Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata var mætt í Forystusætið á RÚV í gærkvöldi. Þar var hún meðal annars spurð um tillögur Pírata í efnahagsmálum, sem ganga meðal annars út á breytingar á persónuafslætti og ýmsum leiðum til að auka tekjur ríkissjóðs til að standa undir þeim breytingum.
Halldóra sagði þar að Píratar vildi „hækka persónuafsláttinn og greiða hann út til þeirra sem eru ekki að nota hann.“
„Það ætti að greiða út persónuafsláttinn og hækka hann í skrefum og færa sig í „átt að því sem kallast neikvæður tekjuskattur og er útfærsla af borgaralaunum.“
Þegar Halldóra var spurð hvað þetta myndi kosta sagði hún að ef persónuafsláttur yrði hækkaður um 20 þúsund krónur á mánuði og yrði gerður útgreiðanlegur til þeirra sem ekki hafa tekjur þá myndi það kosta „í kringum 70 milljarða, rúmlega það.“ Á heimasíðu Pírata segir svo að kostnaðurinn yrði 70,9 milljarðar króna.
Auk þess ætla Píratar að hækka frítekjumark ellilífeyris til að draga úr skerðingum, hækka frítekjumark örorkubóta til þess að draga úr skerðingum og flytja hluta virðisaukaskatts til sveitarfélaga. Þessir fjórir liðir eiga samkvæmt útreikningum Pírata að lækka tekjur ríkissjóðs um 93,4 milljarða króna.
„Við erum búin að kostnaðarmeta þessar helstu aðgerðir okkar og líka koma með tillögur um hvernig við getum fjármagnað þetta. Þannig að við getum fullfjármagnað þetta allt saman,“ sagði Halldóra í Forystusætinu í gær.
Ætluðu að sækja 35 milljarða með hækkun á hæsta skattþrepinu
Halldóra var svo spurð hvernig Píratar sjái fyrir sér að fjármagna þetta og sagði að flokkurinn sæi fyrir sér að skattleggja auð, með þrepaskiptum fjármagnsskatti. Auk þess sjái flokkurinn fyrir sér breytingar í sjávarútvegi sem verði tekjuberandi fyrir ríkissjóð og að bætt skattaeftirlit geti skilað umtalsverðum tekjum. „Við sjáum fyrir okkur að við ætlum að taka tekjuskattsþrepið og breyta því þannig að við hækkum miðju- og efra tekjuskattsþrepið.“
Samanlagt eiga þessar tvær skattkerfisbreytingar því að skila næstum 50 milljörðum króna á ári af þeim 83,8 milljarða króna tekjuauka fyrir ríkissjóð, sem útreikningar Pírata sýndu, og Halldóra vísaði til. Auk þess gerði flokkurinn ráð fyrir því að 9,7 milljarðar króna myndu skila sér í aukna innheimtu virðisaukaskatts vegna þess að tillögur Píratar auki það fé sem tekjulægra fólk hafi á milli handanna til neyslu.
Samtals átti vænt tekjuaukning því að vera 93,5 milljarðar króna á ári, sem er á pari við þá útgjaldaaukningu sem Píratar boða.
Viðurkenna sjálf ofáætlun
Fyrir liggur að Píratar hafa viðurkennt að útreikningar þeirra á væntum viðbótartekjum vegna hátekjuþrepsins voru verulega ofáætlaðar. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður flokksins, sagði í samtali við Kjarnann í dag að fljótt á litið virtist skekkjan sem sett var fram af hálfu flokksins nema um 25 milljörðum króna og tekjurnar því um tíu milljarðar króna, en ekki tæplega 35 milljarðar króna.
Samkvæmt útreikningum hagfræðings fyrir Kjarnann er skekkjan enn meiri.
Í fyrra nam meðaltal atvinnutekna efstu tíundarinnar á vinnumarkaði um 1,1 milljón króna á mánuði. Það leiðir af sér að skattstofninn fyrir hæsta tekjuskattþrepið var um 167 þúsund krónur á mánuði að meðaltali fyrir um það bil 20 þúsund manns. Samkvæmt þessu var skattstofninn í efsta þrepi því um 44 milljarðar króna á ári í fyrra.
Hækkun um 3,75 prósentustig á skatti sem á þessa upphæð leggst myndi skila 1,6 milljörðum króna á ári aukalega í tekjur fyrir ríkissjóð.
Vert er að taka fram að ofangreindar tölur fjalla um atvinnutekjur sem eru tekjuskattsskyldar, en ekki aðrar tekjuskattsskyldar tekjur eins lífeyri og ýmis konar bætur. Fyrir liggur að þær hækka skattstofnin eitthvað, en ekki þannig að miklu muni.
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Sumar þeirra leiða sem Píratar ætla að ráðast í til að auka tekjur svo hægt sé að borga fyrir nýja útgjaldaauka munu sannarlega skila umtalsverðum fjárhæðum í ríkissjóð. En fyrir liggur að stærsta einstaka tekjuaukningarleiðin sem flokkurinn boðaði, tæplega 35 milljarða króna viðbótartekjur vegna hækkunar á hæsta tekjuskattsþrepinu, mun ekki skila nálægt þeirri tölu.
Því liggur fyrir að Halldóra Mogensen fór með fleipur þegar hún hélt því fram í Forystusætinu í gær að tillögur Pírata væru fullfjármagnaðar. Fullyrðing hennar er ekki haugalygi vegna þess að hún var ekki vísvitandi að segja ósatt og Píratar hafa viðurkennt að framsettar tölur hafi verið verulega rangar.