Loftlagsmál er stærsta hagsmunamál mannkynsins í dag enda snertir það velsæld allra í heiminum. Kjarninn ætlar að fjalla ítarlega um loftslagsmál í haust, í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í desember. The Climate Reality Program hefur tekið saman átta TED-fyrirlestra um loftslagsmálin, vísindin þar á bakvið og hvað hægt er að gera til að koma í veg fyrir frekari hlýnun.
James Hansen - febrúar 2012
James Hansen, fyrrverandi stjórnandi Goddart-stofnunar NASA um vísindarannsóknir, hefur fylgst með hlýnun jarðar verða að veruleika í meira en 30 ár. Hann segir hér frá því þegar hann rannsakaði kolvísýringshjúp Venusar, hvernig hann heldur hitastigi á Venus háu og því þegar hann áttaði sig á að það sama væri að gerast á jörðinni. Hann fór þá að bera staðreyndir til almennings og lýsa þungum áhyggjum sínum á framhaldinu.
Gavin Schmidt - mars 2014
Loftlagsfræðingurinn Gavin Schmidt fjallar um hvernig vísindamenn rannsaka loftslag jarðar og hvernig þeir hafa komist að niðurstöðu um að hitastig á jörðinni sé að hækka af mannavöldum. Loftslagsrannsóknir eru flóknari en maður skyldi halda; gríðarlega flókin líkön gera ráð fyrir milljónum breyta enda er ekki hægt að gera rannsóknir á takmörkuðum þætti loftslagsins því um flókið samspil alls heimsins er að ræða.
Vicki Arroyo - júní 2012
Vicki Arroyo frá New Orleans útskýrir hvernig mannkynið þarf að undirbúa sig fyrir breytt veðurfar og áhrif þess á heimkyni fólks. Með reynsluna af fellibylnum Katrínu sem flæddi yfir New Orleans árið 2005 að vopni útskýrir Arroyo hvernig borgir heimsins þurfa að búa til áætlanir til að koma í veg fyrir gríðarlegt tjón.
Nicolas Stern - september 2014
Hagfræðingurinn Nicholas Stern hefur verið kallaður faðir hagfræði loftslagsbreytinga. Hann leggur áherslu á samvinnu ríkja til þess að takast á við loftslagsbreytingar vegna þess að ekkert eitt ríki getur barist eitt gegn náttúrunni. Sýn hans á það hvernig takast eigi við loftslagsvandan felur einnig í sér mun betra líf fyrir alla jarðarbúa.
Amory Lovins - mars 2012
Amory Lovins, eðlisfræðingur og orku-gúrú, sýnir í fyrirlestri sínum hvernig Bandaríkin geta hætt að nota olíu og kol árið 2050 án aðkomu stjórnvalda og skipt yfir í ódýrari orkugjafa, allt með hvötum markaðarins. Lykillinn að þessu er samruni orkufrekra iðngreina og fjögurra leiða nýsköpunar.
John Doerr - mars 2007
Ef það á að stöðva hlýnun jarðar verður mannkynið að fjárfesta í fyrirtækjum sem geta skipt sköpum. Hér koma viðskipti við sögu. John Doerr, fjárfestir í Kísildal í Bandaríkjunum, útskýrir heillavænleg skref til að koma í veg fyrir loftslagshamfarir.
David MacKay - mars 2012
Hversu mikið landrými þyrfti til að knýja orkunotkun lands eins og Bretlands með endurnýtanlegri orku? Svarið er allt landið. David MacKay ræðir stærðfræðina á bak við það hversu takmarkaða möguleika mannkynið hefur á að nota endurnýjanlega orku og ástæðurnar fyrir því hvers vegna við verðum að nota hana hvort sem er.
Al Gore - mars 2008
Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, er kannski þekktari í dag sem einn helsti aðgerðarsinni í loftslagsmálum í heiminum. Hann hefur lagt áherslu á að virkja fólk til að bregðast við, enda telur hann mannkynið eiga að vera þakklátt fyrir það sem jörðin hefur þegar gefið.