Ekki hefði átt að leyfa margar af þeim samkomum sem haldnar voru í Downingstræti 10 og á vegum breskra stjórnvalda á tímum strangra sóttvarnareglna og illa var komið fram við starfsfólk sem gerði athugasemdir við partýstandið. Stjórnmálaleiðtogar og háttsettir embættismenn verða að axla ábyrgð.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í lokaskýrslu Sue Gray, sérstaks saksóknara, sem hefur frá því í janúar rannsakað samkvæmi á vegum breskra stjórnvalda sem haldin voru á tímum heimsfaraldurs COVID-19.
Partýstandið í Downingstræti fékk fljótt viðurnefnið „Partygate“ eftir að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, baðst í upphafi árs afsökunar á því að hafa verið viðstaddur garðveislu í Downingstræti í maí 2020, þegar útgöngubann vegna COVID-19 var í gildi. Í kjölfarið bárust fregnir af fleiri samkomum á vegum stjórnvalda og var Sue Gray, sérstökum saksóknara, falið að gera rannsókn til að meta eðli og tilgang veisluhaldanna.
Skýrslu Gray var beðið með töluverðri eftirvæntingu en málin flæktust þegar breska lögreglan hóf sjálfstæða rannsókn á veisluhöldunum. Lögregla bað Gray að bíða með rannsókn sína á meðan lögreglurannsóknin stóð yfir. Hún skilaði þó bráðabirgðaskýrslu 31. janúar þar sem fram kom að veisluhöld í Downingstræti á tímum útgöngubanns eða strangra sóttvarnareglna hafi verið óviðeigandi og að skortur hafi verið á forystuhæfileikum og dómgreind, bæði hjá starfsfólki í Downingstræti og á skrifstofu ríkisstjórnarinnar.
Rannsókn lögreglu lauk í síðustu viku. Tólf samkvæmi voru til rannsóknar og alls gaf lögregla út 126 sektir vegna brota á sóttvarnareglum. Sektirnar ná ti 83 manns og því eru dæmi um að einstaklingar hafi fengið fleiri en eina sekt. Johnson fékk þó aðeins eina sekt, fyrir að vera viðstaddur eigin afmælisveislu 19. júní 2020, í Downingstræti.
Aðvaranir um möguleg sóttvarnabrot ítrekað hunsaðar
Eftir að rannsókn lögreglu lauk var Gray því ekkert til fyrirstöðu að skila lokaskýrslu sinni, sem hún hefur nú gert. Í lokaskýrslunni, sem var birt í heild sinni í morgun og er alls 60 blaðsíður, er ljósi varpað á drykkju sem fram fór á starfsstöðvum opinberra starfsmanna, veikindi starfsfólks sem tók þátt í gleðskapnum og slæma framkomu við starfsfólk í ræstingum og öryggisstörfum. Aðvaranir um að samkvæmin brytu gegn gildandi sóttvarnareglum voru ítrekað hunsaðar.
Boris Johnson fékk skýrsluna afhenta í morgun áður en hún var gerð opinber og sagði hann við þingmenn að hann „beri fulla ábyrgð á öllu sem átti sér stað á hans vakt.“ Hann segir ferlið síðustu mánuði hafi gert hann auðmjúkan og að hann dragi ýmsan lærdóm af því. Hann biðlaði þó til þingmanna að horfa fram á veginn.
Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, sem sætir sjálfur rannsókn lögreglu vegna mögulegra brota á sóttvarnareglum fyrir að fá sér bjór á vinnutíma þegar strangar sóttvarnareglur voru í gildi, vill að forsætisráðherra axli ábyrgð með því að segja af sér. Hann hvetur þingmenn Íhaldsflokksins til að segja forsætisráðrherra „að leiknum sé lokið“ og að „tími sé kominn til að pakka í töskur“.
Hverjir eiga í raun og veru að axla ábyrgð og hvernig?
Í niðurlagi skýrslunnar segir Gray að margar af þessum samkomum hefðu ekki átt að eiga sér stað. „Æðstu stjórnendur, bæði stjórnmálamenn og embættismenn, verða að axla ábyrgð á þessari menningu.“
Hvernig nákvæmlega á að axla ábyrgðinni liggur hins vegar ekki fyrir. Partygate er þó ekki alveg lokið þar sem rannsóknarnefnd á vegum breska þingsins mun nú rannsaka hvort Johnson hafi vísvitandi afvegaleitt þingmenn í umræðum um samkvæmi sem haldin voru á tímum strangra sóttvarnareglna. Þegar nefndin hefur komist að niðurstöðu mun hún leggja fram tillögur sem þingmenn greiða atkvæði um, sem gætu meðal annars falist í einhvers konar refsiaðgerðum gegn forsætisráðherra. Ólíklegt verður þó að teljast að það verði niðurstaðan þar sem Íhaldsflokkurinn hefur tryggan meirihluta á þinginu. Allt útlit er því fyrir að Johnson verði að ósk sinni og geti loks sagt skilið við Partygate og horft fram á veginn.