Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur sett nýjar loftlagsreglur með einhliða ákvörðun embættisins um að losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið verði minnkuð um 32 prósent árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Ákvörðunin hefur mætt þó nokkurri andstöðu frá repúblikönum og orkufyrirtækjum.
Reglurnar snúa að hverju ríki innan Bandaríkjanna fyrir sig enda er framleiðsla þeirra mismunandi. Þær hvetja einstök ríki til að hverfa frá brennslu kola til raforkuframleiðslu og í átt til endurnýtanlegra orkugjafa, svo sem kjarnorku og vindorku. Í ávarpi Obama sagði hann að reglurnar myndu bæði lækka orkureikning almennings í landinu og stuðla að velsæld þeirra sem helst ættu undir höggi að sækja vegna hlýnunar Jarðar.
„Við eigum bara eitt heimili. Það er bara ein Jörð. Það er ekkert plan B,“ sagði Obama. „Við erum fyrsta kynslóðin sem finnur fyrir áhrifum hnattrænnar hlýnunar. Við erum síðasta kynslóðin sem getur gert eitthvað í því.“
Áætlunin var ekki lögð fyrir bandaríska þingið heldur undirrituð einhliða af forsetanum. Repúblikanar í bandaríska þinginu voru fljótir að gagnrýna áætlun forsetans og segja nýju reglurnar eiga eftir að hafa neikvæð áhrif á orkufyrirtækin og að orkuverð eigi eftir að hækka í kjölfarið. „Ég ætla að gera allt sem ég get til að stoppa þetta,“ sagði Mich McConnell, leiðtogi meirihlutans í öldungardeild Bandaríkjaþings.
Aðrir úr röðum repúblikana hafa kallað þessa áætlun Obama „orkuskatt“. „Ég held að þessi áætlun sé of dýr og hrokafull móðgun við Bandaríkjamenn sem eiga erfitt með að ná endum saman,“ sagði John Boehner, forseti fulltrúadeildar þingsins.
Þá hafa orkufyrirtæki og ríki sem framleiða raforku og eldsneyti hótað því að kæra ákvörðun forsetans og leyfa dómstólum að skera úr um lögmæti reglanna.
Þetta útspil stjórnar Obama hefur þegar haft áhrif á kosningabaráttuna til embættis forseta. Hillary Clinton, sem gefur kost á sér sem forsetaefni demókrata, hefur sagst ætla að verja áætlunina komist hún til valda í Washington.
Margir af helstu leiðtogum heimsins hafa fagnað þessari áætlun Obama. Francois Hollande, Frakklandsforseti, sagði hugrekki Obama mikið í að ná þessu í gegn. „Þetta mun hjálpa mikið til þegar kemur að loftslagsráðstefnunni í París,“ sagði hann. Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, tók í sama streng. „Áætlun Obama er til fyrirmyndar um nauðsynlega framtíðarsýn sem þarf til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda,“ sagði í yfirlýsingu frá skrifstofu aðalritarans.
Langur undirbúningur
Obama kynnti sýn sína á hlutverk Bandaríkjanna í mótvægisaðgerðum gegn hlýnun loftslags í ræðu í Georgetown háskólanum í Washington fyrir tveimur árum. Þar útskýrði hann hugmyndir stjórnvalda um viðamiklar aðgerðir til að minnka losun spillandi efna út í andrúmslofið og undirbúa Bandaríkin fyrir loftslagsbreytingarnar.„Áður en við getum leitt önnur lönd í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, þurfum við að ná þeim,“ sagði Obama. Þessi reglugerð sem nú hefur verið undirrituð er mikilvæg fyrir forsetatíð Obama og verður eflaust, ef hún stenst próf dómstóla, álitin lykilþáttur í forsetatíð hans. Í kosningabaráttunni 2008 gerði hann loftslagsmálin að aðalmáli en á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn ári síðar mistókst hins vegar að ná sátt um minnkun útblásturs koltvíoxíðs. Hefur kröfum vestrænna ríkja til vanþróaðri hagkerfa verið kennt um.
Á pólitíska sviðinu heima fyrir hefur verkefni ríkisstjórnar Obama verið að sannfæra þá sem ekki telja hlýnun Jarðar vera af mannavöldum heldur náttúrulega þróun. Í ræðunni í Georgetown eyddi forsetinn til dæmis töluverðum tíma í að rekja rök fyrir því hvers vegna hlýnunin ætti sér stað vegna áhrifa mannkyns.
Línurnar lagðar fyrir loftslagsráðstefnu í París
Stjórn Barack Obama hefur undanfarið tekið mikilvæg skref til að koma sér í væna samningstöðu á loftlagsráðstefnunni í París í desember. Í nóvember í fyrra undirrituðu Bandaríkin og Kína samkomulag um að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Obama sagði það skref hafa verið mikilvægt vegna þess gríðarlega fjölda fólks sem býr í Kína og hversu ótrúlega hratt hagkerfið þar er að þróast.„Að setja þeim markmið sendir kröftug skilaboð til heimsins um að öll ríki, þróuð eða vanþróuð, verða að komast yfir gamlan ágreining, horfa blákalt á vísindin og komast að góðu samkomulagi um loftslagsmál á næsta ári. Ef Kína og Bandaríkin geta komist að samkomulagi um þetta þá getur heimurinn það líka, við getum klárað þetta og það er mikilvægt að við klárum þetta,“ sagði Obama í ræðu í Ástralíu síðar í sömu viku.
Miklar vonir eru bundnar við loftslagsráðstefnuna í París en þar er markmiðið að búa til lagalega bindandi þverþjóðlegt samkomulag um loftslagsmálin. Undirbúningur fyrir ráðstefnuna hefur staðið undanfarin ár, ekki síst með stefnumótun einstakra þjóða í orkumálum.
Nýverið tilkynntu íslensk stjórnvöld markmið landsins í loftslagsmálum til ársins 2030. Íslensk stjórnvöld munu leitast við að ná sameiginlegu markmiði með Evrópusambandsríkjunum og Noregi um 40 prósent minnkun losunar koltvíoxíðs sé miðað við árið 1990.
Á ráðstefnunni í París verður meiri krafa gerð til þróaðra ríkja en þróunarríkja, að því er segir í fréttatilkynningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins síðan í júní. Þar segir einnig af aðferðinni sem freistast verður til að nota. Ólíkt því þegar Kýótó-samkomulagið var gert, þegar samið var um losunarmark hvers ríkis, er hverju ríki ætlað að setja sér eigin markmið til ársins 2030.
Bandaríkin skiluðu loftslagsmarkmiðum sínum í mars en þar er gert ráð fyrir að loftslagsmengun Bandaríkjanna verði minnkuð um 26 til 28 prósent árið 2025, miðað við árið 2005. Reglurnar sem Obama undirritaði á mánudag eru mikilvægur liður í stefnumótun stjórnvalda vestanhafs í loftlagsmálum. Auk þess telja fréttaskýrendur að þetta útspil Obama sé mikilvægt til að liðka fyrir samkomulagi á loftslagsþinginu. Bandaríkin séu nú í góðri samningsstöðu gagnvart öðrum ríkjum.
Rafmagn í Bandaríkjunum er víða framleitt með brennslu jarðefna eins og kola. Með nýjum reglum Obama er hvati fyrir ríki til að hverfa frá slíkum raforkuverum og yfir í endurnýjanlega orku.