Aðeins einu sinni hefur komið til þess að Matvælastofnun hefur stöðvað blóðtöku úr hryssum á blóðtökustað vegna dýravelferðar en það gerðist í september 2018. „Í því tilfelli kom ábending frá dýralækni um að í viðkomandi hjörð væri töluvert um of grannar hryssur sem ekki uppfylltu skilyrði fyrir blóðtöku,“ segir Einar Örn Thorlacius, lögfræðingur MAST. Hann segir starfsmenn MAST samstundis hafa farið á vettvang og stöðvað blóðtöku úr allri hjörðinni. „Sú stöðvun var varanleg.“
Lestu meira
MAST, sem hefur eftirlit með þessari umdeildu atvinnugrein, sagði í tilkynningu í kjölfar birtingarinnar að það verklag sem þar kæmi fram virtist „stríða gegn starfsskilyrðum starfseminnar sem eiga að tryggja velferð hryssnanna“. Kom fram að stofnunin liti málið alvarlegum augum. Gerði hún sjálfstæða rannsókn á málinu og vísaði því svo í byrjun árs til lögreglu til frekari rannsóknar og aðgerða.
MAST sagði eftir birtingu myndbandsins að eftirlit með blóðtöku úr fylfullum hryssum væri „áhættumiðað og í forgangi“ hjá stofnuninni. Frá gildistöku reglugerðar um velferð hrossa árið 2014, hefðu „skýr skilyrði fyrir blóðtöku úr fylfullum hryssum“ verið sett og eftirlit með starfseminni aukið jafnt og þétt. Greinin hefur síðan þá verið í miklum vexti og í fyrra voru 5.383 hryssur nýttar í þessa starfsemi á 119 bæjum.
Eftirlit MAST er tvíþætt. Annars vegar er eftirlit með velferð, aðbúnaði og ástandi hrossa sem tengjast blóðtökunni hjá umráðamönnum þeirra. Hins vegar er um að ræða sérstakt eftirlit með velferð hryssa við blóðtöku. Sjálf blóðtakan er á ábyrgð líftæknifyrirtækisins Ísteka ehf, sem nýtir blóðið og dýralæknar á vegum þess sjá um framkvæmd blóðtökunnar.
Brotalamir þekktar í mörg ár
Í svörum Einars Arnar Thorlacius, lögfræðings MAST, sem bárust í síðustu viku, meira en tveimur mánuðum eftir að Kjarninn sendi fyrirspurn sína, kemur fram að í kjölfar reglubundins, áhættumiðaðs eftirlits með fóðrun og aðbúnaði blóðtökustóða að vetrarlagi og/eða vori hafi Matvælastofnun gert alvarlegar athugasemdir á sex bæjum og upplýst Ísteka um að fyrirtækinu sé þar með óheimilt að stunda blóðtöku á þeim bæjum. „Ísteka hefur í öllum tilfellum tekið þessa bæi af lista yfir sína viðskiptavini og hætt blóðtöku,“ skrifar Einar Örn. Um var að ræða tvo bæi árið 2017, þrjá bæi árið 2019 og einn árið 2020. Ekki kom til vörslusviptingar á þeim bæjum.
Málunum var fylgt eftir með kröfum um úrbætur samkvæmt verkferlum stofnunarinnar og viðunandi úrbætur fengust án þess að koma þyrfti til vörslusviptingar. „Á einum þessara bæja hafði stofnunin þó afskipti af hestahaldinu árið eftir að blóðtöku var hætt og hafði forgöngu um að fækka þar hrossum verulega í samráði við ábúanda. Einn bær hefur fengið að hefja starfsemi á ný í kjölfar úttektar.
Einu sinni hefur eftirlit í kjölfar ábendingar frá almenningi (nágranna) leitt í ljós „alvarlegt frávik við fóðrun og aðbúnað blóðtökuhryssna að vetri og þar með var starfseminni hætt á þeim bæ,“ segir í svörum Einars Arnar. Þetta var árið 2018.
Samtals hefur blóðtöku verið hætt á átta bæjum síðastliðin fimm ár vegna „alvarlegra frávika við fóðrun og aðbúnað blóðtökuhryssna,“ skrifar Einar Örn. Auk þess hafi ábyrgðarmenn hestahalds á þremur bæjum til viðbótar ákveðið sjálfir að hætta blóðtöku í kjölfar vægari athugasemda frá Matvælastofnun, einn 2017, einn 2019 og einn 2020.
Ísteka framleiðir um 10 kíló á ári af efni sem notað er í lyf til að auka frjósemi svína og fleiri húsdýra í landbúnaði. Til stendur að auka framleiðsluna um 100 prósent á næstu árum en til að framleiða 20 kíló af lyfjaefninu þarf um 600 tonn af blóði úr fylfullum merum.
40 lítrar af blóði teknir úr hverri hryssu
Fylfullar hryssur framleiða hormón sem kallast equine chorion gonadotropin (eCG), áður kallað pregnant mare serum gonadotropin (PMSC). Blóðtaka úr fylfullum merum, sem hormónið er svo unnið úr, hefur farið fram hér á landi allt frá árinu 1979 eða í rúmlega 40 ár.
Blóðtakan fer fram í svokölluðum „blóðtökubási“ á búinu á viku fresti. Samkvæmt þeim skilyrðum sem MAST hefur sett má aldrei taka meira en 5 lítra af blóði vikulega úr hverri hryssu og að hámarki í átta vikur sem gerir 40 lítra af blóði úr hverri hryssu.
Tvöfalt magn miðað við alþjóðlega staðla
Tveir svissneskir dýralæknar og áhugafólk um íslenska hestinn, sem birtu opið bréf um málið í íslenskum fjölmiðlum í upphafi árs, segja magn blóðs sem tekið er af fylfullum merum vikulega hér á landi við blóðmerabúskap vera rúmlega tvöfalt magn miðað við viðurkennda, alþjóðlega staðla um hámark þess blóðmagns sem má taka á eins til tveggja mánaða fresti.
Þau Barla Barandun, dýralæknir með sérhæfingu í hestalækningum, og Prof. Dr. med. vet. Ewald Isenbügel, stofnfélagi, fyrsti formaður og heiðursfélagi FEIF og prófessor emeritus við dýralæknadeild háskólans í Zürich, fóru í grein sinni hörðum orðum um blóðmerahald á Íslandi. Samkvæmt útreikningum þeirra á meðalblóðmagni blóðmera hér á landi má gera ráð fyrir um 24,5 lítrum. Ef tekið er dæmi um mjög þunga hryssu í góðu standi og með óvenjuhátt blóðhlutfall er blóðmagn hennar í mesta lagi 32 lítrar, skrifuðu þau. „Þetta þýðir að hryssurnar þurfa að endurnýja allt blóðmagn sitt og gott betur (8 – 15 lítrum meira) innan tveggja mánaða tímabils.“
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, lagði fram frumvarp á Alþingi í fyrravetur um að blóðmerahald yrði bannað. Hún hlaut nokkuð bágt fyrir á þeim tíma sem birtist til dæmis í harðri gagnrýni í umsögnum við frumvarpið, m.a. frá dýralæknum og öðrum sem að blóðmerahaldi koma.
Í kjölfar afhjúpunar þýsku dýraverndarsamtökunnar, sem sýndi hrottalega meðferð á hryssum, var nokkuð annar tónn kominn í strokkinn. Frumvarpið var lagt fram að nýju í desember og umsagnirnar voru þá fleiri og í mörgum þeirra var tekið undir að banna ætti þessa iðju. Aðrir umsagnaraðilar lýstu hins vegar stuðningi við áframhaldandi blóðtöku úr fylfullum merum, gagnrýndu tillöguna harðlega og sögðu hana byggja á „tómum rógburði“ og „fölsuðu áróðursefni“ erlendra „öfgasamtaka“.