Framsóknarflokkurinn hélt flokksþing um helgina sem náði heldur betur athygli þjóðarinnar. Fyrir utan þrumuræðu forsætisráðherra á föstudag, sem var þéttsetin tíðindum, voru margar stefnumarkandi ályktanir samþykktar af þinginu.
Það vekur hins vegar athygli að hluti þeirra ályktanna sem samþykktar voru á flokksþingingu eru beinleiðis í andstöðu við frumvörp og þingsályktunartillögur sem ríkisstjórn flokksins og Sjálfstæðisflokks hefur lagt fram að undanförnu.
Í andstöðu við ríkisfjármálaáætlun
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði til að mynda fram þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016 og 2019 í byrjun þessa mánaðar. Áætlunin er mjög ítarleg og samkvæmt henni er gert ráð fyrir að ríkissjóður skili að minnsta kosti tíu milljarða króna afgangi á næsta ári og að afgangurinn verði orðinn nálægt 40 milljörðum króna árið 2019. Til að ná þessum árangri gerið ríkið meðal annars ráð fyrir að selja eignarhluti sína í fjármálafyrirtækjum, meðal annars 30 prósent hlut í Landsbankanum.
Sá vilji Bjarna kemur raunar einnig fram í frumvarpi til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem dreift var á vef Alþingis 1. apríl síðastliðinn. Samkvæmt því frumvarpi er fjármála- og efnahagsráðherra falið að skipa ráðgjafanefnd sem á að veita honum ráðgjöf um meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og undirbúa sölu og sölumeðferð eignarhluta ríkisins í bönkum. Á flokksþingi Framsóknarflokksins um helgina var hins vegar samþykkt ályktun um að Landsbankinn verði áfram í ríkiseigu og starfi sem samfélagsbanki þar sem markmiðið er ekki að hámarka arðsemi.
Bankabónusar og höft
Flokksþing Framsóknarflokksins samþykkti einnig tillögu Karls Garðarssonar, þingmanns flokksins, um að bónusar í bankakerfinu verði alfarið bannaðir. Afstaða Framsóknarflokksins er í andstöðu við þá stefnu um bónusa í fjármálakerfinu sem mörkuð er í frumvarpi sem Bjarni Benediktsson lagði fram 31. mars síðastliðinn. Samkvæmt frumvarpinu mega bónusgreiðslur ekki verða hærri en 25 prósent af árslaunum starfsmanna í fjármálageiranum.
Þá vakti yfirlýsing Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um stöðugleikaskatt og yfirvofandi skref í átt að losun hafta í ræðu sinni á þinginu mikla athygli. Um var að ræða hugtak sem ekki hefur verið í umræðunni áður, þótt margir telji að um sé að ræða útfærslu á svokölluðum útgönguskatti.
Bjarni Benediktsson skilaði greinarerð um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta 18. mars síðastliðinn. Þar sagði að tvær leiðir væru færar til þess að taka á þeim greiðslujafnaðarvanda sem Ísland stendur frammi fyrir við losun fjármagnshafta. Önnur er sú að eigendur innlendra eigna veiti afslátt á þeim í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri. Hin er sú að tryggja að kvikar eignir, þær sem eru líklegar til að vilja fara út úr íslensku hagkerfi við losun hafta, færist í langtímaeignir. Þar var ekki minnst einu orði á skattlagningu.
Viðbyggingar og sjúkrahús
Raunar hefur fleira sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram undanfarna daga í andstöðu við ríkisfjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar. Þingsályktunartillaga Sigmundar Davíðs um viðbyggingu við Alþingishúsið, byggingu nýrrar Valhallar á Þingvöllum og að gefa þjóðinni nýtt húns undir stofnun Árna Magnússonar í fullveldisafmælisgjöf 1. desember 1918 felur í sér kostnað á annan tug milljarða króna. Ekki er gert ráð fyrir þeim útgjöldum í ríkisfjármálaáætluninni sem Bjarni lét dreifa til þingheims sama dag og þingsályktunartillaga Sigmundar Davíðs var lögð fyrir ríkisstjórnina.
Yfirlýsing Sigmundar Davíðs um að hann vilji kanna hvort skynsamlegt væri að reisa nýtt hátæknissjúkrahús á lóð Ríkisútvarpsins við Efstaleiti, sem hann opinberaði í byrjun apríl, er auk þess í andstöðu við fjárlög ársins 2015, þingsályktun um uppbyggingu nýs Landsspítala og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við verkföll lækna. Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra við RÚV í síðustu viku.
Skrifað var undir yfirlýsinguna vegna kjarasamninga lækna 8. janúar 2015. Einn þeirra þriggja ráðherra sem skrifa undir hana eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.