Allt frá því á sjötta áratug síðustu aldar hefur eitt frægasta listaverk listasögunnar, sjálf Móna Lísa, verið sýnd á bak við skothelt gler og ekki að ástæðulausu. Úr glerbúri sínu horfir hún kankvís á milljónir gesta sem vitja hennar í Louvre en ekkert safn fær fleiri gesti í heimsókn ár hvert. Á hverjum degi safnast fólk saman í biðröð til þess að skoða verkið. Hægt og rólega þokast gestirnir nær og nær þar til þeir standa loks frammi fyrir myndinni, eða svona hér um bil, enda sér lítið grindverk til þess að gestir komi ekki of nálægt þessu meistaraverki Leonardos. Gestir þurfa því að standa í smá fjarlægð frá málverkinu sem telst ekki stórt, um 77 sinnum 53 sentímetrar að stærð. Til samanburðar er snilldarverk feneyska listmálarans Brúðkaupið í Kana á gagnstæðum vegg 677 sinnum 994 sentímetrar að stærð – að vísu er það með stærstu málverkum í safneign Louvre. Það er því algengt að gestir berji Mónu Lísu ansi pírðum augum þegar þeir eru loksins komnir fremst í röðina.
Svo eru það aðrir sem vilja berja á listaverkinu, líkt og einn þeirra gesta sem heimsótti Louvre á dögunum. Að sögn sjónarvotta spratt ungur karlmaður, í dulargervi gamallar konu, upp úr hjólastól og lét höggin dynja á glerkassanum. Hann gafst að lokum upp á því, enda glerið skotheld og tók því til þeirra ráða að maka á það köku. Þegar hann var leiddur út af öryggisvörðum í kjölfarið kallaði hann yfir áhorfendaskarann að mannfólkið væri að eyðileggja jörðina, þess vegna hefði hann gert það sem hann gerði.
Varð heimsfræg eftir þjófnað
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Móna Lísa verður fyrir árás. Raunar má rekja heimsfrægð hennar til fólskuverks sem framið var árið 1911. Þá voru að vísu engar skemmdir unnar á myndinni, heldur var henni stolið af Louvre af þremur Ítölum undir forystu Vincenzo Peruggia. Mennirnir þrír höfðu falið sig í skáp inni á safninu og dvalið þar yfir nótt. Um morguninn laumuðust þeir út úr skápnum, náðu í málverk Leonardos og höfðu sig á brott.
Í umfjöllun NPR um stuldinn segir að Móna Lísa hafi ekki verið mjög þekkt nema hjá þeim sem störfuðu innan listheimsins. Á ofanverðri 19. öld höfðu gagnrýnendur fyrst farið að tala um Mónu Lísu sem meistaraverk og sú skoðun náði ekki út fyrir raðir menntafólks í Frakklandi og annarra sérfræðinga. Fregnir af stuldinum fóru eins og eldur um sinu og stórblöð um víða veröld sögðu frá leitinni að Mónu Lísu.
Alls kyns sögusagnir fóru á kreik. Til dæmis beindust spjótin á einum tímapunkti að bandaríska viðskiptajöfrinum J.P. Morgan en hann hafði mikinn áhuga á franskri list. Pablo Picasso var líka kallaður til yfirheyrslu, grunaður um að hafa átt aðild að stuldinum. Á þessum tímapunkti ríkti mikil spenna í samskiptum milli Frakka og Þjóðverja og fólk talaði jafnvel um að menn á vegum Vilhjálms II Þýskalandskeisara hefðu stolið verkinu. Peruggia og hans menn voru hólpnir, í það minnsta í bili.
Rúmum tveimur árum eftir að Ítalirnir stálu Mónu Lísu úr Louvre reyndi Peruggia loks að koma málverkinu í verð. Hann var þá kominn alla leið suður til Flórens og þar reyndi hann að selja listaverkasala Mónu Lísu. Upp komst um Peruggia og hann var í kjölfarið handtekinn. Hann bar fyrir sig ættjarðarást, sagðist einungis hafa ætlað að endurheimta Mónu Lísu frá Frakklandi og koma henni aftur heim til Ítalíu. Við dómsuppkvaðningu játaði Peruggia sig sekan og fékk átta mánaða fangelsisdóm. Móna Lísa hafði á þessum rúmu tveimur árum öðlast heimsfrægð og henni var mikið fagnað við heimkomuna til Louvre safnsins í París.
Notuð til að koma skilaboðum á framfæri
Heimsfræg listaverk eru gjarnan lánuð á sýningar í öðrum söfnum og geta slík ferðalög oft orðið löng ef um farandsýningar er að ræða. Það heyrir aftur á móti til algjörra undantekninga að Móna Lísa sé lánuð af Louvre. Samkvæmt upplýsingum um listaverkið á heimasíðu Louvre hefur Móna Lísa einungis tvívegis lagt land undir fót eftir að hún komst aftur á sinn stað í safninu.
Í þeirri fyrri heimsótti Móna Lísa Bandaríkjanna vegna farandsýningar sem sett var upp árið 1963 í National Gallery of Art í Washington og í Metropolitan safninu í New York. Seinna ferðalag Mónu Lísu var einnig vegna farandsýningar sem sett var upp rúmum tíu árum síðar, árið 1974. Á því ferðalagi staldraði hún við í þjóðarlistasafni Japana í Tókýó og í Púsjkin safninu í Sankti Pétursborg.
Á fyrsta sýningardegi í Tókýó reyndi einn sýningargesta, 25 ára gömul kona, að skemma listaverkið með rauðri sprautumálningu. Það gerði hún í mótmælaskyni vegna slæms aðgengis fatlaðs fólks að listasafninu á meðan á sýningunni stóð. Aðgerðarsinnar höfðu í aðdraganda sýningarinnar mótmælt slæmu aðgengi fyrir fatlað fólk að safninu og sagt safnið mismuna fötluðu fólki. Þegar sýningin opnaði og ekkert hafði verið gert til að bæta aðgengið tók konan, Tomoko Yonezu, málin í sínar hendur með úðabrúsa að vopni. Hún náði að úða málningu á glerið sem skildi að Mónu Lísu og áhorfendur en verkið sjálft varð ekki fyrir neinum skemmdum.
Grjót, rakvélarblað og postulín
Áður en til þessara ferðalaga kom hafði Móna Lísa í nokkur ár verið höfð til sýnis á bakvið skothelt gler. Ástæðan er önnur árás sem málverkið varð fyrir árið 1956 þegar bólivískur ferðamaður grýtti myndina. Hugo Unjaga Villegas, þá 42 ára, gekk inn á Louvre með stórum hópi ferðamanna. Þegar hann stóð gegnt Mónu Lísu tók hann stein úr vasa sínum og kastaði honum með nokkru afli í átt að myndinni. Steinninn hæfði, braut glerkassa sem smíðaður hafði verið utan um myndina og flís losnaði af myndfletinum. Villegas hafði rispað olnboga Mónu Lísu með kastinu. Myndin var í kjölfarið send í viðgerð og var skömmu síðar komin aftur upp á vegg í safninu.
Í umfjöllun New York Times frá þessum tíma segir að Móna Lísa hafi þá verið eina verkið í safni Lovre sem var sérstaklega varið með gleri. Sú ráðstöfun var gerð nokkrum árum áður þegar maður sem sagðist vera ástfanginn af málverkinu hafði reynt að stela verkinu með því að skera strigann af blindrammanum með rakvélarblaði. Ef ekki hefði verið fyrir glerkassann hefði Móna Lísa ef til vill verið dæmd ónýt eftir grjótkastið, var haft eftir sérfræðingum í umfjöllun blaðsins.
Það var öllu saklausara skeytið sem rússnesk kona sendi Mónu Lísu árið 2009 þegar hún kastaði postulínsbolla í átt að málverkinu. Kona þessi var vonsvikin vegna þess að henni hafði ekki verið veittur franskur ríkisborgararéttur. Tók hún því reiði sína út á málverkinu með fyrrnefndum hætti. Þökk sé skothelda glerinu var Móna þó í lítilli hættu, bollinn splundraðist þegar hann skall á glerinu.