Fimmtán fyrrverandi starfsmenn BrewDog í Bandaríkjunum saka James Watt um ósæmilega hegðun og valdníðslu í skosku heimildaþáttaröðinni Disclosure. Í þættinum, sem ber yfirskriftina „The Truth about Brewdog“ kemur fram að hegðun Watt hafi látið kvenkyns barþjónum líða „óþægilega“ og „hjálparvana“. Lögfræðingar Watt segja ekkert til í ásökununum og sjálfur þvertekur hann fyrir að hafa hagað sér ósæmilega.
BrewDog var stofnað árið 2007 í Fraserburg í Skotlandi af Watt og vini hans Martin Dickie. Þeir eru miklir hugsjónarmenn sem voru komnir með ógeð af bragðlausum og flötum lagerbjór. Á örskömmum tíma varð BrewDog eitt af mest vaxandi drykkjarvöruframleiðendum í Bretlandi.
Watt og Dickie fóru óhefðbundnar leiðir þegar kom að fjármögnun rekstursins. Þeir gáfu fjármálakerfinu puttann og stóðu fyrir stærsta hópfjármögnunarverkefni heims. Ári eftir stofnun var BrewDog orðið stærsta sjálfstæða brugghús Skotlands. Árið 2016 færðu félagarnir út kvíarnar og stefndu á Bandaríkjamarkað vopnaðir viðskiptaáætlun sem þeir kölluðu „and-viðskiptalega“. Grunnhugmyndin var sú að fjármagna rekstur fyrirtækisins, og vöxt þess, án aðkomu hefðbundinna fjármálastofnana. Þ.e. engin fleiri bankalán og engir ríkir stórir fjárfestar í jakkafötum. Félagarnir fengu því fljótt viðurnefnið „bjórpönkararnir“.
Árið 2016 opnaði fyrsti BrewDog barinn í Bandaríkjunum og í dag rekur BrewDog átta bari í þremur ríkjum, auk bruggverksmiðju. Útrás BrewDog hélt áfram og sumarið 2018 opnaði BrewDog í Reykjavík. Í dag rekur BrewDog yfir hundrað bari, er með yfir 2000 manns í vinnu og er metið á um tvo milljarða punda, eða sem nemur tæpum 348 milljörðum króna.
Í fyrra skrifuðu 300 núverandi og fyrrverandi starfsmenn BrewDog undir yfirlýsingu þar sem Watt var sakaður um ógnarstjórnun og sagður stuðla að eitruðu starfsumhverfi. Í kjölfarið hóf teymi Disclosure rannsókn á BrewDog og starfsháttum innan fyrirtækisins.
Þá lýsir starfsfólk því þegar það sá Watt kyssa ölvaðan viðskiptavin á þaksvölum eins af börum BrewDog. Hann var einnig þekktur fyrir að bjóða konum í einkaferðir um bruggverksmiðjur BrewDog seint á kvöldin.
„Vöruðum nýju stelpurnar við“
Katelynn Ising, sem starfaði á DogTap, stærsta bar og brugghúsi BrewDog í Ohio, segir konur sem unnu á barnum hafi klætt sig öðruvísi þegar Watt var á svæðinu.
„Við vöruðum nýju stelpurnar við, eins og segja þeim að fara strax eftir vaktina, ekki mála sig eða hafa sig sérstaklega til, ekki vekja athygli hjá honum,“ segir Ising, sem varð einnig vitni af fjölmörgum skoðunarferðum Watt um bruggverksmiðjuna með ungum konum. „Þær voru alltaf drukknar og flestar á þrítugsaldri. Þær voru sætar og hann sagðist vera að gefa þeim einkaskoðunarferð um bruggverksmiðjuna.“
Þessi hegðun Watt var óþægileg að mati Ising og Jackie English, fyrrverandi vaktstjóri, tekur í sama streng. „Þú ert að sýna starfsfólki þínu að þú getir gert hvað sem þú vilt vegna þess hver þú ert og hvað þú heitir. Þannig leið mér mjög oft,“ segir English. Barþjónn sem kaus að koma ekki fram undir nafni segir Watt hafa verið gefinn fyrir að stara. „Hann starði mikið. Mig langaði bara að fara og þurfa ekki að takast á við þetta,“ segir barþjónninn sem skipti vöktum eins og hún gat til að forðast Watt.
Lögmaður Watt segir það ekki rétt að Watt hafi boðið drukknum, ungum konum í skoðunarferðir. Hann segir Watt vissulega hafa boðið bæði konum og körlum, vinum og viðskiptavinum, í skoðunarferðir um bruggverksmiðjuna að kvöldi til. Það sé hins vegar ekkert til í því að þau sem voru í þessum ferðum hafi verið drukkin. Í bréfi til fjárfesta sem Watt sendi eftir þáttinn útskýrir hann að í ferðum sínum til Bandaríkjanna hafi hann stundum farið á stefnumót og hafi nokkrum sinnum boðið konum á stefnumót í bruggverksmiðjunni. Að hans mati er ekkert óviðeigandi við þá hegðun.
Rætt var við yfir hundrað núverandi og fyrrverandi starfsmenn BrewDog við vinnslu þáttarins. Flest þeirra sem enn starfa á börum fyrirtækisins sögðust ekki vilja tjá sig opinberlega þar sem þau gætu átt í hættu á að missa vinnuna. Kayla McGuire, starfsmaður í bruggverksmiðjunni í Ohio, er ein þeirra sem kemur fram undir nafni. „Stjórnendur ættu ekki að geta ógnað starfsfólki sínu,“ segir hún.
Hafnar öllum ásökunum en ætlar að „betrumbæta stjórnunarstílinn“
Watt er hvergi sakaður um saknæma hegðun gagnvart konum í umfjöllum BBC Disclosure en hann baðst undan viðtali við vinnslu þáttarins. Stjórnarmaður í stjórn BrewDog segist hafa gögn frá Watt sem sanna að því sem haldið er fram í þættinum sé byggt á röngum upplýsingum. Á sama tíma segir hann þó að Watt sé staðráðinn í að betrumbæta stjórnunarstíl sinn.
Eftir birtingu þáttarins bað Watt alla afsökunar sem hefur liðið óþægilega í návist hans. Að hans mati eru allar ásakanir á hendur honum byggðar á „ósönnum orðrómum“ og „röngum upplýsingum“. Watt hyggst leita réttar síns í kjölfar þáttarins til að „vernda orðspor sitt“.