Nokkrir rekstraraðilar og fasteignaeigendur í nágrenni við Suðurlandsbraut sendu inn athugasemdir og ábendingar við svokallaða skipulagslýsingu vegna legu Borgarlínu frá Steinahlíð að Katrínartúni, sem lögð var fram til kynningar af hálfu borgaryfirvalda í nóvember síðastliðnum.
Kjarninn óskaði eftir og fékk þessar athugasemdir afhentar á dögunum, en þær voru kynntar í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar í síðustu viku. Áform um mögulegar breytingar á Suðurlandsbrautinni leggjast fremur illa í þá aðila sem sendu inn athugasemdir.
Unnið að gerð skipulagstillögu
Skipulagslýsing er undanfari vinnslu deiliskipulags sem felur í sér lýsingar á því sem fyrirhuguð skipulagstillaga á að snúast um og þeim markmiðum sem á að ná fram. Þegar þessi skipulagslýsing var lögð fram var boðað að deiliskipulagstillaga fyrir svæðið myndi líta dagsins ljós í febrúar á þessu ári. Það gerðist þó ekki og ekkert bólar á henni enn, en borgarfulltrúar í síðustu borgarstjórn voru ekki á eitt sáttir um ágæti þess að leggja fram skipulagslýsinguna til að byrja með, eins og Kjarninn sagði frá fyrir rösku hálfu ári.
Fækkun akreina og bílastæða í deiglunni
Í tengslum við uppbyggingu Borgarlínu hefur verið horft til þess að breyta Suðurlandsbrautinni töluvert mikið, samfara því sem sérrými yrði sett fyrir miðju vegarins. Í frumdrögum að fyrstu lotu Borgarlínu, sem horft er mikið til í skipulagsvinnunni, var lagt upp með að akreinum fyrir almenna akandi umferð yrði fækkað um tvær.
Það mál er þó enn óútkljáð – og segir í skipulagslýsingunni að ljóst sé að breytingin sé „stór“ og „ekki óumdeild“.
Við breytingarnar sem gera á í götumyndinni er stefnt að því að fækka bílastæðum við Suðurlandsbrautina töluvert, en nokkur hluti bílastæðanna við brautina standa á landi sem er í eigu borgarinnar og utan lóða verslunar- og atvinnuhúsnæðisins sem stendur við Suðurlandsbrautina. Þessi áform voru viðruð í skipulagslýsingunni, auk annarra aðgerða sem sagðar eru til þess fallnar að „auka gæði umhverfisins og bæta aðgengi við götuna“, ekki síst með virka ferðamáta og tengingar nærliggandi hverfa við Suðurlandsbrautina í huga.
Sjá fram á mikið tekjufall vegna umferðaröngþveitis og minni umsvifa
Með því að leggja fram skipulagslýsinguna var Reykjavíkurborg þannig að hefja formlegt samtal við hagsmunaaðila á svæðinu um fyrirhugaðar breytingar. Það samtal fer hressilega af stað, samkvæmt því sem lesa má í athugasemdum við skipulagslýsinguna.
Fyrirtækið Sjónvarpsmiðstöðin, sem á fasteignina við Suðurlandsbraut 26 sem hýsir meðal annars fyrirtækin Heimilistæki og Tölvulistann sem eru systurfélög fyrirtækisins, sagði hugmyndir um fækkun akreina, bílastæða og aflögn vinstribeygja á Suðurlandsbrautinni „algörlega óásættanlegar“.
Í nokkuð ítarlegu bréfi sem lögfræðistofa sendi fyrir hönd fyrirtækisins sagði að það væri afstaða Sjónvarpsmiðstöðvarinnar að fyrirhuguð lega Borgarlínu í miðrými götunnar myndi leiða til þess að „umferðaröngþveiti“ skapaðist á götunni með tilheyrandi töfum og vandræðum fyrir viðskiptavini verslana við Suðurlandsbrautina.
„Mun þetta óhjákvæmilega hafa það í för með sér að viðskiptavinum fækkar eða leita frekar til samkeppnisaðila, með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni fyrir verslunareigendur. Telja verslunareigendur að um verulegt fall á veltu geti verið að ræða,“ segir í bréfinu frá Sjónvarpsmiðstöðinni. Einnig segir í bréfinu að fyrirtækið telji að húsnæði sitt, sem einungis er verslunarhúsnæði, muni falla í verði ef breytingarnar verði að veruleika, auk þess sem möguleikar á útleigu rýmis í húsinu muni skerðast og vænt leiguverð lækka.
Sjónvarpsmiðstöðin telur að með þessum tillögum sé „algjörlega litið framhjá því að verslanir við Suðurlandsbraut, sem og í aðliggjandi götum svo sem Ármúla og Skeifunni, eru margar hverjar stórverslanir, sem valið hafa verslunum sínum stað út frá þeirri staðreynd að þar sé aðgengi fyrir fjölda viðskiptavina með tilheyrandi umferðaraðgengi og bílastæðum“ og að skipulagslýsingin muni valda algjörum forsendubresti fyrir verslanir eins og þær sem reknar eru í húsnæðinu við Suðurlandsbraut.
Í bréfinu er bent á að „norðan við Suðurlandsbraut, í Laugardalnum“ sé nægt svæði til að leggja Borgarlínu við hlið núverandi götu, sem þá gæti verið áfram í óbreyttri mynd. Einnig er fyrirhugaðri fækkun bílastæða mótmælt harðlega og því komið á framfæri að fyrirtækið telji að nú þegar sé skortur á bílastæðum við Suðurlands.
Fyrirtækið vísar einnig til þess sem fram kemur af hálfu borgarinnar í skipulagslýsingunni, að áformin um fækkun akreina séu ekki „óumdeild“. Fram kemur í bréfinu að fyrirtækið telji óhætt að „taka mun dýpra í árinni og segja að mikil andstaða sé meðal fasteigna- og verslunareigenda sem og annarra atvinnurekenda við Suðurlandsbraut við fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi“.
Fleiri fasteignaeigendur ósáttir
Fasteignaeigendur við Suðurlandsbraut 4 og 4a sögðu í tveimur svipuðum bréfum að nú þegar væri „mikill skortur á bílastæðum“ við Suðurlandsbrautina, og mikil umferð við götuna. „Því gerum við alvarlegar athugasemdir við hugmyndir Reykjavíkurborgar að fækka bílastæðum við ofangreind hús og í nágrenni sem og að fækka akreinum á Suðurlandsbrautinni,“ sagði í bréfi fasteignaeigendanna, sem einnig bentu á að á svæðinu væru ýmsir reitir í þróun og að búast mætti við „mun meiri og þéttari byggð á svæðinu“.
„Það er jákvætt að efla samgöngur á svæðinu en við höfnum því að það gerist á kostnað bílastæða við húsin og fækkun akreina,“ sagði í báðum bréfunum frá eigendum eignanna við Suðurlandsbraut 4 og 4a.
Eigendur hússins við Suðurlandsbraut 16 mótmæltu einnig fyrirhugaðri fækkun bílastæða og sögðu að með þeim áformum yrði „nánast ómögulegt að reka núverandi fyrirtæki í húsinu áfram“ en í húsinu er auk annars raftækjaverslunin Rafha.
Tannlæknir með böggum hildar
Tannlæknir sem verið hefur með rekstur að Laugavegi 163 allt frá árinu 1986 ritaði skipulagsyfirvöldum einnig bréf vegna skipulagslýsingarinnar og dró upp dökka mynd af stöðu mála á svæðinu. Sagði hann að með því „gífurlega byggingamagni“ sem borgin hefði heimilað á Höfðatorgi hefði umferðin um svæðið aukist mikið og „slagsmál um bílastæði“ hefðu sífellt aukist og aldrei hefði verið „verra að leggja einkabíl“.
„Í dag myndi mér aldrei detta í hug að hefja rekstur á þessu svæði vegna vöntunar á bílastæðum. Svo til að bæta gráu ofan á svart þá tilkynnið þið um Borgarlínu, þó að aðeins brot af viðskiptavinum mínum noti strætó. Þið eruð með hugmyndir að fækka akreinum í eina sem eykur enn biðtíma. Nær væri að nýta plássið til að auka bílastæði á svæðinu. 95% af viðskiptavinum koma á einkabíl. Það er búið að ræna öllum stæðum við Skúlagötu sem voru þar til staðar áður en nýjasta framkvæmdin á Höfðatorgsreitnum fór í gang. Það eru líklega um 330 þúsund einkabílar í landinu eða næstum einn bíll á hvern íbúa. Ímyndið þið ykkur hjá Reykjavíkurborg að þessir eigendur einkabíla ætli að taka strætó eða Borgarlínu? Það er útópía. Það er búið að reyna að troða íslendingum í strætó í 40-50 ár og það hefur aldrei tekist. Ímyndið þið ykkur að það muni takast nú?“ sagði auk annars í bréfi tannlæknisins.
Hann spurði einnig hvort borgin teldi að það þýddi eitthvað fyrir hann að halda messur yfir viðskiptavinum sínum og skipa þeim að taka strætó eða Borgarlínu. „Þeir myndu telja mig eitthvað skrítinn og vera fljótir að flytja sig um set til annars sérfræðings sem býður upp á bílastæði,“ sagði einnig í athugasemd tannlæknisins.
Meirihlutinn segist vilja skipulagstillögur sem fyrst
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í síðustu viku lögðu fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar fram bókun þar sem sagði að það væri „stefna meirihlutans að flýta Borgarlínu“ og því legðu fulltrúarnir áherslu á að hratt og vel yrði unnið úr athugasemdunum sem komu fram, svo fyrstu drög að deiliskipulagi gætu litið dagsins ljós sem fyrst.
„Mikilvægt er að huga að sem hæstri flutningsgetu Borgarlínunnar og miklum gæðum umhverfis hennar þegar endanleg ákvörðun um útfærslu hennar á svæðinu er tekin,“ sagði einnig í bókun meirihlutaflokkanna fjögurra.
Samkvæmt uppfærðri og seinkaðri tímalínu um framkvæmdir vegna Borgarlínu sem birt var í vikunni er ekki ráðgert að borgarlínuvagnar fari að aka þessa leið fyrr en árið 2027.