Hluthafar í Twitter hafa samþykkt að halda til streitu samningi við Elon Musk, ríkasta mann í heimi, um kaup á fyrirtækinu.
Ákvörðunin var tekin á snörpum fjarfundi hluthafa í vikunni. Næsta skref fer fram í dómsal í október þar sem Twitter mun krefjast þess að Musk standi við upphaflegan samning um kaup á fyrirtækinu fyrir 44 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 6.127 milljörðum króna, sem er 12 milljörðum minna en fyrirtækið er metið á í dag.
Musk keypti fyrst hlutabréf í Twitter í upphafi árs og í byrjun apríl var hlutur hans í fyrirtækinu kominn yfir níu prósent og var hann þar með orðinn meðal stærstu hluthafa í Twitter og bauðst að taka sæti í stjórn fyrirtækisins. Hann afþakkaði boðið og sagði ljóst að samfélagsmiðillinn gæti hvorki dafnað né þjónað tilgangi sínum í núverandi formi.
„Stafræna bæjartorgið“
Í kjölfarið gerði hann yfirtökutilboð upp á 44 milljarða Bandaríkjadala sem stjórn Twitter hafnaði í fyrstu en ákvað svo að ganga að. Tilboðið vakti upp margar spurningar. Hvað ætlar ríkasti maður í heimi að gera við Twitter? Sjálfur hefur hann talað fyrir minni ritskoðun og óheft tjáningarfrelsi á miðlinum og sagst ætla að taka Twitter af markaði.
Gervimenni settu yfirtökuna í uppnám
Yfirtakan komst þó í nokkuð uppnám í maí, áður en hluthafar höfðu tekið afstöðu til tilboðsins, þegar Musk sakaði Twitter um að standa í vegi fyrir því að hann fengi upplýsingar um hversu hátt hlutfall notenda miðilsins eru gervimenni (e. bots). Í tísti sem hann sendi frá sér greindi hann frá því að kaup hans á samfélagsmiðlinum hefðu verið sett á ís þar sem hann væri að bíða eftir gögnum sem gætu rökstutt fullyrðingar Twitter um að hlutfall gervimenna á samfélagsmiðlinum væri innan við fimm prósent.
Þetta var í fyrsta sinn sem Musk sýndi fram á með formlegum hætti að vilja draga sig úr kaupunum. Það voru svo sem ekki óvænt tíðindi. „Þetta er eitthvað sem hluthafar Twitter hafa verið að búa sig undir síðustu vikurnar, augnablikið þegar handahófskenndar vangaveltur Musk sem hann hefur birt í tístum eru slípaðar niður í texta sem sendur er í formlegu bréfi,“ sagði Susannah Streete, sérfræðingur í fjárfestingum og verðbréfamörkuðum hjá Hagreaves Lansdown, í samtali við New York Times.
Bréfið sem hún vísar í var sent af lögmönnum Musk til Twitter en í því segir að þessi skortur á upplýsingagjöf feli í sér brot á samkomulagi um kauptilboð Musks sem stjórn Twitter samþykkti í apríl.
Tilboðið samþykkt í skugga uppljóstrana um öryggisbresti
Musk náði þeim áfanga í janúar í fyrra að verða ríkasti maður heims þegar hann tók toppsætið af Jeff Bezos, stofnanda Amazon. Þá voru auðævi hans metin á 273 milljarða Bandaríkjadala, sem jafngildir rúmum 35.577 milljörðum króna. Upphæðin hefur þó farið lækkandi eftir yfirlýsingar hans um yfirtöku á Twitter hófust, og eru auðævi hans nú metin á 219 milljarða Bandaríkjadala, eða rúma 30.000 milljarða króna.
Twitter segir Musk ekki eiga annarra kosta völ en að standa við gerðan samning. Ákvörðun hluthafanna var tekin skömmu eftir að Peiter Zatko, fyrrverandi yfirmaður öryggismála hjá Twitter, kom fyrir þingnefnd öldungadeildaþings Bandaríkjanna þar sem meintir öryggisgallar fyrirtækisins voru til umræðu. Zatko sagði Twitter hafa afvegaleitt notendur um hversu öruggur samfélagsmiðillinn er í raun og veru.
Zatko, sem var rekinn frá Twitter í janúar, sagði fyrirtækið vera „áratugi á eftir“ hvað varðar öryggisstaðla, gögn notenda væri ekki varðveitt nægilega og að of margir starfsmenn Twitter hefðu aðgang að þeim.
Hann sagði ákvörðunina um að gerast uppljóstrari væri ekki auðveld. „Ég er að stofna ferli mínum og mannorði í hættu, en ef eitthvað gott kemur út úr þessu eftir fimm eða tíu ár verður það allt þess virði,“ sagði Zatko í vitnaleiðslunum. Hann sagðist enn vera þeirrar skoðunar að Twitter veiti góða þjónustu en skellti upp úr þegar hann var spurður hvort hann myndi kaupa miðilinn. „Það fer eftir verðinu.“
Næstu skref tekin í dómsal
Með því að samþykkja yfirtökutilboðið gefa hluthafar Twitter stjórn fyrirtækisins grænt ljós á að fara með málið fyrir dóm þar sem þess verður krafist að Musk gangi að kaupunum. Lögfræðingum Musk verður heimilt að nýta vitnisburð Zatko við réttarhöldin þar sem upplýsingar um gervimenni gætu komið að gagni.
Réttarhöldin fara fram í Delaware og hefjast í október. Það verður því í höndum dómara að ákveða hvort Musk beri að taka yfir Twitter á uppsettu verði, 44 milljörðum Bandaríkjadala.