Ásmundur Einar tekur við málarekstri Lilju gegn Hafdísi
Ásmundur Einar Daðason, nýr mennta- og barnamálaráðherra Framsóknarflokksins, hefur fengið í fangið mál sem varðar brot forvera hans í embætti og samflokkskonu, Lilju Alfreðsdóttur, gegn jafnréttislögum. Það bíður hans að taka ákvörðun um hvort málarekstur gegn konunni sem leitaði réttar síns haldi áfram fyrir Landsrétti.
Forræði yfir málarekstrinum sem Lilja Alfreðsdóttir fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra stofnaði til gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, umsækjanda um starf ráðuneytisstjóra í ráðuneytinu, færðist í kjölfar þess að ný ríkisstjórn var mynduð til Ásmundar Einars Daðasonar, nýs mennta- og barnamálaráðherra.
Þetta kemur fram í svari frá stjórnarráðinu við fyrirspurn Kjarnans um málið, en þar segir að málaforræðið verði hjá Ásmundi Einari þar sem hann fari samkvæmt nýrri verkaskiptingu ríkisstjórnarinnar með skipulag og starfsmannahald mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Það er því ljóst að það verður hans að taka ákvörðun um hvort halda skuli áfram með málareksturinn fyrir Landsrétti eða sætta sig við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu. Kjarninn hefur sent fyrirspurn til Ásmundar um hvað hann hyggist gera, en svar hefur ekki borist.
Ráðherra stefndi borgara sem leitaði réttar síns samkvæmt lögum
Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu í mars 2020 að Lilja hefði brotið gegn jafnréttislögum við skipan Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra árið 2019. Niðurstaðan fól í sér að Lilja, eða öllu heldur hæfisnefnd sem starfaði í hennar umboði, hefði vanmetið Hafdísi Helgu í samanburði við Pál. Hæfisnefndin hafði reyndar ekki talið Hafdísi Helgu í hópi þeirra fjögurra sem hæfust voru talin í starfið.
Lilja ákvað í kjölfar þessarar niðurstöðu að reyna að fá úrskurðinum hnekkt, en til þess að gera það þurfti hún að höfða mál gegn Hafdísi Helgu persónulega. Það vakti nokkra furðu. Lögmaður Hafdísar Helgu, Áslaug Árnadóttir, sagði að sú ákvörðun hefði komið á óvart. „Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert áður, að ráðherra hafi höfðað mál persónulega gegn aðila sem kærir ákvörðun ráðherra til kærunefndarinnar,“ sagði hún við RÚV þann 24. júní 2020.
Ákvörðun Lilju um að stefna Hafdísi Helgu til að fá úrskurðinum hnekkt byggðist á lögfræðiálitum sem ráðherrann aflaði sér eftir að niðurstaða kærunefndarinnar lá fyrir. Þau voru sögð benda til lagalegra annmarka í úrskurði kærunefndarinnar. Kjarninn óskaði eftir þessum lögfræðiálitum frá ráðuneytinu sama dag og ljóst var að málið stefndi fyrir dómstóla, en þau reyndist ómögulegt að fá.
Héraðsdómur staðfesti úrskurð kærunefndarinnar – Lilja kaus að áfrýja
Málið var tekið fyrir hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, sem kvað upp þann dóm 5. mars 2021 að ekki væri tilefni til að fallast á kröfu ráðherra um að ógilda úrskurð kærunefndar jafnréttismála. Íslenska ríkið var dæmt til þess að greiða 4,5 milljónir króna vegna málskostnaðar Hafdísar Helgu, en samdægurs tilkynnti Lilja að málinu yrði áfrýjað.
Hún tjáði sig þó ekki frekar um málið fyrr en 9. mars og sagði þá að ákvörðun hennar um að áfrýja byggði á lögfræðiálitunum sem aflað hefði verið og undirbyggðu málsókninna fyrir héraðsdómi. Í þeim hefði komið fram að kærunefnd jafnréttismála hefði ekki rökstutt með fullnægjandi hætti hvernig kæranda var mismunað á grundvelli kynferðis.
Ákvörðun um áfrýjun var tekin á fundi Lilju með tveimur pólitískum aðstoðarmönnum sínum og lögmönnunum Víði Smára Petersen og Guðjóni Ármannssyni, sem sömdu lögfræðiálitin sem undirbyggðu málareksturinn.
Aðalmeðferð í málinu fór fram í lok janúar. Í umfjöllun Fréttablaðsins úr dómsal kom fram að lögmaður íslenska ríkisins hefði sagt Pál hafa staðið sig betur í atvinnuviðtali sínu og ekki væri hægt að líta fram hjá huglægu mati hæfisnefndar og ráðherra um leiðtogahæfni hans.
Hafdís taldi hinsvegar að hæfisnefndin hefði gert lítið úr reynslu hennar í opinberri stjórnsýslu og rangt hefði verið farið með hversu lengi hún starfaði hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Hafdís Helga hefur starfað í opinberri stjórnsýslu í 25 ár, verið forstöðumaður nefndarsviðs Alþingis, skrifstofustjóri í tveimur ráðuneytum og aðallögfræðingur bæði Alþingis og Samkeppniseftirlitsins.
„Hún starfaði við opinbera stjórnsýslu,“ sagði um Hafdísi í umsögn hæfisnefndar. Um Pál sagði nefndin: „Hann hefur langa reynslu við ábyrgðarmikil stjórnsýsluverkefni,“ en Páll er með meistarapróf í opinberri stjórnsýslu og hefur starfað sem bæjarritari hjá Kópavogsbæ og sem aðstoðarmaður ráðherra. Hafdís Helga taldi þetta mikinn blæbrigðamun, samkvæmt frétt Fréttablaðsins.
Kostnaður ríkisins við rekstur málsins fyrir héraðsdómi nam alls 8,7 milljónum króna. Áætlað var að kostnaður vegna áfrýjunar til Landsréttar verði á bilinu 900 þúsund krónur til 1,2 milljónir króna án virðisaukaskatts.
Því má ætla að kostnaðurinn verði í kringum tíu milljónir króna, ef Ásmundur Einar Daðason ákveður að halda málinu til streitu, en það er óljóst, sem áður segir.
Pólitískt hitamál
Hvernig sem málinu vindur fram er þó allavega ljóst að það verður áfram í höndum ráðherra Framsóknarflokksins. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður flokksins hefur sagt að hann hafi stutt þá ákvörðun Lilju, sem er varaformaður Framsóknar, að reyna að fá úrskurðinum hnekkt.
Pólitískir andstæðingar flokksins hafa á móti gagnrýnt harðlega hvernig á málinu hefur verið haldið og þess er skemmst að minnast er það neistaði á milli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar og Sigurðar Inga í síðustu sjónvarpskappræðum RÚV fyrir kosningarnar í september.
Þorgerður Katrín sagði fullum fetum við Sigurð Inga, er hún gagnrýndi flokkinn fyrir jafnréttismál, að flokkurinn hefði ráðist á konu og misbeitt valdi.
Svona voru orðaskiptin þeirra á milli í sjónvarpskappræðum:
Sigurður Ingi: „Þetta er bara ekki rétt.“
Þorgerður Katrín: „Það er bara þannig, þið hafið ráðist á konu, skilið hana [eftir] úti á berangri og ég ætla að leyfa mér að fá að standa með henni en ekki hvernig því þið beitið og misbeitið valdi. Fyrirgefið þetta.“
Sigurður Ingi: „Þú veist að þetta er bara ósvífni.“
Þorgerður Katrín: „Nei, þetta er ekki ósvífni. Þetta er hvernig þið umgangist vald og ekki síst þegar kemur að jafnréttismálum.“
Sigurður Ingi: „Þetta er rangt.“
Þrátt fyrir gagnrýni á pólitíska sviðinu – og dvínandi trausts almennings til Lilju samkvæmt mælingum – var þó ekki að sjá að málið hefði skaðað Framsóknarflokkinn í kosningunum í september, en þar stóð hann uppi sem nokkuð ótvíræður sigurvegari og hefur komist til aukinna áhrifa í nýrri ríkisstjórn Framsóknar, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars