyrrum Sov­étlýð­veldum og umheim­inum almennt.

Rússar vilja verja „sta­tus quo“ ástand í valda­kerfi heims­ins, þar sem hin vold­ugu ríki fara fram í krafti afls­muna, og standa vörð um íhalds­söm gildi for­tíð­ar­inn­ar. Rúss­land er ein­ungis ell­efta stærsta hag­kerfi heims en Rússar reyna með stefnu sinni að við­halda stöðu sinni sem heims­veldi sem í raun er ekki inni­stæða fyr­ir. Eftir því sem alþjóða­kerfið hefur þró­ast og vægi alþjóða­sam­starfs hefur orðið meira þá er þetta stefna og fram­koma sem verður sífellt erf­ið­ara að halda til streitu.

Hafa Rússar ástæðu til að van­treysta Vest­ur­lönd­um?

Rússar hafa ýmsar sögu­legar ástæður til að van­treysta Vest­ur­löndum og vera á varð­bergi. Rúss­land hefur mátt þola inn­rásir og stríð allt frá inn­rás Mongóla á þrett­ándu öld, Frakka undir stjórn Napól­e­ons á þeirri nítj­ándu eða Þjóð­verja á þeirri tutt­ugustu, svo þær helstu séu nefnd­ar. Rúss­neska sam­bands­ríkið er víð­feðmt og þó ekki séu yfir­vof­andi nein afdrifa­rík skref ríkja innan þess í átt til sjálf­stæðis er ekki sjálf­sagt mál að það hald­ist í heilu lagi.

Rússum kann að hafa fund­ist vestrið koma af full miklum þunga og til­lits­leysi í fangið á þeim eftir að Sov­ét­ríkin leyst­ust upp. M.a. hefur lengi vel sú orð­ræða við­geng­ist að við lok kalda stríðs­ins hafi vest­ur­veldin svikið gefin lof­orð um að NATO myndi ekki verða stækkað meira til aust­urs en út að landa­mærum sam­ein­aðs Þýska­lands. Rússar hafa haldið þessu á lofti til vitnis um að ekki sé hægt að treysta NATO-­ríkj­unum og orð­ræðan virð­ist hafa náð tals­verðri fót­festu, m.a. meðal ráða­manna í Vest­ur­-­Evr­ópu.

Stað­reyndin er hins vegar sú að eftir að Sov­ét­ríkin liðu undir lok var lít­ill vilji meðal ráða­manna í Rúss­landi, sem þó var í raun arf­taki Sov­ét­ríkj­anna, til að setja fyrrum lýð­veldum nein mörk. Rúss­land vildi þvert á móti aðgreina sig frá hinu sorg­lega tíma­bili sem þarna var lokið og Par­ís­ar­samn­ing­ur­inn árið 1990 sem Rússar und­ir­rit­uðu, kvað á um að hin nýfrjálsu lýð­veldi hefðu fullt frelsi til að haga sínum örygg­is­málum að vild.

Rússar hafa lík­lega óþarfar áhyggjur af hern­að­arógn frá Vest­ur­löndum því það er engin hern­að­ar­leg inn­rás yfir­vof­andi þaðan sem stend­ur. Málið snýst um til­kall þeirra til yfir­ráða í sjálf­stæðum og full­valda ríkjum – fyrrum Sov­étlýð­veldum sem mynd­uðu krag­ann í kringum Rúss­land. Ef reynt er að koma auga á ein­hverja raun­veru­lega hern­að­ar­lega ógn sem steðjar að rúss­neska sam­bands­rík­inu þá kæmi hún frekar að aust­an, frá Kína sem er álíka ófyr­ir­leitið og Rúss­land þegar kemur að því að eigna sér yfir­ráða­svæði.

And­staða við Pútín – átök í aðsigi?

Stuðn­ingur við Pútín hefur dvínað tals­vert á und­an­förnum árum en hann hefur áður lent í hremm­ing­um, m.a. í kosn­ing­unum 2011 og 2012 þegar hann varð upp­vís að svindli. Nú hefur hrikt meira í stoð­un­um, má þar nefna mót­mæli sem hafa harðnað vegna Naval­ny-­máls­ins. Pútín hefur því verið að herða tökin á mót­mæl­endum og varð­halds­hús­næði verið vel nýtt. Þeir sem gagn­rýna stjórn­völd hafa verið skil­greindir sem erlendir erind­rekar sem gefur stjórn­völdum aukin völd til að hefta starf­sem­ina sam­kvæmt rúss­neskum lög­um. Jafn­framt hafa til­raunir til að mið­stýra efna­hags­líf­inu valdið óánægju sem svo enn eykur spennu og óróa.

Alexei Navalny, einn þekktasti andstæðingur ríkisstjórnar Rússlands. Mynd: EPA.

Þótt Rússum vegni að mörgu leyti betur og líti bjart­ari augum á fram­tíð­ina en áður eru mögu­leikar lands­ins van­nýtt­ir. Við­skipta­þving­anir sem settar voru í kjöl­far inn­limunar Krím­skaga 2014 hafa haft hamlandi áhrif. Það er fólks­flótti úr hinum dreifðu byggð­um, 30 þús­und smá­bæir og þorp hafa tæmst, 7–800 flug­völlum verið lok­að. Pútín tók ekki við góðu búi en lengst af hefur lítil inn­viða­upp­bygg­ing þó átt sér stað. Hann hefur sann­fært fólk að ekki sé gott að eiga of mikið sam­starf við Vest­ur­lönd og nýtt ástandið til að blása inn­lendum frum­kvöðlum bar­áttu­anda í brjóst og lagt áherslu á að ástandið sé áskorun fyrir þá.

Í háskóla­sam­fé­lag­inu gengur því allt út á að sýna að þar dafni fram­úr­skar­andi þekk­ing og hátækni­þró­un. Hins vegar hefur gagn­rýnni hugsun og tengslum við stjórn­mála­starf verið kerf­is­bundið haldið niðri. Þar er ástandið þrúg­andi því fólk er hrætt við ganga fram fyrir skjöldu af ótta við ofsókn­ir. Rúss­neskt sam­fé­lag er þó lík­lega mun kraft­meira og skap­andi en Vest­ur­landa­búar átta sig á. En um leið og það þró­ast og vill verða nútíma­legra horfir rík­is­stjórn Pútíns til for­tíðar – þar er átaka­línan dreg­in.

Þegar öllu er á botn­inn hvolft er stærsta áskor­unin sú að leið­togar Rúss­lands í dag eru í raun fangar gam­al­dags hugs­un­ar­hátt­ar, þjak­aðir af minni­mátt­ar­kennd og bjóða ekki upp á raun­veru­lega fram­tíð­ar­sýn. Hræddir við Vest­ur­lönd, hræddir við Kína, hræddir við kon­ur, hræddir við hin- og kynsegin fólk, hræddir við gagn­rýni, hræddir við frelsi og þar með hræddir við fram­far­ir.

Þetta heftir nýsköpun og efna­hags­vanda á helst að leysa með auknum bor­unum eftir jarð­efna­elds­neyti á Norð­ur­slóð­um. Jafn­vel fram­úr­skar­andi þekk­ing á innviðum inter­nets­ins og sam­fé­lags­miðla er nýtt til nið­ur­rifs og nei­kvæðra áhrifa. Meira að segja her­veldið Rúss­land byggir styrk sinn frekar á for­herð­ingu og mis­kunn­ar­leysi, en raun­veru­legri her­kænsku og lagni.

Erfitt að segja hvernig fer, hvort og hvenær muni sjóða upp úr. Þeir sem halda um stjórn­taumana núna ólust upp á tímum Bré­snévs sem sendi and­ófs­menn í Gúlag­ið. Ef þeir halda að hægt sé að hafa stjórn á sam­fé­lag­inu með ógn­ar­stjórn, óeirða­lög­reglu, hand­tökum og fang­els­unum eru þeir lík­lega að mis­reikna stöð­una. Það er því ekki ólík­legt að haldi þessi þróun áfram, þar sem Pútín herðir tök­in, muni sverfa til stáls og tek­ist verði harka­lega á um fram­tíð rúss­nesks sam­fé­lags. Fram­tíðin kemur nefni­lega, sama hversu fast er haldið í for­tíð­ina.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira eftir höfundinnBjarni Bragi Kjartansson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar