Umhverfisvitund Íslendinga virðist vera að aukast, að minnsta kosti ef aðeins er tekið tillit til umfangs fatasóunar. Hver Íslendingur henti að meðaltali 11,5 kílóum af textíl og skóm á síðasta ári, sem er 3,5 kílóum minna en árið 2016 þegar hver Íslendingur henti að meðaltali 15 kílóum af fötum og textíl á ári.
Enn er töluvert í að markmið stjórnvalda náist, að hver íbúi hendi að meðaltali tíu kílóum á ári. Á sama tíma eru föt, skór og fylgihlutur vinsælasti vöruflokkur í netverslun Íslendinga.
Kjarninn fjallaði um fatasóun og ýmsar hliðar hennar á árinu sem er að líða, hér má sjá það helsta:
Kínverski tískurisinn Shein:
Rakel Guðmundsdóttir fjallaði um kínverska tískurisann Shein í ítarlegri fréttaskýringu í sumar. Shein hefur tekist að endurskilgreina hugtakið hraðtíska. Raunar er ekki lengur hægt að tala um hraðtísku. Réttara er að tala um háhraðatísku.
Shein var stofnaði árið 2008 og hét þá SheInside og ku aðallega hafa selt brúðarkjóla. Árið 2012 breytti eigandinn, Chris Xu, áherslum fyrirtækisins og byrjaði að selja tískufatnað fyrir unglingsstúlkur og breytti síðar nafninu í Shein (borið fram she-in). Chris Xu var enginn sérstakur tískufrömuður en hann sérhæfði sig í leitarvélabestun (e. search engine optimization) og er tæknimiðuð nálgun í markaðssetningu talin ein helsta ástæða þess hvað fyrirtækið hefur vaxið hratt.
Fötin sem Shein selur eru framleidd við slæmar vinnuaðstæður og hafa umhverfissinnar bent á að þau séu úr svo litlum gæðum að oft séu þau aðeins notuð í eitt skipti, mögulega til að ná góðri mynd á Instagram, áður en þau enda í ruslinu.
Fatasóun á Íslandi:
Í haust greindi Kjarninn frá því að dregið hefur úr fatasóun Íslendinga síðustu fimm ár eftir öran vöxt fimm árin þar á undan. Í fyrra henti hver íbúi að meðaltali 11,5 kílóum af textíl og skóm yfir árið, sem er 3,5 kílóum minna en árið 2016 þegar fatasóun náði hápunkti.
Árið 2016 innleiddi umhverfisráðuneytið, nú umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, almenna stefnu um úrgangsforvarnir. Yfirskrift stefnunnar er Saman gegn sóun og í henni er lögð áhersla á nægjusemi, betri nýtni og minni sóun ásamt því að auka fræðslu til að koma í veg fyrir myndun úrgangs. Enn er töluvert í að markmið stjórnvalda náist, að hver íbúi hendi að meðaltali tíu kílóum á ári.
Á sama tíma og fatasóun minnkar örlítið sækir netverslun á fatnaði í sig veðrið og eru föt, skór og fylgihlutir stærsti vöruflokkurinn samkvæmt netverslanapúlsi Prósents, auk þess sem 11 prósent landsmanna gera ráð fyrir að versla meira á netinu næstu 12 mánuði.
Vinsældir erlendra tískurisa á Íslandi:
Í framhaldi af umfjöllun um fatasóun beindi Kjarninn sjónum sínum að netverslun. Aðeins fimm Evrópuþjóðir aðrar en Íslendingar versla meira á netinu. Föt, skór og fylgihlutir er vinsælasti vöruflokkurinn, jafnt í Evrópu og á Íslandi, og hér á landi er Boozt lang vinsælasta netverslunin í þeim flokki með 38 prósent hlutdeild.
Shein hefur sótt í sig veðrið í netverslun á Íslandi og er með átta prósent hlutdeild í netverslun Íslendinga á fatnaði í erlendum netverslunum.
Rauði krossinn og Hringekjan taka fatnað frá Shein úr sölu:
Shein komst í fréttirnar á árinu vegna eiturefna í flíkum sem fyrirtækið framleiðir. Rannsóknir hafa sýnt að vörur frá Shein innihalda skaðleg efni. Af þeim vörum sem rannsakaðar voru innihélt ein vara af hverjum fimm umtalsvert magn eiturefna, meðal annars blý, PFAS og þalöt.
Í kjölfar umfjöllunar Kjarnans um fatasóun, Shein og áhuga Íslendinga á fatakaupum á netinu af erlendum tískurisum ákvað hringrásarverslunin Hringekjan, þar sem básaleigjendum gefst kostur á að selja notuð föt, að taka allar vörur frá tískurisanum Shein úr endursölu vegna magns eiturefna í flíkunum.
Nokkrum dögum seinna sendi Rauði krossinn frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að héðan í frá verði allt gert til að forðast að vörur frá Shein endi í fataverslunum Rauða krossins. Flíkum frá Shein á samt sem áður að skila í fatasöfnunargáma Rauða krossins.
Kjarninn fjallaði í kjölfarið um örlög hraðtískuflíka sem koma til Íslands frá Kína. Flíkum frá Shein sem er skilað í fatasöfnunargáma Rauða krossins enda hjá endurvinnsluaðila í Þýskalandi, þar sem óljóst er hvort magn eiturefna í flíkunum hafi áhrif á endurvinnslu þeirra.
Shein lofar bót og betrun:
Shein hefur ekki brugðist við umfjöllum um eiturefni í flíkum en lofar bót og betrun á öðrum sviðum. Kínverska fatafyrirtækið viðurkennir að hafa brotið gegn reglum um vinnutíma og heitir því að verja 15 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um tveimur milljörðum króna, í að bæta vinnuaðstæður starfsmanna í fataverksmiðjum sem framleiða fatnað sem Shein selur.
En það er stórt en. Shein viðurkennir aðeins að hafa brotið gegn reglum um vinnutíma í tveimur verksmiðjum af mörg þúsund sem fyrirtækið á í viðskiptum við.
Shein viðurkenndi brotin eftir að starfsfólk í tveimur verksmiðjum steig fram í bresku heimildarmyndinni Inside the Shein Machine: UNTOLD og greindu frá gríðarlöngum vinnudögum og fáum, ef einhverjum, frídögum.
Shein fullyrðir að tveggja milljarða króna fjárfestingaráætlun fyrirtækisins sem snýr að bættum vinnuaðstæðum starfsfólk sem framleiðir flíkur tískurisans muni ná til mörg hundruð verksmiðja á næstu þremur til fjórum árum.
Adam Winston, yfirmaður umhverfis- og samfélagsmála hjá Shein á heimsvísu segir fyrirtækið hafa unnið markvisst að áætlun um upprunaábyrgðir (e. responsible sourcing programme) til að bæta velferð og vinnuaðstæður starfsfólks sem framleiðir vörur Shein.
Shein hefur einnig komið á fót kerfi sem gerir starfsfólki fataverksmiðjanna kleift að senda inn nafnlausar ábendingar eða kvartanir með tölvupósti, símtali eða í gegnum WeChat. „Það er hluti af áætlun okkar til að sinna eftirliti og viðhalda réttindum starfsfólks,“ segir Winston.