Mynd: Bára Huld Beck Kosningavaka Framsóknar 25. september 2021
Ásmundur Einar Daðason mun taka við málinu gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur af Lilju Alfreðsdóttur. Hér eru þau saman á kosningavöku Framsóknarflokksins í september.
Mynd: Bára Huld Beck

Ásmundur Einar tekur við málarekstri Lilju gegn Hafdísi

Ásmundur Einar Daðason, nýr mennta- og barnamálaráðherra Framsóknarflokksins, hefur fengið í fangið mál sem varðar brot forvera hans í embætti og samflokkskonu, Lilju Alfreðsdóttur, gegn jafnréttislögum. Það bíður hans að taka ákvörðun um hvort málarekstur gegn konunni sem leitaði réttar síns haldi áfram fyrir Landsrétti.

For­ræði yfir mála­rekstr­inum sem Lilja Alfreðs­dóttir fyrr­ver­andi mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra stofn­aði til gegn Haf­dísi Helgu Ólafs­dótt­ur, umsækj­anda um starf ráðu­neyt­is­stjóra í ráðu­neyt­inu, færð­ist í kjöl­far þess að ný rík­is­stjórn var mynduð til Ásmundar Ein­ars Daða­son­ar, nýs mennta- og barna­mála­ráð­herra.

Þetta kemur fram í svari frá stjórn­ar­ráð­inu við fyr­ir­spurn Kjarn­ans um mál­ið, en þar segir að málafor­ræðið verði hjá Ásmundi Ein­ari þar sem hann fari sam­kvæmt nýrri verka­skipt­ingu rík­is­stjórn­ar­innar með skipu­lag og starfs­manna­hald mennta- og menn­ing­ar­mála­ráðu­neyt­is­ins.

Það er því ljóst að það verður hans að taka ákvörðun um hvort halda skuli áfram með mála­rekst­ur­inn fyrir Lands­rétti eða sætta sig við nið­ur­stöðu Hér­aðs­dóms Reykja­víkur í mál­inu. Kjarn­inn hefur sent fyr­ir­spurn til Ásmundar um hvað hann hygg­ist gera, en svar hefur ekki borist.

Ráð­herra stefndi borg­ara sem leit­aði réttar síns sam­kvæmt lögum

Kæru­nefnd jafn­rétt­is­mála komst að þeirri nið­ur­stöðu í mars 2020 að Lilja hefði brotið gegn jafn­rétt­islögum við skipan Páls Magn­ús­sonar í emb­ætti ráðu­neyt­is­stjóra árið 2019. Nið­ur­staðan fól í sér að Lilja, eða öllu heldur hæf­is­nefnd sem starf­aði í hennar umboði, hefði van­metið Haf­dísi Helgu í sam­an­burði við Pál. Hæf­is­­­nefndin hafði reyndar ekki talið Haf­­­dísi Helgu í hópi þeirra fjög­­­urra sem hæfust voru talin í starf­ið.

Lilja ákvað í kjöl­far þess­arar nið­ur­stöðu að reyna að fá úrskurð­inum hnekkt, en til þess að gera það þurfti hún að höfða mál gegn Haf­dísi Helgu per­sónu­lega. Það vakti nokkra furðu. Lög­­­maður Haf­­dísar Helgu, Áslaug Árna­dótt­ir, sagði að sú ákvörðun hefði komið á óvart. „Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert áður, að ráð­herra hafi höfðað mál per­­­són­u­­­lega gegn aðila sem kærir ákvörðun ráð­herra til kæru­­­nefnd­­­ar­inn­­­ar,“ sagði hún við RÚV þann 24. jún­í 2020.

Ákvörðun Lilju um að stefna Haf­­dísi Helgu til að fá úrskurð­inum hnekkt byggð­ist á lög­­fræð­i­á­litum sem ráð­herr­ann afl­aði sér eftir að nið­­ur­­staða kæru­­nefnd­­ar­innar lá fyr­­ir. Þau voru sögð benda til laga­­legra ann­­marka í úrskurði kæru­­nefnd­­ar­inn­­ar. Kjarn­inn óskaði eftir þessum lög­­fræð­i­á­litum frá ráðu­­neyt­inu sama dag og ljóst var að málið stefndi fyrir dóm­stóla, en þau reynd­ist ómög­u­­legt að fá.

Hér­aðs­dómur stað­festi úrskurð kæru­nefnd­ar­innar – Lilja kaus að áfrýja

Málið var tekið fyrir hjá Hér­aðs­dómi Reykja­vík­ur, sem kvað upp þann dóm 5. mars 2021 að ekki væri til­efni til að fall­ast á kröfu ráð­herra um að ógilda úrskurð kæru­nefndar jafn­rétt­is­mála. Íslenska ríkið var dæmt til þess að greiða 4,5 millj­ónir króna vegna máls­kostn­aðar Haf­dísar Helgu, en sam­dæg­urs til­kynnti Lilja að mál­inu yrði áfrýj­að.

Hún tjáði sig þó ekki frekar um málið fyrr en 9. mars og sagði þá að ákvörðun hennar um að áfrýja byggði á lög­fræði­á­lit­unum sem aflað hefði verið og und­ir­byggðu mál­sókn­inna fyrir hér­aðs­dómi. Í þeim hefði komið fram að kæru­­nefnd jafn­­rétt­is­­mála hefði ekki rök­­stutt með full­nægj­andi hætti hvernig kær­anda var mis­­munað á grund­velli kyn­­ferð­is­.

Ákvörðun um áfrýjun var tekin á fundi Lilju með tveimur póli­tískum aðstoð­ar­mönnum sínum og lög­­­mönn­unum Víði Smára Pet­er­­sen og Guð­jóni Ármanns­­syni, sem sömdu lög­fræði­á­litin sem und­ir­byggðu mála­rekst­ur­inn.

Aðal­með­ferð í mál­inu fór fram í lok jan­ú­ar. Í umfjöllun Frétta­­blaðs­ins úr dóm­­sal kom fram að lög­­­maður íslenska rík­­is­ins hefði sagt Pál hafa staðið sig betur í atvinn­u­við­tali sínu og ekki væri hægt að líta fram hjá hug­lægu mati hæf­is­­nefndar og ráð­herra um leið­­toga­hæfni hans.

Haf­­dís taldi hins­­vegar að hæf­is­­nefndin hefði gert lítið úr reynslu hennar í opin­berri stjórn­­­sýslu og rangt hefði verið farið með hversu lengi hún starf­aði hjá fjár­­­mála- og efna­hags­ráðu­­neyt­inu. Haf­­dís Helga hefur starfað í opin­berri stjórn­­­sýslu í 25 ár, verið for­­stöð­u­­maður nefnd­­ar­sviðs Alþing­is, skrif­­stofu­­stjóri í tveimur ráðu­­neytum og aðal­­lög­fræð­ingur bæði Alþingis og Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins.

„Hún starf­aði við opin­bera stjórn­­­sýslu,“ sagði um Haf­­dísi í umsögn hæf­is­­nefnd­­ar. Um Pál sagði nefnd­in: „Hann hefur langa reynslu við ábyrgð­­ar­­mikil stjórn­­­sýslu­verk­efn­i,“ en Páll er með meist­­ara­­próf í opin­berri stjórn­­­sýslu og hefur starfað sem bæj­­­ar­­rit­­ari hjá Kópa­vogsbæ og sem aðstoð­­ar­­maður ráð­herra. Haf­­dís Helga taldi þetta mik­inn blæ­brigða­mun, sam­­kvæmt frétt Frétta­­blaðs­ins.

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra.
Bára Huld Beck

Kostn­að­­ur­ rík­is­ins við rekstur máls­ins fyrir hér­­aðs­­dómi nam alls 8,7 millj­­ónum króna. Áætlað var að kostn­aður vegna áfrýj­unar til Lands­réttar verði á bil­inu 900 þús­und krónur til 1,2 millj­­ónir króna án virð­is­auka­skatts.

Því má ætla að kostn­að­­ur­inn verði í kringum tíu millj­­ónir króna, ef Ásmundur Einar Daða­son ákveður að halda mál­inu til streitu, en það er óljóst, sem áður seg­ir.

Póli­tískt hita­mál

Hvernig sem mál­inu vindur fram er þó alla­vega ljóst að það verður áfram í höndum ráð­herra Fram­sókn­ar­flokks­ins. Sig­urður Ingi Jóhanns­son for­maður flokks­ins hefur sagt að hann hafi stutt þá ákvörðun Lilju, sem er vara­for­maður Fram­sókn­ar, að reyna að fá úrskurð­inum hnekkt.

Póli­tískir and­stæð­ingar flokks­ins hafa á móti gagn­rýnt harð­lega hvernig á mál­inu hefur verið haldið og þess er skemmst að minn­ast er það neist­aði á milli Þor­gerðar Katrínar Gunn­ars­dóttur for­manns Við­reisnar og Sig­urðar Inga í síð­ustu sjón­varp­s­kapp­ræðum RÚV fyrir kosn­ing­arnar í sept­em­ber.

Þor­gerður Katrín sagði fullum fetum við Sig­urð Inga, er hún gagn­rýndi flokk­inn fyrir jafn­rétt­is­mál, að flokk­ur­inn hefði ráð­ist á konu og mis­beitt valdi.

Svona voru orða­skiptin þeirra á milli í sjón­varp­s­kapp­ræð­um:

Sig­urður Ingi: „Þetta er bara ekki rétt.“

Þor­gerður Katrín: „Það er bara þannig, þið hafið ráð­ist á konu, skilið hana [eft­ir] úti á ber­angri og ég ætla að leyfa mér að fá að standa með henni en ekki hvernig því þið beitið og mis­beitið valdi. Fyr­ir­gefið þetta.“

Sig­urður Ingi: „Þú veist að þetta er bara ósvífn­i.“

Þor­gerður Katrín: „Nei, þetta er ekki ósvífni. Þetta er hvernig þið umgang­ist vald og ekki síst þegar kemur að jafn­rétt­is­mál­u­m.“

Sig­urður Ingi: „Þetta er rang­t.“

Þrátt fyrir gagn­rýni á póli­tíska svið­inu – og dvín­andi trausts almenn­ings til Lilju sam­kvæmt mæl­ingum – var þó ekki að sjá að málið hefði skaðað Fram­sókn­ar­flokk­inn í kosn­ing­unum í sept­em­ber, en þar stóð hann uppi sem nokkuð ótví­ræður sig­ur­veg­ari og hefur kom­ist til auk­inna áhrifa í nýrri rík­is­stjórn Fram­sókn­ar, Vinstri grænna og Sjálf­stæð­is­flokks.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar