Dulkóðað drif með tölvupóstum Samherja frá Íslandi til Namibíu
Í tölvupóstsamskiptum sem lögð hafa verið fram af hálfu ákæruvaldsins í Namibíu kemur fram að Aðalsteinn Helgason viðraði möguleikann á mútugreiðslum til namibískra áhrifamanna við bæði Jóhannes Stefánsson og Ingvar Júlíusson í desember árið 2011.
Ríkissaksóknari Namibíu sendi frá sér nýja greinargerð undir lok síðasta mánaðar, þar sem hún gerði athugasemdir við ýmislegt sem sett var fram í eiðsvörnum yfirlýsingum starfsmanna Samherja og annarra í upphafi sumars, vegna dómsmálsins sem þar er nú rekið vegna viðskiptahátta dótturfélaga Samherja í landinu.
Sumar athugasemda saksóknarans, Mörthu Imalwa, við málsvörn Samherjamanna byggja á upplýsingum úr tölvupóstum sem safnað var af vefþjónum Samherja vegna rannsóknar málsins hér á landi.
Þessa tölvupósta sótti embætti héraðssaksóknara og lét namibískum lögregluyfirvöldum í té á dulkóðuðu USB-drifi eftir að namibísk yfirvöld sendu íslenskum rannsakendum beiðni um gagnkvæma samvinnu við rannsóknina.
Lesa má hluta þessara tölvupósta í annarri yfirlýsingu frá rannsóknarlögreglumanninum Abraham Nikolous Ihalua hjá namibísku spillingarlögreglunni, sem birt var á vef namibískra dómstóla skömmu fyrir mánaðamót.
Aðalsteinn viðraði mútugreiðslur við Jóhannes og Ingvar
Í tölvupóstunum, sem voru samkvæmt því sem Kjarninn kemst næst ekki hluti af þeim gögnum sem birt voru á Wikileaks og færð í hendur yfirvalda hérlendis og ytra fyrir tilstuðlan uppljóstrarans Jóhannesar Stefánssonar, kemur eitt og annað fram.
Aðalsteinn Helgason, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri Kötlu Seafood á Kanaríeyjum og var lykilmaður hjá Samherja á fyrstu árum innreiðar fyrirtækisins í namibískan sjávarútveg, sagði meðal annars við þá Jóhannes og Ingvar Júlíusson, fjármálastjóra Samherja á Kýpur og í Afríku, þann 16. desember árið 2011, að á einhverjum tímapunkti gæti það farið að skipta máli „að múta einum af leiðtogum þessara manna.“
Degi síðar, 17. desember 2011, sagði Jóhannes svo í tölvupósti til Aðalsteins og Ingvars að til stæði að skrifa undir samkomulag við Tamson Hatuikulipi, tengdason Bernhards Esau sjávarútvegsráðherra, um væntanlega samvinnu þeirra.
„Hann mun fara með þetta til ráðherrans, sem mun fá þetta á morgun. Undirliggjandi hugmyndin er sú að hann verði fullvissaður um að fá eitthvað ef hann færir okkur eitthvað,“ sagði Jóhannes í tölvupóstinum.
Rétt er að taka fram að þýðingar á þessum orðaskiptum eru blaðamanns, en tölvupóstarnir sem embætti héraðssaksóknara sendi til Namibíu og birtast nú í dómskjölum þar í landi voru þýddir af íslensku yfir á ensku af löggiltum skjalaþýðanda.
Af þessum upplýsingum segir namibíski ríkissaksóknarinn að draga megi þá ályktun að Aðalsteinn Helgason hafi ráðlagt Jóhannesi Stefánssyni að múta namibískum embættismönnum, eins og saksóknarinn raunar sagði einnig í fyrri greinargerð sinni vegna málsins.
Þá byggði ályktun saksóknarans á vitnisburði Jóhannesar Stefánssonar, sem hefur haldið því fram að Aðalsteinn hafi fyrirskipað honum að greiða mútur til þess að tryggja félagi Samherja kvóta í Namibíu. Þessu hefur Aðalsteinn, sem er farinn á eftirlaun fyrir allnokkru síðan,hafnað sem lygum.
Telur ljóst að Jóhannes hafi ekki verið einn að verki
Imalwa ríkissaksóknari segir í yfirlýsingu sinni að það sé ljóst af því sem fram hafi komið að Jóhannes Stefánsson hafi ekki verið eini einstaklingurinn innan Samherja sem hafi vitað af „raunverulegu eðli“ þeirra samninga sem voru gerðir til þess að tryggja dótturfélagi Samherja veiðiheimildir. Það sýni greiðslur til félagsins Tundavala í Dúbía, sem Ingvar sjálfur kom að því að framkvæma og héldu áfram eftir að Jóhannes var hættur að starfa fyrir Samherja í Namibíu.
Samherji hefur sagt í yfirlýsingum sínum, og vísað til óbirtrar innanhússrannsóknar á starfseminni í Namibíu sem fyrirtækið fól norsku lögmannsstofunni Wikborg Rein að framkvæma, að ekki fáist séð að aðrir núverandi eða fyrrverandi starfsmenn Samherja en Jóhannes Stefánsson hafi bakað sér saknæma ábyrgð með störfum sínum í Namibíu.
Namibíski saksóknarinn er á annarri skoðun og segir stjórnendur sex namibískra dótturfélaga Samherja sem sæta ákæru, ekki geta firrt sig ábyrgð.
Einnig kemur fram í yfirlýsingu hennar að hún hafi ekki gefið upp von um að fá einn eða fleiri stjórnendur félaga Samherja til Namibíu, en eins og fram hefur komið er enginn framsalssamningur í gildi á milli Íslands og Namibíu og íslenskir ríkisborgarar því ekki framseldir til Namibíu.
„Ísland mun einungis hafa vald til þess að neita framsali ef sá eða þeir sem óskað verður eftir til framsals verða á Íslandi,“ segir í yfirlýsingu saksóknarans, sem nefnir einnig að mennirnir séu skráðir með fjölda heimilisfanga í þeim gögnum sem séu til staðar í rannsókninni og því sé erfitt að komast nákvæmlega að því hvar þeir hafist við.
Í yfirlýsingu saksóknarans segir einnig að Namibía hafi ekki enn farið „formlega“ fram á framsal. Þó hefur komið fram í máli vararíkissaksóknarans Helga Magnúsar Gunnarssonar að framsalsbeiðni frá namibískum yfirvöldum hafi verið hafnað fyrr á þessu ári.
Imalwa virðist þannig halda því opnu að reyna að fá Íslendingana, einn eða fleiri, framselda vegna málsins, þó ekki verði það frá Íslandi.
Neitar því að velta Samherjasamstæðunnar hafi nokkra þýðingu
Í eiðsvarinni yfirlýsingu Ingvars Júlíussonar, sem var 108 blaðsíðna löng og lögð fram til dómstólsins í Namibíu 1. júní, sagði að umsvif dótturfélaga Samherja í Namibíu hefði einungis numið 0,6 prósentum af heildarveltu Samherjasamstæðunnar á heimsvísu.
Í yfirlýsingu Ingvars voru færð rök fyrir því að „það hefði ekki verið áhættunnar virði“ fyrir nokkurt fyrirtæki að „flækjast í spillt athæfi“ fyrir svo lítið hlutfall af heildarveltu samstæðunnar.
Imalwa svarar þessu í yfirlýsingu sinni og segist hafna því að heildarvelta Samherjasamstæðunnar á heimsvísu skipti nokkru máli hvað varðar það spillta athæfi sem lýst hafi verið í fyrri greinargerð hennar um málavexti, eins og þeir horfa við ákæruvaldinu.
Lestu meira
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
11. nóvember 2022Samherji hótaði Forlaginu málsókn erlendis ef bók um Namibíumálið yrði ekki innkölluð
-
27. október 2022„Áhrifin á ásýnd íslensks sjávarútvegs eru gríðarleg innan lands sem utan“
-
27. október 2022Það sem helst sé vandræðalegt við Samherjamálið sé að þingmenn vilji ræða það
-
21. september 2022Kallar eftir upplýsingum um fund namibísks ráðherra í dómsmálaráðuneytinu
-
24. ágúst 2022„Fitty“ segist ekki hafa beðið tengdapabba um að redda Samherja kvóta í Namibíu
-
31. júlí 2022Fishrot-málið bar á góma hjá utanríkismálanefnd Bandaríkjaþings
-
22. júlí 2022Hagnaður Samherja nam 17,8 milljörðum
-
15. júlí 2022„Guð minn góður, af hverju hefði ég átt að fá greiddar mútur?“