Dýrustu minkapelsar sögunnar

4. nóvember í fyrra tilkynnti forsætisráðherra Danmerkur að allur danski minkastofninn skyldi sleginn af. Hræ tæplega 17 milljóna dýra voru urðuð í miklum flýti, í stað þess að brenna þau. Nú er verið að grafa hræin upp, og brenna, með ærnum tilkostnaði.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Auglýsing

Í júní í fyrra greindist kórónavírus á minkabúi á Norður-Jótlandi. Minkar eru sérlega viðkvæmir fyrir alls kyns vírusum og því var talið fullvíst að vírusinn bærist yfir á önnur bú. Öllum dýrum á áðurnefndu búi var lógað en smitið barst út.  1. nóvember tilkynnti Mette Frederiksen forsætisráðherra á fréttamannafundi að allur stofninn, á öllum dönskum minkabúum, 15 – 17 milljónir, skyldu slegnir af. Þetta voru stórtíðindi. Í Danmörku voru rúmlega eitt þúsund minkabú, langstærstur hluti þeirra á Norður- og Vestur- Jótlandi.

Rekstur minkabús er ekki mannfrekur, um þrjú þúsund manns unnu á þessum rúmlega þúsund búum og annar eins fjöldi hafði atvinnu af störfum sem tengjast minkaeldinu með einum eða öðrum hætti. Um þriðjungur allra seldra minkaskinna í heiminum kom um árabil frá Danmörku, þau höfðu á sér gæðastimpil. Fyrir örfáum árum voru minkabúin mun fleiri en breyttur tíðarandi hefur valdið samdrætti í þessari búgrein. Árið 2019 höfðu útflutningstekjur Dana af seldum minkaskinnum minnkað um 60% frá árinu 2013. 

Á áðurnefndum fréttamannafundi sagði Mette Frederiksen að engan tíma mætti missa, aflífun minkastofnsins þyldi enga bið. Daginn eftir, 5. Nóvember, hélt forsætisráðherrann annan fréttamannafund. Þar var tilkynnt að Norður- Jótlandi yrði „skellt í lás“ eins og ráðherrann komst að orði. Ferðir frá og til þessa landshluta yrðu bannaðar, skólum, öðrum en yngstu deildum, lokað. Matsölustaðir, kaffihús, íþróttahús og bókasöfn. Öllu skellt í lás.

Engin lagaheimild og ráðherra látinn fjúka

Skipun, eins og sú að lóga öllum minkastofni landsins, þarf að styðjast við lög. Slík lög voru ekki til staðar, en voru hinsvegar sett eftirá í miklum flýti. Mogens Jensen matvæla- og landbúnaðarráðherra neyddist til að segja af sér, fjölmiðlar sögðu til að bjarga Mette Frederiksen. Hún hefði hent honum fyrir strætisvagninn (kastet ham under bussen). Síðar sagði Nick Hækkerup dómsmálaráðherra að orð forsætisráðherra um að aflífa minkastofninn hefðu verið tilmæli en ekki tilskipun. Stjórnmálaskýrendur gáfu lítið fyrir þetta og sögðu það yfirklór. 

Urða eða brenna?

Það gekk hratt og vel fyrir sig að lóga minkunum, sem reyndust samtals vera rúmlega 15 milljónir talsins. Á fréttamannafundi forsætisráðherrans 5. Nóvember 2020 var spurt hvað yrði gert við hræ minkanna. Því var svarað til að komið hefði í ljós að brennslustöðvar gætu einungis tekið við litlum hluta hræjanna og ákveðið hefði verið að urða hræin á tveimur stöðum á Jótlandi. Grafnir voru skurðir sem hræjunum var sturtað í og síðan mokað kalki yfir og jarðvegi þar ofan á. Ef allt hefði verið með felldu hefðu minkarnir hvílt þarna undir grænni torfu um ókomin ár. En sú varð ekki raunin. Eftir örfáa daga kom í ljós að jarðvegurinn sem mokað hafði verið yfir hræin var tekinn að lyftast. Ástæðan var gasmyndun í hræjunum, skurðirnir að líkindum of grunnir og jarðvegslagið ofan á of þunnt.

Auglýsing
Ekki bætti úr skák að annar urðunarstaðurinn var nálægt litlu vatni, Boutrup Sø, vinsælu útivistarsvæði. Samkvæmt fyrirmælum máttu „minkagrafirnar“ ekki vera nær vatninu en 300 metra en þeim fyrirmælum var ekki fylgt. Þar sem urðunarsvæðið var næst vatninu var fjarlægðin aðeins 200 metrar. Varað var við mengunarhættu frá hræjunum. Nú er komið í ljós að sá ótti var ekki ástæðulaus, og það gildir líka um hinn urðunarstaðinn á Jótlandi. 

Ákvarðanir teknar í skyndi

Minkamálið hefur margoft komið til kasta þingsins enda að mörgu að hyggja. Í einu vetfangi var fótunum kippt undan heilli atvinnugrein. Ákvörðunina um að binda enda á minkaeldi í landinu, hvernig ætti að bæta bændum tjónið, hvernig ætti að reikna út þær bætur og fleira og fleira. Allt þetta og margt fleira þurftu þingmenn að fjalla um og og ákveða.

Fáir efuðust um að ákvörðun um aflífun, að minnsta kosti hluta minkastofnsins, þurfti að ganga hratt fyrir sig, en aðrir töldu að kannski hefði ekki verið nauðsynlegt að fella allan stofninn í landinu. Ríkisstjórnin vildi ekki bíða, taldi áhættuna of mikla.

Umhverfisstofnunin dró rangar ályktanir

Eins og nefnt var hér að framan kom fram á fréttamannafundi 5. nóvember að sorpbrennslurnar í landinu gætu ekki tekið við öllum minkahræjunum. Það hefði verið kannað og þess vegna væri urðun eina leiðin.     

Minkamálið er mikið hneykslismál í Danmörku.

Forsvarsmenn margra sorpbrennslustöðva undrast þessar yfirlýsingar. Kannast einfaldlega ekki við að haft hafi verið samband við þá til að spyrjast fyrir. Þeir eru jafnframt ósáttir við að Rasmus Prehn matvælaráðherra (tók við af Mogens Jensen) hafi margoft sagt að sorpbrennslurnar hefðu ekki getað brennt minkahræin. Og þannig reynt að varpa ábyrgðinni á því að hræin voru urðuð á sorpbrennsluna. 

Mikkel Brandrup framkvæmdastjóri Samtaka sorpbrennslufyrirtækja sagðist í viðtali við Danska sjónvarpið, DR, skilja að ákvarðanir um hvað gera skyldi hefðu verið teknar í flýti og nú væri komið í ljós að mistök hefðu verið gerð. Það væri hinsvegar ekki sæmandi ráðherra að varpa sökinni á sorpbrennslurnar. 

Fréttamenn Danska sjónvarpsins komust yfir minnisblað sem Umhverfisstofnunin sendi ráðherranum varðandi hugsanlega brennslu minkahræjanna. Þar stendur skýrum stöfum að mat Umhverfisstofnunar, um að sorpbrennslurnar gætu ekki ráðið við að brenna hræin, væri byggt á svari frá einni sorpbrennslu.

Reikningur upp á milljarða

Þessa dagana er verið að grafa upp öll minkahræin sem urðuð voru í fyrrahaust. „Urðunarævintýrið“ eins og danskur þingmaður komst að orði kostar ærið fé. Samtals nemur kostnaðurinn jafnvirði 5.5 milljarða íslenskra króna. Inni í þeirri tölu er urðunin, uppgröfturinn og hreinsun jarðvegs umhverfis urðunarstaðinn. Sérfræðingar sem Danska sjónvarpið ræddi við telja að kostnaðurinn við hreinsunina geti orðið mun meiri en gert er ráð fyrir í kostnaðaráætlun stjórnvalda. 

Tvær rannsóknir

Nú fara fram, á vegum danska þingsins, tvær lögfræðilegar rannsóknir (advokatundersøgelser) vegna minkamálsins Önnur þeirra lýtur að ákvörðuninni um urðunina en hin að þætti lögreglunnar. Sú rannsókn beinist að því hver fyrirskipaði lögreglunni að hringja í bændur og fyrirskipa að minkunum skyldi lógað. Dómsmálaráðherrann, sem er sá eini sem getur sagt lögreglunni fyrir verkum, kannski fyrir utan forsætisráðherrann, sagðist ekki hafa gefið lögreglunni slík fyrirmæli. Ekki liggur fyrir hvenær þessum tveimur rannsóknum lýkur. 

Enginn veit heildarkostnaðinn

Enn er margt óljóst um endanlegan kostnað þess að fella allan danska minkastofninn. Hvernig á að meta húsakost og tekjutap þeirra bænda sem skyndilega misstu lífsviðurværið? Þetta og margt fleira er  óuppgert og því ljóst að danskir þingmenn hafa ekki sagt skilið við minkamálið. Mette Frederiksen forsætisráðherra sagði í viðtali að heildarupphæð bóta myndi nema milljörðum. Nokkrir þingmenn hafa nefnt 20 milljarða (400 milljarða íslenska) aðrir hærri tölur. Hver sem niðurstaðan verður er ljóst að um háar fjárhæðir er að ræða. „Dýrustu minkapelsar í sögunni“ sagði einn sérfræðingur í viðtali.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar