Árið 2021 var ár íslensku bankanna sem græddu á tá og fingri
Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á gripu Seðlabanki Íslands og stjórnvöld til margháttaðra aðgerða til að gera bönkum kleift að takast á við versnandi efnahagsástand. Þessar aðgerðir hafa spilað lykilhlutverk í stórauknum hagnaði kerfislega mikilvægu bankanna, sem högnuðust meira á fyrstu níu mánuðum ársins en þeir hafa gert innan heils árs frá árinu 2015. Tugir milljarða verða greiddir út til hluthafa í nánustu framtíð.
Árið 2021 var að mörgu leyti ár bankanna. Þeir græddu á tá og fingri og nýttu sér það svigrúm sem stjórnvöld og Seðlabanki Íslands veitti þeim til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum út í ystu æsar.
Eftir að hafa tapað samtals 7,2 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020 enduðu stóru bankarnir þrír með sameiginlegan hagnað upp á 29,8 milljarða króna á öllu síðasta ári.
Arion banki (22,1 milljarður króna), Landsbankinn (21,6 milljarðar króna) og Íslandsbanki (16,6 milljarðar króna) högnuðust svo um samtals 60,3 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2021. Mestur hagnaður féll til á þriðja ársfjórðungi, eða alls 23 milljarðar króna.
Sameiginlegur hagnaður bankanna á þessu níu mánaða tímabili er meiri en hann hefur verið innan heils árs frá árinu 2015.
Aðgerðir yfirvalda skiptu miklu máli
Hvað var gert til að skapa þessar aðstæður? Tvennt má nefna sérstaklega. Annars vegar var svokallaður sveiflujöfnunarauki afnuminn tímabundið í fyrravor. Hann er viðbótarkröfur á eigið fé fjármálafyrirtækja umfram lögbundnar eiginfjárkröfur til að sporna gegn miklum sveiflum í fjármálakerfinu. Ef mikil hætta er á þenslu getur Seðlabankinn hækkað aukann til að koma í veg fyrir of mikinn útlánavöxt, en ef hætta er á samdrætti getur bankinn lækkað aukann til að efla útlánagetu fjármálafyrirtækjanna.
Þegar sveiflujöfnunaraukinn var afnumin í mars í fyrra var það gert til að auka þrótt efnahagslífsins til að takast á við afleiðingar kórónuveirufaraldursins með því að skapa svigrúm til nýrra útlána sem átti að nema allt að 350 milljörðum króna. Þorri þessa svigrúms hefur verið nýtt í að lána til húsnæðiskaupa. En aukið aðgengi að ódýru lánsfé, vegna þess að stýrivextir voru lækkaðir niður í 0,75 prósent, hefur líka haft sitt að segja um hækkun á hlutabréfum. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hefur hækkað um 112 prósent frá því í mars í fyrra.
Á einu ári hafa hlutabréf í Arion banka hækkað um 104 prósent, hlutabréf í Kviku banka um 73 prósent og bréf í Íslandsbanka hafa hækkað um 55 prósent frá því í sumar, þegar hann var skráður á markað. Landsbankinn er ekki skráður á markað.
Fjármálastöðugleikanefnd ákvað í september síðastliðnum að endurvekja sveiflujöfnunaraukann til að auka þrótt kerfislega mikilvægu bankanna þriggja til að lána heimilum og fyrirtækjum. Seðlabankinn hóf svo vaxtahækkunarferli í vor og nú eru stýrivextir komnir í tvö prósent.
Ríkið gaf eftir milljarðatekjur
Hins vegar var bankaskattur lækkaður hraðar en áður var stefnt að, úr 0,376 í 0,145 prósent á heildarskuldir þeirra banka sem skulda yfir 50 milljarða króna. Alls borga fimm fjármálafyrirtæki skattinn en þorra hans greiða stóru bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki.
Síðasta ríkisstjórn, sem nú hefur endurnýjað samstarf sitt, hafði lengi stefnt að því að lækka skattinn, sem hafði skilað ríkissjóði miklum tekjum í kjölfar bankahrunsins, fyrst með að leggjast af krafti á þrotabú föllnu bankanna og síðan með því að leggjast á starfandi íslenska viðskiptabanka.
Í kjölfar kórónuveirufaraldursins var lækkuninni flýtt og gjaldhlutfallið var fært niður í 0,145 prósent vegna skulda í árslok 2020. Hún kom því öll til framkvæmda í fyrra í stað þess að verða í skrefum á fjórum árum.
Fyrir vikið lækkaði álagður bankaskattur sem ríkissjóður lagði á bankana um 6,1 milljarð króna vegna ársins 2020 og var 4,8 milljarðar króna. Það er lækkun upp á 56,2 prósent.
Áætlað er að hann verði 4,8 milljarðar króna í ár og tæplega 5,3 milljarðar króna á næsta ári.
Skörp lækkun bankaskattsins, hefur ekki skilað því að vaxtamunur banka hafi lækkað sem neinu nemur en spilað inn í miklar hækkanir á virði hlutabréfa í þeim bönkum sem skráðir eru á markað.
Hafa tvöfaldast að stærð
Eigið fé bankanna þriggja, sem voru stofnsettir á grunni fallinna fyrirrennara sinna haustið 2008, hefur vaxið mikið. Það var samanlagt tæplega 300 milljarðar króna árið 2008 en var komið upp í rúmlega 667 milljarða króna samanlagt í lok september síðastliðins. Á mannamáli þýðir það að bankarnir eru rúmlega tvisvar sinnum stærri nú en þeir voru við stofnun.
Erfitt er hins vegar að horfa einungis á krónur þegar rýnt er í hagnaðartölur kerfislega mikilvægu bankanna hérlendis. Taka verður tillit til þess að þeir högnuðust að stóru leyti áður á eignasölu og betri endurheimtum á lánum.
Tekjur bankanna á þessu ári eru allt annars eðlis. Þær falla annars vegar til vegna aukinna vaxta- og þóknanatekna og hins vegar til vegna þess að varúðarniðurfærslur á lánum fyrirtækja sem lentu í vanda eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á hafa verið dregnar að hluta til baka. Þar hafa aðgerðir stjórnvalda og seðlabanka til að örva efnahagskerfið í kjölfar kórónuveirukreppunnar skipt miklu máli. Þær hafa leitt til mikilla verðhækkana á húsnæðismarkaði vegna stóraukinnar eftirspurnar, aðallega vegna þess að vextir voru lækkaðir skarpt. Þá hefur hlutabréfaverð rúmlega tvöfaldast frá því í mars í fyrra.
Arðsemi eigin fjár mjög mikil
Einn mælikvarði sem er notaður til að mæla árangur banka er arðsemi eigin fjár. Þangað til í ár var hún hæst á árunum 2010 og 2016 (tæplega 16 prósent að meðaltali hjá öllum þremur bönkum). Í ár stefnir hún í að vera sú hæsta í mörg ár. Á fyrstu níu mánuðum ársins var arðsemi eigin fjár hjá Landsbankanum 10,9 prósent, hjá Íslandsbanka 11,7 prósent og hjá Arion banka heil 15,2 prósent. Allt er þetta yfir markmiðum bankanna.
Þegar horft er á síðasta birta ársfjórðung, sem hófst í byrjun júlí og lauk í lok september, er arðsemin enn hærri. Hjá Arion banka var arðsemin 17 prósent, hjá Íslandsbanka 15,7 prósent og hjá Landsbankanum ellefu prósent. Það er ekki langt frá bestu árum bankanna eftir hrun.
Tímabil hárra arðgreiðslna og mikilla endurkaupa runnið upp
Íslandsbanki var skráður á markað í sumar þegar ríkið seldi 35 prósent af hlut sínum í honum. Stefna ríkisstjórnarinnar er að selja restina af eignarhlut sínum á næstu tveimur árum.
Yfirlýst markmið bankans er að greiða út 50 prósent af hagnaði hvers árs í formi hefðbundinna arðgreiðslna. Þá ætlar hann auk þess að nýta umfram eigið fé bankans til frekari arðgreiðslna eða kaupa á eigin bréfum.
Sá kerfislega mikilvægu bankanna sem hefur leitt útgreiðslur til hluthafa sinna á því tímabili sem liðið er frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á er hins vegar Arion banki. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 greiddi Arion banki 25,5 milljarða króna til hluthafa sinna í formi arðs upp á 2,9 milljarða króna með endurkaupum á eigin bréfum þeirra upp á 22,7 milljarða króna.
Bankinn hefur þegar tilkynnt að hann ætli að kaupa eigin bréf af hluthöfum fyrir tíu milljarða króna á síðustu þremur mánuðum ársins og greiða þeim 11,3 milljarða króna í arð. Það þýðir að frá byrjun árs og með þeim arð- og endurkaupagreiðslum sem hann hefur þegar ákveðið mun Arion banki skila 46,8 milljörðum króna til hluthafa sinna.
Í kynningu á markaðsdegi Arion banka, sem fór fram í nóvember, kom fram að von sé á meiru. Miðað við markmið Arion banka um hvert eiginfjárhlutfall hans ætti að vera telja stjórnendur bankans hægt að losa um 30,1 milljarð króna til viðbótar til hluthafa án þess að fara niður fyrir þau mörk. Ef salan á greiðslumiðlunarfyrirtækinu Valitor til ísraelska fyrirtækisins Rapyd, sem ákveðin var í sumar, verður samþykkt af Samkeppniseftirlitinu eiga að losna á bilinu átta til ellefu milljarðar króna til viðbótar sem hægt yrði að greiða út til hluthafa.
Því er ljóst að ef áform Arion banka um arðgreiðslur og endurkaup frá byrjun síðasta árs og þangað til að hlutfall eiginfjárþáttar 1 hjá bankanum er komið niður í 17 prósent ganga eftir, og Samkeppniseftirlitið heimilar söluna á Valitor, munu hluthafar hans fá um 84,9 til 87,9 milljarða króna út úr honum frá byrjun árs 2020 og þar til þessu útgreiðsluferli er lokið.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi